Já, þú hlýtur að sjá það sjálf. Hún er fallegri en þú. Miklu fallegri en þú. Enda hefur þú nú aldrei talist nein sérstök fegurðardrottning. Hún er t.d. svo tignarleg í hreyfingum, eins og kattardýr. Það hefur þú aldrei verið, þessi litla budda sem þú ert. Svo er hún miklu hærri og glæsilegri en þú, með leggi sem ná hálfa leið til himins. Hún er sko engin stuttfætla eins og sumir sem ég gæti nefnt.
Hárið á henni, þetta kolsvarta gljáandi hár sem nær svo langt niður á bak og sveiflast til þegar hún hreyfir sig, það er nú eitthvað annað en millibrúnn lubbinn á þér sem er alltaf hálfúfinn og tætingslegur. Sérstaklega á morgnana.
Og húðin á henni er svo silkimjúk, rennislétt og fagurlega sólbrún. Hvergi appelsínuhúð að finna þar. Og hún hefur engar hrukkur í kringum augun sem hún reynir svo af fremsta megni að halda fram að séu broslínur.
Ilmurinn af henni er líka óviðjafnanlegur. Fínlegur og fágaður, sem hæfir heimskonu eins og henni. Já, hún er sko ekki eins og þú sem angar alltaf bara af ferskum sumarblómum og sól og vindi.
Hún hugsar líka svo vel um útlitið, það er varla að maður sjái hana nokkurn tímann ótilhafða. Alltaf óaðfinnanleg og gullfalleg. M.a.s. á morgnana. Þeir voru svo sannarlega ekki þinn tími dagsins. Þú varst alltaf skelfilega úfin og svefndrukkin þar til þú varst búin að fá fyrsta kaffibolla dagsins. Og lesa Moggann með kaffinu. Þá fyrst var hægt að tala við þig. Hún er hins vegar skapgóð og brosandi frá því hún opnar augun.
Og svo er hún svo góður kokkur. Og hefur gaman af eldamennskunni. Hún býður sko ekki upp á pylsur eða tilbúna rétti dag eftir dag. Nei, það er eldaður alvöru matur og ekki farið fram á neinar sérstakar þakkir fyrir. Ekki eins og í þau skipti sem þú lést þig hafa það að elda veislumat handa okkur. Þá átti maður að sýna af sér slíka auðmýkt og þakklæti að það var eins og manni hefði verið boðið í mat til kóngafólks og drottningin hefði sjálf eldað ofan í mann.
Já, hún er fallegri en þú. Og betri. Svo miklu, miklu betri en þú. Á alla hugsanlega vegu.
En einhvern veginn skiptir það ekki máli í raun og veru. Því þrátt fyrir allt sem ég segi og skrifa þá hlýtur alltaf að vera ein staðreynd sem eftir stendur, og aðeins ein: Hún er ekki þú! Og það er allt sem skiptir mig máli, allt sem ég sé. Hún er ekki þú!
Og ég segi sjálfri mér það oft á dag, oft á klukkustund, að það sé gott. Af hverju ætti ég að vilja að hún væri þú? Þú fórst, manstu? Þú braust hjarta mitt í þúsund litla mola, dreifðir þeim yfir stofugólfið og traðkaðir á þeim á leið þinni til dyranna. Og þú leist ekki einu sinni við þótt þú heyrðir mig gráta hljóðlega þar sem ég sat skilningsvana á sófanum. Svo af hverju ætti ég ekki bara að vera glöð yfir því að hún skuli ekki vera þú? Af hverju ætti ég að vilja fá þig aftur? Ég er svo miklu betur sett með henni.
Þetta segi ég sjálfri mér svo oft að það hljómar í raun stöðugt í höfðinu á mér. Og samt…samt er lítill hluti af mér sem tekur ekkert mark á mér. Lítill hluti sem grætur sig stundum í svefn á kvöldin af því að þú ert ekki hjá mér, sem finnur stundum svo sárt fyrir því að þú ert ekki hérna að hann langar til að æpa sársauka sinn út yfir heiminn allan, æpa og veina þar til allir vita hvað þú gerðir mér.
Og þegar ég ligg við hlið hennar á þannig nóttum þá bít ég svo fast á jaxlinn að blæðir undan, því hún má aldrei vita hvað ég sakna þín. Hún gæti aldrei skilið það og hún myndi fara frá mér. Skiljanlega. En ég get ekki misst hana líka, get ekki verið ein. Ekki núna. Ekki meðan hugsunin um þig í faðmi mannsins þíns sker mig svona að innan. Ekki meðan ég reyni að sætta mig við að fyrir þér var ég bara lítið ævintýri, tímabundin geðveiki. Og að þú fórst til hans aftur og baðst hann fyrirgefningar, baðst hann að fyrirgefa þér fyrir að hafa hlaupist frá honum og verið í örskamma yndisstund ljóðið í lífi mínu, glóðin í hjarta mér.
Nei, ég get ekki verið ein núna. Ekki meðan ég endurreisi heiminn minn, gráan og kaldan án þín.