Andrés vaknar á yndislega fögrum vetrarmorgni. Fyrir utan snjóar en þó er enginn vindur, þung og fögur snjókornin falla hægt niður, litandi umhverfið í glæsilegum hvítum lit. Börn í skærrauðum göllum hoppa úti, hlátrasköll í slómósjon.

Andrés vaknar á yndislega fögrum vetrarmorgni á yndislega fagran hátt. Hann er útsofinn, og sefur ekki yfir sig heldur vaknar á mínútunni, hress og reiðubúinn fyrir þennan yndislega dag. Ekkert píp í vekjaraklukku, enginn að hrista þig, engin pirrandi sól í augun.

Andrés gengur útað glugganum og einmitt á þeirri stundu sem hann lítur út brýst sólskinið í gegnum snjófallið, sem gaf öllu umhverfinu næstum guðlegan blæ.

Á þeirri stundu kviknar á útvarpsvekjaranum. “…í tilefni jólanna…” Last Christmas spilast.

Lagið ómandi leggur Andrés leið sína á klósettið, burstandi tennurnar og lítandi á jólaklippinguna með aðdáun.

Nú gengur Andrés útúr húsi sínu, sjáandi aðeins hamingju, ljós og dýrð, fegurð hvert sem hann lítur. Engir bílar hreyfast, fólk gengur um eða matreiðir, ilmurinn laumast að vitjum fólks, æsandi matarlystina fyrir það sem er að koma.

Að heimili mömmu komið, hún tekur á móti, Andrés er einmitt á réttum tíma til að hjálpa við matargerðina.

Fjölskyldan kemur öll, brosandi andlit í hverju horni, reyklaust, fagurt og glatt. Andrúmsloftið byggist uppað hinum frábæra mat, ræður eru haldnar, tilfinningaþrungnar, grauturinn kemur fram, mandlan er hans.

Gjafir opnaðar, allur óskalistinn kominn. Andrés brosir sællega, opnar kókflöskuna, hefur hana á loft, tekur tappann úr með hinu fullkomna goshljóði, kókið er ískalt. Hann drekkur með viðkomandi glúgg-glúgg hljóði. Fjölskyldan starir á með aðdáun.

CHRISTMAS (registered trademark) is owned by THE COCA-COLA COMPANY


Andrés vaknar við hryllilega pirrandi hljóð frá útvarpsvekjaranum. Hann er illa sofinn, úfinn, órakaður og hryllilega pirraður. Hann lemur höndinni niður á vekjarann til að þagga niður í honum.

Hann rís hægt upp og lítur út á grámyglulegan himininn. Eldrauð jól blasa við úti. Göturnar eru mannlausar.

Andrés gengur að speglinum og lítur í hann. Eitthvað hárugt, pirrað og illgjarnt starir á móti.

Undir venjulegum kringumstæðum mundi maður hlaupa undan slíku. En Andrés starir á móti. Hann byrjar að hlæja. Og viti menn, ófreskjan hlær með.

Það er víst innri fegurð sem skiptir máli, hugsar Andrés.

Útvarpsvekjarinn fer í gang.
“So this is Christmas…”
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane