Í huganum sveif hún aftur til þess tíma þegar hún lá á dýnu á gólfinu í litlu íbúðinni á Snorrabrautinni og grét. Myndir af börnum að veifa mömmu bless flugu fyrir framan hana og nístandi kvölin skar hana að innan. Hún mundi öll orðin sem hún hafði öskrað framan í pabba sinn þegar hann hafði fengið sér í glas og dómana sem hún hafði kveðið upp yfir mömmu sinni fyrir aumingjaskapinn og meðvirknina. Hún mundi orð vina sinna, hvernig þeir snéru í hana baki einn af öðrum og létu sig hverfa. Hún mundi sorgina yfir því að vera hún sjálf.
Hún vissi að á öllum þessum árum hafði hún ekkert breyst og það eina sem hún hafði lært, var að allt á sín endalok, nema sorgin.
Hún barðist af alefli, gekk um íbúðina í taugaæsingu og reykti hverja sígarettuna á fætur annari. Hún skyldi ekki gefast upp. Hún skyldi ekki láta bugast. Ekkert gæti brotið hana niður, hvorki þá né nú. Alveg sama þó að allir lokuðu dyrunum, hún skyldi ekki syrgja, heldur byggja upp. Dauðinn og lífið eru systkin hugsaði hún og vissi að það þýddi ekki að hafna dauðanum. Hann væri staðreynd sem ekki yrði umflúin.
Hún settist í sófann og leit á klukkuna. Tíminn hafði þó alltaf verið vinur hennar, sá eini sem ekki brást. Leið alltaf í fyrirfram ákveðnum einingum og óbreytanlegur kraftur hans hafði hingað til getað fært henni hugarró. En ekki núna.
Það rigndi. Það rigndi suðvestan fimm metrum á sek. Það rigndi á úrið hennar.
Flóðgáttir opnuðust og óbærilegur söknuður og sorg gagntóku hana. Hún fann hjartapíslina berjast af angist og hendur hennar skulfu. Með ekkasogum tókst henni að standa upp og aftur hóf hún göngu sína um íbúðina. Hún átti að mæta í vinnu eftir klukkutíma og yrði að vera komin í lag þá. Hún vissi að þetta ætti ekki eftir að endurtaka sig. Það kæmu til með að líða ár þar til hún missti sig aftur. Sem betur fer. Nú var að fara út í lífið og berjast til síðasta blóðdropa.
Í meinum var hún fegurst allra systra minna. Rebekka 2002.