Þrepin voru aðeins þrjú þótt að kjallarinn væri talsvert niðurgrafinn. Ég hafði lengið reynt að komast inn í húsið án árangurs. Bakdyrnar sneru út í eldgamlan og lokaðan garð sem var girtur mannhæðarháum múrvegg á þrjá kanta, en skorðaður af enn eldri bárujárnskúr sem tilheyrði lóðinni við hliðin á. Svo undarlega vildi til að eina leiðin í garðinn, og þar með í kjallaraíbúðina, lá í gegnum þennan tóma skúr og tók það mig töluvert langan tíma að átta mig á því.
Það var grenjandi rigning úti og ég heyrði vindinn öskra fyrir ofan mig þótt að það væri skjól á milli hárra veggjanna.. Af hverju svaraði engin?
Ég hafði prufað að banka aftur en engin svaraði. Þrátt fyrir að kunna ekki við það þá kraup ég í rennvota moldina og gluggaði í gegnum agnarsmáa rúðu sem vísaði inn í forstofuna. Íbúðin virtist mannlaus.
Hvar er sonur minn? Ég fann að húsið var ólæst þegar ég tók um hurðarhúninn. Varlega opnaði ég dyrnar rólega en þá virtist sem að einhverskonar gegnumtrekkur gripi vindstreng úr háloftunum, rifi hurðina úr höndum mér og skellti henni upp á gátt svo small í. Ég verð að viðurkenna að mér brá ansi mikið og ætlað varla að þora að fara lengra inn í skuggsælann ganginn.
Ég hafði aldrei komið þangað áður en ég vissi þrátt fyrir það um leið að þetta væri staðurinn, þangað væri sonur minn nýfluttur, það fór ekkert á milli mála. Ég sá ekki handa minna skil þarna í ganginum og mér virtist það lífsómögulegt að finna þennan bölvaða takka til þess að skrúfa upp einhverri týru þrátt fyrir að pata í allar áttir. Eitt var þó dagsljóst, íbúðin var galtóm, ekki nokkur lifandi né dauð sála væri þarna inni, ég fyndi það á mér þrátt fyrir allt myrkrið.
Loks náði ég að rata inn í einhvern sal, eldhúsið ábyggilega, og fann mér til léttis strax ljósrofa við hliðin á dyrunum, ég var farin að halda að þessi blessaða íbúð væri án rafmagns. Svo ég kveiki. Og mér svelgist á loftinu sem ég var að anda að mér.

Aragrúi, ábyggilega tugir, af litlum gulum köllum iðuðu um herbergið. Hver um sig svona einn meter á hæð, mjóslegnir, gulklæddir, með gult litarraft, dökkgult hár og greindarlegan svip, hver öðrum líkari, æddu þeir eftir einhverskonar skipulagi um íbúðina innandi einhvern starfan af hendi utan míns skilnings.
Ég ákvað að snúa heim.


Rigningunni hafði slotað þótt að hann væri enn þungbúinn þegar ég kom heim á Suðurgötuna. Þegar ég keyrði upp langa, hellulagða innkeyrslu sé ég mér til undrunar að það er ljós á miðhæðinni og í stigaganginum. Ég hefði geta svo svarið að Jóhanna væri farin að sofa áður en ég fór í heimsóknina. Ég fer mér því varlega þegar ég geng upp utanáliggjandi tröppurnar upp að fyrstu hæð.
Þetta hús var augljóslega of stórt bara fyrir okkur tvö. Þarna í miðri nóttinni var það svo einmannalegt að það virtist næstum fjandsamlegt. Faðir minn hafði byggt það á sjötta áratugnum, tveimur árum áður en ég fæddist, af miklum efnum miðað við árferðið í þá daga, og af mikilli forsjá því yngri systkinin mín áttu eftir að verða sjö. Nú vorum við bara þrjú eftir, og ég og Jóhanna voru þau einu sem höfðu eignast börn.
Og þegar þau voru líka farin þá var allt í kringum þetta hús skyndilega orðið fjarstæðukennt og leiðinlegt. Það var jafnvel enn fáranlegra í ljósi þess að lóðin í kringum það var ógnarstór, alsett háum trjám svo maður varð að píra augun og rína ef að maður vildi geta séð í nágrannana. Tilhugsunin um einagrunina gaf manni gæsahúð. En það er margt auðveldara en að yfirgefa staðin þar sem maður hefur átt heima allt sitt líf.
Ég andvarpaði og sný lyklininum og geng inn í agnarsmátt andyrið. Ljósin eru kveikt. Útundan mér verð ég var við að það stendur einhver í stiganum og mér bregður kalt vatna á milli skinns og hörunds. Svellkaldur og án þess að láta nokkurn bilbug á mér finna sneri ég mér rólega við og leit boðflennuna augum.
‘Tómas,’ stundi ég, ‘Hvað ert þú að gera hér?’
‘Henni líkaði ekki við nýja herbergið mitt’ sagði Tómas einfaldlega.
Í miðjum stiganum sat Tómas og nokkrum þrepum lægra sat ansi hugguleg stelpa á milli læra hans. Hann hallaði sér upp að öxlum hennar og vafði hana höndum. Ég vissi að þetta væri stelpan, unnusta sonar míns, ég hafði reyndar aldrei séð hana fyrr en mér líkaði strax vel við hana.
‘Af hverju ekki?’ spurði ég.
‘Ég er eiginlega samála henni, það er erfitt að lifa innan um þessa gulu karla. Hún er hálf hrædd við þá. Og ég satt best að segja líka,’ sagði Tómas.
Tungutak hans var óvenjulegt, hann var ekki nema nítján ára og ég hafði aldrei heyrt hann tala svona fyrr, það var eitthvað svo ábyrgðarfullt og fullorðinslegt í rómnum.
‘Hvað voru þið að hugsa um að gera?’ spurði ég þau eftir dálitla þögn.
Tómas hló smávegins vandræðilega, ‘Við vorum að hugsa um að læðast inn í sjónvarpstofuna ykkar og hreiðra okkur þar um í nótt eftir að þið væru farin að sofa,’ sagði hann svo.
Yndisleg tilfinning flæddi um mig allan. Mér þótti svo vænt um hann. Og hana. Ég þekkti strax í henni augun.
‘Hehe, þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af því. Gjörið svo vel, hrjúfrið ykkur um í sjónvarpsstofunni ef þið viljið og verið velkominn,’ sagði ég innilega.
Stelpan leit upp á Tómas og þau brostu til hvors annars.
‘Það væri vel þegið,’ sagði Tómas og stóð upp.
Ég heyrði í þakrennunni að það var farið að rigna aftur. Tómas og kærasta hans stóðu upp og gengu niður stigan til mín, fram hjá mér og inn í sjónvarpsherbergi. Áður en að hann lokaði á eftir sér horfði hann í augun á mér og spurði: ‘ Er þetta góður draumur sem þig dreymir pabbi?’
‘Ójá, þetta er góður draumur,’ svaraði ég honum eftir andartaks umhugsun.
‘Hvernig geturðu vitað það?’ spurði hann mig.
‘Treystu mér, ég veit hvenær mig dreymir vel,’ tjáði ég honum.
‘En hvað með þessa litlu gulu kalla…’ spurði tómas og lítur niður fyrir sig.
‘Maður hræðist alltaf hið óþekkta Tómas minn,’ sagði ég honum, ‘það þarf alls ekki að vera eitthvað slæmt.’