Hér kemur ein svolítið löng saga. Njótið vel :o)

Einu sinni fyrir mörgum árum. Já fyrir tæpum 200 árum voru tvö systkini sem bjuggu á bænum Móselsstaðir á Þingvöllum. Þessi systkini hétu Salína og Lárus. Salína var að verða 8 ára gömul en Lárus var ný orðinn 7 ára.
Rétt fyrir utan bæinn þeirra var kirkja sem hét Þingvallakirkja og var hún stærsta kirkja landsins. Á hátíðum þyrptist fólk að úr öðrum sveitum til að vera við messu í þessari kirkju og kom þá oft fyrir að nokkuð af þessu fólki fékk að gista heima hjá þeim systkinum.
Þessi kirkja var æði fögur en eitt var þó einkennilegt við hana. Á hverjum jólum hringdi klukkan í kirkjunni. Og það einkennilega við það var að hún hringdi alveg sjálf.
Kvöld eitt þegar Salína og Lárus voru börn kallaði amma þeirra á þau og sagði þeim að setjast niður því hún ætlaði að segja þeim sögu af klukkunni í Þingvallakirkju.

Einu sinni þegar ég var bara pínulítil stelpa komu menn hingað til Íslands. Þessir menn ætluðu að ræna frá fólki og sigla svo í burtu. Um nóttina þegar þeir ætluðu að læðast inn í húsið okkar hringdi klukkan í kirkjunni og vakti alla. Allt fólkið flýtti sér á fætur og klófesti ræningjana. Eftir þetta kölluðum við klukkuna alltaf
“ Bjargvættinn góða ”. Þá nótt heyrði ég í fyrsta sinn klukkuna hringja sjálfa en móðir mín og faðir höfðu sagt mér frá því að þessi klukka hringdi sjálf.

Þessari sögu gátu Lárus og Salína aldrei gleymt. Jólanótt eina heyrðu þau systkini ásamt mörgum öðrum klukkuna hringja og ákváðu þá, að um leið og þau hefðu tækifæri færu þau að skoða þessa skrýtnu klukku.
Kvöld nokkurt þegar Salína og Láus voru komin í fletin sín heyrðu þau klukkuna hringja í fjarska og fóru að glugganum og hlustuðu.
Þau heyrðu að klukkan hringdi ekki eins og vanalega á jólanótt. Það var eins og hún væri sorgmædd og væri að kalla á hjálp. Svona gekk þetta nótt eftir nótt og á sjálfa jólanóttina hringdi klukkan svo skerandi og hátt að flest allt fólkið á bænum varð hálf taugaveiklað. Um leið og klukkan hætti að hringja gat fólk andað léttar, allir aðrir en Salína og Lárus. Þau voru orðin svo áhyggjufull vegna þess að klukkan hringdi eins og hún væri að kalla á hjálp. Þau systkinin ákváðu að fara morguninn eftir upp í kirkju og skoða þessa klukku. Þau vissu það ekki þá að þau ættu eftir að lenda í miklum ævintýrum sem yrðu þeim minnisstæð alla ævi. Þau sögðu síðar öllum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum sínum frá þessu. Og þannig gekk sagan um ævintýri þeirra koll af kolli til mín og svo í hendurnar á þér lesandi góður.

Salína og Lárus gengu út að kirkju snemma í dögun. Þau voru svolítið hrædd en reyndu að harka af sér.
Salína! Sagði Lárus. Já hvað Lárus minn? Ertu ekki pínulítið hrædd? Nei, nei það er engin ástæða til þess að vera hræddur núna. Þetta sagði Salína bara til að hughreysta litla bróður sinn því hún var sjálf svo hrædd að hún skalf á fótunum.
Um það leiti sem sól byrjaði að skína á lofti voru þau komin að kirkjunni. Þau héldust í hendur og gengu hægt upp tröppurnar og inn í kirkjuna. Hægt gengu þau að turnstiganum, opnuðu hurðina og gengu upp. Þá gerðist það. Þau voru komin upp hálfan stigann þegar kirkjuklukkan fór allt í einu að hringja svo að undir tók í húsinu. Þau reyndu að hlaupa út en gátu það ekki, eitthvað hélt í þau lyfti þeim þvínæst upp og sagði: Ég er búinn að bíða lengi eftir ykkur Salína og Lárus. Nú fyrst þið eruð komin get ég sent ykkur til að bjarga mér. Ég sendi ykkur aftur í fortíðina en munið það mjög vel, að ef þið missið nokkurn tíma úr getur verið að þið náið ekki að bjarga mér og festist sjálf í fortíðinni. Munið það. Og svo varð allt hljótt því Salína og Lárus féllu í einhvers konar dá.
Hvar erum við? Spurði Lárus Salínu þegar þau vöknuðu aftur. Við erum einhversstaðar aftur í fornöld svaraði Salína. Já ég veit það, en hvar og hvenær? Ég veit það ekki. Vertu rólegur við hljótum að komast að því. Og viti menn þegar þau voru búin að ganga aðeins smá spöl sáu þau mann nokkurn á gangi. Þau eltu manninn og sáu að hann var á leið til Þingvalla að litlum torfbæ. Við torfbæinn var tekið vel á móti honum og sagt við hann. Komið þér sælir kæri vinur vor Þorgeir. Hafið þér fundið lausn á vanda vorum? Þorgeir svaraði. Vér höfum eigi enn fundið svar við vanda vorum en erum vér hingað komnir til að hefja fund með vorum bræðrum og munum vér þá leita svara sem duga. Gangið inn fyrir í bæ vorn, eigi viljum vér að þér standið úti. Þorgeir gekk inn fyrir og fékk sér hressingu. Systkinin gengu hins vegar á brott til að leita sér afdreps og fundu þau sér helli í hrauninu til að hafast við í.
Þar fóru þau svo að sofa og sváfu vært til morguns. Snemma morguns hrukku þau upp við mikil læti. Sólin var að koma upp og margt fólk hafði safnast saman á stóru túni og voru flestir að rífast. Salína og Lárus gengu niður á túnið og sáu þá að mannfjöldinn hafði skipst í tvo hópa, sem voru álíka fjölmennir. Voru hóparnir að rífast við hvorn annan. Þeim heyrðist að verið væri að rífast um Krist og einhver goð eins og Óðinn, Þór og fleiri slík. Salína var að fylgjast með þessu þegar Lárus togaði í hana og sagði henni að koma og sjá. Þau litu inn í einn bæinn og þar var enginn annar en Þorgeir að tala við nokkra menn. Þau hlustuðu á þá og heyrðu mennina segja: Hvað hyggist þér gera Þorgeir? Eg ætla að leggjast hér undir þessi skinn og vér munum hugsa gang vorn þar. Hvenær hyggist þér koma undan skinnum þessum Þorgeir? Er vér höfum fengið svar skulum vér koma og segja niðurstöður vorar. Og svo lagðist hann undir feld sinn. Úti sáu systkinin menn læðast að kirkju einni lágri og voru þessir menn með kyndla. Eftir andartak voru þeir komnir upp á klett er var þar fyrir ofan kirkjuna og héldu þeir þar á kyndlunum. Þetta hús skulum vér hafa sem fórn fyrir guðinn okkar, Þór. Hlupu þá Salína og Lárus til og hrintu mönnunum svo kyndlarnir féllu á klappirnar. Um leið fengu Salína og Lárus á sig högg og hnéu í ómegin. Þau rönkuðu við sér í kirkjuturninum og heyrðu sagt: “Þakka ykkur fyrir börnin góð þið björguðuð mér frá því að brenna svo ég stend hér enn ”. En þá spurði Salína. Hvaða ári vorum við á? Þið voruð á árinu 1000 þegar kristni var lögtekin á Íslandi og maðurinn sem þið sáuð var enginn annar en Þorgeir Ljósvetningagoði. Þorgeir lagðist þarna undir feld til þess að finna lausn á deilu ásatrúar manna og kristinna manna.
Salína og Lárus lögðu þá af stað heim á leið og mættu þar besta vini sínum Jóni Sigurðssyni, jafnaldra Lárusar. Hann var mikill íslendingur og seinna er hann varð fullorðinn varð hann frægur og enn frægari eftir að hann dó. Eitt það mikilvægasta sem hann gerði, var þegar hann sló í borðið á Þjóðfundinum árið 1851 í Menntaskólanum í Reykjavík og sagði, “ vér mótmælum allir ”.

Nú er afmælisdagur hans þjóðhátíðardagur Íslands því hann barðist manna mest fyrir lýðveldi og sjálfstæði Íslendinga. Árið 1944 hinn 17. júní fyrir 50 árum varð Ísland svo lýðveldi og sjálfstætt ríki og var lýðveldisstofnunin haldin á Þingvöllum þann dag. Þess vegna höldum við þar hálfrar aldar afmæli lýðveldisins Íslands nú í sumar, einmitt á þeim stað þar sem einnig var “ klukka Íslands ”.