Er ekki fyrir löngu síðan kominn tími á ritstörf? Það held ég nú. Kannski að ég skrifi niður söguna um strákinn og sólhlífina, hverju hef ég að tapa? … ef til vill einna helzt sjálfum mér – nema ég sé fyrir löngu búinn að tapa mér. Veit það sussum ekki.

Húsið var ekki stórt, m.ö.o. þá var það frekar lítið. En svalirnar voru gríðarstórar miðað við það. Konan hét eitthvað og maðurinn líka, litla barnið var enn nafnlaust, sem þótti sæta furðu – enda byrjað í skóla. Nafnlausa barnið hafði fullt í fangi að átta sig á furðum heimsins; þ.e. það sem vel þroskað og fágað fólk nefnir smámuni og smáatriði. Barnið hafði enn ekki öðlazt hina sjálfhverfu og sjálfsgagnrýnu vitund, og lærði því það sem fyrir því var haft án þess að gefa því nokkurn gaum, líkt og væri verið að forrita það.

Það var sumar, einsog svo oft áður. Eitthvað undarlegt átti sér þó stað þetta sumarið.

Æiégveitþaðekki…

Kannski er ekki hægt að segja þessa sögu, nema þá að hún verði kjánaleg og leiðinleg.

Ætli ég verði ekki að segja einhverja aðra sögu? Líkast til get ég ekki skrifað alvarlegar sögur, alvarlegar frásagnir öllu heldur – ég verð að beita fyrir mig kaldhæðni, hroka, fíflalátum og bulli. Er það gott eða vont? Eða, kemur það málinu við? Breytir engu, nema því sem skiptir máli og það gildir einu – stendur heima!

Ég er einsog naut í flagi, ótaminn hestur á hundahem… froðuhestur!

Koma skynvillum mínum í orð? Það yrði anzi handahófskennt og einkennilegt þvaður – og auðvitað allt of myndrænt, sem er ekki gott. Eða hvað?

Andlitslaus kona hjólar á móti mér, hún er með sítt dökkt hár. Upp úr þurru fer hárið upp í loft, það er logn og hún hjólar ósköp rólega. Þá átta ég mig á því að þetta er ekki hár – þetta eru í raun rætur á mjög óraunverulegu tréi. Svona tré sem nafnlausa barnið úr sólhlífarsögunni hefði getað teiknað – en það er ekki í þessari sögu. Eða hvað? Var ég ekki að skrifa það inn í söguna? Kannski.

Fyrst um sinn er ein sól fyrir ofan tréð, en svo fjölgar þeim snarlega, unz þær fylla himininn og tréð sést ekki fyrir birtu.

Hvað gerist næst?

Nafnlausa barnið lætur sig ekki vanta, tekur sólhlífina sem foreldrar þess hefðu keypt og sett á svalirnar ef ég hefði haldið áfram með þá sögu, og kastar upp á tréð, með þeim afleiðingum að tréð hleypir hömum og verður að sjálfvirku trommusetti.

Sem var eins gott, því nafnlausa barnið kunni ekki á trommur og sólhlífin var kaldrifjaður sjálfsmorðingi.