Það er soldið fyndið að hugsa til þess núna, en þegar þau kynntust fyrst tók hann eiginlega ekkert eftir henni; hún var bara þarna með vinkonum sínum að kaupa föt eða eitthvað í einhverri búð. Svo fór hann að sjá hana oftar og það endaði með því að hann talaði við hana. Hún hét Lára og hafði áhuga á tónlist og læknisfræði. Svo var hún líka geðveikt sæt. Hún var…
Hún er ekki hér. Hér er ekkert. Ekkert nema vindur allavega. Vindur og hann. Af hverju er svona hvasst allt í einu? Hann reynir að líta í kringum sig, en hefur varla stjórn á hausnum á sér. Það er eins og hann sé fastur og geti bara horft í eina átt. Niður.
Þau byrjuðu saman nokkrum mánuðum seinna og það var eins og hann ætlaði að springa úr hamingju. Vinir hans tóku eftir meiri og meiri breytingu á honum eftir því sem þau voru lengur saman. Þeir reyndu eins og þeir gátu að reyna fá gamla góða gaurinn aftur; vildi hann ekki eyða kvöldunum með vinunum svona til tilbreytingar? Vildi hann ekki koma í bíó með strákunum, ha? Nei, ekki séns! Það var bara hún, hún og hún. Ekki það að þetta hafi verið einhver þráhyggja, alls ekki. Þetta var bara ást. Einföld og yndisleg ást. Þau borðuðu saman, þau sváfu saman, þau gerðu allt saman. Það er svo dásamlegt þegar hlutirnir ganga loksins upp og halda svo áfram að ganga upp. Hann hitti tengdó og þau dýrkuðu hann. Vildu allt fyrir hann gera! En svo klikkaði eitthvað. Einn daginn þurfti hún að tala við hann. Ekkert mál, tölum saman. Ekki fyrr en í kvöld samt, þau þyrftu að vera ein. Aftur, ekkert mál. Hún var svo æðisleg að hann var tilbúinn að gera allt fyrir hana. Hann kom heim til hennar um kvöldið og sá strax þegar hún opnaði útidyrahurðina að eitthvað var að…
Það er ótrúlegt hvað fólkið er lítið, hugsar hann. Eins og litlir Lego-kallar. Bílarnir eins og Matchbox-bílar. Hann hlær. Og vindurinn, alltaf þessi vindur. Hann er farinn að koma í hviðum núna. Það er einhver skrítin lykt í loftinu. Svona eins og bland af mengun og mat. Skrítin lykt. Það kemur önnur snörp vindhviða og lyktin breytist. Nú er hún eins og ilmvatn. Ilmvatnið hennar. Hafði hún ekki verið með ilmvatn eftir bíóferðina? Jú, var það ekki?
Hún horfði í augun á honum og sagðist elska hann. Þetta var í fyrsta skiptið sem hún hafði sagt það við hann og um leið og hún hafði sleppt orðunum fylltist hann að innan af gleði. Hann tosaði hana til sín og faðmaði hana. Ég elska þig líka, sagði hann og kyssti hana. Þetta var fullkomið augnablik. Alveg eins og í bíómynd. Bíó-ástar-augnablik. Lífið var bíómynd og þau voru kvikmyndastjörnurnar. Hann horfði í augun á henni og hún horfði á móti, brosandi. Hann sagði orðin aftur, svona eins og til að athuga hvort þau væru eins sæt á bragðið og þegar hann sagði þau fyrst, og faðmaði hana þéttar að sér. Tunglið skein og nóttin var ung. Þetta var fullkomið. Algerlega fullkomið. Alveg þangað til hún kom til dyra. Þangað til hann sá augun í henni. Hún hafði verið að gráta. Það var í gærkvöldi…
Hátt. Kalt. Hátt. Kalt. Hann var svangur, þreyttur og pirraður! Af hverju geta hlutir ekki bara gengið eins og hann vill láta þá ganga? Þá yrði allt miklu einfaldara. Honum finnst eins og gærkvöldið hefði verið fyrir 50 árum síðan, nóttin hefði verið önnur 50 ár að líða og hann sjálfur kominn vel uppí annað hundraðið. Það hafði allt verið í lagi! Af hverju hlustaði hún ekki á hann? Hann hafði ekki verið að ljúga! Andskotinn hafi það, hann sagði sannleikann!
Hún bauð honum inn og uppí herbergi. Tengdó voru niðrí stofu í góðum fíling. Sagði hann ekki allt gott? Jújú, allt í gúddí og svona. Flott er! Þau voru ágæt. Hann lokaði á eftir þeim inní herbergið hennar. Hún settist á rúmið og leit strax undan. Hvað var að? Hann þoldi ekki, gat ekki horft upp á hana leiða. Hún sagði ekkert fyrst og það var ekki fyrr en hann spurði aftur að hún leit upp. Augun tindruðu, hálffull af tárum og hún leit aftur undan. Hvað er að? Þögn. Svo; Þetta gengur ekki lengur. Við verðum að hætta þessu. Þögn. Hann var orðlaus. Hvað átti hann að segja? Nei? OK? Að lokum tókst honum að stynja út litlu forviða ha-i. Sambönd snúast um traust, sagði hún og leit á hann. Ef ég get ekki treyst þér get ég ekki verið með þér. Hún var byrjuð að gráta. Hann spurði hvað væri í gangi, hvað hefði gerst. Þær sáu þig með henni! Þær sáu hvað þú varst að gera við hana! Hann reyndi að segja eitthvað, reyndi að útskýra að hann hefði ekki gert neitt, hann vissi ekki einu sinni hver þessi stelpa var, að vinkonur hennar hlytu að hafa séð einhverja vitleysu, en hún hlustaði ekki á neitt. Hann reyndi að segja henni að hann elskaði hana, en hún þaggaði niður í honum áður en hann gat klárað setninguna. Það var síðasti dropinn. Hann stóð upp. Hún sagði honum að bíða og hlusta á sig, en hann heyrði ekki neitt. Hún hljóp út á eftir honum og hrópaði eitthvað, kannski höfðu vinkonurnar sagt henni eitthvað fleira um hann og þessa stelpu sem hann hafði aldrei hitt, kannski bíddu, hverjum var ekki andskotans sama? Hann heyrði ekki neitt, sá ekki neitt, skildi ekki neitt. Hafði ekki allt verið í lagi? Allt í gúddí og svona eins og maðurinn sagði. Hefði nú haldið það. Þetta var eins og í lélegri bíómynd. Hvað hafði gerst? Hvað klikkaði? Af hverju…
…er svona ógeðslega kalt? Æ, já. Hann er búinn að fara úr jakkanum og er bara á bol og buxum. Hvenær fór hann úr skónum? Hann man það ekki og er alveg sama. Örugglega einhverntímann í nótt. Hann er búinn að hlaupa um í alla nótt og hugsa um hvað hann eigi nú að gera. Það sem líf hans snýst um hefur gefið hann upp á bátinn. Ástin, dúdúdú! Djöfull er járn kalt í roki. Hann stendur upp á handriðinu og horfir á Lego-fólkið fyrir neðan. Á hann að stökkva? Er það ekki langeinfaldast? Það yrði bara sárt í smástund og svo ekkert meira. Allur sársauki, allar minningar, allt myndi hverfa og þá yrði hann ekki leiður lengur. Þá myndi allt lagast. Er það ekki fín byrjun á deginum? Að stökkva eða ekki stökkva fram af brú? Það er efinn, eins og einhver hefði kannski orðað það.
Hann labbaði niður götuna hennar, út næstu götu, niður næstu. Hann vildi bara labba, vildi bara komast burt. Ef hann myndi stoppa myndi hann springa. Hann varð að fá útrás. Hann gaf í og var farinn að hlaupa. Annar skórinn datt af honum, en hann tók ekki eftir því. Hann hljóp alla nóttina og þegar fór að glitta í sólina stoppaði hann loksins. Hann horfði á hana koma upp. Hann stóð móður, en samt fullur af ró. Hann var löðursveittur, búinn að týna hinum skónum, en það skipti engu máli. Það var bara eitt sem skipti máli. Hann glotti. Hann var nefnilega búinn að fatta hvað hann ætlaði að gera. Hvað hann ætlaði, nei ekki hvað hann ætlaði, hvað hann þyrfti að gera til að fá útrás. Hann langaði alltaf að athuga hvernig það væri að fljúga. Það eina sem skipti máli var það sem stóð beint fyrir neðan sólina sem var næstum alveg komin upp. Hún blasti við, há og glæsileg í nýfæddri sólinni; Brúin…
Hann horfir í kringum sig og lætur vindinn blása um hárið í síðasta sinn. Hann á eftir að sakna vindsins. Hann er eini vinur hans núna. Sá eini sem tekur eftir honum. Sá eini sem hlustar. Hann beygir sig í hnjánum, eins gott að reyna að drífa sem lengst fyrst að maður er að þessu á annað borð, og býr sig undir að stökkva. Hann sýgur upp í nefið, svona eins og í kveðjuskyni og finnur um leið ilmvatnslyktina. Ilmvatnslyktina hennar. Hann sér hana fyrir sér brosa og allt í einu er eins og hann hrökkvi í gang! Er ekki allt í lagi með hann? Er hann virkilega að fara að drepa sig? Þegar hann er ekki einu sinni búinn að tala almennilega við hana? Ekki séns! Hann réttir úr hnjánum og horfir á götuna fyrir neðan sig. Shit, það munaði engu, hugsar hann. Um leið og hann fattar hvað hafði næstum gerst fer maginn á honum allur í hnút og honum verður allt í einu ískalt. En það er allt í lagi. Hann brosir. Hann er nefnilega búinn að fatta hvað hann ætlar að gera og í þetta skiptið er það ekkert svo vitlaust! Hann ætlar að fara heim til Láru og tala við hana. Og ef það virkar ekki gefur hann henni blóm eða eitthvað. Og ef það virkar ekki… ja, þá reynir hann bara aftur og aftur þangað til hún sér að hann sé málið, hann sé da man, hún er hans og hann hennar og þannig eigi það alltaf að vera…
Það er orðið hvassara en áðan. Vindhviðurnar eru farnar að koma í gusum og ein þannig skellur á bakið á honum þar sem hann stendur á handriðsbrúninni og býr sig undir að snúa sér við. Snúa sér við til að stíga niður og reyna aftur. Það er eins og hann hafði verið kýldur. Augun ætla út úr hausnum á honum þegar hann fattar hvað er að gerast. Hann gefur frá sér lítið úff áður en hann fýkur fram af handriðinu. Hann reynir að grípa í eitthvað, fugl, brúna, hvað sem er, en í lausu lofti er agalega fátt að grípa í. Lego-fólkið og Matchbox-bílarnir eru farnir að stækka hættulega hratt og hann neitar að trúa því að þetta sé að gerast. Hnúturinn sem hann var með í maganum er orðinn stærri en áðan og honum finnst eins og hann sé að springa. Gatan nálgast hraðar og hraðar og þetta er svo ekki sanngjarnt. Af hverju er þetta að gerast? Af hverju kemur enginn að bjarga honum? Af hverju kemur enginn og vekur hann og segir honum að síðustu tveir dagar hafi bara verið martröð? Af hverju í andskotanum hjálpar honum enginn? Vindurinn er hættur að blása og er farinn að öskra. Hann reynir að halda fyrir eyrun, hann vill ekki heyra í vindinum, en getur ekki hreyft hendurnar. Hann lokar augunum og reynir að hugsa um eitthvað allt annað en það sem er að fara að gerast. Hann vill ekki hugsa um dauðann. Hann vill hugsa um lífið. Svo hann hugsar um hana. Um Láru. Hann man eftir Láru þegar hún sagðist elska hann. Hún elskaði hann! Þau áttu þó það. Hún var svo falleg og augun hennar skinu í tunglsljósinu. Það var sko fullkomið augnablik! Alveg eins og í bíómynd. Hann elskaði hana og hún elskaði hann. Það hafði bara verið þau tvö og allur heimurinn eins og hann lagði sig mátti eiga sig! Það skipti ekkert máli nema þau og tungsljósið. Þetta hafði verið svo dásamlegt af því að hún elskaði han…
Hann er brosandi þegar hann lendir með höfuðið á undan á gangstéttinni. Höfuðkúpan er það fyrsta sem brotnar, hálsinn fylgir strax á eftir. Hann deyr samstundis.
Um kvöldið sjáum við dökkhærða stelpu standa við handriðið þar sem hann stóð og mundi. Mundi eftir henni. Augun eru full af tárum. Hún heldur á rós í annarri hendinni og ljósmynd í hinni. Hún lyktar af rósinni, kyssir hana og hendir henni svo fram af brúnni. Það er hvasst, hefur reyndar verið það síðustu daga, og rósina ber aðeins af leið. Hún endar að lokum undir brúnni. Stelpan horfir á eftir rósinni og ræður á endanum ekki við sig. Hún er búin að halda þessu inní sér síðan pabbi hennar vakti hana í morgun og sagði henni að setjast upp, svolítið hræðilegt hafði gerst. Hún leggst í götuna og ber eins fast og hún getur í hart malbikið. Hárið flaksar í vindinum. Það fer uppí hana, inní augun á henni, yfir andlitið á henni. Alltaf meira og meira. Á milli ekkasoganna öskrar hún nafnið hans út í myrkrið.
Þetta er mjög dramatískt augnablik – Rósin, stelpan, brúin og vindurinn.
Alveg eins og í bíómynd…
Byrjaði í Berlín og klárað á Íslandi, vorið 2003
"