Þetta verður aldrei allt í lagi, en þetta getur batnað…

Þetta getur allaveganna ekki versnað…

Þetta reyni ég að telja vinkonu minni trú um. Hún er grátandi í fanginu á mér. Skrítið.. ég hélt að það ætti að vera ég sem ætti bágt…

Þetta byrjaði allt í morgun. Klukkan 11 til að vera nákvæm. Ég vaknaði heima hjá Ásgerði við það að mamma hans kom. Hún vissi að það hafði verið partý hjá okkur í gærkvöldi. Ég heyrði ekki nema endann af samtalinu þeirra en það dugði.

‘Nei, við höfum hvorki hitt hann né heyrt í honum!’ sagði Ásgerður, augljóslega jafn úldin og ég. Ég höndlaði ekki einu sinni að opna augun. Hvað var ég búin að sofa lengi? 3.. 4 tíma!?

‘Allt í lagi,’ heyrði ég Írisi segja. ‘Látið mig bara vita ef þið fréttið eitthvað!’

‘Allt í lagi, þú líka!’ kallaði Ásgerður á eftir henni. Svo heyrði ég bílinn keyra í burtu og Ásgerði skella í lás.

Fljótlega, þegar það smaug inní höfuðið á mér hvað þær höfðu verið að tala um, draslaðist ég á fætur. Ég skellti mér í fötin um leið og ég var búin að hringja í Gústa. Gústi hafði heldur ekkert heyrt í honum, og ég var augljóslega að vekja hann, svo ég kvaddi og sagðist láta hann vita ef við fréttum eitthvað. Ég fór í fötin sem Ásgerður hafði lánað mér í gær. Birgittu hafði nefnilega tekist að hella bjór yfir mig og, þar sem ég var ekki að drekka og ég nennti ekki að mamma fengi einhverjar grillur, höfðum við skellt fötunum mínum í þvottavélina. Þar sem þau voru enn. Svo ég hafði fundið mér einu fötin sem pössuðu á mig úr fataskápnum hennar Ásgerðar. Fjólubláar sokkabuxur, fleginn, svartan bol og svart pils. Ég hafði reyndar fyrst farið í gallapilsið hennar, en þegar allir höfðu hlegið að mér í því og ég áttaði mig á því að gallapils voru virkilega ekki my style hafði ég skipt.

Seinna hugsaði ég út í það hversu kaldhæðið það væri að á versta degi lífs míns hafði ég verið spariklædd í fyrsta skiptið svo ég mundi til að tilefnislausu. Og ég sem geng aldrei í pilsi.

Við eyddum næstu klukkutímum í að hringja út um kvippinn og kvappinn að spyrja fólk hvort það hefði rekist á hann eftir að hann lét sig hverfa uppúr miðnætti. Nei, enginn hafði séð hann, en allir ætluðu að láta vita ef þeir fréttu eitthvað. Við vorum m.a.s. farin að grínast með að hann hefði farið á leynilegan ástarfund. Við tókum þessu ekkert alvarlega. Ég áttaði mig ekkert á því hvað þetta var alvarlegt fyrr en Gústi hringi í mig, augljóslega áhyggjufullur, og spurði mig alvörugefinn hvort við hefðum eitthvað heyrt. Mamma hans hafði augljóslega hring í Gústa. Þá hugsaði ég loksins: ‘Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af?’ og hætti að hlæja að þeirri tilhugsun að hann væri dáinn.

Líður og bíður. Strákarnir redduðu sér driver, og þar sem við höfðum alltaf verið 6 saman, einn týndur, fimm eftir, einn auka driver… þýddi einungis að ég yrði að vera eftir, strákarnir fjórir færu í bílnum. Drasl.. mér leið eins og útkasti, en samt ekki.
Ég hringdi í þá með svona 10 mínútna millibili; ‘hafiði heyrt eitthvað – funduð þið hann?’ en alltaf var dræmt um svör. Loksins asnaðist Björgvin til að svara; ‘Hann sást síðast niðri á bryggju!’

Þá hélt ég að ég yrði ekki eldri. Ég hætti að anda og hjartað hvarf. Það varð ekkert þungt eða eins og það væri verið að kreista það.. ég fann bara ekki fyrir því að vera til. En enn komst ég ekki með. Enn sat ég eins og hálfviti heima hjá Ásgerði og gat ekkert gert. Svo ég fór í göngutúr. Ég gekk útá brekkubrúnina, horfði út á sjóinn og hugsaði um hann. Ég vissi að hann væri þarna, ég vissi að nú var engin von. En ég gat ekki grátið, ég fann ekki fyrir neinu. Pilsið og hárið sveiflaðist í vindinum og ég hugsaði með mér að þetta hlyti að vera eins og hið fullkomna dramaatriði í einhverri sorgar Hollywoodmyndinni. Vantaði bara tárin. Frábært. Ég var að missa vitið og var klisjukennd í leiðinni.

Ég hringdi í Gústa. Hann var uppi á höfða. Mig hafði einmitt grunað að þangað hefði hann stefnt. ‘Toggi er niðri að leita en ég bíð uppi!’ sagði Gústi skjálfandi röddu. Ég fann að jafnvel þótt ég vildi að þeir finndu hann vildi ég það ekki. Það myndi fara endanlega með þá báða að finna lík..

Á endanum sá ég hina strákana koma keyrandi. Þeir voru að ná í myndavélina hans Björgvins til að fara með niður á lögreglustöð. Ég heimtaði að fá að fara með fyrst að nú væri pláss. Toggi og Gústi voru á stöðinni en Óli hafði bæst í hópinn. Ég kvaddi Birgittu og Ásgerði stuttaralega, hljóp annarshugar út í bíl og starði á veginn.

Niðri á lögreglustöð hefði ég getað kyrkt hvern einn og einasta lögregluþjón. Við vorum 6 þarna, ég, Björgvin, Gústi, Helgi, Árni og Toggi. Lögreglumennirnir voru auðvitað ekkert nema almennilegir, töluðu voða bjartsýnislega án þess að gefa neinar gyllivonir og tóku niður símanúmerin okkar til að geta hringt í okkur. M.a.s. Helga sem er eiginlega aldrei með okkur. Nema mitt. Augljóslega, fyrst að ég var eina stelpan, var ég eitthvert viðhengi, og svo stóð ég grunsamlega nálægt Árna Þór. Ætli ég hafi ekki bara verið kærastan hans í þeirra hugum. Helvítis lögregluþjónar. Aftur leið mér eins og útkasti, aðkomumanneskju.

Fréttin barst um bæinn eins og eldur í sinu. Allir störðu á okkur þegar við gengum þessa stuttu vegalengd heim til Árna Þórs. Samt hafði mamma ekki heyrt þetta. Svo þegar hún hringdi til að gá hvort ég væri ekki örugglega búin með söguritgerð brjálaðist hún þegar ég neitaði. Þangað til ég sagði henni ástæðuna. Þá varð hún ekkert nema almennilegheitin. Ok, allt í lagi, skiljanlegt…

Klukkan var ca. 3. 2 tímar í að hann finndist. Lengstu 2 tímar ævi minnar. Við sátum þarna heima hjá Árna, ég, Gústi og Árni allan tímann, hinir á ferð og flugi fram og til baka í leit að fréttum, Toggi að elta lögguna á röndum og Björgvin að tala við fólk. Óli var, held ég, hjá okkur mestan tímann, og Helgi, á hækjunum, var seinni partinn.
Verst var þegar við vorum ein. Bara við þrjú. Þá var Árni vanalega frammi að tala við pabba sinn og ég og Gústi ein inni í stofu. Hann var að glamra á gítarinn. Mér finnst ekkert betra en að hlusta á gítarspil, en þetta lag sem hann spilaði aftur og aftur og aftur og aftur á alltaf eftir að minna mig á þetta. Eins og það eigi ekki allt eftir að gera það…
Þarna var ég alveg búin að átta mig á þessu. En ég hef aldrei fundið fyrir annarri eins örvæntingu og þegar ég sá Gústa, brotna fyrst saman. Það var ekkert dramatískt, og í rauninni var það mjög sætt, en það var svo sárt. Hann beygði sig örlítið fram á gítarinn, hætti ekkert að spila eða neitt, en ég gat séð tárin falla niður á gleraugun. Svo heyrði ég hann sjúga upp í nefið. Svo þurrkaði hann tárin og ég lét sem ég tæki ekki eftir því. Elsku besti Gústinn minn. Ég hafði aldrei áður séð hann sýna tilfinningar, samt hafði ég alltaf viljað það svo sem, en ekki svona. Mig langaði ekkert meira en að ganga að honum og knúsa hann eins fast og ég framast gat. En nei, ég hefði ekki höndlað það. Og ég var hrædd. Við hvað? Við vini mína? Ég sé samt eftir að hafa ekki gert það, ég verð að sýna vinum mínum oftar hvað ég elska þá mikið, þótt ég segi það aldrei. Sorglegt hvað ég er huglaus.

Enn gat ég ekki grátið. En ég vildi ekki vera ein og ekki í allri þessari þögn. Heillengi sagði enginn neitt og þegar Gústi og Árni voru báðir hættir að spila á gítarinn var ég að missa vitið. Ég reyndi að spila á píanóið en fingurnir virtust ekki vera tengdir við heilann. Drasl puttar, drasl hendur. Svo var hljóðfærið svo falskt! Svo ég gekk út í garð. Nú, allt í einu, vildi ég vera ein. En það gekk ekki upp lengi. Helga Bryndís kom í heimsókn um leið og hún frétti að hann væri týndur og hvar við værum. Ég veit ekki af hverju en eins og mér þykir nú vænt um æskuvinkonu mína hana Helgu B. þá fannst mér harla skrítið að hafa hana þarna. En ég gerði ekkert veður út af því.

Svo kom fréttin.

‘Þeir fundu hann!’ sagði Toggi alvarlegur. ‘En þeir vilja ekki segja neitt meira!’

‘Hvar?’

‘Við höfðann.’

Og þarmeð var því lokið, að minni hálfu allaveganna. Þeir vildu ekkert segja og þegar ég sá björgunarbátinn sigla löturhægt inní höfnina vissi ég það. Auðvitað vilja þeir ekki flýta sér í að flytja manni vondu fregnirnar.

En ég sagði ekkert.

Við Helga sátum úti og horfðum á sjóinn. Hún grét. Ég þagði.

‘Þeir vilja ekki segja neitt, það hlýtur að vera gott! Ha, Helga! Þeir þurfa bara að hlynna að honum og svoleiðis og koma svo með hann!’ sagði hún og þurrkaði sér um augun.

Ég þagði þunnu hljóði. Ég vildi ekki segja henni að ég vissi að hann væri dáinn, en vildi heldur ekki vekja falskar vonir.

Loksins kom löggan, og tveir félagsráðgjafar, og presturinn. Helvítis presturinn.

Great, hugsaði ég. Dejavu! Hvar hef ég séð þetta áður…

‘Við komum hingað,’ byrjaði lögregluþjónninn. ‘til að færa ykkur fréttir af vini ykkar Hauki Böðvarssyni.’

Hik.

‘Við fundum hann,’ örstutt þögn, ‘og hann er því miður látinn!’

Ég fann Helgu Bryndísi taka kipp í faðminum á mér. Hún hafði svo forðast að hugsa um þetta. En ég gerði ekki neitt. Grét ekki einu sinni. Ég sá Gústa og Helga byrja að gráta, Oli að hugga. Björgvin í fanginu á mömmu sinni og Árni hjá pabba sínum. Toggi einn. Hann vissi þetta fyrir. Veiddi þetta upp úr löggunni. Félagsráðgjafarnir horfðu á mig eins og ég ætti að gráta líka. Ég var nú stelpa. Eða höfðum við ekki verið það náin?

Haldiði kjafti! Horfiði annað!

Ég er að hugga vinkonu mína yfir því að vinur minn dó? Hún þekkti hann svo sem, en þau voru ekkert náin. Hún hafði víst einhverntíman eitthvað ‘thing’ fyrir honum. Mér líður eins og hálfvita. Ég á að gráta!? Veistu, ég held ég sleppi því.

Í staðinn tek ég þéttar utanum Helgu mína, þrýsti mér að henni og hvísla að henni;

‘Þetta batnar! Þetta verður aldrei allt í lagi, en þetta getur batnað!’

Eða svo vona ég.

Nú er þetta opið sár, en bráðum grær það. Og jafnvel þótt það verði eftir ör, aumt ör, þá batnar þetta.

Sofðu vel, elsku Haukur. Besti vinur minn, sofðu vel.
"