Það er ekkert betra til í heiminum en þegar vinnutíminn er búinn, þá get ég verið heima með henni, hún, hún á allt mitt hjarta. Ekkert getur komið upp á milli okkar, við erum ein í heiminum. Skreppa til strákanna í pókerleik eða horfa á leikinn, nei aldeilis ekki, ég vil bara vera heima með henni. Bara lyktin af henni gæti komið mér til að góla, hún gerir mig vitlausan, ég er brjálaður útí hana. Ég veit ekki hvort hún er brjáluð útí mig, en.. hún hættir í það minnsta kosti ekki að hitta mig, hún mætir alltaf til mín, á hverjum degi eftir vinnu.
Ég vildi að ég gæti gert eitthvað fyrir hana, en hvað á svona einfaldur maður eins og ég að gera fyrir svona ótrúlega konu, svo fallega, svo.. svo fullkomna. Ég hef reynt að skrifa ástarbréf til hennar, bara til að auðvelda mér sporin.. ég er ekki orðheppinn maður. En.. en hún svarar mér ekki, hún bara brosir breitt til mín svo að skín í hvítu tennurnar hennar. Það er svosem nóg fyrir mig, en mér myndi líða betur ef hún segði eitthvað. En ég efast ekki um dómgreind hennar, ég á að vita hvaða tilfinningar hún ber í garð minn, ég og hún erum búin að vera það lengi saman. En þegar um er að ræða slíka konu, þá.. ég get ekki annað en verið abrýðisamur, ég hef séð hvernig þeir horfa á hana.. þá meina ég svokallaðir vinir mínir, þeir kalla hana gellu og segjast vilja taka hana heim með sér, bara.. fyrir framan nefið á mér! Ég held þó stjórn á skapi mínu, og segi ekki neitt, brosi bara útí annað.. helvítin. Þeir virðast ekki átta sig á því hversu heitt ég elska hana, þeir vita ekki neitt, vita ekki einu sinni hvað sönn ást er. Allt fráskildir piparsveinar með skuldir steypta við fæturnar.
Ég veit ekki afhverju ég tel þá vini mína, ég ætti að skilja við þá, eftir allt þá hef ég hana. Hún er eini vinurinn sem ég þarf.. hún er allt sem ég þarf, tíminn stendur í stað þegar ég er með henni.
Nú sit ég hérna heima í litlu íbúðinni minni og bíð eftir henni, orðinn spenntur.. æstur jafnvel. Hún ætti að koma á hverri stundu.. ég kveiki á sjónvarpinu og raddir fréttaþula fylla eyru mín af liðnum atburðum. Hvar er hún? hvert hefur hún farið? varla hefur hún stungið af til vina minna, þeir er ekki betri en ég! Ég verðskulda hana jafnmikið.. jafnvel meira en þeir! Ég stend upp og geng hröðum skrefum fram og aftur um stofugólfið.
Ég brest í grát.. hún er búin að stinga mig af, hefur líklega farið til helvítis félaga minna. Hefði mátt vita það. Ég sest niður og græt biturlega með hendurnar fyrir andlitinu. En svo, ég heyri rödd hennar, svo silkimjúka, svo tælandi. Ég kippist við og dreg hendurnar frá andlitinu, þarna er hún, beint fyrir framan mig, eins og nýþveginn engill brosandi til mín. Ég hlæ með tárin í augunum.
Hvernig gat ég efast, hún myndi ekki svíkja mig fyrir strákana. Eins hamingjusöm og alltaf lyftir hún upp plastflösku með nýjustu hárnæringunni og segir mér hversu árangursmikil hún er og hversu auðvelt er að nota hana. Besti parturinn er eftir, ég spennist allur upp, hún sveiflar fullkomnu hárinu og hlær hljóðum hlátri. Heyri ekki í henni því þulurinn getur ekki haldið sér saman rétt á meðan. Hún hverfur af sjónvarps skjánum og fréttaþulur kemur í stað hennar og byrjar að blaðra um veðrið, leiðist fréttirnar.. skipti um stöð…
Hlakka til á morgun..
Þakka.. Metalfreak
www.fjandinn.com