Ekki er allt sem sýnist Með þessari sögu vil ég bara óska ykkur gleðilegra jóla!
Og já, þessi saga er tileinkuð einum sérstökum hugara: yrsag ;)

Ekki er allt sem sýnist
Sólin skein inn um bílgluggann þar sem tvær litlar stelpur sátu í hinu besta sumarskapi.
,,Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?” ,,Æi, ég nenni ekki í þennan leik, komdu frekar í Nærbuxurnar hans afa.” ,,Ókei!”
Tara Ösp og Hafdís voru 7 ára frænkur og voru núna á leiðinni til Hafnar í Hornafirði þar sem að foreldrar þeirra höfðu leigt sumarbústað í viku. Mamma Hafdísar og pabbi Töru voru systkini en þau áttu líka eina systur, en hún var svolítið frábrugðin hinum tveimur. Hún hét Jósefína og hún var einnig með í för ásamt ömmu stelpnanna, Kristínu. Jósefína var 27 ára, átti hvorki mann né börn og var nýkomin heim frá Rúmeníu þar sem að hún hafði búið í næstum því fimm ár. Hún var fyndin, frumleg og með alveg svakalega flottan fatasmekk sem gerði hana svo sérstaka. Núna akkúrat var hún í rósóttu pilsi með pallíettum, voðalega skrautlegt og gulri skyrtu með risastórri, appelsínugulri sól framan á. Þetta fannst þeim Töru og Hafdísi sniðugt, enda var Jósefína, eða Jósa, uppáhalds frænka þeirra.
,,Hvað ætlarðu að gefa Jósu í jólagjöf?” ,,Nærbuxurnar hans afa.” Svo sprungu þær úr hlátri og Jósa líka. Þessi leikur gekk semsagt út á það að önnur átti að spyrja hina spurningar en hún mátti bara svara með því að segja nærbuxurnar hans afa og ekki hlæja sem var náttúrulega erfiðast.
Þau stoppuðu núna á Hvolsvelli, pissustopp, en auðvitað endaði það með því að allir fengu pylsu og kók. En þessir allir voru Tara og litla systir hennar, Rakel og pabbi hennar og mamma, sem var einmitt ófrísk af þriðja barninu. Pabbi Hafdísar var ekki með, en mamma hennar og litli bróðir, Villi, komu með og svo líka amma Stína og Jósa.
Þegar búið var að renna niður pylsunum og kókinu og kaupa bland í poka var haldið áfram. Planið var að gista á Kirkjubæjarklaustri í nótt, en halda svo áfram daginn eftir.
Þegar komið var á Kirkjubæjarklaustur fundu þau lítið og sætt sveitahótel, komu sér þar fyrir og borðuðu kvöldmat. Eftir allt stússið ákváðu Tara og Hafdís að fara og skoða sig aðeins um.
Fyrir ofan hótelið var lítið fjall og ákváðu stelpurnar að kanna það, það var nú heldur ekkert skemmtilegt að gera á hótelinu. Jósa notaði hótelsímann til að tala við vinina í Rúmeníu og ekki nenntu stelpurnar að hlusta á rúmensku, þó svo að það væri svolítið fyndið tungumál.
Þegar þær voru búnar að labba í smástund eftir göngustígnum heyrðu þær þennan líka svakalega hávaða sem hljómaði eins og rifrildi. Þær komu nær og sáu þá strák og stelpu, svona um tvítugt, allt í einu lamdi strákurinn stelpuna svo ótrúlega fast að hún hneig niður. En svo sá hann Töru og Hafdísi og hljóp að þeim. Þá urðu þær svo hræddar að þær hlupu í burtu og alveg niður að hótelinu. Það tók þær nokkra stund að átta sig á því hvað þær höfðu séð. Af hverju lamdi hann hana. Hafði hún gert eitthvað? Þær töluðu um þetta nokkra stund en voru svo hissa og hræddar um að strákurinn myndi koma aftur þannig að þær drifu sig inn þar sem að mömmur þeirra og amma sátu. Nú voru þær reknar í rúmið, en þeim gekk ekki auðveldlega að sofna. En á endanum ákváðu þær að hætta að hugsa um þetta og fara bara að sofa og þær sofnuðu við Jósu og rúmenskuna.
Næsti dagur varð sólríkari enn sá fyrri og stelpurnar hoppuðu beint í stuttbuxur eftir morgunmatinn. Svo var bara pakkað niður og keyrt af stað til Hafnar, sumarbústaðurinn var reyndar aðeins fyrir utan Höfn. Ferðin gekk bara vel, reyndar hoppaði ein kind fyrir bílinn, en amma er svo góður ökumaður að það fór allt vel.
Um kaffileitið var öll hersingin komin í bústaðinn og þá tók við að koma sér vel fyrir, enda yrði þetta heimilið þeirra næstu vikuna.
Sólin skein og það var yfir 20 stiga hiti og þannig hljómaði spáin næstu vikuna þannig að það leist öllum voðalega vel á þetta.
Stelpurnar gerðu voða lítið þennan dag, skoðuðu sig um og svona.
Þetta var frekar stór bústaður, á tveimur hæðum og með palli. Nóg af svefnherbergjum. Eitt klósett, eldhús, búr, ein stofa og svo lítill sjónvarpskrókur með pínulitlu eldgömlu sjónvarpi sem var nú voðalega lítið notað, enda gott veður. Amma saknaði reyndar danska sjónvarpsins, enda gerði hún mest af því að horfa á dönsku stöðina heima hjá sér, þar sem að hún var nýhætt að vinna. En það var semsagt ekkert danskt sjónvarpsgláp fyrir gömlu konuna þessa vikuna.
Umhverfið í kringum bústaðinn var aðallega tré og runnar og villt blóm, voðalega sveitalegt, en fyrir neðan bílastæðið var einskonar leðjupollur og þar sem að það var svo heitt í veðri fannst krökkunum gaman að bursla með tærnar ofaní pollinn og þarna voru Villi og Rakel nánast það sem eftir var ferðarinnar.
Dagurinn leið hratt og fyrr en varir var komið kvöld. Stelpurnar skemmtu sér með því að spila á venjuleg spil með Jósu. Jósa kenndi þeim spil eins og Rússa, en þar sem Jósa þurfti alltaf að vera aðeins öðruvísi en allir aðrir þá var hún búin að breyta spilinu, það hét eiginlega ekki Rússi lengur, heldur Rúmeni. Jósa alltaf jafn sniðug. Stelpurnar spiluðu “Rúmena” fram á kvöld en þegar þær fengu leið á honum fór Jósa að prjóna en Tara og Hafdís ákváðu að reyna að semja spil sjálfar. En þar sem að þær voru nú bara sjö ára kunnu þær nú ekki það mikið af spilum. En fyrst að Jósa breytti bara einhverju spili gátu þær alveg eins gert það líka.
,,Sko, við breytum bara Ólsen-Ólsen einhvernveginn,” sagði Tara.
,,Já, og ég veit hvernig,” sagði Hafdís og hún hélt áfram: ,,Við höfum það bara þannig að þetta verður alveg eins og venjulegur Ólsen-Ólsen en kóngafólkið breytir líka.”
Þetta fannst stelpunum alveg hreint frábær hugmynd, svo var þetta líka skemmtilegra en venjulegur Ólsen-Ólsen af því að núna gat maður eiginlega breytt hvenær sem var. Þessar sjö ára stelpur skemmtu sér mjög vel þetta kvöld við það að spila Hjarta, spaða, tígul, lauf, sem var nýja nafnið á nýja spilinu þeirra.
Já, þeim fannst svo sannarlega gaman í sveitinni og voru þær alveg hættar að hugsa um strákinn sem sló stelpuna á Kirkjubæjarklaustri.
En svo rann upp nýr dagur, jafn sólríkur og hinir tveir. Það stóð til að fara að skoða umhverfi sveitarinnar þennan dag. Fyrst var ekið aðeins á Höfn þar sem að þurfti að kaupa uppþvottalög og fleira hreinsunardót. Komið var við í kaupfélaginu þar sem var aðeins verslað og þar sá Jósa þennan líka æðislega sundbol. Hann var bleikur og grænn með fjórum stórum gulum og bláum blómum. Jósa kolféll alltaf fyrir öllu sem var með blómum á og nú var engin undantekning. Ömmu Stínu fannst þetta nú vera einum of flippað, eins og hún orðaði það, en Jósa hlustaði ekkert á það frekar en fyrri daginn. Þau keyrðu nú um í leit að stað til að borða nesti á og njóta góða veðursins. Eftir um klukkutíma keyrslu fundu þau stað við lítið vatn. Þarna gátu krakkarnir vaðið en Rakel og Villi vildu frekar hafa þetta sem leðjupoll en vatnið varð að duga í bili. Tara og Hafdís óðu næstum því upp fyrir haus, þrátt fyrir kuldann í vatninu, en þá urðu mömmur þeirra áhyggjufullar eins og gengur og gerist, þannig að þær drifu sig til baka. Þá fór Jósa að kanna hve djúpt vatnið væri.
,,Af hverju ertu að gera þetta?” spurði Hafdís.
,,Ég er í að spá í að prófa nýja sundbolinn minn,” svaraði Jósa.
En eins og komið hefur fram var Jósa ekki eins og fólk er flest.
Við hliðina á vatninu var smá hlíð og þar var hægt að stökkva ofan í vatnið, þetta var frekar hátt. Og auðvitað notaði Jósa þá leið en ekki þessa venjulegu, að fara einfaldlega ofan í vatnið. Og svo stökk hún, og gusan sem kom, stelpurnar hlógu og hlógu og afgangurinn af fólkinu líka.
En hvað var þetta? Í miðju hláturskastinu sá Tara eitthvað sem vakti athygli hennar og hún pikkaði í Hafdísi.
,,Sérðu!” hvíslaði Tara.
,,Hvað?” hvíslaði Hafdís á móti.
,,Er þetta ekki st-strákurinn sem við sáum á Kirkju-kju…” Hún náði ekki að klára, Hafdís leit í kringum sig og sá það sama. Jú, þarna stóð hann. Í hlíðinni, rétt fyrir ofan þar sem Jósa stökk.
,,Er ekki allt í lagi stelpur mínar?” þetta var mamma Töru.
,,Ha, jú, jú,” svöruðu þær.
,,Nú, þið urðuð svo alvarlegar allt í einu,” sagði mamma Töru.
Stelpurnar löbbuðu núna aðeins í burtu frá hinum og töluðu saman.
Hvað áttu þær að gera? Áttu þær að segja frá þessu? Það leit út eins og strákurinn væri að horfa illilega á þær. Ég meina, auðvitað urðu þær hræddar, enda voru þær bara sjö ára. Og hvað í ósköpunum var hann að gera þarna, ætli hann hafi elt stelpurnar alveg frá Kirkjubæjarklaustri út af því að þær sáu hann slá stelpuna, og hvar var hún núna? Þær veltu þessu endalaust fyrir sér. Svo kom Jósa til þeirra, rennandi blaut og ísköld, en með sólskinsbros eins og lítill krakki. ,,Ah, þetta var ansi hressandi,” sagði hún og hélt svo áfram: ,,Stelpur, ég var að spá í að taka ykkur með mér í smá idíánaferð á morgun, eruði til?
Indíánaferð? Stelpurnar litu hvor á aðra, hvað var nú það?
,,Sko, við tökum bara með okkur nesti og förum í smá lautartúr og gerum eitthvað skemmtilegt saman, förum í indíánaleiki og svona,” sagði Jósa og blikkaði þær. Stelpurnar voru til í það.
Á leiðinni heim ákváðu stelpurnar að segja Jósu frá þessu öllu saman á morgun í þessari insdíánaferð. Það sem henni Jósu gat dottið í hug.
Það sem eftir var dagsins voru stelpurnar eitthvað annars huga. Þær voru ennþá hræddar um að strákurinn myndi koma og taka þær eða eitthvað í þá áttina ef þær myndu fara út úr bústaðnum. Um kvöldið sat Jósa önnumkafin við að skipuleggja indíánaleiki, amma Stína, mömmurnar og pabbi Töru sátu og töluðu um eitthvað sem stelpunum fannst ekkert áhugavert og Rakel og Villi voru bara að bursla í drullupollinum eins og venjulega. Þær spiluðu aðeins Rúmena og Hjarta, spaða, tígul, lauf en fóru svo bara fljótlega að sofa.
Morguninn eftir vöknuðu stelpurnar eiginlega hlæjandi við svakaleg indíánahróp. Hver önnur gat þetta verið en Jósa. ,,Jæja indíánastelpur, á fætur, við verðum að fara að leggja af stað.” Stelpurnar hlógu ennþá meira. Þær borðuðu morgunmat og fóru svo af stað. Jósa var búin að skemmta sér við að skipuleggja þennan indíánaleik og hún var meira segja búin að gefa stelpunum indíánanöfn. Hafdís hét Litla-fjöður, vegna þess að hún var minnst af þeim þremur og létt eins og fjöður og Tara fékk nafnið Rjúkandi-fjöður, vegna þess að þegar hún varð reið sagði Jósa alltaf við hana að hún yrði alveg rjúkandi. Sjálf nefndi Jósa sig
Stóru-snót, engin sérstök ástæða, fannst það bara sniðugt.
Hin heilaga þrenning hélt nú af stað með indíánafjaðrir og allt tilheyrandi. Spurning hvort að stelpunum var farið að finnast þetta einum of flippað, orð sem að þær höfðu lært af ömmu.
Þegar þær höfðu gengið og fíflast í smástund stoppuðu þær og settust niður og borðuðu. Hafdís og Tara litu á hvor aðra, ætli þetta væri ekki besti tíminn til að segja henni.
,,Jósa,” sagði Hafdís. Jósa horfði á hana og beið eftir meiru.
,,Sko,” tók Tara við. ,,Við hérna sáum sko eitt á Kirkjubæjarklaustri, það var einn strákur sem að lamdi eina stelpu og svo sá hann okkur og þá urðum við hræddar og hlupum niður fjallið en svo sáum við hann aftur í gær þegar þú stökst út í vatnið og þá urðum við aftur hræddar af því að við héldum að hann myndi meiða okkur.” Hún bunaði þessu svo hratt út úr sér að Jósa náði varla helmingnum, enda var Töru mikið niðri fyrir. En þær útskýrðu þetta aðeins betur fyrir henni og Jósa fattaði nú hvað þær meintu. ,,Hvað eigum við að gera Jósa?” sögðu þær.
,,Ég veit það eiginlega ekki,” svaraði Jósa. En hún hugsaði það að þetta hlyti allt að vera einhver misskilningur. Það gat ekki verið að þessi strákur væri að elta stelpurnar bara útaf því að hann lamdi eitt stelpugrey. En hún ákvað að segja ekki neitt við stelpurnar.
Þær héldu nú áfram indíánaferðinni og fóru nú í indíánaleikina sem Jósa var búin að búa til og skemmtu stelpurnar sér allar konunglega og gleymdu enn einu sinni öllu ruglinu með þennan strák.
Eftir nokkra klukkutíma ákváðu þær að fara að koma sér aftur í bústaðinn.
Á meðan þær löbbuðu heim töluðu þær mikið saman og Jósa sagði þeim endalausar rúmenskar sögur af skrítna fólkinu sem bjó þar.
,,Jósa, hvenær komum við heim?” spurði Hafdís, sem var orðin svolítið þreytt, enda voru þær búnar að labba núna í næstum klukkutíma.
,,Eftir smástund held ég,” svaraði hún. En viti menn, stelpurnar voru villtar. Þær höfðu núna gengið einhverja krókaleið í hringi í næstum klukkutíma. Stelpurnar urðu pínu hræddar.
Jósa reyndi að hringja í mömmur stelpnanna en það var ekkert samband.
En svo sáu þær það sem þær vonuðust alls ekki til að sjá. Strákurinn birtist aftur. Allt í einu kom hann bara gangandi, eins og upp úr engu og Hafdís og Tara urðu skíthræddar.
,,Halló,” sagði hann.
,,Já, hvað vilt þú?” sagði Jósa, rosalega fullorðinslega.
,,Ég hélt að þið væruð kannski villtar, ég er búin að vera fylgjast með ykkur og…” Hann kláraði ekki.
,,Fylgjast með okkur, hvað meinarðu?!” Jósa varð frekar reið.
,,Nei, nei, alls ekki misskilja mig,” sagði strákurinn og varð allt í einu svo góður eitthvað og saklaus.
Svo útskýrði hann. Þetta hafði allt saman verið einhvern vegin þannig að hann hafði séð stelpurnar á Kirkjubæjarklaustri og hafði þá “panikkað” þegar þær sáu það sem hann gerði. Hann sagði að þetta hefði bara verið allt einn stór misskilningur í sambandi við stelpuna og hann hefði misst sig alltof mikið. Ætlaði alls ekki að lemja hana svona fast. Var samt spurning hvort að þær trúðu honum. En svo kom það sem að kom þeim mest á óvart. ,,Ég ákvað svo að ég að elta ykkur til að leiðrétta þennan hræðilega misskilning því að ég vildi alls ekki að þið hélduð að ég væri þannig strákur, en svo sá ég þig hérna…” Hann horfði á Jósu en roðnaði niður í tær. ,,Svo þegar ég sá þig þegar þú hoppaðir ofan í vatnið þá bara varð ég svo hrifinn af þér.”
Tara og Hafdís horfðu hver á aðra. Bíddu, bíddu. Var þessi strákur skotinn í Jósu frænku? Þær tístu innra með sér, en það komst einhvernveginn út og fyrr en varði lágu þær á grasinu í hláturskasti.
Strákurinn, sem hét víst Viggi, varð ekkert smá skömmustulegur en Jósu fannst það krúttlegt við hann. Og viti menn, þau voru svolítið lík þegar þau kynntust betur, Viggi og Jósa.
*
Tara og Hafdís sátu í sófanum heima hjá Jósu og Vigga. Það var Þorláksmessa í dag og stelpurnar voru að hjálpa þeim að skreyta jólatréð.
Það var orðið mjög jólalegt í litlu íbúðinni þeirra sem þau voru nýbúin að kaupa. Hún var á Hverfisgötunni og stelpurnar voru orðnar mjög duglegar að heimsækja þau. Þau voru einmitt að rifja upp þegar Jósa og Viggi hittust fyrst og hvað stelpurnar voru hræddar við hann þegar mamma Töru hringdi og sagði stelpunum að fara að drífa sig heim. Þetta hafði verið skemmtilegt kvöld hjá þeim og ekki yrði það verra á morgun. Þegar Tara sofnaði um kvöldið dreymdi hana um síðasta sumar, hvað frábær þessi bústaðaferð var, Jósa var búin að eignast kærasta og Tara og Hafdís vissu eitt sem að Jósa vissi ekki. Viggi ætlaði að biðja hennar á morgun, aðfangadag.