Smásagan tímarnir tveir (Stolin saga af tímanum)
Sviðið er Egyptaland fyrir skeið píramítanna í þorpi ættar einnar þar sem hið fullkomna samfélag hefur myndast. Allir hafa jafnan rétt og eru jafnir að manngildi.
Allir geta gert allt en hver fer þá braut sem tíminn leggur.
Í þorpi þessu býr tíminn. Hann hefur ekkert annað að starfa en það að vera tíminn.
Hann gengur um gólf fram og til baka, klæddur í kufl. Tikk, takk. Tikk, takk.
Það má aldrei trufla tímann. Og enginn getur orðið tíminn nema tíminn og tíminn er eilífur. Hann er góður og lætur allt gerast.
Hann klappar stundum stráksnáðum á kollinn er hann sækir sér brauð og annan mat.
Auðn ein mikil umlykur þorpið. Í henni eru vatnsból og litlar lendur fyrir sauði.
Hirðingi úr þorpi tímans finnur dag einn í henni barn í reifum.
Hvur á þetta barn og hvaðan er það komið spyr hirðinginn sig.
Það er óravegur í næsta þorp.
Hann tekur barnið með sér til þorpsins.
Þorpsbúar ákveða að taka barnið að sér og ala það upp sem eitt af sínum eigin.
Í ljós kemur að barnið er bæði gáfað og hæfileikaríkt.
Það byrjar strax að babla á tungumáli þorpsbúa.
Það verður draumur allra þeirra og tíminn er góður við það.
Það getur orðið allt nema tíminn.
Því er kennt að það megi aldrei trufla tímann.
Misseri líða hjá og barnið lærir af þorpsbúum á lífið og einn dag er barnið spurt hvað það vilji vera þegar það er orðið stórt.
Barnið segist vilja vera tíminn, það er svo hrifið af tímanum.
Allir þorpsbúar telja það vera barnalegt og sætt.
Sko, það vill verða tíminn segja allir og brosa.
Ár líða án þess að þorpsbúar hugsi um það.
En einn dag fer barnið til tímans og tekur í kuflinn hans og spyr hvort hann vilji ekki kenna sér að vera tíminn! Öll lögmál hristast og skjálfa og tíminn hrekkur við og hann horfir óttasleginn á barnið. Hann er svo viðkvæmur. Nokkrir þorpsbúar hlaupa til og sækja barnið, taka það í burtu frá tímanum. Allir aðrir eru skelfdir eins og tíminn. Hvað var barnið að gera? Allir telja að nú sé í fyrsta skipti sem nokkur man eftir komið vitlaust barn í heiminn. Þorpsbúar þeir sem tala við barnið segja því aftur að aldrei megi það trufla tímann, ALDREI.
Allt hefur sinn gang og tíminn líður en svar og framkoma barnsins hefur sáð fræi í hjörtum þorpsbúa og dag einn ákveða þeir að spyrja barnið aftur hvað það vilji vera þegar það er orðið stórt. Annars hefðu þau látið tímann um sitt. Aftur segist barnið vilja vera tíminn, þegar það er orðið stórt.
Það er uppnám í þorpinu.
Barnið getur ekki, má ekki vera tíminn.
Hvernig á heimurinn að geta virkað almennilega ef í honum eru tveir tímar?
Hvor yrði réttur? Yrðu þeir eins? Á hvorum ætti að taka mark? Öll lögmál heimsins myndu hrynja ef í honum yrðu tveir tímar!
Svo þorpsbúar taka upp á því að senda barnið í burtu til næsta þorps.
Þar býr höfðingi og menn geta verið höfðingjar.
Allri þar eru góðir við barnið. En höfðinginn er óöruggur um sig vegna návistar barnsins sem er að verða stálpað. En barnið vill ekki vera höfðingi.
Og einn dag er það horfið. Engin veit hvert það fór.
Þorpsbúar leituðu að barninu vítt og breitt um auðnina en fundu það ekki.
Svo einn dag birtist það aftur í þorpi tímans og er orðið að unglingi og það segist vera nýi tíminn. Skelfing grípur um sig í þorpinu. Heimurinn ruglast, jörðinn hristist, fossar renna uppí móti og gamla tímanum fipast, lögmálin ætla að hrynja en nýi tíminn grípur þau og tekur við. Hvað gera þorpsbúar nú? Þau elska gamla tímann og geta ekki sætt sig við nýjan tíma. Hann getur ekki verið góður, eða hvað? Þau hafa haft sama tímann frá upphafi og kunna ekki á nýjan tíma. Þau huga að gamla tímanum og sjá að hann er orðin veikur.
En margir þorpsbúar gefa ekki upp vonina á gamla tímanum, þeir trúa á hann.
Og því taka sumir þorpsbúar uppá því að flytja burt úr þorpinu og skilja nýja tímann eftir í því. þeir taka gamla tímann með sér og hjúkra honum og hann gefur sjálfur ekki upp alla von. Og allir vita að allt er hægt með tíma og þolinmæði.
Þeir sem fóru taka því upp á því að hugsa sig aftur til gamla tímans og yfirgefa heim nýja tímans hægt og hægt þar gamli tímin ríkir aftur hjá þeim…
Endir
Eftir 1976, Thorkrist og Sveip sem heitir einig Örn