Hún gengur inn um dyrnar á nýja skólanum. Þetta er frekar fámennur skóli í þorpi einu úti á landi. Hún er fegin að vera laus við læti borgarinnar. Það getur verið leiðinlegt að geta hvergi verið í ró og næði. Geta hvergi notið þagnarinnar.
Það á eftir að verða mikil breyting að geta loksins fundið fyrir sjálfum sér. Fundið fyrir lífinu og fundið fyrir öllu því fagra í kringum sig. Það er eitthvað annað en tjörulykt af alltof mörgum bílum borgarinnar.Erillinn og allt stressið. Hversvegna getur fólkið í borginni ekki bara sest niður og slappað af. Fundið fyrir friðnum og hlustað eftir hjartslætti eigin hjarta. Þetta hefur hún aldrei getað skilið. Mamma hennar hefur alltaf sagt að hún sé gömul. Gömul sál í ungum líkama. Pabbi hennar kallar hana ekkert annað en skáldið sitt. Skáld. Hún er ekkert skáld. Smá fitl við orð gera menn ekki að skáldum. Hún er enginn Jónas Hallgrímsson eða Egill Skallagrímsson. Nei, skáld er hún ekki.
Hún lítur í kringum sig í andyri skólans. Það er ekki nokkur sála þar. Enda er skólinn ekki byrjaður. Hann byrjar ekki fyrr en eftir viku. Hún vildi bara fara og líta á. Athuga hvort þessi skóli væri frábrugðinn þeim í bænum. Þeim sem hún var í. Þar var ekki kyrrð frekar en annarsstaðar. Ekki einu sinni á bókasafninu. Hér finnur hún ró. Hér er hún ánægð. Hér getur hún hugsað í friði. Hér getur hún setið ein með sjálfri sér án þess að þessir vitlausu svokallaðir jafnaldrar hennar séu sífellt að koma og blaðra, þau sem einungis hugsa um enskar bíómyndir og þingsal í New York. Þau sem ekki skilja hvað það er að fá að vera í friði. Þau kunna ekki að þegja saman.
Hugsa sér ef það væri nú bara einhver sem hún gæti haft, ekki til að tala við, heldur til að þegja með. Það væri eitthvað nýtt að geta setið með einhverjum úti í auðninni og hlustað á fuglana kvaka, kindurnar jarma eða jafnvel grasið vaxa. Svo væri ekki verra að skiptast á vel samansettum orðum af og til. Kannski ræða um Konungsbók og Snorra-Eddu í einni svipan. Það væri líf í lagi.
Hún lætur sér nægja það sem hún er búin að sjá af nýja skólahúsinu og er ánægð. Hún fer út og leggur af stað eftir veginum. Ekki neitt sérstakt. Bara eitthvað. Þangað sem hún getur verið í næði með hugsunum sínum. Hún kemur aftur eftir viku.
Enn á ný gengur hún inn í nýja skólahúsið. Í þetta skipti er það fyrsta skóladaginn. Hún fékk stundaskrána sína í gær. Fyrsti tíminn hennar er Bókmenntir. Vonandi hafa þeir frjórra ímyndunarafl hér en í bænum. Þar hlógu menn að henni þegar hún fór að líkja saman Sonartorek og Passíusálmunum. Það var nú meira. Hún var send til prestsins og sögð mistúlka kristnina. Eins og hún mætti ekki hafa sínar eigin skoðanir. Þó svo að Guð og Óðinn séu ekki eins. Og að Hallgrímur Pétursson hafi ekki verið að yrkja til sonar síns líkt og Egill gerði. Hvað vita menn um það. Hún bara skrifaði það sem henni fannst vera rétt. Hvað ætli menn hafi hugmynd um það hvort Hallgrímur Pétursson dó úr hjartasorg eða holdsveiki. Hann dó um aldur fram og hann fékk ekki hjálp hjá dóttur sinni eins og Egill. Steinunn var dáin og gat ekki hjálpað honum, hann hafði sjálfur verið harmi sleginn við dauða hennar. Þó svo að þetta hafi ekki í raun verið svona þá er ekkert sem segir að það hefði ekki getað verið þannig og menn mega nú alveg hafa sitt ímyndunarafl.
Þarna koma hinir krakkarnir. Hún gengur á eftir þeim inn í stofu Í. Kennarinn þeirra kemur svo stuttu seinna. Hver er þessi í horninu hugsar hún með sjálfri sér. Hann situr þarna einn og horfir út í loftið. Strákarnir eru að reyna að ná sambandi við hann en geta það ekki. Hvað ætli hann sé að hugsa. Ætli hann sé að hugsa um Hallgerði langbrók eða Guðrúnu Gjúkadóttur. Kannski Loki sé honum efst í huga eða Þór. Eða Jón Hreggviðsson sem bar Íslendingum kveðju Arnasar um frelsi landsins. Hvað ætli hann sé að hugsa um. Kannski er hann fara með Völuspá í huganum eða Höfuðlausn. Hvað ætli hann sé að hugsa.
,,Þögn” heyrist í kennaranum. Hún lítur upp og sér bústna konu fyrir framan sig. Hún stendur þarna með bók í hendi. Hvaða bók er þetta. Hún sér það ekki því kennarinn heldur fyrir nafn hennar. Kennarinn lyftir svo bókinni upp og spyr: ,,Hversu margir hér inni hafa eytt sumrinu í eitthvað merkilegt eins og að lesa Brennunjálssögu?” Enginn svarar. Hún eyddi ekki sumrinu í að lesa Brennunjálssögu. Nei þá bók las hún fyrir þremur árum. Þetta sumar hafði hún komist í Grettissögu. Því réttir hún ekki upp hönd. Svo byrjar kennarinn að tala um söguna. Kennarinn talar um Bergþóru, aumingja konuna, sem skildi ekki framtíðina eins vel og maður hennar, Njáll. Við þessi orð kennarans getur hún ekki setið á sér. Hún réttir upp hönd og segir: ,,En Bergþóra var engin aumingja kona. Hún var sterkur einstaklingur og kvenskörungur sem hafði því miður fæðst í hálfgerðu karlmanslíki, skaphörð og með kartnögl á hverjum fingri.” Allir í bekknum fara að hlæja og kennarinn veit ekki hvað hann á að segja. Þá er hringt út.
Í frímínútum fer hún út í hraun og skiptir sér ekki af hinum. Þá sér hún hann. Strákinn sem var að hugsa. Hver ætli þetta sé og hvað ætli hann hugsi? Hvað ætli hann viti? Ætli hann sjá líkt og hún kastalann stóra, Valhöll, hvítan og fallegan standa á fjallstindi og hanann Gullinkamba á þakinu? Ætli hann sjái seli kasta af sér hamnum og ganga á land í konu líki? Ætli hann sjái krónur Yggdrasils gnæfa yfir skýin og Heimdall með gjallarhorn sitt og hina fögru Bifröst? Ætli hann sjái hvað hún er að hugsa?
Hún situr úti í hrauni og hugsar um hann. Hugsar um allt sem hann gæti verið að hugsa. Hugsar um allt sem hún er að hugsa. Hugsar um kyrrðina. Hugsar um rólegheitin. Hugsar um orustur á Sturlungaöld. Hugsar um friðinn. Hún hugsar um Adam og Evu. Evu sem bara var svöng og sá fallega ávöxtin. Sem ekki áttaði sig á að hún mátti ekki borða hann. Hún sem var tæld og dáleidd af höggormi. Hún hugsar um hvað Sigmund Freud hefði sagt við Evu og hún hugsar um hvað Nói var heppinn að skipið hans sökk ekki. Hún hugsar um forna og horfna frægð þeirra sem vissu hvað þeir vildu. Hún hugsar um Ingólf Arnarson.
Eftir skóla fer hún aftur út í hraun. Hún ætlar að lengja leiðina heim. Hún vill hafa tíma fyrir sig. Tíma til að hugsa um Gunnar á Hlíðarenda og Njál sem reyndi að breyta framtíðinni. Hún hugsar um framtíðina. Hún hugsar um framtíðina sem einmanaleika þar sem allir þekkja alla nema sjálfan sig. Þar sem enginn heyrir eigin röddu og hjarta fyrir ískrum í Evrum og dunum í sprengjum. Hún hugsar um löndin sem vilja vinna saman sem eitt og neyða hvert annað til að taka þátt í alþjóðahreyfingum og lúta reglum þeirra ráðríku. Hún hugsar um litlu þjóðirnar sem smábörn sem verða út undan þegar stóru börnin ráða förinni. Litlu börnin sem eru skilin eftir og látin sjá um sig sjálf eftir að stóru börnin eru búin að kenna þeim sína siði, en ekki hvernig á að fara eftir þeim. Hún hugsar um það þegar stóru börnin eru búin að segja þeim hvað er handan veggjarins, en vilja ekki ná í koll til að litlu börnin ná upp að glugganum. Þannig hugsar hún um framtíð allrar Evrópu í einni heild. Einni paradís þar sem allir eru höggormar. Allir nema þeir sem ekki sjást.
Þegar heim kemur tekur hún til við heimavinnuna. En hún týnist í tölum talnafræðinnar. Hún týnist í reglum Newtons. Hún sér tölur og reglur, x og y sem ráðamenn þings hins sérstæða lands. Landsins sem gaf sig á vald þeirra freku og athyglissjúku eftir styrjaldir Sturlunga og missti þannig sjálfstæði sitt til forfeðranna. Þannig hugsar hún um þá sem valdið hafa sem eru ósammála um allt nema það sem þeir mega ekki vera sammála um. Hún hugsar um þá freku og athyglissjúku sem missa landið enn á ný. Til alræðis peninga og útflutnings.
Í skólanum byrjar hún að dragast nær honum, þessum sem hugsar. Hugsar eins og hún. Að lokum ná þau saman og fara að hugsa saman. Í huga hennar sigla þau til ókunnra landa ásamt Leifi Heppna. Í huga hennar standa þau við hlið Hrafnaflóka og sjá paradís rísa úr sæ. Í huga hennar eru þau langt í burtu. Í friði og ró og eru bara saman og þegja. Hlusta en tala ekki. Þau hlusta á hjörtu hvors annars. Þau hlusta saman á hárið vaxa og frumurnar tala saman. Þau hlusta á náttúruna. Þau hlusta á allt, nema það sem þau eiga að hlusta á.
Hún horfir á hann, hann sem hugsar. Hann sem hugsar með henni. Hann sem hugsar í takt við hana. Hún horfir á hann og hugsar: ,,Fegurð náttúrunnar sést í því hvernig fólkið fer með hana. Hún felst í eigninni á náttúrunni. Hún fellst í sjálfstæðinu. Fegurðin hverfur með landinu. Fegurðin er í sjónum, sem allir eiga. Fegurðin er í fisknum sem við öll veiðum og öll borðum og lifum á. Hún minnkar með einokun eins á allra hlut. Fegurðin fellst í sameign þess sem ekki má taka. Hún fellst í þorskinum. Þorskinum sem við öll eigum hlut í. Hún fellst í friðnum og kyrrðinni. Vissunni um að rétt er að gert.” Hún horfir á hann og hugsar allt þetta. Hún horfir á hann og hugsar um framtíð sína. Framtíð þeirra í þögninni. Þögninni sem er svo mikilvæg. Þögninni sem öllu máli skiptir.
En hvað er þetta. Hún lítur upp. Hann talar. Hún grætur. Hann talar við hina. Hann talar við þá sem ekki skilja. Þá sem ekki hugsa um það sem þarf að hugsa um, þá sem hugsa um Seif í stað Óðins, þá sem hugsa um Marilyn Monroe í stað Guðrúnar Ósvífursdóttur. Hann talar við þá sem ekki finna fegurðina. Hún grætur. Hún finnur hvernig hún missir fegurðina. Hún finnur hvernig hún missir hugsunina. Um leið og hann talar. Talar við þá sem ekki skilja og eru frekir. Þá sem eru athyglissjúkir. Hún missir máttinn. Hún missir gleðina. Hún missir náttúruna sem fegurðin fólst í. Hún grætur tárum heillar þjóðar. Hún er bundin í viðjar. Viðjar sem svipta hana frelsinu. Viðjar sem svipta hana landinu.
Hún missir besta og eina vin sinn.