Afgreiðslumaðurinn

„Þekki ég þig?“
Maðurinn við afgreiðsluborðið gnæfði yfir stúlkuna sem starði á hann með hálf opinn munninn og hendurnar á afgreiðsluborðinu.
„Hvað viltu?“
Hann var orðin pirraður en stúlkan stóð bara og starði.
Hann leit í kringum sig, enginn annar var í búðinni.
„Ætlar þú að fá eitthvað? Ef ekki, viltu þá vera svo væn að fara?“
Þetta var nær skipun en beiðni.
Stúlkan lokaði munninum, færði hendurnar af borðinu og tók eitt skref aftur á bak.
Maðurinn virti hana fyrir sér; þetta var venjuleg stelpa, svona 7 ára kannski, með ljósa lokka og blá augu eins og flestir í landinu, ljós á hörund og frekknótt. Hún var í blárri skyrtu og dökkbláu pilsi og dökkbláum strigaskóm. Hún var hvorki í sokkabuxum né sokkum, enda hlýtt úti og sumar.
Sömuleiðis grandskoðaði stúlkan manninn; hann var dekkri á hörund en hún átti að venjast og biksvart hárið féll fullkomlega slétt niður axlirnar á honum og að herðablöðunum. Augun voru dökkgræn og fengu hana til að hugsa um skóglendi í fjarlægu landi. Hann hafði tekið hárið aftur fyrir útstæð eyrun og þau stungust löng og mjó til beggja hliða.
„Hvað eru þau löng?“ spurði telpan án þess að hugsa en um leið og hún mælti, áttaði hún sig á því hvað hún var að segja, glennti upp augun og ætlaði að grípa um munninn á sér en hætti við í miðri hreyfingu svo að úr varð mikið pat og enn meira fát kom á hana.
Maðurinn brosti að þessu og hló jafnvel lágt.
„Viltu vita það, já? “ sagði hann, „Ja, svona okkar á milli mældi ég þau í gær og þá voru þau níu senímetrar á lengd!“ hann hallaði sér fram á borðið og horfði beint í augun á stelpunni sem tók andköf.
„Vaá!“
„Jahá, en þín, þessu litlu, kringlóttu eyru geta varla verið meira en einn sentímetri! Hvað heldur þú? Hvað eru eyrun á þér löng?“
Stúlkan greip um eyrun á sér en um leið fylltist hún löngun til að koma við eyrun á útlendingnum.
„Ég veit það ekki.“ svaraði hún.
Hann brosti.
„Svona nú, hvað ætlar þú að fá? Eða ætlaðir þú ekki að kaupa neitt hér hjá mér? Komstu bara til að skoða á mér eyrun? Ha, stúlka mín góð?“
Telpan roðnaði og muldraði eitthvað í barm sér.
Maðurinn rétti úr sér, tók upp lítinn, grænan poka og hóf að tína sælgæti í hann.
„Hérna, gjörðu svo vel! Bland í poka fyrir hundrað!“
Stúlkan tók pokan og þakkaði fyrir sig og hóf leit að hundraðkalli í vasanum á pilsinu sínu. Loks fann hún hann og rétti afgreiðslumanninum hann. Hann brosti aftur en stúlkan tók stefnuna í áttina að dyrunum, skref fyrir skref. Maðurinn horfði brosandi á hana allan tímann. Þegar hún kom loksins að dyrunum opnaði hún þær og hljóp út og hrópaði til stóra bróður síns sem stóð hinumegin við götuna:
„Það vinnur álfur í sjoppunni!“