BRÚÐARDRAUGURINN

eftir Benedikt Gröndal


Á Þjóðverjalandi er það hérað, er Frekavangur heitir, skógi vaxið og fjöllótt, og frítt land. Þar stóð endur fyrir löngu höll á einum fjallatindi, eigi langt þaðan er Main og Rín renna saman; þá höll átti sá herra, er kallaður var barún af Láðborg. Nú er þessi höll í eyði og eigi nema rúst ein; beykitré og dimmlaufguð fura þekja tóftirnar með greinum sínum, og ekkert nær upp yfir skóginn nema varðturninn; hann stendur enn, þó hrörlegur sé, og lítur út yfir landið.

Barúninn var af miklum ættum, en eigi hafði hann eftir annað af eignum forfeðra sinna en þessa höll, því allt hitt hafði smátt og smátt gengið af þeim; en samt sem áður þóttist hann mikill af hvorutveggju, af ættboganum og af eigninni, og lét hann sér annt um að halda við ættartigninni svo sem auðið var, og hélt sig svo stórmannlega sem hann gat, svo menn skyldu eigi gleyma því, hver hann væri. Riddararnir voru raunar hættir að elda grátt silfur, þegar þessi saga gerðist, og hírðust ekki lengur í fjallaborgunum, sem byggðar voru eins og fálkahreiður í hengiflugum, heldur höfðu þeir reist sér “byggðir og bú í blómgvuðu dalanna skauti”, og “undu þar glaðir við sitt”. En barúninn hélt sínum sið; hann bjó alltaf í gömlu fjallaborginni, og víggirti sig á móti stríði og styrjöld, sem fyrir löngu var um garð gengin; var hann alltaf fullur af hatri til nágranna sinna, af því þeir höfðu átt í einhverjum deilum við langafa-langafa hans, og enginn mundi eftir því nema barúninn einn.

Barúninn átti eina dóttur barna; en það er oft farið svo með einbirnin, að þau eru gerð að undri, og svo var einnig gert við barúnsdótturina. Allar barnfóstrur, kjaftakerlingar, frændur og frændkonur gengu í skrokk á barúninum og héldu hrókaræður út af því, hversu dæmalaus mannkosta-kvenprýðissómagæddur kvenmaður dóttir hans væri, enda var þetta fólk líklegast til að vita hvað það söng. Tvær eldgamlar og óspjallaðar meyjar ólu upp stúlkuna; þær voru skyldar henni, og höfðu verið nokkur ár við einhverja þjóðverska hirð; kunnu þær því til alls þess, sem útheimtist til að uppala unga mey, og voru sprenglærðar í öllu námi til munns og handa.

Þetta sannaðist og á ungfrúnni litlu; hún varð að hreinu undri í höndunum á frændkonunum sínum; átján vetra kunni hún allskonar saum, krossaum og pellsaum og blómstursaum, þræðing og fastasting og allskonar glitvefnað; hún óf og saumaði helgra manna sögur í dúka og dýrindis lín, og það var svo himinljómandi fallegt, að mönnum lá við að hníga niður af að horfa á það. Hún var líka allvel læs, og svo skrifaði hún ekki öðruvísi en svo, að hún sveiflaði pennanum einu sinni í hring, og þá var nafnið hennar komið í einu vetfangi eins og stjörnuhrap á pappírinn. Hún dansaði svo dillandi, að enginn gat setið kyrr, sem á horfði, og svo listilega lék hún simfón og salteríum, að allt varð á rjúkandi ferð og flugi, og var hennar hljóðfærasláttur engu síður en faldafeykir eða rammislagur.

Eldgömlu meyjarnar, frændkonur hennar, höfðu verið nokkuð tvíræðar á æskuárum sínum, og var enginn sá hlutur til í Amors ríki, sem þær ekki þekktu eins og hendurnar á sér. Þess háttar kvenfólk er ágætlega lagað til að uppala ungar stúlkur og varðveita þær fyrir tálsnörum heimsins; hinn árvakrasti skólameistari kemst ekki í hálfkvisti við gamlan daðurkvenmann í því að uppala meybörn. Ungfrúin fékk heldur aldrei að stíga sínum fæti út fyrir hallargarðinn, nema önnur hvor frændkonan væri með henni. Prédikanir um heilagleik og skírlífi suðuðu alltaf fyrir eyrunum á henni, og því var nú svo sem ekki gleymt, hvað óstöðugir karlmennirnir væru og fláir og falskir; hún mátti ekki líta við, þó hinn fegursti riddari lægi í andarslitrunum af ástarbruna fyrir fótum henni, nema með þeirra leyfi.

Það sá líka á ungfrúnni, að það voru engir klaufar, sem höfðu fjallað um hana. Hún var fyrirmynd allra meyja í námfýsi og hlýðni. Margar meyjar stóðu í ítrustum æskublóma og kveiktu ástir í ungum hjörtum, en þær voru vegnar og margvegnar og léttar fundnar um síðir; þær fölnuðu og gleymdust. En hún blómgaðist eins og yndisleg rósa, fögur og friðarblíð, og frændkonurnar hrósuðu sér af henni sem von var.

Barúninn var raunar ekki auðugur að börnum, þótt hann ætti þessa einu dóttur, en hann var því auðugri að fátækum frændum. Þessir frændur unnu barúninum hugástum, og fundu sér allt til, til þess að koma til hans, honum til gleði og ánægju, en sjálfum sér til saðnings og svölunar. Allir fæðingardagar voru reiknaðir upp, allra þeirra, sem í ætt við barúninn voru; þar voru haldnar lukkuóska-veislur fyrir kalk-hvítum og kistulögðum langafa- langafalangafa langöfum og fyrir öllum ömmum og þremenningum og fjórmenningum, fyrir öllum, sem voru allt að öðrum og þúsundasta af barúnsins háloflegu ætt, og sá ættbálkur var mikill. Voru því veislur fremur tíðar í höllinni, því fæðingardagarnir urðu margir nokkuð; luku allir barúnsins frændur upp um það einum munni, að enginn væri hans jafningi í heiminum, einkum ef steikin var vel brúnelduð og vínið gott; það kalla sumir menn matarást.

Barúninn var dvergur að vexti og viti; hann var nokkuð svipaður tveggja þumlunga nagla, lítill, beinvaxinn og stinnur, en enginn vissi allt það, sem komið var saman í þeim naglahausi. Hann grunaði heldur en ekki, að hann mundi vera fremstur í frægra sveit, þegar afspringur hins vopnfræga veldisaðals leiftraði um hallarsalina, og hann sjálfur þar í miðjunni eins og sól. Þá streymdi út úr höfði hans óviðjafnanleg gleði og viska; hann sagði frá öllum tröllasögum og draugasögum, vígum og vopnaburði, sem gerst hafði um allan þann aldanna óraveg, sem ætt hans hafði blómgvast á Þjóðverjalandi. Þar sátu ættingjarnir í kringum ættarjöfurinn og gleyptu orð hans eins og dauðþyrstur maður svelgur vatnsdrykk á eyðimörku.

Nú er þangað að snúa sögunni, að mikil hátíð var fyrir höndum, er átti að halda í höllinni: Það var von á unnusta ungfrúarinnar. Svo var mál með vexti, að barúninn hafði gert samning við lendan mann á Bæjaralandi um að tengja saman báðar ættirnar með því að láta börn sín eigast. Sonurinn og dóttirin voru þannig fest hvort öðru af feðrunum, og höfðu varla heyrt hvort annars getið, enn síður sést; var nú búið að ákveða brúðkaupsdaginn og skipa öllu niður. Brúðguminn var greifi af Háborg; hafði hann verið boðaður heim úr hernaði til þess að sækja unnustuna; var hann nú á leiðinni, en hafði tafist í borg einni og ritað barúninum þaðan, að hann mundi koma á ákveðnum degi og stund. Barúninn hafði aldrei séð greifann.

Nú var ekki við því að búast, að kyrrt væri í höllinni, þar sem allir bjuggust við brúðgumanum. Brúðurin var skrýdd pelli og purpura, og þær gömlu gengu fram eins og djáknar í berserksgangi skrýða klerk með dugnaði og sóma; þar lágu á gólfinu hrúgur af upphlutum, pilsum og pellisettum mittislindum, silkisvuntum og gullsaumuðum stígvélum úr flaueli og fegursta skinni, þar lágu hrúgur og háfjaðraðir faldar, silfurglitraðir motrar og hanskar, sem fremur mundu hæfa englum en mönnum; þar á borðunum voru stokkar með kingum og kransflúri, baugum og brísingamenjum, öllu af glóanda gulli og sægljáu silfri, sem allt var sett dýrum steinum, karbúnkúlus og kalsedón, safírum og smaragðum og margskonar prýði. Úr þessu öllu hafði nú ungfrúin kosið sér það, sem henni leist best á, og var nú búin að skrýðast; óróinn, sem á henni var, er hún skyldi nú eiga að sjá þann mann í fyrsta sinn, sem hún átti að njóta, gerði hana enn fegri og sveipaði hana dýrðarsætu yndi.

Barúninn var heldur ekki iðjulaus; hann brokkaði um alla höllina eins og gaddakringla, og var allur á þönum og hjólum. Hann kallaði á þjónana, sem voru að verki sínu, hélt fyrir þeim skarpa áminningarræðu um að vera vel að, og tafði þá frá vinnunni með prédikunum.

Nú var von á greifasyninum á hverri stundu; það var búið að slátra alikálfi, sem var undan nafnfrægum graðungi, sem átti jafnvel stærri ættbálk en barúninn sjálfur; veiðimenn höfðu farið út í skóg að veiða dýr og fugla, svo ekki var kvikt eftir á mörkinni; eldhúsið var fullt af drepnum dýrum, og Rínarvínið var farið að hvítfyssa út úr opnuðum ámunum, en brimlöðrandi bjórboðarnir hræddu allt fólkið með hvumleiðum dynkjum.

Er svo eigi þar um að orðlengja, að allt var tilbúið; menn vonuðust eftir brúðgumanum, því hinn ákveðni tími var kominn; en brúðguminn kom ekki. Og tíminn leið, og brúðguminn kom ekki að heldur.

Nú var komið sólarlag - kvöldgeislarnir leiftruðu gullrauðir á iðgrænum laufum skógarrunnanna, og sveipuðu fjallatindana purpuralegum ljóma, en það tjáði ekki, náttúrublíðan gat ekki komið brúðgumanum til þess að ríða heim í hlaðið barúnsins. Barúninn fór upp á hæsta tind hallarinnar og sat þar eins og hrafn á hjallburst, til þess að vita hvort hann ekki sæi til tengdasonarins, sem átti að verða. Kvöldgusturinn bar hornaþyt utan úr dalnum og upp að höllinni - riddaraflokkur þeysti upp að fjallshlíðinni, en það var ekki brúðguminn; það sneri úr leið og fór fram hjá. Sólin hvarf fyrir fjallabrúnina, og leðurblökurnar komu fram og flögruðu til og frá í rökkrinu.

Þannig stóð nú á í barúnshöllinni, en um sama leyti urðu aðrir atburðir úti á Frekavangi.

Greifinn af Háborg var á leiðinni til brúðarinnar, og mátti fremur segja hann léti sér hægt, sem ekki var furða, því hann þekkti ekki unnustuna, og gilti einu hvort hann var giftur eða ógiftur; hann fór einungis að vilja foreldranna, og hugsaði hvorki um brúði né bú. Í borg nokkurri, er Trenta heitir, hitti hann vin sinn, er Hermann hét; höfðu þeir barist saman í orustum og dugað hvor öðrum vel, því að báðir voru hinir bestu riddarar. Faðir Hermanns bjó í riddaraborg einni eigi alllangt frá barúninum; en þeir voru fjendur fyrir þá sök, að forfeður þeirra höfðu elt grátt silfur fyrir mörgum hundruðum ára, en barúninn sættist aldrei við nokkurn mann, ef svo stóð á. Höfðu þeir nóg hvor öðrum frá að segja, þeir Hermann, því að margt hafði á dagana drifið síðan þeir sáust seinast; þar sagði Hermann frá höggnum skjöldum og klofnum hjálmum, og hversu hann hefði margan berserksbúk brynju flett og frægð getið; en greifinn sagði honum aftur frá að nú ætti hann að eignast meyju, er hann aldrei hefði séð; kvaðst hann samt hyggja gott til ráðahagsins, því mikið væri af konuefninu látið.

Svo stóð á, að Hermann átti samleið við greifann um hríð, og skyldu þeir skilja fyrir neðan barúnshöllina; riðu þeir því saman út úr borginni um morguninn; en greifinn skipaði svo fyrir, að fylgdarmenn sínir skyldu leggja á stað um kvöldið, og ná þeim daginn eftir.

Voru riddararnir nú komnir í fjalllendið á Frekavangi og riðu um þröngt dalverpi, er lukt var fjöllum beggja megin; þar uxu laufmiklar eikur í bjargskorunum, og mátti því eigi gjörla greina hvað þar kynni að búa. En um þær mundir voru vegir á Þjóðverjalandi eigi sem tryggastir, og síst í afdölum, fyrir því, að stroknir hermenn og riddarasveinar lögðust mjög út og sátu fyrir ferðamönnum. Varð það nú til tíðinda þar sem víða annarsstaðar, að stigamenn stukku upp úr leynum sínum og sóttu að riddurunum, en þeir vörðust drengilega, þótt þeir væru tveir einir, og drápu stigamenn drjúgum. En með því að engi má við margnum, þá urðu riddararnir loksins ofurliði bornir; en í sama bili komu sveinar greifans að, og þá lögðu stigamenn á flótta. Var greifinn þá særður til ólífis og fluttur til byggða. Hermann fylgdist með honum, því að hann vildi eigi við vin sinn skiljast á deyjanda degi hans; var þá hin síðasta bæn greifans, að Hermann skyldi fara til barúnsins af Láðborg og inna allt sem gerst hafði, og hví hann eigi kæmi til unnustunnar. En fyrir þá sök, að bæn deyjandi manns þykir merkari og meiri öðrum bænum, þá hét Hermann því, er hann beiddist, enda þótt sá kali væri á milli ættboganna, sem fyrr var getið. Var það og mikill ábyrgðarhluti að takast slíkan boðskap á hendur, er eyða skyldi öllum fögrum vonum ókomins yndis og fagnaðar. En Hermann var djarfur maður og fýsti mjög eftir riddaraskap og undarlegum ævintýrum; var og eigi örgrannt, að hann hefði heyrt mærinnar getið, er fáir fengu að sjá, en sögð var flestra fyrirmynd. Síðan andaðist greifinn, en Hermann ráðstafaði öllu því, er útförina snerti, að hún yrði gerð svo sem greifanum sómdi, en sjálfur hélt hann af stað.

Nú er að segja frá barúninum, að hann fór aftur ofan af hallarturninum, og var ófrýnilegur í bragði, því að hvorttveggja amaði að honum, bæði það, að brúðguminn kom eigi, og hitt, að kjötið brann á glóðarpönnunum og varð hart eins og grjót. Var allt fólk barúnsins orðið svo soltið, að það engdi sig sundur og saman, en þó bar það þessa hörmung með dýrðlegri krossfestingu holdsins og furðanlegri þolinmæði. En loksins keyrði fram úr öllu lagi, og tóku magarnir til að urga og hljóða hátt fyrir sakir tómleika og fúllar föstu, og hlaut þá allt undan að láta og þeim að hlýða. Þá gaf barúninn merki til samneytis, og settust menn til borðs.

Þá kvað við lúður fyrir utan hallarhliðið, svo að drundi í salarveggjunum, en hallarvörðurinn þeytti lúður sinn aftur á móti. Barúninn skundaði út, til þess að taka á móti brúðgumanum. Var nú fellibrúnni hleypt niður yfir hallargröfina, og þar reið riddari yfir brúna og inn í hallargarðinn; sá var kurteislegur og fríður sýnum og hinn hermannlegasti; hann var fölur í andliti, og svo hafði hann snör augu, að eldur þótti úr þeim brenna; tignarleg sorg bjó á enni hans. Hann reið brúnum hesti. Það furðaði barúninn, að hann kom einn saman, og var eigi laust við að honum þætti fyrir; þótti honum það lýsa skeytingarleysi og gáleysi, að virða ekki meir en svo tign ættboganna og það eyrindi, er brúðguminn skyldi rækja. En hann hugsaði samt með sjálfum sér, að óþoli eftir brúðarfundinum mundi valda því, að hinn ungi maður kæmi þannig fylgdarlaus, því að bráð er barns lund.

Þá mælti riddarinn: “Yður mun furða á því, herra, að ég kem þannig einn og óboðinn” - lengri varð ekki ræðustúfurinn, því barúninn tók þegar fram í og jós yfir riddarann slíkum orðastraumi og dýrindis feginskveðjum, að það var líkara marargjálfri en mannamáli; lét barúninn ætíð dæluna ganga þegar hann komst höndunum undir, því að honum fannst sjálfum mikið til hinnar miklu málsnilldar og orðgnóttar, er honum var lánuð. Ræða þessi var ekki á enda fyrr en þeir voru komnir að innra salarhliði hallarinnar; þá ætlaði riddarinn að segja upp eyrindi sitt aftur, en í því bili kom kvenlýðurinn og leiddi brúðurina fram. Þá varð riddarinn orðlaus.

Önnur af frændkonum meyjarinnar hvíslaði einhverju að henni, er hún átti að segja við riddarann, en það kom fyrir ekki; mærin renndi til hans hinum bládjúpu augum, en hún gat engu orði upp komið. En eigi þurfti neina frændkonuvisku til þess að sjá, að henni leist á manninn.

Svo var áliðið kvöld, er riddarinn kom, að eigi var tími til að tala nákvæmar um ráðahaginn. Barúninn leiddi því riddarann inn í veislusalinn; þar héngu myndir gjörvalls ættbogans á veggjunum allt í kring, og yggldu sig undir bláum stálhúfum og björtum hjálmum. Þar héngu og sigurmerki og allskonar óvina auður, er forfeður barúnsins höfðu náð fyrir löngu; höggnar brynjur og brotnar burtstengur, rifnir herfánar og skerðir skildir. Þar voru og hengdir upp margir þeir hlutir, er vottuðu það, að eigi var ættboginn síður skipaður frægum veiðimönnum en góðum riddurum. Þar voru og vargagin og galtatennur, hjartarhorn og bjarnarhrammar, bogar og örvamælar; og enn voru þar allskonar vopn og herklæði. Í hvert sinn, er barúninn sá þessa salarprýði, þá barðist hans hugprúða hjarta svo, að bringan mundi sprungið hafa, ef eigi hefði verið vel um búið; en barúninn var sterkbyggður og þoldi þann hjartslátt; þá yngdust upp í huga hans öll ættbogans stríð og forn fjandskapur; sál barúnsins svall og þrútnaði af vígum og villudýrum, því hann vissi vel, að hann var hinn síðasti afspringur þessarar ættar, og fal í sér einum alla hennar fornaldar frægð og ljósan ljóma.

Leiddi barúninn riddarann þar til sætis, og hófst nú gleði með þeim, er sestir voru. En riddarinn gaf sig lítið að því; hann þagði og neytti varla neins; gáði hann einskis nema horfa á brúðurina. Við og við hvíslaði hann einhverju að henni, sem enginn heyrði nema hún ein; enda eru og kvenmannseyru viðkvæm fyrir ástarorðum, þótt eigi sé hátt kölluð. Gaman mun meyjunni hafa þótt að þessu, því hún sinnti engu nema hlusta á riddarann; er mönnum það jafn lítt kunnugt, er þeirra fór á milli, sem það, er Óðinn mælti í eyra Baldri, áður en hann var á bál borinn. Var mærin stundum rauð sem blóð, en stundum bleik sem bast; var það sólunni bjartara, að hvort var ástfangið í öðru; frændkonurnar stungu því að þeim, er næstir sátu, að óslökkvandi ástarbruni hefði kviknað í hjörtum þeirra beggja, er þau höfðu augum litist, og þann úrskurð mátti enginn vefengja, því að hann var byggður á langri reynslu og óyggjandi speki.

Sátu nú allir þar og átu og drukku og voru glaðir. Var barúninn hinn kátasti og sagði frá öllum hinum undarlegu atburðum, er gerst höfðu í ættinni; mátti þar heyra margar skemmtilegar historíur um finngálkn og flugdreka, illþýði og afturgöngur og undursamlegar þjóðir, er riddararnir höfðu unnið á og getið sér af frægð og frama. Hlýddi allt boðsfólkið á þessar sögur með alvarlegri eftirtekt; við og við kom barúninn og með snilldarlega fyndni, og þá kvað við í salnum af hlátri og gleði; tóku margir sér drjúgum neðan í því af fögnuði yfir öllu því ágæti, er þeir fengu að heyra. Varð gleðin nú smám saman almenn, og varð ættingjum barúnsins margt hnyttilegt orð á munni, þótt eigi kæmist slíkt í samjöfnuð við þann, er snjallastur var hinna snjöllu.

Riddarinn einn var undarlega alvörugefinn, og aldrei lagði hann eitt glaðvært orð í með hinum; ágerðist þessi alvara hans eftir því sem á kvöldið leið. Var það því líkast sem barúninn færðist í ásmegin, því honum hafði aldrei tekist svo upp á ævi sinni fyrr; en sál riddarans sökktist æ dýpra og dýpra í sjálfa sig; var það auðsætt, að hugur hans var annarsstaðar en að glaumi og gleði. Hann talaði einhverju hulinsmáli við meyjuna og tók hún til að verða dauf í bragði, og var eigi örgrannt að hún skylfi.

Eigi gat hjá því farið, að boðsfólkið tæki eftir þessum hlut; þótti öllum slíkt undarlegt. Hvor renndi augunum til annars, menn ypptu öxlum og hristu höfuðin, en enginn mátti skilja, hvað undir þessu mundi búa. Varð þögn mikil í höllinni, en er drykkurinn tók til að svífa á, þá glaðnaði við aftur, og voru sagðar margar undarlegar sögur; var sú hin seinasta, er barúninn sagði. Það var sagan af heljarriddaranum, er nam á burtu Leónóru hina fögru, og sagði barúninn frá henni á svo voðalegan hátt og með þeim rífandi krafti, að kvenfólkinu lá við óviti, en hárið reis á höfðum manna og stóð sitt út í hverja áttina.

Riddarinn hlustaði með athygli á þessa frásögu, og starði á barúninn á meðan á henni stóð. En er sagan var allt að því á enda, þá reisti hann sig upp smátt og smátt hærra og hærra og þegar barúninn lauk sögunni, þá stóð riddarinn kerrtur og sýndist hann barúninum eins og ógurlegur risi. Riddarinn hneigði sig fyrir boðsfólkinu og kvaddi, en allir urðu óttaslegnir, og barúninn varð forviða.

“Hverju sætir slíkt?” mælti barúninn, “nú er þegar komið undir miðnætti, og þér ætlið á brottu héðan! Hér er allt tilbúið til að taka á móti yður, og herbergi er til reiðu, ef þér viljið draga yður frá gleðinni.”

Riddarinn hristi höfuðið, og var því líkast sem dimmt sorgarský drægi yfir augu hans. “Á svalari sæng en svannabrjóstum mun ég und miðnætur mána blunda,” sagði hann.

Hjartað gekk upp í háls og ofan í læri á víxl í barúninum, þegar hann heyrði þetta andsvar riddarans. Hann tók á öllu heljarafli sínu til þess að láta ekki bera á hræðslunni, og beiddist þess aftur af riddaranum, að hann færi eigi þannig á brottu.

Riddarinn hristi höfuðið þegjandi og kvaddi aftur boðsfólkið; frændkonurnar sátu náfölar og stirðnaðar af hrellingu; mærin drap niður höfði og tárin runnu niður eftir vöngum hennar.

Barúninn fylgdi riddaranum út í hallargarðinn, þar stóð hestur riddarans og stappaði í steingólfið; tungl var í fyllingu og glóðu fáksaugun við mánageislanum eins og helstjörnur í myrkheimi. Þá nam riddarinn staðar og mælti við barúninn, en rödd hans var eins og feigðarómur úr dauðra manna gröfum: “Nú mun ég segja yður, hvað því veldur, að ég fer á brottu héðan. Ég hef heitið að koma” - . Barúninn tók fram í ræðu riddarans og mælti: “Þér getið sent annan fyrir yður.” “Það má ég eigi,” mælti riddarinn, “ég verð að koma á þessari miðnæturstundu til kirkjunnar í Trentuborg.” “Það getið þér geymt til morguns,” mælti barúninn, “komið þér nú og stígið þér á brúðarbeðinn.”

“Nei”, mælti riddarinn með dimmri röddu, “mitt hjarta byggir engin brúðarást og mitt hold mun eigi byggja brúðarsæng, því að köldum ná skal kuldi fróa og andaðan ormar örmum vefja, um miðnætti skal ég und mána blunda og brostin augu und brúnum glóa.”

Að því mæltu sté hann á bak; hesturinn þaut með hann út í náttmyrkrið eins og stormbylur, og var þegar horfinn.

Barúninn fór aftur inn og sagði frá, hvernig farið hafði með þeim. Héldu margir að þetta hefði verið forynja eða svipur dáins manns, og þá liðu tvær konur í ómegin. Loksins datt einum ættingja barúnsins í hug, að þetta mundi reyndar hafa verið brúðguminn, og hefði hann gert þetta til þess að reyna hvernig brúðurin væri, en hefði eigi litist á blikuna.

Þetta þótti barúninum allsennilegt og reiddist svo ákaflega, að við sjálft lá að hann mundi af göflum ganga og springa. Hann bölvaði og ragnaði, og var ekkert það blótsyrði og nafn hins illa fjanda til, er eigi mátti þá heyra af hans munni; hann sór við allt heilagt og við allt andskotalegt, að hann skyldi færa sifjaspillinum og föður hans hið grimmasta stríð á hendur og ausa dynjandi örvadrífu yfir alla þeirra eymdarkofa og bannsetta búka, svo sem hann tiltók. Lét barúninn þessa orrahríð ganga þar til er hann sofnaði af þreytu á stóli einum í höllinni, en hinir héldu áfram að gæða sér á mat og víni, og sváfu þeir, sem eigi komust í rúmið, þar í salnum um nóttina á milli brotinna og hruninna bikara og skaftkera, sumir á bekkjunum, en sumir á gólfinu.

Leið nú næsti dagur, og var ungfrúin illa á sig komin. Hún linnti eigi af gráti og harmatölum, og kom eigi út úr herbergi sínu. Þar var hjá henni önnur frændkona hennar, og leitaðist við að hafa ofan af fyrir henni með öllu móti. Herbergið lá á móti fögrum aldingarði, og mjög út af fyrir sig. Var nú komið undir miðnætti, og skein tunglið glatt inn um herbergisgluggann; þá var frændkonan sofnuð á hægindinu út úr langri draugasögu, er hún hafði verið að segja meyjunni, en mærin sat við gluggann og starði hugsandi á laufin í aldingarðinum, er blikuðu til og frá í tunglsgeislanum. Þá leið að eyrum henni blíður og sætur eimur upp úr aldingarðinum og færðist æ nær og nær; það var ástarkvæði og sungið með fagurri röddu. Mærin stóð upp og lauk upp glugganum; hún gat þá að líta, hvar maður stóð á milli aldintrjánna; tunglið skein á andlit honum, en mærin þekkti hann þegar, því glöggt er ástaraugað. Þá kvað við ógurlegt hljóð að baki hennar, og leit hún við; það var frændkonan, hún hafði vaknað og þekkt, að þar var kominn brúðardraugurinn; féll hún þegar í ómegin. Þegar mærin leit aftur út um gluggann, þá var maðurinn horfinn. Voru nú orðin hausavíxl á hlutunum, því sú, sem nú þurfti liðsinnis, var frændkonan; hún var nær dauða en lífi af ofboði út af því að hún hafði séð drauginn, en meyjunni var batnað, því að henni var hugfró að sýninni. Frændkonan var sem vitstola og vildi þegar flytja allt á brott úr herberginu og búa annarsstaðar í höllinni, en ungfrúin stóð fastara á því en fótunum, að hún sjálf skyldi vera þar kyrr eftir. Fór svo, að frændkonan hafði sig á burtu úr meyjarherberginu og svaf annarsstaðar, en meyjan var kyrr eftir; lagði hún ríkt á við frændkonu sína að segja ekki frá þessum hlut, svo allt yrði ekki í uppnámi. Liðu nú þannig nokkrir dagar, og var allt kyrrt.

Frændkonurnar voru vanar því, að vitja meyjarinnar á degi hverjum við og við. En einhvern dag, er þær komu í herbergið, var ungfrúin horfin. Herbergið var tómt, enginn hafði legið í rúminu um nóttina, glugginn var opinn. Var frændkonan nú laus við þagnarheitið er hún hafði gefið meyjunni; hún óð grenjandi um alla höllina og hélt við æði; kvað hún meyjuna komna í trölla hendur eða drauga. Var þessu trúað, með því að tveir skutilsveinar kváðust hafa heyrt hófaglym um nóttina, eins og hart hefði verið riðið á steingólfunum hallargarðsins; kom öllum saman um að þetta mundi hafa verið draugurinn, og hefði hann numið meyjuna á brottu. Var barúninn aumlega staddur, og kom engu orði upp fyrir harmi; en eigi hélt hann kyrru fyrir; lét hann alla hervæðast sem vettlingi gátu valdið, voru þar teknar fram ryðgaðar brynjur og skörðóttir brandar, oddbrotin spjót og höggnir skildir, og bjóst nú hver sem betur gat til að leita meyjarinnar.

Var þetta hin fyrsta herferð, er barúninn hafði fyrir höndum átt á ævi sinni, enda var eigi smátt fyrir stafni, þar sem herja átti á óvættir annars heims og beita líkamlegum vopnum móti andlegu ofurefli illra fjanda. Herklæddist barúninn nú skjótlega og varð sem ungur í annað sinn, hann fór í þrefalda hringabrynju, er honum var hæfileg; hjálm setti hann á höfuð sér og spennti svo fast, að þrútnuðu kinnarnar; þá spennti hann gullna riddaraspora á hina fimu fætur, og glömruðu stálgaddarnir, er hann sté niður; sverð tók hann í hönd sér, það var ákaflega mikið og ryðfrakki að sjá; hann sló sverðinu niður við stein og varð það þegar bjart sem silfur. Þá hljóp barúninn á bak herfáki sínum, sá hestur var kominn af Rispa þeim, er Heimir átti og bróðir var Skemmings, er átti Víðga Velentsson. Var barúninn ætíð vanur að lesa hátt ættbálk hestsins upp af rollu mikilli í hvert sinn, er hann var kominn í söðulinn, til þess að láta vita að hann riði ekki neinu flókatrippi eða stóðmeri, og las hann nú einnig upp ættarrolluna.

En er barúninn var nýbúinn með lesturinn, þá dundi hallarbrúin; riðu þar maður og kona heim í hlaðið. Kvenmaðurinn stökk af baki og að barúninum og lyfti blæjunni frá andliti sér. Var barúninn þá eigi seinn að stökkva ofan og fleygja sér í faðm kvenmannsins, því þar var dóttir hans komin og sá, er hún unni einum manna og hafði gefið hjarta og hönd. Riddarinn fór af baki og gekk til barúnsins og sagði til nafns síns. Var hann þá mjög ólíkur því, er hann sat að brúðkaupinu fyrir skemmstu, því að nú reið hann svanhvítum fáki, er klæddur var gullsaumuðum purpura, en sjálfur var hann prýddur hinum dýrðlegasta riddaraskrúða, hann hafði gylltan hjálm á höfði og hvítar fjaðrir af upp; hann var í rauðri skarlatsskikkju gullsaumaðri og gyrður silfurbelti, hékk þar fésjóður digur við beltið; sverð hékk við hlið hans, og hjöltun af mánakristalli, sá steinn er á Indíalandi. Urðu allir frá sér numdir af þessum atvikum.

Hóf Hermann þar sögu sína, er hann fann greifann af Háborg, og innti frá öllu því, er gerst hafði, og hve vandasamt eyrindi hann hefði á hendur tekist fyrir vin sinn á dánardegi hans, er var það, að boða lát hans og snúa fögnuði margra manna í hryggð og harma. Þá sagði hann frá því, er hann mátti eigi mæla barúninn fyrir sakir ákefðar hans, þar sem barúninn hélt hann vera tengdason sinn og mátti eigi snúast frá þeirri trú; þá sagði hann þar næst, að hann hefði séð meyjuna og frá því augnabliki engu sinnt nema því eina að ná henni sér til handa. Þá fór hann mörgum og snjöllum orðum um hinn forna fjandskap, er verið hafði á millum ættar sinnar og barúnsættarinnar, kvaðst hann hafa séð það í hendi sér, að eigi mundi tjá að fara lögmæta leið, ef hann hefði átt að fá meyjarinnar, og því hefði hann numið hana á brottu þannig, með því hennar ást til sín eigi væri minni en hans ást til hennar; kvaðst hann nú vera giftur henni, og hefðu þau nú sofið saman þrjár nætur.

Barúninn var agndofa, því nú voru allar hinar gullvægu lífsreglur hans fótum troðnar og einskis virtar. Hann, sem aldrei sættist við nokkurn ættaróvin sinn, hann, sem eigi þoldi að út af aðallegum reglum væri brugðið hið minnsta - hann hlaut nú að beygja sig fyrir því sem orðið var og eigi varð aftur tekið. Hafði dóttir hans þannig verið frá honum numin að honum fornspurðum, og var nú orðin eiginkona þess manns, er hann mundi aldrei hafa hana gefið. En með því að nú varð svo að vera, og barúninum sýndist tengdasonurinn fremur líkur manni en draugi, þá lét hann sér það vel líka, og gengu þau öll inn í höllina; var því næst sent eftir föður Hermanns riddara og stofnuð dýrðleg veisla; sættist barúninn þar heilum sáttum við hann fyrir hönd alls ættbogans, og var nú drukkið festaröl af alvöru í ósviknum veigum; þar voru bornir fram hinir dýrustu réttir, er veröldin kunni að veita: pipraðir páfuglar og allskonar alifuglar, drukkið píment og klarent, sungið simfon og salteríum, organ troðin og bumbur barðar og var allt sem á þræði léki; stóð sú veisla í heilan mánuð og luku allir upp einum munni, að þar hefði ástin getið af sér þrennt gott: eytt illum fjandskap, samtengt mann og mey, og veitt þann snæðing, er uppi mun vera meðan öld lifir, og ljúkum vér svo þessari sögu.