Sparnaður
Smásaga eftir Örn H. Bjarnason
Trabantbíll, það var draumurinn. Ef guð lofaði ætluðu þau hjónin að festa kaup á einum slíkum að vori. En til þess að það gæti orðið að veruleika urðu þau að leggja hart að sér og spara. Það höfðu þau líka gert. Dabbi hafði dregið í við sig um einn og annan óþarfa, var til að mynda kominn ofan í tíu sígarettur á dag og strætisvagna notaði hann ekki nema heim á kvöldin.
“Þú hefur bara gott af því að liðka þig,” sagði konan þá sjaldan hann reyndi að merja út aukamiða í vagninn.
Um tíma hafði hún reynt að koma honum yfir í neftóbak og beitt fyrir sig rökum upp úr lærðum, erlendum tímaritum.
“Sígarettur eru lífshættulegar,” hafði hún sagt, en hann hafði varist dyggilega.
“Já, en neftóbak sogast upp í heila.”
“Hvaða heila?” kom þá.
Líf þeirra var að sönnu heldur viðburðasnautt og ekki jók fæðan á tilbreytinguna, fiskur og kartöflur meginuppistaðan, en munaðarvarning sáu þau hjónin ekki nema í búðargluggum og litu þá undan.
“Eigum við ekki að hafa kjöt annan hvern sunnudag?” hafði Dabbi sagt skömmu eftir að þessi Trabantbíll kom til sögunnar, en fengið þvert nei. “Bara hrossakjöt eða belju?”
“Nei,” hafði konan sagt, “þú ert nógu andskoti feitur og luralegur.”
Þetta píslarvætti hafði fært þeim hjónum nokkra innistæðu í banka og stundum á kvöldin eftir að þau voru háttuð, sótti Dabbi bankabókina undan rúmdýnunni. Þau lögðu saman tölurnar í henni, töldu rétt að ganga úr skugga um, að þau í bankanum hefðu ekki gert neina skyssu. Á þessum augnablikum fundu þau svo glöggt, að þau elskuðu hvort annað. Það var helst eftir gengisfellingar, að skyggði á hamingju þeirra og ást. Í eitt skiptið hafði konunni algjörlega ofboðið.
“Stjórnmálamenn eru fífl,” hafði hún sagt, en strax og hún var búin að jafna sig, tók hún orð sín aftur, sagði að þetta væru góðir menn, sem gerðu áreiðanlega sitt besta. Þeir væru bara ekki duglegri í vinnunni sinni en þetta.
“Þjóðin er ung,” hafði Dabbi sagt, “þeir eru að æfa sig manna greyin.”
Svo var það eitt kvöld, búið að svæfa börnin og þau hjónin sátu inni í stofu og létu fara vel um sig. Það var komið haust og septemberliljan í gluggakistunni að springa út. Dabbi var að reykja síðustu sígarettu dagsins, en konan að lesa í bók. Hann sogaði reykinn djúpt ofan í sig og reyndi að fá út úr hverjum smók þó nokkuð meira en sanngjarnt var að ætlast til. Í gegnum bláan reykjarmökkinn virti hann fyrir sér konuna sína og eins og svo oft áður dáðist hann að þessari manneskju, lestrarfýsn hennar og hvernig hún svona vel gefin og fróð um marga hluti, gat verið gift réttum og sléttum lagermanni eins og honum. Það var ekki einasta að hún hefði gagnfræðapróf og þroski hennar numið staðar þar. Nei, ó-nei. Hún var stöðugt að mennta sig, las allt sem hún náði í, ekki aðeins bækur, heldur bókstaflega allt, leiðarvísa utan á pökkum og dósum, ef ekki var annað við hendina. Jafnvel Borgarbókasafnið var ekki nógu viðamikið, til þess að seðja þessa hungruðu sál. Hún spændi í sig hvern rekkann af öðrum og kvartaði undan því, að þeir á safninu væru ekki nógu ötulir að útvega bækur.
En með öðrum orðum, þau sátu þarna og létu sig hafa það gott.
“Mér var að detta svolítið í hug,” sagði konan og lagði frá sér bókina. Dabbi hrökk í vörn. Í áralöngu hjónabandi hafði læðst inn hjá honum nokkur tortryggni varðandi hugdettur hennar.
“Hvað segirðu um að við leigjum út stofuna?” spurði hún.
“Þessa stofu?” sagði Dabbi undrandi og benti ofan í gólfteppið.
“Já, vitaskuld,” sagði hún og það brá fyrir óþolinmæði í röddinni.
“Hvar eigum við þá að vera?” spurði hann.
“Nú en í svefnherberginu eða frammi í eldhúsi,” sagði hún og lét ekki fipa sig. Dabbi var að vísu fégráðugur og bankabókin honum ekki síður kær en henni. En betri stofan…nei það var einum of langt gengið.
“Hvað um húsgögnin?” sagði hann.
“Leigjum þau með og tökum inn góðan pening,” svaraði hún. Í svip hennar var kominn óstöðvandi þungi og krónurnar dönsuðu í augunum á henni og það var sérkennilegur glampi í þessum augum. “Eldhúsinnrétting úr harðviði,” sagði þessi glampi. “Ekki bara Trabantbíll, nei eldhúsinnrétting úr harðviði, mósaik á baðið, allt tipptopp og fínna en hjá hinu fólkinu í blokkinni.”
“Já, en frímerkjasafnið mitt?” tuldraði Dabbi.
“Ég skal rýma nærbuxnaskúffuna,” sagði konan, “þú getur haft það þar.”
Sígarettan var nú farin að brenna hann í fingurinn og hann fleygði henni í öskubakka. Honum varð hugsað til skapsmuna konu sinnar, þessa síkvika náttúruafls, sem átti það til að ríða eins og holskefla yfir þetta heimili. Hvert átti hann að flýja með sængina sína, þegar hún geisaði og svefnherbergisóeirðir næðu hámarki og stofan teppt? Ekki svo að skilja að konan væri eitthvert óargadýr, en þegar hún geisaði var hún ekki beint árennileg.
“En gestir?” sagði hann og greip þar með í síðasta hálmstráið.
“Þeir eru löngu komnir úr móð,” sagði hún. Já, hún var sveimér ákveðin, hugsaði hann og svo hugsaði hann um hvað lífið er stutt og hann nennti ekki að þrátta við hana.
“Jæja, þú ræður,” sagði hann þreytulega.
“Ræð ég?…Nei, ég held nú síður. Þetta verður auðvitað að vera ákvörðun okkar beggja.”
“Þá það.”
“Vitaskuld. Það fer aldrei vel ef annar aðilinn kúgar hinn.”
“Það er rétt,” sagði Dabbi og hún gekk yfir til hans.
“Þú ert yndislegur,” sagði hún og smurði þykkt með málrómnum einum saman og það var eins og orðin kæmu upp úr sýrópskrukku. Svo sótti hún blað og blýant og hóf að lesa fyrir auglýsingu, sem átti að fara í síðdegisblaðið næsta dag. Hann skrifaði og hún þuldi. Líklega vildi hún með þessari samvinnu undirstrika það enn frekar, að þetta væri ákvörðun þeirra beggja.
Um nóttina svaf Dabbi ílla. En snemma næsta morgun fór hann með auglýsinguna á afgreiðslu blaðsins. Því næst rölti áleiðis í vinnuna. Hann var þungur á brúnina og lífið fór ótuktarlega í hann, mistur í hugsuninni rétt eins og heilinn hefði verið lagður í deigan klút.
Þegar hann kom niður á bílalager fór hann í samfestinginn, er beið hans þar sem hann hafði stigið upp úr honum kvöldið áður. Það var óðara farið að reka á eftir honum með blístri og alls kyns skarkala og þegar hann opnaði afgreiðslulúguna birtust olíukámugar lúkur, fálmandi í gegnum ósýnilegan kolsýrlingsvegg. Á hverjum morgni greip hann sama tilfinningin, honum fannst risastór margfætla vera í þann veginn að hremma sig.
“Fáðu mér kúplingsborða,” öskraði einn verkstæðismaðurinn.
“Pakkdós,” sagði annar. Allir voru þeir með tvist í hendi og stundum lömdu þeir í málmvarið afgreiðsluborðið með skiptilykli eða rörtöng, þannig að allt lék á reiðiskjálfi. Þetta var þeirra kímnigáfa og langt, langt inni í óhreinum andlitum þeirra vottaði fyrir brosi.
“Hvernig líst þér á kosningarnar í vor?” sagði gamall karl, sem var Dabba til aðstoðar á lagernum. Alltaf þetta sama dag út og dag inn.
“Hvernig líst þér á kosningarnar í vor? Hvernig líst þér á kosningarnar í vor?” Það var máttur endurtekningarinnar, sem þessi elliæra sál hafði komið sér niður á.
Þegar um hægðist reyndi Dabbi að leiða athygli gamla mannsins frá stjórnmálum. Hann talaði um Borgarfjörð, fæðingarsveit gamla mannsins, doða í sauðkindinni, nyt í kúm og hvort lömb hefðu verið vel fram gengin nú í haust. En það reyndist erfitt að halda honum við efnið. Hann var mest úti á þekju, samræðurnar kannski komnar niður í Leirársveit, en hugur gamla mannsins enn uppi í Skilamannahreppi.
Seinni partinn lét Dabbi hann telja skrúfur. Það var raunar helber óþarfi, en betra að hann tautaði einhverja talnaröð upphátt við sjálfan sig en hafa hann hangandi yfir sér.
Í fyrstu gekk þetta ágætlega og Dabbi hafði meira að segja næði til þess að lesa síðdegisblaðið, fann þar auglýsinguna, sem hann hafði farið með fyrr um daginn. En Adam var ekki lengi í paradís.
“Sagði ég 1089 eða 2089?” heyrðist innan úr skoti.
“Þegiðu,” sagði Dabbi.
“Haaaa?” sagði karlinn og brá höndinni þannig upp að eyranu að myndaðist trekt.
“Þegiðu,” endurtók Dabbi.
“Æ, ég verð víst bara að byrja upp á nýtt,” tautaði karlinn.
Á mínútunni sjö fór Dabbi úr samfestingnum og stimplaði sig út. Á leiðinni niður á Lækjartorg, fann hann hvernig kolsýrlingsvíman rann smám saman af honum. Veröldin varð nokkurn veginn óbrengluð, húsin staðnæmdust og ljósastaurarnir vissu lóðrétt upp af jafnsléttu. Hann náði sér í gott sæti framarlega í strætisvagninum og hundrað fullpínklaðar, óléttar konur hefðu ekki getað fengið hann til að hreyfa svo mikið sem aðra augnabrúnina, hvað þá að standa upp.
Þegar hann kom heim var konan í góðu skapi. Angan af medisterpylsu umlék hana og Dabbi sá rauðbeður á undirskál. Hann settist fram í eldhús og hún snarsnérist í kringum hann, rétt eins og hann væri gestur á sínu eigin heimili, gaf honum meira að segja sultutau með medisterpylsunni. Eftir matinn flýtti hún sér að þvo upp, ekkert slen eða íllgirnislegur hávaði í pottum og pönnum. Síminn hafði ekki þagnað síðan blaðið kom út, sagði hún, sumt hafði viljað leigja stofuna óséða, borga ár fyrir fram, nánast sama hversu há leigan var. Það virtist vera alveg dásamlegur húsnæðisskortur í höfuðborginni. En hún hafði sagt fólkinu að koma, vildi sjá framan í það.
“Svona nú,” sagði hún, þegar hún var búin að gefa Dabba kaffisopa eftir matinn, “lokum eldhúsinu, svo að ólyktin fari ekki inn í stofu og lækki hana í verði.” Hún stjakaði honum á undan sér og það var gott, fannst honum, að sjá hana svona glaða.
Um áttaleytið tók fólk að streyma að. Á fyrsta hálftíma komu milli tíu og tuttugu manns. Önnur eins sýnishorn af hinu hrjáða mannkyni hafði Dabbi aldrei séð. Það var hreint með ólíkindum hvers konar fólk var í húsnæðishraki í þessum bæ. Þarna var meinlætafólk af öllu tagi, sem hvorki reykti né drakk áfengi. Umkomulausar ekkjur. Konur sem sögðu da-da framan í börnin. Afspyrnurólegir iðnaðarmenn með þung augnlok, sem minntu meira á svefn en vöku. Fólk af ýmsu þjóðerni í einhvers konar hlaupaskóm og gulum vatnskápum. Stelpurassgat með heila snyrtivöruverslun í andlitinu rétt eins og lífið sé einn óslitinn indíánaleikur. Að öðru leyti var útgangurinn á henni eins og heilt fótgöngulið hefði átt leið um hana.
“Þarna get ég haft stereógræjurnar mínar,” sagði hún og vildi greinilega slá ryki í augu þeirra með þessari ótvíræðu eignayfirlýsingu.
“Ég veit sveimér ekki,” sagði Dabbi þegar stúlkan var farin.
“Hvernig leist þér á enska rithöfundinn?” spurði konan.
Dabbi hugsaði sig um…Andskotinn að ég láti einhverja listaspíru sníglast hér heima við allan daginn, eldri telpan í skólanum, en sú yngri skaðræðislega ómálga. Upphátt sagði hann: “Æ, held maður kannist við þessar landeyður, sem koma hingað og þykjast vera mikilmenni.”
“Mér fannst hann svo ágætur.”
“Sástu ekki skeggið og augnaráðið? Það kæmi mér ekki á óvart þó að þetta væri einn af þessum lestarræningjum, sem slapp úr fangelsi hjá þeim í vor.” Hún leit á hann niður eftir nefinu á sér, að honum fannst úr svimandi hæð.
“Æ, skelfilegt þurrkloft ertu, Dabbi minn.”
“En hávaxna konan?” sagði hann og lét ekki slá sig út af laginu.
“Mér sýndist hún vera hálfgerð gleiðálka,” sagði konan, “auk þess kann ég ekki við fólk, sem þykist vera barngott.”
Aftur var hringt og Dabbi fór til dyra. Í gættinni birtist afar ljót kona með þess háttar nef, sem rignir og snjóar ofan í. Hún var smágerð og mjóir fætur hennar skröltu innan í uppháum gúmmíbomsum, sennilega keyptar þegar bomsuslagurinn stóð sem hæst eftir seinna stríð. Dabbi ætlaði að segja henni, að búið væri að leigja stofuna, en í því skaust hún fram hjá honum. Hún minnti á sápu og augun í henni minntu líka á sápu, grænsápu.
“Ég get borgað ár fyrirfram,” sagði hún formálalaust. Þau litu undrandi á hana. “En skriflegan samning vil ég fá,” bætti hún við, “til minnst tveggja ára.” Hún virtist ekki hafa neinn áhuga á verðinu, en tók að æða um allt, hnusaði út í loftið og spurði um daglegar venjur fjölskyldunnar, hvort þau hjónin skemmtu sér mikið, sagðist hafa andstyggð á víni og næturgöltri og vera hrædd við fulla menn. Tommustokk hafði hún meðferðis og sló máli á stofuna. Til þess að kóróna allt saman lagði hún svo fram ævintýraleg meðmæli. Þau voru meira að segja rituð á löggiltan skjalapappír, en neðst var undirskrift mannsins, sem hafði leigt henni síðast. Í skjalinu stóð meðal annars, “fröken Elinborg er einstök reglumanneskja, háttprúð og skilvís.” Sjálfsöryggi hennar var þannig að þau vissu hvorki í þennan heim né annan og áður en Dabbi náði að átta sig, var búið að skrifa undir húsaleigusamning og konan farin.
Tvær klukkustundir liðu. Þau hjónin sátu frammi í eldhúsi og voru að fá sér kaffisopa. Allt í einu heyrðist skark úti fyrir og háreysti. Dabbi lyfti gardínunni og sá þá fröken Elinborgu þar sem hún stóð innan í bomsunum sínum við hliðina á sendiferðabíl og var að snatta tveimur fílefldum karlmönnum.
“Þarna er hún komin blessunin,” sagði Dabbi og konan hallaði sér yfir öxl hans.
“Hvað eru þeir eiginlega að rogast með?” sagði hún og Dabbi fór að gá betur.
“Já, þvílík mubla.”
“Mér sýnist þetta vera harpa,” sagði konan. “Já, sveimér þá, logagyllt harpa.” Þau litu agndofa hvort á annað, en vissu ekki enn hvernig bæri að túlka tilvist þessa sérkennilega hljóðfæris. Úr stigaganginum heyrðust hvellar fyrirskipanir, en síðan opnuðust dyrnar. Þau flýttu sér fram til þess að skoða spilverkið. Fröken Elinborg spígsporaði í kringum mennina tvo og þegar henni líkaði ekki meðferð þeirra á hörpunni, potaði hún í þá með regnhlíf.
“Hvers konar fyrirtæki er þetta eiginlega?” hrökk út úr Dabba.
“Góði maður,” sagði fröken Elinborg og munnur hennar varð eins og sól teiknuð af smá krakka, í miðju eitt pínulítið núll, en ótal hrukkur þaðan út í frá, “góði maður, kallaðu ekki hörpuna mína fyrirtæki.”
“Spilar þú á þessa hörpu?” spurði kona Dabba.
“Já, ég er í Symfóníuhljómsveitinni,” svaraði hún, en hafði ekki augun af mönnunum tveim, sem héldu á hörpunni sín í milli eins og þeir væru með ungabarn í höndunum. Áður en yfir lauk fengu þeir þó að kenna á regnhlífinni nokkrum sinnum. Dabbi var lítið inni í tónlist, en hann kunni þó að gera greinarmun á hávaða og ekki hávaða og hann vissi að symfónía er hávaði.
Næsta morgun fór Dabbi í vinnuna eins og venjulega. En það var ekki fyrr en um kvöldið, þegar hann kom heim, að hann áttaði sig til fulls á því, hvers vegna fröken Elinborg hafði getað lagt fram svona ljómandi góð meðmæli. Hún hafði verið að æfa sig mestan part dagsins, sagði konan, og enn mátti heyra hana plokka strengina. Í fyrstu reyndu þau hjónin að halda uppi nauðsynlegustu samræðum, en svo reyndist það ekki viðlit.
“Farðu inn og segðu henni að hætta þessum hávaða,” sagði Dabbi.
“Nei, far þú,” sagði konan. Lengra komust þau ekki, því nú yfirgnæfði hörpuleikurinn alla mannlega raust. Þau litu þögul hvort á annað og skilnaðarandrúmsloftið grúfði sig sem óðast yfir allt. Bráðum yrði farið að gnísta tönnum. Konan var reið og Dabbi var reiður, ekki síst út í sjálfan sig fyrir að hafa látið þessa músíkölsku kerlingu plata sig. Ekki nema það þó, tveggja ára skriflegur húsaleigusamningur. Hann hafði enga lyst á kvöldmatnum og þegar hann fann að reiðin var að ná undirtökunum, rauk hann út og skellti duglega á eftir sér. Lengi, lengi gekk hann um göturnar í þungum þönkum. Hann sá fyrir sér fröken Elinborgu, mjóir fætur innan í ljósum ísgarnssokkum og svo harpan logagyllt. Honum leið ekki vel og svo hugsaði hann um Trabantbílinn. Hann ætlaði að verða þeim dýrkeyptur. Í mörg ár hafði hann lagt hart að sér til þess að eignast íbúð og nú var svo komið, að hann gat varla tyllt sér niður á sínu eigin heimili nema á einhvern valtan eldhúskoll. Þetta hugsaði hann og gekk áfram, en tíminn flaug hjá. Þegar hann kom heim aftur var harpan hljóðnuð og eiginkonan háttuð. Hún var að lesa í bók eins og fyrri daginn.
“Bara nú rólegur,” hugsaði Dabbi um leið og hann klæddi sig í náttfötin.
“Hvar hefur þú verið?” spurði konan.
“Rólegur nú,” sagði hann við sjálfan sig, “rólegur.”
“Ég er að tala við þig,” sagði konan og skellti aftur bókinni. Það vissi ekki á gott, að hún skyldi taka lífið fram yfir orð á bók og hann þorði ekki að svara henni aftur. Þegar hann var kominn upp í slökkti hún ljósið. Í myrkrinu hófust þessar smáskærur, sem verða stundum í hjónarúmum. Konan hafði náð einstakri leikni í þeim. Fyrst gaf hún honum örlítið trukk með hælnum…óvart. Svo leið góð stund og augnalokin tekin að síga. Þá setti hún rassinn í hann, ósköp nærgætið og kvenlega, en nóg til þess að hann glaðvaknaði. Það var augljóst að hún ætlaði að beita hann lymskufullum fantabrögðum og því ekki um annað að ræða en að hrökklast fram. Í fyrstu ætlaði hann að sitja uppi við í eldhúsinu, en svo datt honum snjallræði í hug…Baðkerið. Þar gæti hann látið fyrirberast um nóttina. Orðalaust sótti hann sængina sína og kodda. Svo þurrkaði hann bleytu úr baðkerinu, skreið upp í og breiddi sængina ofan á sig. Þarna lá hann í hnipri og í krómaðri sturtunni grillti hann andlit sitt, toginleitt og afskæmt líkt og í spéspegli, en honum var ekki hlátur í hug. Kulda lagði úr baðkerinu, en hann reyndi að hugsa jákvætt og flæma þannig myrkrið úr sálinni. Það var nú til að mynda Trabantbíllinn. Hann myndi færa þeim hjónum mikla og djúpstæða hamingju. Næsta sumar gætu þau farið í langar ökuferðir, kannski út á Seltjarnarnes eða suður í Hafnarfjörð. Nú, og svo var það bankabókin. Það var notalegt að vita af henni undir dýnunni í hjónarúminu. Þessi bankabók var nánast eini fasti punkturinn í veröldinni núna eins og á stóð, annars virtist allt á fleygiferð, jafnvel þræljárnbent steinhúsið. Þetta hugsaði hann og sem snöggvast sá hann fyrir sér hitt fólkið í blokkinni. Hver vísitölufjölskyldan upp af annarri að bylta sér í rúmum sínum, til og frá eins og eftir taktmæli. Spara og spara, tikk-takk, spara og spara, tikkitti-takk. En hvað var þetta? Allt í einu heyrði hann umgang.
“Mikið var, að hún lætur í minni pokann,” hugsaði hann, “best að hún fái að ganga á eftir mér í þetta sinn.” Það var tekið í húninn og dyrnar opnuðust.
“Guð minn góður,” var kallað fyrir aftan hann og það var ekki rödd eiginkonunnar. Blátær vatnsdropi lak út krananum og hvarf í niðurfallið og Dabbi hefði helst viljað fara sömu leið.
“Hefurðu hugsað þér að dvelja þarna lengi?” spurði fröken Elinborg og honum fannst að rödd hennar myndi kljúfa hann í tvennt, þannig var hún, háskalega skræk og íllyrmisleg.
“Ekki svo mjög,” stundi Dabbi.
“Hvað svona hérumbil?” Hann skreið upp úr baðkerinu og hélt sænginni fyrir framan sig, vildi með því verjast augnaráði hennar.
“Ég er að fara núna,” sagði hann og skáskaut sér framhjá henni.
“Ekki nema það þó,” sagði fröken Elinborg, “að þurfa að reka heimilisfólkið upp úr baðkerinu svona um miðja nótt…Ég vona bara að þetta endurtaki sig ekki,” bætti hún við og skellti aftur hurðinni. Dabbi ríghélt í sængina og honum fannst náttbuxurnar vera að síga niður á hæla. Þegar hann hafði jafnað sig svolítið rauk hann inn í svefnherbergi. Konan hafði kveikt á leslampanum og sat uppi við.
“Jæja, sérðu nú eftir að hafa verið að stökkva svona upp á nef þér?” sagði hún, en hún var ekkert drjúg með sig eða sigurglöð, ekkert þess háttar.
“Ég skal losa mig við hana,” urraði Dabbi og byrjaði að æða um eins og ljón í búri.
“Við hverja?” sagði konan.
“Helvítis Symfóníuhljómsveitina.”
“En húsaleigusamningurinn?”
“Svik…tóm svik. Kerlingin minntist ekki einu orði á þennan hörpuleik sinn.” Dabbi hélt áfram að æða um gólf. En svo heyrði hann snökt og í fyrstu trúði hann varla sínum eigin eyrum. Konan var ekki vön að gráta. Það var ekki hennar aðferð. En það var ekki um að villast, hún var að gráta, en ósköp vægt eins og hún væri að hita sig upp. En svo tók sængin að bifast og að lokum hristist allt rúmið.
“Þetta er allt mér að kenna,” stundi hún milli ekkasoganna, “allt saman mér að kenna. Ég vildi bara óska þess, að við gætum komið henni af okkur.” Dabbi bankaði sig í höfuðið. Gat þetta verið, hún að gráta og sammála honum í þokkabót.
“Meinarðu þetta?” sagði hann og settist á rúmið.
“Víst meina ég það,” snökti hún. Hann nuddaði augun, ef ske kynni að það gæfi honum aukna sýn inn í þessa kona, sem var lífsförunautur hans.
“Eslkan mín,” sagði hann svo og strauk henni um hárið, “þó svo að ég þurfi að taka hana í bóndabeygju, þá skal hún út og það strax á morgun, hún og þessi harpa hennar.” Hann lagðist við hlið hennar og hún var hætt að gráta og hann slökkti ljósið.
“Mig langar ekkert í þennan Trabantbíl,” hvíslaði hún og þau hjúfruðu sig hvort upp að öðru og þarna í myrkrinu sættust þau heilum sáttum.