Þessa litlu smásögu datt mér í hug að senda inn en hana skrifaði ég fyrir 8 árum eða þegar ég var 12 ára gömul :o)




Hún fer inn um dyrnar á nýja skólanum. Þetta var frekar fámennur skóli í þorpi einu úti á landi. Krakkarnir úr sveitinni koma í hann fjórtán ára og eru þar tvo vetur. Hún þekkti fáa úr þorpinu en sveitakrakkarnir hafa verið með henni í skóla áður.
Vinkona hennar hnippir í hana og segir eitthvað við hana. Þær brosa og hún hengir úlpuna sína upp og sparkar af sér skónum. Nýjar bekkjarsystur hennar koma til hennar og tala við hana. Það tekur ekki marga daga að kynnast krökkunum og venjast breyttum aðstæðum. Hún borðar í mötuneyti í skólanum ásamt hinum krökkunum. Þar er oft glatt á hjalla. Matráðskonan er mjög bústin og ömmuleg í alla staði. Það líður ekki á löngu þar til krakkarnir fá matarást á henni. Þegar hún er búin að vera hálfan vetur í skólanum tekur einn strákur í bekknum upp á því að láta hana aldrei í friði. Í öllum frímínútum er hann alltaf að kitla hana, og alltaf eltir hún hann í von um að ná fram einhverri hefnd, en hann er sterkari en hún svo að aldrei verður neitt úr því. Þessi smáskot verða til þess að þau verða góðir vinir. En vinir þeirra sætta sig ekki við það og byrja að stríða þeim. Fyrst í litlu einu og þau láta það lönd og leið en síðan verður það æ leiðinlegra. Sama tuggan er endurtekin í nokkrar vikur.
Strákarnir segja við hann:
,,Hún er alveg meiriháttar af hverju reynirðu ekki við hana?
Hey, drífð´í því, maður! Hún er þarna.“
Stelpurnar segja við hana:
,,Þarna er hann! Ætlarðu ekki til hans? Sjáðu þarna kemur hann”
Svona er látið við þau. En þessi þráastríðni, sem átti að vera grín einar frímínútur, er orðin svo leiðingjörn að þau fara að forðast hvort annað, bæði í skóla sem annars staðar. Henni finnst þetta auðvitað ekkert gaman. Hún telur sig eiga einhverja sök á þessu en getur ekki áttað sig á hver hún er. Hún hefur líka samviskubit. Hún er hrifin af honum, en hana langar ekki til þess að ekki sé hægt að tala um annað í skólanum.
Oft hugsar hún með sér: ,,Skyldi hann vera hrifinn af mér? Bara að við gætum haldið áfram að vera vinir og þau hætti að stríða okkur.” Hún vill ekki missa hann sem vin af því að krakkarnir eru að stríða þeim. Það yrði sorglegur endir hjá góðum vinum. Þau forðast nú hvort annað eins og heitan eldinn, tala ekki saman og horfa hvort í sína átt ef líkindi eru til að þau mætist. Öll vinatengsl eru á bak og burt. Hún er alltof feimin til þess að þora að hringja í hann. Hún hugsar líka með sér að kannski skelli hann á eða segi henni að þegja eða eitthvað enn þá verra en það. Hún grætur oft og í hjarta sínu er hún sorgmædd. Aldrei getur hún fyrirgefið krökkunum þetta.
Hún veit að þennan vetur mun hún ávallt tengja því að eignast og missa besta vin sinn.