Ég horfði til framtíðarinnar, ég sá myrkur.
Líf mitt er… líf mitt var háð sólarhring hugans. Það var myrkur og það var dagur, stundum var dagurinn langur, stundum var nóttin löng.
Sumar og vetur var einnig hluti af huga mínum, og héldust árstíðirnar í hendur með tímabilunum. Sumar og dagur, nótt og vetur.
Svo kom að því. Ég stóð og starði daufur niður í djúpann pytt algleymis, og niður kinnar mínar hrundu tár lífs míns, tár lífsins sem ég gat ekki skilið, sem hafði verið mér andhverft allt frá þeim degi er ég fæddist.
Ég tók eitt skref fram á við.
Myrkrið gleypti mig er ég féll niður, ljósið hvarf endanlega.
Eftir langt fall skall ég í kalda, harða, jörðina, sjálfsímynd mín var brotin, hugur minn farinn og guðirnir sem sátu efsti á Olympus, hlógu að hrakförum mínum.
Ég grét ekki, ég hafði ekki fleiri tár til að gráta.
Dagar liðu.
Dagar liðu hjá eins og draugar.
Vitund mín kom í heimsókn, en flúði jafnharðan.
Dagar liðu.
Dagar liðu hjá líkt og lauf í vindi raunveruleikans.
Hugur minn gekk ótroðnar slóðir, skoðaði liðna atburði og bölvaði þeim, aftur og aftur og aftur. Minn eigin vítahringur byggður úr gjörðum fortíðarinnar.
Hugur minn leitaði á náðir sjálfsvorkunnarinnar sem hló að mér, hló upp í opið geð mitt.
Ég grét þurrum tárum.
Dagar liðu.
Dagar liðu hjá eins og draugar.
Og áfram reikaði hugur minn um óþekkta heima, leitaði að sælureit í skúmaskotum hugans sem fyrir löngu höfðu verið firrt öllu ljósi.
Ég var einn, það var það versta, ég sat einn, aleinn í eilífu myrkri, mínu eigin myrkri.
Dagar liðu.
Dagar liðu hjá líkt og lauf í vindi raunveruleikans.
“Að hverju?” Spurði ég sjálfan mig, “hvernig?” spurði ég svo og velti því fyrir mér að hverju hugurinn var að leita, og hvernig átti hann að finna það.
Ég stóð upp frá harðri jörðinni, stirðir fætur reyndu hvað þeir gátu að halda jafnvægi og eftir smá stund stóð ég kyrr, stöðugur.
“Það er ekkert myrkur.” Sagði ég við sjálfan mig og horfði á sólina rísa upp.
Himinn litaðist rauður, litaður með litum sköpunar.
“Ég óttast ekki, ég græt ekki, það sem er, það er.”
Ég gekk eitt skref fram á við, fætur mínir snertu ekki jörðina.
Ég sveif á ósýnilegu skýi, alið af endurfæðingu sjálfvitunarinnar.
Ég horfði fram á við einbeittur, hugurinn leitaði ekki lengur, ég hafði gefið honum svarið.
Þetta er líf mitt, þetta er sá staður sem ég er á, það þýðir ekki að gráta það, það þýðir ekki að láta sig dreyma um lífið sem maður hefði getað lifað, maður verður að lifa því, láta á það reyna.
Svona var líf mitt núna, svona skildi það ekki verða það sem eftir væri.
Um varir mínar lék lítið bros, um líkama minn rann tilfinning sem ég hafði aldrei þekkt áður, ég var sáttur, í pytti eilífs myrkurs stóð ég, og ljós rann allt í kringum mig.
Ég var ekki lengur undiroka lífsins.
Ég var lífið sjálft.
Eitt skref í einu steig ég gegnum loftið upp á við.
Eitt skref í einu kleif ég upp úr pyttinum.
Ég horfi til framtíðar með stjörnur í augunum.
Því myrkur þekki ég ekki lengur, vetur aðeins gömul minning sem knýr mig til að hjálpa þeim sem eru á botni pytts hins eilífa myrkurs.
Ég er hluti af ljósinu, því ljósið er komið frá mér og undir mér komið.
Ég er lifandi, ég er lífið.
Ég er sáttur.