Ég sit á kaffihúsi og horfi yfir höfnina eins og það sé í hinnsta sinn sem ég sjái fegurð hennar. Hver veit? Kannski verður þetta í síðasta skipti sem ég sé smábátana leggja í höfn með afla dagsins.
Hver veit?

Það er ekki eins og lífið hafi verið auðvelt fyrir mig. Nú myndu margir segja að það væri það ekki hjá neinum en ég spyr á móti; er það einhver afsökun fyrir því að mér megi ekki líða illa yfir lífi mínu? Já já, kannski er ég nöldrari með þröngsýnina upp fyrir haus en hvað með það? Ef einhver spyr mig hver ég sé svara ég alltaf: ,,Lítil sál í stórum heimi.“
Og þetta eru engjar ýkjur. Ég er lítil, viðkvæm sál sem þarf lítið til að hverfa inn í skel sína.

En það er ekki ástæða ákvörðunar minnar, heldur mótlætið. Ég er orðin þreytt á mótvindinum sem hefur skilið eftir sig kal í hjarta mínu. Já, það er rétt. Ég hef aldrei elskað. Margoft verið elskuð en aldrei elskað. Í sambönd hef ég farið með mönnum sem dáðu mig út af lífinu og vegna smæðar sálar minnar fylgdi ég þeim eftir í von um að ást myndi kvikna í helfrosnu hjarta mínu. Væntumþykja kom, virðing kom, umhyggja kom, en aldrei ástin. Og að lokum gafst ég upp á bíðinni og sleit sambandinu.
Er ég von manneskja? Mér finnst það ekki því ég gaf mig alla og reyndi af fremsta megni að framkalla þessa tilfinningu sem hefur verið lofsungin frá örófi alda. Já, mikilli ást hefur verið sóað á mig. En þeir geta þó huggað sig við að þekkja tilfinninguna og geta því enduvakið hana síðar.

_____________________________________________ _____________________

Það er gott að vera öðruvísi.
Sá sem sagði þetta hefur annað hvort verið að huggja sjálfan sig eða meðaljón að hughreysta þá aumu sál sem var ekki eins og meðaltalið. Og þeir sem segja að allir séu frábrugðnir hvor öðrum, þá minni ég að það er alltaf til skekkjumörk.
Ég er öðruvísi. Sjálfri finnst mér það ágætt og myndi aldrei breyta sjálfri mér fyrir aðra en mannfólkið getur víst ekki sætt sig við frábrigðileika minn. Mín eigin fjölskylda er í afneitun varðandi persónuleika minn og í barnslegri trú telur hún sjálfri sér trú um að þetta lagist með aldrinum. 25 ár eru víst ekki nógu mikil sönnun fyrir þau. Ég hálf vorkenni þeim að halda að einn daginn svifti ég af mér einhverri hulu og búmm! Ég verð óskabarn þeirra.

En þetta er ekki það sem plagar mig við frábrigðileika minn, heldur allt pískrið um mig og fordómana sem fólk hefur gagnvart minni frábrugðnu, litlu sál. Eins og rottur hímir fólkið í skúmaskotum skvaldrandi um mig og mínar gjörðir. Og aldrei fá rotturnar nóg af slúðri um mig. Augngoturnar, fölsku brosin og innihaldslausu kveðjurnar eru daglegt brauð í mínu lífi. Ég hef ofboðið mörgum með gjörðum mínum en lífið er einstefnugata og maður getur einungis haldið áfram. Og þó svo hægt væri að fara aftur í tímann þá myndi ég ekki breytam ínum gjörðum fyrir aðra. Leyfum þeim að pískra. En það þarf ekki að þýða að ég eigi einungis að sitja og láta þetta yfir mig ganga.
En öllu slæmu fylgir eitthvað verra, aðdáendur. Sauðir sem fylgja í blindni og dást af afrekum mínum. Í þeirra augum er ég gjörðir mínar en ekki ástæða þeirra og rotturnar mega þó eiga það að persónuleiki minn sem ber oft upp á góma, og stundum er hann skrautlegri og þá skemmtilegri heldur en fábrotna, frábrugðna ég.
Þótt þetta sé stór hluti af ákvörðun minni stendur þó upp úr skömm fjölskyldunnar á mér. Ekkert er erfiðara en að koma heima og finna fyrirlitninguna mæta mér eins og steinvegg. Það kvelur litlu sálina mest.
,,Að hunsa fölskylduna” sagði einn mér þegar líf mitt bar á góma. Ég hlæ ennþá af því. Sama hvað þú reynir, þú munt alltaf tilheyra fjölskyldu þinni og þótt þú reynir að telja þér trú um að þeirra álit skipti mann engu máli þá er það eingöngu blekking. Þú munt alltaf hlusta á móður þína sem ól þig upp af bestu getu og föður þinn sem reyndi að sinna þér milli yfirvinnutíma, kvöldmats, fótboltaleiks, heimsókna til vina, halda hjónabandinu í alsælu, fjölgun mannkyns og svefns. Samt í kalleika mínum mun ég ekkert sakna þeirra. Ég mun ekki sakna neins.

_____________________________________________ _____________________

,,Er þetta ekki sjálfselska í mér?“ myndi einhver spyrja. En ég svara: ,, Er það sjálfselska að sitja ekki á stoppistöðinni vitandi að síðasti vagninn er farinn?” Mín tækifæri eru uppurin og ég ætla mér ekki að eyða ævi minni í einhverri óendanlegri bið. Nei, ég hef aðra áætlun. Ég var lengi að ákveða þetta en er komin á endastöð hér. Nú skal annað taka við. Ég er ekki viss um hvernig allt verður eftir gjörð mína, en ég vona það besta.

_____________________________________________ _____________________

Rigningin streymir niður gluggann. Mér hefur alltaf þótt íslenska rigningin falleg. Letilega detta smáir dropar til jarðar, óvissir um hvort það hefði nú verið rétt ákvörðun að láta sig falla.
Já, falleg er rigningin á Íslandi.

Ég drep í sígarettunni, minni síðustu vonandi, og rölti af stað. Áfangastaður; bíllinn minn. Ef til væri umhverfismat á bíla yrði þessi strax tekinn úr umferð. En þessi elska dugar mér til að komast á áfangastað minn.
Rigningin gerir för mína enn dramatískari og mér er hálfpartinn skemmt yfir því að þetta sé eins og klippt úr lélegri bíómynd; sögusviðið, veðráttan og þankar mínir.

_____________________________________________ _____________________

,,Ertu ekki að flýja undan lífinu? Neita að takast á við vandamálin?“
Veistu, mér er alveg sama hvað fólk kallar þetta. Fyrir mér er einungis eitt orð sem lýsir þessu; endurfæðing. Og þó svo að þetta líti út eins og sjálfselska þá spyr ég: ,,má ég ekki einhvern tímann gera það sem ég vil?”

_____________________________________________ _____________________

Lokakallið.
Að hrökkva eða stökkva er ekki lengur til hjá mér, einungis stökkva en þó með skjálfandi skrefum. Enda er þetta ekki auðvelt.

Flugfreyjan brosir að mér og spyr mig hvort mig vanhagi um eitthvað. Með skjótu brosi svara ég neitandi og horfi aftur út um gluggann, á veðrið, náttúruna og fólkið.

Nú tekur annar kafli við. Þar sem lendingarstaður þessarar flugvélar er bíður mín maður. Maður sem sóar ást sinni á mig og er tilbúin að taka við lítilli sál og hugsa um og vernda. Þar mun ég geta hafið líf sem ég sjálf, ekki með neina fortíð að baki, einungis litla sálin með óvissu sem ferðafélaga.
Kannski mun hann ná að þýða hjarta mitt og kveikja í því þessa tilfinningu sem lofsungin er.
Hver veit?