Hérna mun ég koma með nokkra kafla ef að þetta verður samþykkt.

1. kafli

Snjólfur kanúki sat í stúku sinni og las í gömlum kálfskinnsblöðum. Hann taldi sér ekki saklaust að skrifa lengur, því að Seljumannamessa var að morgni og helgin byrjuð. Og þó að hann hefði engar sérlegar mætur á þessum kvendýrlingum og skildi varla í því, að nokkur kona gæti í raun og veru verið guði þóknanleg, allra síst umfram karlmenn, gerði hann það Sunnefu hinni heilögu svo sem til virðingar, eða þó að minnsta kosti til geðs, að lesa í Seljumannasögu.

Beggja megin við hann lágu kálfskinnsblöð, sum gömul og þéttskrifuð, með miklu rósaflúri á upphafsstöfunum, sum nýskrifuð, með settu letri, mjög bundnu og skammstöfuðu, - því að húsfreyjan vildi láta koma sem mestu á hverja örk, - og sum enn þá óskrifuð. Hann var kanúki frá klaustrinu á Munkaþverá, og jafnframt því að vera heimilisprestur á Grund og skriftafaðir húsfreyjunnar hafði hann þann starfa að afskrifa gömul handrit.

Helga húsfreyja vildi ekki gefa neinum manni mat fyrir ekki neitt, ekki skriftaföður sínum fremur en öðrum. Hún taldi það ekki matvinnungsverk að lesa latínuþulur og skriftamál. Þess vegna fékk hún munkinum þessi skinnblöð til að fást við - og leit eftir því sjálf við og við, að hann svikist ekki allt of mikið um.

Munkurinn var maður um þrítugt, þéttvaxinn, þykkleitur, alrakaður og með rakaða krúnu. Hann var latur og værugjarn, með mjúkar og mjallhvítar hendur. Allur svipur hans og vöxtur minnti á heimasætu í karlmannsklæðum, eða óþroskaðan skóladreng, sem enn hefir enga hugmynd um manndóm sinn og karlmannseðli. - Augun voru skær og djúp og full af einhverri óljósri ævintýraþrá, - löngun í eitthvað, sem væri langt, langt í burtu, eitthvað, sem væri forboðið, syndsamlegt og munkatilverunni andstætt, eitthvað, sem hefði keim af munaði, mannvígum og ránum. Hann vissi vel, að þetta var “fleinninn í holdinu”, sem þeir heilögu töluðu um á rósamáli sínu, fleinninn, sem hann hafði lofað að rífa út með öllu. Og þó að hann væri að lesa um sakleysi Sunnefu og heilagleik Seljumanna, sem honum og öðrum áttu að vera til fyrirmyndar, gat hann ekki varist því að hugsa um þessar indælu, siðprúðu meyjar, eins og þær voru á jarðríki, skapaðar til að elska og gleðja og blessa mönnum lífið, en ekki til að taka sig út úr, hafna boðum skapara síns og þorna upp í strembnu helgihaldi og einlífi. Þennan heilagleika, sem söguritarinn hossaði svo hátt, hataði hann, og hefði hann lifað á víkingaöldinni - -.

Hann hugsaði ekki lengra. Undarleg ólga rann um allar æðar hans, eins og áhrif af örvandi drykk. Hann beit saman vörunum og las og las, án þess að skilja nema orð og orð. Sagan flaut fram hjá augum hans eins og árstraumur, rann í gegnum meðvitund hans, án þess að láta þar spor eftir. Hann las um feiknin öll af jarteiknum, sem bein Seljumanna áttu að hafa gert, meðan þau voru að koma mönnum í skilninginn um helgi sína; um ljósið, sem Ólafur konungur sá yfir eynni, þegar hann sigldi þar að landi, og um hadd Sunnefu, sem hann fann ófúinn og blóði storkinn. - Þennan glóbjarta hadd, sem geymdur var í silfurbúnu skríni á altarinu í kirkju þeirri, sem konungurinn hafði byggja látið, þar sem hann sá ljósið, - allt þetta, sem hann vissi, að var haugalygi, sett saman af mönnum eins og honum sjálfum, til að sýna príórnum og biskupunum heilagleik hugsana sinna og ást sína á öllu, sem “heilagt og hreint” væri.

En gegnum lesturinn heyrði hann þung högg, sem féllu með jöfnu millibili og ekki títt. Þau voru eins og leiðtogi hans við lesturinn og táknuðu fallhraðann í þeim syndsamlega söng, sem stöðugt ómaði undir í huga hans. Þessi högg voru honum engin nýlunda. Hann heyrði þau á hverjum einasta degi.

Hinum megin við vegginn var Skreiðar-Steinn að berja fiskinn.

Já - Skreiðar-Steinn og hann sjálfur; þeir voru einu karlmennirnir, sem nú voru heima á stórbúinu á Grund. Annars var bærinn fullur af kvenfólki.

Og að vissu leyti mátti einnig telja þá báða til kvenfólksins. Steinn var örvasa gamalmenni og gerði ekkert annað en berja fisk. Það var meira en nóg erfiði fyrir hans gömlu og lúnu handleggi, og honum voru engin grið gefin við þetta verk, því að búið á Grund þurfti á miklum harðfiski að halda. - Og hann sjálfur, kanúkinn, - hann var ekki heldur talinn nema hálfur karlmaður, enda voru honum engin venjuleg karlmannsverk ætluð. - Þó að þeir, Steinn gamli og hann, væru allan daginn og dag eftir dag með konum einum, fann enginn til afbrýði.

Það lá við, að hann skammaðist sín fyrir munkahelgi sína.