2Tveir
Baldur Benónísson, einkaspæjari, flettir upp frakkakraganum til að skýla sér fyrir norðanslyddunni. Reykjavík, borg glæpanna, opnar kaldan faðm sinn og býður hann velkominn. Baldur dreif sig af stað og arkaði gegnum snjóskaflið sem myndaði fjall milli blokkarinnar hans og barsins sem hann stundaði. Barþjónninn umlaði eitthvað og Baldur fékk sér sæti. Eftir dágóða stund við drykkju og pælingar milli himins og jarðar, hringdi rauði síminn sem var inni á klósettinu. Baldur ákvað að hlutirnir gætu ekki versnað og svaraði símanum. Baldur svaraði háðlega og hljómaði næstum af vískýi. Dimm og kuldaleg rödd sagðist heita Hallgrímur en Baldur var þegar hniginn niður á gólf af þreytu.
Morguninn eftir var eins og að klessa á 200 kílómetra hraða með andlitið á stórri belju. Baldur reisti sig við og henti ábreiðunni af sér, fékk sér stórann bolla af svörtu kaffi og kveikti á símsvaranum. “Þú hefur 1 nýtt skilaboð” æpti apparatið með skrækri röddu, skilaboðin voru frá einkaritara Baldurs sem þó virtist mun frekar vera yfirmaður hans en einkaritari. Á meðan Baldur saup kaffið af stökum viðbjóð, fóru fram alls konar skruðningar á snældunni sem geymdu skilaboðin, Baldur barði fast í tækið og byrjuðu þá að heyrast einhver hljóð sem flokka var hægt sem rödd, “Baldur, þú verður að koma strax niður á skrifstofu… ég komst að svolitlu sem ég held að fólk vilji ekki að líti dagsins ljós” svo heyrðust stympingar, óp og köll og svo stöðvaðist bandið. Þess á milli að þurrka upp kaffisletturnar út um allt og reyna að koma sér í skóna hugsaði Baldur um verstu mögulegu útkomu sem þetta gæti haft.
Sólin hafði neikvæð áhrif á Baldur þegar hann settist á bak reiðfáks síns, öðru nafni, hjól. Þó að mestallur snjórinn hafði bráðnað átti Baldur erfitt með að halda sig á réttum kili, og datt tvisvar af baki áður en það rann upp fyrir honum að hann mundi ekki hvar skrifstofan hans var. Baldur hugsaði með sér að viskýið hafi ekki verið svona sterkt og að eitthvað hlyti að vera á seyði.
Þar sem Baldur hjólaði fram hjá bókabúð, tók hann eftir stóru skilti sem á stóð “Heimurinn endar – Ekki bíða, kaupið Náttfarann” , Baldur snarhemlaði en þeyttist samt sem áður áfram um einhverja 20 metra sökum ísingar á stéttinni. Þegar Baldur kom aftur að búðinni var hún algjörlega auð, bara stór gluggi og tómt herbergi bakvið.. engin húsgögn, ekkert! Það var ekki hlaupið að því hvers vegna eða afhverju, búðin var ein og sér og bil var á milli hennar og næstu bygginga svo að ekki var um villst að þetta var sama búðin. Á meðan Baldur velti þessu fyrir sér, uppgötvaði hann að þetta væri í raun skrifstofan hans. Hann opnaði hurðina og var ekki fyrr búinn að setja inn fæti þegar hurðin lokaðist að hæl hans. Baldur sneri sér við til að leiftra ótta í hjarta þess sem dirfðist að loka hurðinni á afturendann á honum. Þegar hann gafst upp og sneri sér aftur við, honum skaut skelk fyrir bringu þegar hann sá stafla á fætur stafla af bókum sem allar voru eins. Allar bækurnar voru vafðar í ljósbrúna kápu og áletraðar með orðunum “Líf Baldurs og ævintýri”. Baldur opnaði eina bókina og brá í brún þegar hann sá að allar síðurnar voru auðar.
Enn á ný vaknaði Baldur á 200 kílómetra hraða, fékk sér kaffi og ætlaði að hlusta á símsvarann þegar hann sá að einhver hafði barið tækið í klessu. Hann gekk fram í eldhús og undraði sig á kaffislettunum sem voru út um allt gólf. Baldur gekk niður stigann og út um útidyrahurðina þegar hann tók eftir að einhver hafði stolið hjólinu hans, skeytti engu um það, hafði ekki notað það í marga mánuði hvort eð var.
Þegar Baldur Benóníson, einkaspæjari, steig út úr bílnum sínum, fletti upp frakkakraganum og hélt í átt að skrifstofu sinni, fann hann eitthvað undarlegt í hausnum og reif út magnyl töflurnar sem hann hafði handhægar í tilfellum sem þessum. Þegar hann teygði sig ofan í vasann fann hann fyrir einhverju… hann teygði sig lengra ofan í frakkavasann og fann þar nafnspjald: “Hallgrímur Skúlason, sálfræðingur” og skrifað við hliðina: “Hringdu í mig Baldur, ekki fara neitt”.
———————-
Þess má geta að þetta er líka íslenskuverkefni sem ég dundaði mér við og er algjörlega frumsamið fyrir utan fyrstu setninguna.