Það var einhvern tíma nálægt miðri öldinni, sem leið, kvöld eitt í skammdeginu, að gestur kom að Þverá, efsta bæ í Hraunsdal, og baðst gistingar.
Hraunsdalsheiði skiftir landsfjórðungum, og er mikil umferð um hana alla tíma ársins. Það var því engin nýlunda, þótt ókendur maður kæmi að Þverá.
Þverá var vel setin í þá daga. Stóð þar rausnarbú, og var margt manna í heimili. Þangað leituðu þá flestir gistingar, sem um heiðina fóru. -
Gesturinn kom þangað snemma á vökunni. Var honum fylgt í baðstofu, plöggin dregin af honum og honum borinn beini.
Asahláka hafði verið um daginn og blautt til jarðar. Samt furðaði vinnukonurnar það stórum, hve illa fótabúnaður gestsins var til reika. Húsfreyjan lét því gera honum skó um kvöldið, en á meðan voru honum lánaðir skór og sokkar af húsbóndanum.
Gesturinn nafngreindi sig. Kvaðst hann heita Ásmundur og nefndi heimilisfang sitt, sem var langt í burtu. Einnig gat hann þess, hvert ferðinni væri heitið, og var sá staður einnig langt burtu. Fólkinu þótti hann furðu illa útbúinn í slíka langferð.
Þegar gesturinn hafði matast, var honum vísað til sætis á stóli þeim, er gestum var einkum ætlaður. Hann stóð við fjöl þá, er skildi hjónarúmið og barnarúmið í afherbergi fyrir gafli baðstofunnar, beint gegn dyrunum fram í frambaðstofuna. - Lýsislampi, er lýsa skyldi öllum í baðstofunni við vinnu þeirra, hékk í dyrustafnum, og lagði skinið frá honum framan í gestinn. Húsbændurnir og dóttir þeirra sátu einnig þar inni að vinnu sinni.
Þegar gesturinn var sestur þarna, gafst heimamönnum fyrst færi á að virða hann fyrir sér, einkum framan úr baðstofunni.
Maðurinn var mikill vexti, mikilleitur og svipurinn skuggalegur. Jarpur var hann á hár og skegg, og var hvorttveggja úfið. Andlitið var dökkrautt og veðurbitið með djúpum hrukkum kringum nef og augu; þó var það ekki ellilegra en sem svaraði hálffimtugs aldri. Brýrnar voru miklar og loðnar, en augun lítil, ennið lágt, og hékk hárið í sveipum ofan á brýrnar.
Framan af sat hann álútur og studdi höndunum fram á hnén. Lét hann skugga bera á andlitið, en skotraði augunum út undan sér. Mjög var hann fámæltur og dró svörin; var sem hann vægi orðin á gullvog. Fá kvaðst hann vita markverð tíðindi; þó gat hann þess, að hann hefði heyrt um það talað hinum megin heiðarinnar, að einhver hreppstjóri hefði orðið bráðdauður á hlaðinu heima hjá sér; en ekki vissi hann, hvort það væri satt.
Um ferð sína og hagi var hann ennþá fámálli, og menn þóttust sjá, að honum væri óljúft að láta spyrja sig.
Húsbóndinn var að raka gærur um kvöldið og hafði 2-3 hárbeitta hnífa hjá sér, sem hann notaði til skiftis. Húsfreyjan saumaði og dóttir hennar líka, en vinnufólkið í frambaðstofunni sat alt að ullarvinnu.
“Á ég ekki að raula eitthvað fyrir ykkur í kvöld?” spurði gesturinn. Það var eins og hann vildi fyrir hvern mun binda enda á allar spurningar.
Húsbændurnir játuðu þessu með þökkum. Þeim fanst jafngott, að hann gerði það, fyrst varla togaðist úr honum orð.
“Þarf ekki maðurinn ljós?” mælti húsfreyja og leit um leið yfir til dóttur sinnar. Henni var ætlað að kveikja handa honum.
Þeir, sem rímur kváðu eða lásu upphátt fyrir heimafólkið, sátu oftast á þessum stóli, og var þá sett kertaljós á annanhvorn rúmstuðulinn, til hliðar við þá.
“O-nei, ég þarf ekkert ljós”, mælti gesturinn. “Ég raula eitthvað upp úr mér”.
Stúlkan hætti þá við að kveikja.
Gesturinn byrjaði að kveða, en laut áfram sem áður. Hann var rómdigur og rómstirður og dró langan seim við enda hverrar vísu. Fólkinu fanst ekki mikið um skemtunina.
Þannig nuddaði hann af fyrstu rímunni. Þá tók hann sér andhvíld.
“Á ég ekki að skerpa hnífana þína, húsbóndi góður, fyrst ég sit auðum höndum?”
Húsbóndinn þáði það.
Gesturinn bretti erminni upp fyrir olnboga á hægri handlegg og hvesti eggina á beru hörundinu.
En sá handleggur! Fáir þóttust hafa séð annan sterklegri. Hann var sinamikill og æðaber, og þegar vöðvarnir hnykluðust, voru þeir harðir eins og malargrjót.
Þegar hann byrjaði á annari rímunni, réttist nokkuð úr honum. Bragarhátturinn var annar, kvæðalagið aflmeira og efnið um tröll og berserki, baráttu og mannraunir. - Nú komust menn að raun um, að þessi maður kunni að kveða. Rímurnar þektu allir, en enginn hafði heyrt þessa rímu jafnvel kveðna.
Á eftir annari rímunni kom hin þriðja, án þess nokkur hvíld yrði á milli. Þar skifti líka um bragarhátt, og þá var efnið orðið barátta ástarinnar við illmenni og óvætti. Kvæðamaðurinn tók sjálfur þátt í baráttunni, og heimafólkið fylgdi henni með áhuga.
Að rímunni lokinni var sem þreyta færðist á gestinn. Hann hætti að strjúka hnífseggina, en laut áfram og horfði fram undan sér. Stórir svitadropar komu á ennið á honum.
Eftir stundarkorn byrjaði hann aftur, en byrjaði nú á - mansöng.
Enginn mundi eftir þessum mansöng í rímunum. Þó fanst mönnum vel geta verið, að hann ætti þar heima. Flestir kvæðamenn höfðu þann sið að sleppa mansöngvum, og áheyrendurnir sáu sjaldan eftir þeim. Þeir voru oftast einhverjar gælur frá skáldsins eigin brjósti, sem ekkert komu rímnaefninu við og ekkert gerðu annað en glepja.
En þessi mansöngur -! Hann ýtti nú samt við athygli manna. Rokkarnir drógu niður í sér, kambarnir hættu að urga, - fólkið hætti að vinna og hlustaði.
Gesturinn hafði rétt nokkuð úr sér. Allur rímnabragur var horfinn af kvæðalaginu. Rómurinn var viðkvæmnislegur, eins og hann berðist við grátstafi. Og við hverja hendingu urðu áhrifin meiri.
Mansöngurinn var þannig:
“Eina, kæra ástin mín,
yndis-rósin bjarta!
Sífelt blæðir sökum þín
særðu föðurhjarta.
Eins og ljóma af þér bar
yndistíðar minnar,
á mig skinu ætíð þar
augu móður þinnar.
Þegar þú lékst þér, ljúf og frá,
léttast sló mitt hjarta;
sælt var að líta liðast þá
lokkana þína bjarta!
Þegar sveik mig sæmd og lán,
sælu var hvergi að finna,
sárast var að vera án
vinarhóta þinna.
Þegar ég flæktist sveit úr sveit,
sorgina bar í hljóði,
aldrei hugur af þér leit,
engillinn minn hinn góði.
Hvað gat lostið hjarta mitt
harðari logabröndum
en líta bjarta blómið þitt
brotið af níðings höndum?
Sjúk er og lömuð sálin mín,
svift því eina' á jörðu,
síðan á mig augun þín
æðisgengin störðu”.
Við síðustu vísurnar rann út í fyrir honum.
Fólkið í frambaðstofunni hélt að sér höndum; það lá við, að sumt af því gréti með gestinum.
Þegar hann byrjaði á rímunni, var hann skjálfraddaður, en jafnaði sig eftir því, sem fram í hana sótti. Þar kvað við vopnabrak og vígakliður í hverri hending, en fólkið heyrði það ekki; það gat ekki um annað hugsað en mansönginn.
Á eftir rímunni tók hann sér lengri hvíld en hann hafði áður gert. Á meðan laut hann áfram og fitlaði við hnífseggina, eins og til að reyna í henni bitið.
Rokkarnir voru aftur farnir að þjóta og kambarnir að urga, en allra augu hvíldu á gestinum. Menn fundu, að þetta var logn á milli bylja.
Alt í einu rétti hann úr sér og kerti hnakkann nær því upp að fjölinni. Augun loguðu eins og maurildi. Þegar hann byrjaði, var sem þrumu lysti niður í baðstofunni. Rómurinn smaug gegnum menn. Kvæðalagið var líðandi þungt eins og jökulmóða, en kitlandi æðishlátur kvað við niðri í djúpinu. - Jafnvel húsbóndinn var hættur að vinna og horfði á gestinn:
Hann kvað þetta:
“Þungan hug til þín ég lengi hafði.
Ilt, að fyr það ekki var
að okkar fundum saman bar.
Man ég fundinn, - man ég alt, sem skeði.
Þau hafa atvik þrýst sér inn
þyngst og dýpst í huga minn.
Undan þínum úfnu brúnaskúfum
sál úr fóli, sál úr geit
sjúk af fýsnum á mig leit.
Heita lengi leynt í brjósti mínu
ósk ég hafði alið þá
á þér góðu taki' að ná”.
Fólkið hélt niðri í sér andanum og hlustaði. Nú skildist því, að hér var verið að segja frá einhverjum kynlegum atburði. Gesturinn hélt áfram:
“Heift og tregi hugans loga kyntu,
því að eitruð orðin var
undin sú, er hjartað bar.
Svölun var að sjá þig blána' í framan,
engjast, reigjast, æpa um grið,
augun deigu hvolfast við.
Það er gott, ef þessa litlu stundu
þína örgu ódrengssál
ögn hefir snortið vítis bál.
Gegnum skrokkinn skjálftakippir liðu,
en sem staurar stirðar þar
stóðu gleiðu krumlurnar.
Kannske hef ég haldið nokkuð lengi - - - - - - - - - -”
“Hér sé guð!” var sagt á glugganum við hjónarúmið. “Hann er hérna”, var kallað út af þekjunni í sömu andránni.
Gesturinn hætti að kveða og fölnaði í framan.
Fyrst varð dauðaþögn. Svo kallaði húsbóndinn út að glugganum:
“Guð blessi þig!”
Rímnakveðskapnum var lokið að sinni. Nú komst alt á hreyfingu í baðstofunni. Húsbóndinn lagði frá sér gæruna og bjóst til að fara til dyra. Stúlka kveikti á kolu og lýsti honum fram göngin. Hitt fólkið herti sig við vinnu sína.
Gesturinn sat þungbúinn og bærði ekki á sér.
Úr miðri frambaðstofunni lá uppgangan ofan í göngin. Skellihurð var yfir henni, og mátti leggja hana upp að veggnum. Svo hafði nú verið gert, svo að ljósbirtuna úr baðstofunni skyldi leggja fram í göngin. Fjós var undir baðstofugólfinu, og var stiginn jafnframt fjóshurð. Þaðan voru göngin bein fram í bæjardyrnar.
Það heyrðist inn í baðstofuna, þegar bæjardyrnar voru opnaðar og húsbóndinn tók kveðjum gestanna. Þeir voru tveir. Var þeim boðið inn og bænum síðan lokað aftur.
Þá stóð gesturinn upp, hægt og seinlega, og hélt á hnífnum, sem hann hafði verið að hvetja. Hann gekk fram að uppgöngunni, nam þar staðar og hlustaði.
Það var sem stríkkaði á öllum taugum í andlitinu. Það var orðið blátt og illilegt, æðin á gagnauganu þrútnaði, en höndin kreptist svo að hnífsskeftinu, að hnúarnir hvítnuðu.
Fólkið í baðstofunni fór að biðja guð fyrir sér.
“Er Sigurbjörn sleggja hér?” var spurt frammi í bæjardyrunum.
“Nei”, svaraði húsbóndinn. “En hér er ókunnugur maður, sem segist heita Ásmundur”.
“Já, einmitt. Það er Sigurbjörn sleggja. Við erum sendir eftir honum frá sýslumanninum okkar”.
“Varið ykkur!” hrópaði gesturinn með þrumandi röddu. “Hann bítur, þessi sem ég held á”.
Að svo mæltu stökk hann fram úr uppgöngunni og lét hnífinn ganga fyrir sér. Hann kom hvergi við stigann og hélt kastinu fram göngin.
Þeir, sem í göngunum voru, hrukku út að veggjunum í dauðans ofboði; stúlkan misti niður koluna af skelfingu, svo að ekki var annað ljós en glætan innan úr baðstofunni.
Annar komumaðurinn þreif um vinstri handlegginn á Sigurbirni, um leið og hann rauk framhjá, og ætlaði að halda honum.
Sigurbjörn brást hart við. Hnífurinn blikaði á lofti og - þaut langt fram í bæjardyr. Í hans stað fékk maðurinn vel úti látið hnefahögg á vangann. Annan löðrunginn fékk hann hjá stoð í göngunum. Þá var hann úr sögunni fyrst um sinn.
En Sigurbjörn reif sig lausan, hljóp fram í bæjardyrnar, svifti opinni bæjarhurðinni, án þess að hirða um, hvert lokurnar þeyttust, og hvarf út í náttmyrkrið.
Húsbóndinn og hinn komumaðurinn fóru á eftir honum.
Á meðan þeir voru úti að elta Sigurbjörn - hnjóta um þúfurnar og slengjast flatir á blaut svellin - var maðurinn, sem óvígur varð í göngunum, borinn inn í baðstofu.
Hann var lagður upp í rúm eins vinnumannsins, skrámurnar á höfðinu á honum þvegnar og síðan bundið um þær.
Við þetta vitkaðist maðurinn svo, að hægt var að tala við hann.
Alt fólkið var komið í hnapp utan um rúmið. Húsfreyjan var þar líka og fékst ekki um, þó að vinnufólkið legði frá sér verkið, þegar jafnsjaldgæf atvik voru á ferðinni.
“Hver er þessi maður og hvað hefir hann gert?” spurði húsfreyjan.
Komumaður reis upp við olnboga og sagði:
“Sigurbjörn sleggja - ég hélt, að allir könnuðust við hann. - Nú, hann hefir kannske ekki komið hér yfir heiðarnar fyrri. Hann er illræmdur flækingur, greyið, drykkfeldur og barsmíðamaður mikill, en að mörgu leyti prýðilega gefinn maður. Hann bjó einu sinni dágóðu búi, en þegar hann misti konuna, þyrmdi yfir hann. Síðan hefir hann drukkið og slarkað og verið á stöðugum flækingi. Stundum hefir hann komist undir manna hendur”.
“Aumingja maðurinn!”
“Já, það má segja. - Hann átti eina dóttur eftir hjónabandið, bjarthærða, glaðlega hnyðru. - Hún held ég hafi verið það eina, sem honum þótti vænt um”.
“En hvað hefir hann gert fyrir sér í þetta skifti?”
“Hann hefir drepið hreppstjórann í Veiðinesi - hann Hrólf ríka”.
“Guð komi til - !”
Fólkið leit hvað framan í annað. Nú fór það að skilja mansöngvana.
“Hreppstjórann, sem hann sagði áðan, að hefði orðið bráðdauður”, mælti einhver.
“O-jæja. Hann varð nú bráðdauður á þennan hátt”.
“Og hvað var til saka?” spurði húsfreyjan.
Gesturinn glotti undarlega og dró svarið:
“Það er ljót saga, varla hafandi yfir, - ein af þeim, sem reynt er að bæla niður í lengstu lög. Nú er þó hætt við, að henni verði hvíslað víða. - Hrólfur hreppstjóri var ekkert ”guðs barn“, þótt hann væri mikils metinn vegna auðsins. Hann var drykkfeldur og sællífur, og ýmsar ófagrar sögur voru jafnan á sveimi í kringum hann. Verst var þó ólukku kvennafarið hans. - - Dóttir Sigurbjarnar ólst upp hjá honum á sveitarframfæri og var komin undir fermingu - -”.
Gesturinn þagnaði, en það fór hrollur um fólkið. Glæpurinn blasti við ímyndun þess.
Gesturinn stundi við:
“Hann mun hafa komið sínu fram, - en stúlkan er vitskert síðan -”.
- - - “Sigurbjörn fór til sýslumannsins og kærði”, bætti gesturinn við eftir nokkra þögn.
“Það hefir víst leitt til árangurs!” andvarpaði húsfreyjan.
“Sýslumaðurinn spurði, hvort hann gæti sannað þetta. Þar með hefir víst réttarrannsókninni átt að vera lokið”.
“Þá hefir Sigurbjörn tekið til sinna ráða -?”
“Já. - Hann fór heim að Veiðinesi og kallaði hreppstjórann út á hlað. Þar kvaðst hann ætla að þakka honum fyrir meðferðina á dóttur sinni og greip um hálsinn á honum, - annari hendi að framan, hinni að aftan, og hefir líklega tylt að, því að Sigurbjörn er sterkur. Vinnumaður hreppstjórans ætlaði að hjálpa honum, en orkaði engu. Húsfreyjan kom út. Hún hékk grátandi í handleggnum á Sigurbirni og bað bónda sínum vægðar, en hann heyrði það ekki. Loks tók hann sælkerann upp á svíranum og vippaði honum eins og mosavetlingi fram á varpann. Þá var maðurinn dauður”.
“Lagði þá Sigurbjörn undir eins á flótta?”
“Nei. Þegar móðurinn rann af honum, færðist á hann magnleysi. Líklega hefir þá meira verið að orðið en hann hefir ætlað sér í fyrstu. Hann lagðist niður úti á túni og lá þar lengi; enginn þorði að koma nálægt honum. Á meðan var sent til sýslumannsins. - Það var ekki fyr en daginn eftir, að Sigurbjörn hafði rænu á að forða sér -”.
- - Það glaðnaði yfir hverju andliti í baðstofunni, þegar húsbóndinn og hinn leitarmaðurinn komu aftur Sigurbjarnar-lausir.