Heimþrá
Smásaga eftir Örn H. Bjarnason
Þegar Þráinn steig út úr flugvélinni á Akureyri, var í honum óvenju mikil tilhlökkun. Það var engu líkara en hann ætti stefnumót við ástkonu, sem hann hafði ekki séð í langan tíma. Þó var því ekki þannig farið. Hann var eingöngu að koma til fæðingarbæjar síns í stutta heimsókn. Löngunin til þess að fara norður hafði komið skyndilega yfir hann, nánast í miðju skrefi, þegar hann var á gangi niðrí Lækjargötu. Hann hafði verið eitthvað pirraður um morguninn, allt fór í taugarnar á honum.
Þetta var á föstudegi og hvergi hægt að finna bílastæði, allt of margir ógreiddir reikningar í pósthólfinu og umferðaljósin alltaf á rauðu. Mestri skapraun olli honum þó kannski þetta svonefnda stönduga fyrirtæki, sem hann var búinn að koma sér upp, allt amstrið og svo starfsfólkið, hver og einn að ota sínum tota og reyna að vinna sig í álit. Það minnti hann á klifurjurtir og hann klígjaði við öllu því falsi og undirgefni sem honum var sýnd bara vegna þess, að hann var eigandinn. Fyrirtækið gaf honum að vísu góðar tekjur, en samt var það orðið honum nánast eins og myllusteinn um hálsinn. Kannski fór það líka svona í taugarnar á honum, vegna þess að nú var hann skilinn við konuna og orðinn einn af þessum sunnudagspöbbum. Hann vissi ekki lengur til hvers hann var að vaða eld alla daga. Börnin sá hann ekki nema endrum og eins, þau voru orðin honum framandi. Já, það var út af öllu þessu, sem hann hafði fengið þá hugdettu að fara norður og hann hafði undið sér inn á afgreiðslu Flugleiða og keypt farmiða.
Og nú var hann kominn til Akureyrar og hann var á leið utan af flugvelli og það var í honum tilhlökkun. Veðrið var gott og þegar hann var búinn að gera upp leigubílinn, var hann ekkert að flýta sér inná hótel að panta herbergi, vildi heldur njóta þess að ganga um og skoða bæinn. Hann var ekki með neinn farangur, ekkert nema brúna stresstösku.
Margt var með sömu ummerkjum í bænum og hér fyrr meir, en margt hafði líka breyst. Þar sem áður höfðu staðið rislágir kumbaldar, voru nú komin nýtískuleg hús. Þau voru vel byggð, það vantaði ekki, en samt var eins og hlaupið hefði einhvert stærilæti í blýant arkitektsins og einhvern veginn var honum ekkert um þessi stóru hús gefið. Sannleikurinn var sá, að hann vildi hafa bæinn eins og hann mundi eftir honum daginn, sem hann steig upp í rútubílinn og flutti suður ásamt móður sinni og bróður. Það var vorið eftir að faðir hans dó. Allur heimurinn má breytast, allt nema fæðingarbær manns. Hann á að vera sjálfum sér líkur.
Þráinn gekk norður Hafnarstræti og hann átti enga ættingja á Akureyri, svo ekki hékk yfir honum kvöð skylduheimsókna. Faðir hans hafði komið að vestan og móðir hans að austan og þau höfðu hist þarna á síldarplani eins og gengur. Það var sumarið áður en bróðir hans fæddist. Þráinn sá mörg andlit, sem hann kannaðist við en enginn gerði sig líklegan til þess að heilsa honum að fyrrabragði, svo hann lét eins og ekkert væri. Sum hin yngri andlit, fannst honum hann líka þekkja, sennilega lifandi eftirmyndir pabba og mömmu.
Já, margt hafði breyst, en eitt var það sem Þráinn vissi að hafði staðist tímans tönn. Það var húsið sem hann hafði alist upp í. Það var uppí Helgamagrastræti og honum var sagt, að nú byggi þar fólk vestan af Patreksfirði. Hann langaði að skoða þetta hús, en ekki alveg strax, vildi treina sér það.
Hann gekk út á Ráðhústorg og fékk sér sæti á bekk. Það var margt fólk á ferli. Maður að kaupa blað í blaðsöluvagninum. Krakkar að borða ís. Hvítflibbamenn á hvínandi þönum að þykjast hafa í ýmsu að snúast. Konur með plastpoka, dálítið guggnar þrátt fyrir allt sólskinið. Og svo unga fólkið, táningarnir…hneykslið. Sumir voru í máluðum fötum, friðartáknið á bakinu og ýmis orð teiknuð á jakka og kákíbuxur, flest á útlensku…LOVE…PEACE eða eitthvað þvíumlíkt. Einn var með hakakross í keðju framan á sér og hálf gelgjuleg stelpa gekk við hlið hans og hún var með langar, grænmálaðar neglur. Skrítið það, hugsaði Þráinn, og göngulag þeirra var dúandi og þau þess leg eins og þau væru að gefa fullorðna fólkinu langt nef.
Á horninu við Hafnarstræti var ísbúð. Þangað lá stöðugur straumur og út komu krakkar með ís eða poppkorn. Það var ekki laust við að Þráin langaði að fá sér ís líka, en honum fannst það varla viðeigandi, hann svona klæddur, fullorðinn maðurinn og með þessa stresstösku. Framhjá honum gekk sjö eða átta ára gamall snáði, líklega eitthvað á aldur við son hans. Þráinn iðraðist þess nú að hafa verið svona fljótur á sér. Hann hefði átt að hafa smá fyrirvara á þessu ferðalagi sínu, þá hefði hann getað tekið strákinn með sér. Þeir hefðu getað gengið saman þessar götur og Þráinn hefði getað keypt ís handa þeim báðum. Það er ekkert athugavert við það, þó að fullorðinn maður borði ís úti á götu, ef hann er með krakka með sér. Og þeir hefðu getað farið saman niður á Torfunefsbryggju eða útá Oddeyrartanga og Þráinn hefði getað sýnt syni sínum, hvar hann sat og dorgaði, þegar hann var lítill drengur. Ekkert jafnast á við að lifa sjálfan sig upp aftur með einhverjum, sem manni þykir vænt um. Það sem við upplifum ein, án þess að gefa öðrum hlutdeild í því, hefur ekki nema hálft gildi.
Þráinn stóð nú upp, ætlaði að liðka sig. Honum varð litið yfir götuna og sá ekki betur en að æskuvinur hans væri að koma þar út úr herrafataverslun. Eða var það missýn? Jú, þetta var örugglega hann Gunnlaugur og Þráinn gekk yfir götuna og nú hafði Gunnlaugur líka komið auga á hann.
“Er það sem mér sýnist?” sagði Þráinn.
“Mikið rétt,” sagði Gunnlaugur og sem snöggvast horfðu þeir hvor á annan, eins og tveir mælingamenn að virða fyrir sér væntanlegt brúarstæði, virtu fyrir sér bilið, sem árin höfðu staðfest á milli þeirra.
“Hvenær komstu?” spurði Gunnlaugur.
“Núna rétt áðan.”
“Og ætlar að vera hvað lengi?”
“Kannski til morguns eða framá sunnudag.”…Þeir stóðu þarna á gangstéttinni og á bekkjunum úti á Ráðhústorgi sátu útlendingar og voru að skrifa póstkort og klukkan var hálf tvö. Andrúmsloftið á milli þeirra hékk enn í óvissunni, fór bil beggja milli undrunar og gleði.
“Hvar ertu staddur í baráttunni núna?” spurði Þráinn.
“Ég vinn þarna í bankanum,” sagði Gunnlaugur og benti á Landsbankahúsið handan við Ráðhústorgið. Þráinn sá að hann var ekki með bindi og skyrtan var fráhneppt í hálsinn og hann var með bládoppóttan silkiklút.
“Ertu kannski í sumarfríi?” spurði hann.
“Já, reyndar,” sagði Gunnlaugur, “maður verður að slaka á stöku sinnum. Það er ekki hægt að telja peninga alla tólf mánuði ársins, síst annarra manna peninga.” Þeir kímdu báðir og gluggarnir á Landsbankahúsinu voru bogadregnir og þeir minntu á baksvipinn á manni, sem er að koma frá bankastjóra og hefur fengið afsvar.
“Ertu mikið að flýta þér?” spurði Þráinn.
“Nei, ekki svo.”
“Hvað segirðu um að ganga með mér út á Hótel KEA? Ég þarf að tryggja mér herbergi og svo getum við kannski fengið okkur einn á barnum.”
“Upplagt,” sagði Gunnlaugur.
Þegar þeir voru komnir að hótelinu stansaði Þráinn og hann horfði upp að kirkjunni.
“Hvað skyldu þær vera margar tröppurnar hérna upp?” sagði hann.
“Einhvern tíma hef ég sennilega talið þær, en ég man það ekki lengur.”
“Þarna efst gnæfir kirkjan,” sagði Þráinn…Út undan sér sá hann tvö blá skilti með hvítum stöfum…KONUR-KARLAR stóð á skiltunum. “Og svo eru almenningsklósetin hér neðst.”
“Já, sumir segja að þessar tröppur tengi saman það andlega og veraldlega í bænum.”
“Og hvort er hvað?”
“Eigum við ekki að láta það liggja milli hluta?” sagði Gunnlaugur og þeir gengu hlæjandi inn á hótelið.
Þráinn fór að afgreiðsluborðinu og þar fyrir innan mætti honum þrautþjálfað viðskiptabros á ungu konuandliti. Þegar til kom var ekkert herbergi að fá, allt upppantað.
“En þú getur reynt út á Hótel Varðborg eða Hótel Akureyri,” sagði viðskiptabrosið og þeir gengu upp stigann, uppá aðra hæð, þar sem barinn var. Þráinn fékk að geyma töskuna í fatahenginu og þeir fóru inn á barinn. Þetta var notalegur bar og fyrir aftan flöskurnar í hillunum voru handmálaðar hraungrýtishellur og gluggatjöldin voru gul og þau voru dregin fyrir svo að ekki sást út á götu.
“Hvað má bjóða þér?” spurði Þráinn.
“Johnny Walker.”
“Sama fyrir mig,” sagði Þráinn við barþjóninn, ungan mann með snúningslipra rödd og fíngerðar hendur. Það voru fáir þarna inni, mest útlendingar og þeir fengu sér sæti.
“Skál gamli vinur,” sagði Þráinn og þeir lyftu glösum. Ísmolarnir möruðu í hálfu kafi í viskíblöndunni og drykkurinn var gulur eins og gluggatjöldin. Á einum veggnum var stór teikning af Akureyri frá því einhvern tíma fyrir aldamót. Þarna gat meðal annars að líta gamla bæjarráðshúsið, sem hafði seinna verið breytt í tukthús. Í kringum 1930 hafði Ástar-Brandur kveikt í þessu húsi að gamni sínu. Raunar mun hann hafa iðrast þess eftir á, því að þegar hann sá það brenna sagði hann hálf kjökrandi.
“Æ, þarna fór sumarbústaðurinn minn.” En það var önnur saga.
Samræðurnar voru í fyrstu heldur stirðar, en svo byrjaði þetta manstu-manstu, sem verður þegar tveir gamlir vinir hittast. Í þess háttar upprifjun verður hvert smá atvik að stór viðburði. Þeir sátu þarna góða stund, en svo þurfti Gunnlaugur að fara.
“Ef þú færð hvergi inni, geturðu auðvitað gist hjá okkur,” sagði hann og þeir urðu samferða út.
“Þakka þér fyrir.”
“Við hjónin vorum að hugsa um að fara í Sjallan í kvöld,” sagði Gunnlaugur, þegar þeir voru komnir út á gangstétt, “ég kannski hitti þig þar.”
“Ja, hver veit.” Þar með kvöddust þeir.
Já, margt hafði breyst á Akureyri, en eitt var þó á sínum stað. Það var HÚSI‹, bernskuheimili hans. Þráinn gekk upp Kaupvangsstræti og þarna var sundlaugin og fyrir neðan hana var andapollur og þar hjá voru gamlir brauðfuglar á vakki og svo var hann kominn í Helgamagrastræti. Hann gekk norður götuna og trén í görðunum voru iðgræn. Eftirvænting hríslaðist um hann, einhver fiðringur, óútskýranleg gleði og svo blasti það við honum…HÚSI‹…fallegasta húsið í öllum bænum. Hann horfði á það dágóða stund, til þess að leyfa minningunum að seytla um sig og ætlaði síðan að halda áfram. En allt í einu fékk hann ómótstæðilega löngun til þess að banka upp á hjá þessu ókunnuga fólki, sem nú bjó þar og fá að skoða húsið að innan. Hann opnaði garðshliðið varlega eins og hann væri að stíga inní helgan reit. Einhvern veginn virtist allt svo miklu smærra í sniðum, en hann mundi eftir því, líka trén, sem hlutu þó að hafa stækkað. Hann gekk heim stéttina og þarna voru reynitré og grávíðir og upp úr moldinni teygðu sig alla vega lit sumarblóm. Hann fór upp tröppurnar og útidyrnar voru þær sömu og áður og sömuleiðis bréfalúgan, en við dyrabjölluna var framandi nafn. Hann þrýsti á hnappinn og það heyrðist gling-gló innan úr húsinu. Dálítil vonbrigði það. Gling-gló voru að vísu fallegir hljómar, en í gamla daga hafði dyrabjallan sagt brrrrr, elskulegt, lágt brrrrr. Hann beið þess að einhver kæmi til dyra.
“Mamma, það er verið að hringja,” heyrði hann krakkarödd segja inni fyrir.
“Farðu þá og opnaðu,” sagði einhver kona og skömmu seinna stóð lítil telpa í gættinni.
“Það er kominn maður,” kallaði telpan.
“Hvaða maður?”
“Bara maður.” Konan kom nú fram og hún var ungleg og með plastsvuntu framan á sér. Skyldi vera hægt að þurrka sér um hendurnar á svona svuntu, hugsaði Þráinn og hann minntist móður sinnar, sem hafði stöðugt verið að þurrka sér á svuntuhorni, léreftssvuntuhorni. Konan horfði á Þráinn og hann horfði á móti, en þau sögðu ekki neitt. Honum varð nú ljóst, hversu fáránlegt uppátæki þetta hafði verið að ætla sér að ryðjast svona inná bláókunnugar manneskjur.
“Ég er að leita hér að fólki,” stundi hann svo loks upp úr sér.
“Nú-já.” Aftur vandræðaleg þögn.
“Það á að búa við þessa götu.” Konan spurði númer hvað og hvað fólkið héti og Þráinn nefndi eitthvert nafn út í bláinn.
“Ég kannast ekkert við það,” sagði konan og hún var ósköp almennileg, en samt dálítið vör um sig. Þráinn leit inní forstofuna og fatahengið var það sama og áður, en aðrar yfirhafnir, aðrir skór, önnur lykt.
“Afsakaðu ónæðið,” sagði hann og flýtti sér niður tröppurnar.
Konan var nú langt að baki og húsið, sem á meðan hann staldraði við í dyrunum, hafði ekki verið annað en sálarlaust fatahengið og þessi ókunna kona með plastsvuntuna, varð nú skyndilega fullt af lífi. Út úr fortíðinni komu bylgjandi, síkvikar minningar…Ærsl í þeim bræðrum, alltaf eitthvað í uppsiglingu, minniháttar prakkaraskapur eða saklausir prettir í hulduheimi þeirra. Þegar hávaðinn keyrði um þverbak eða þögnin varð grunsamleg, kom móðir þeirra til skjalanna.
“Best ég láti pabba ykkar rassskella ykkur, þegar hann kemur heim,” sagði hún kannski…Aldrei lognmolla í þessu húsi. Fréttir í útvarpinu, hurðarskellir, matarlykt úr eldhúsinu, allt á tjá og tundri og móðir þeirra að taka til. Allar mannlegar tilfinningar rúmuðust í þessu húsi. Þögul spenna, hlátur, rifrildi og sorg, öll óveður í sálarlífi fjölskyldunnar og svo lognið, sem fylgdi í kjölfarið. Móðir þeirra var seint og snemma að reyna að ala þá upp, en það gekk erfiðlega.
“Þurfið þið ekkert að læra fyrir morgundaginn?” var spurt jafn oft og skóladagarnir voru margir. Og ekki skorti viðbárurnar.
“Búnir.” Eða. “Kennarinn setti okkur ekkert fyrir.”
“Hvers konar skóli er þetta eiginlega?” sagði móðir þeirra.
Á sumrin var leikin fallinspýtan eða skyttukóngur, stolið rabbarbara úr görðum eða rifsberjum, skylmingar uppi á skúrþökum, bjölluhasar. Dyrabjöllu hringt og síðan hlaupið í felur. Og svo voru það afmælisveislurnar. Þeir sem vildu slást voru í innri forstofunni, en þeir tápminni fengu að vera inni í betri stofu. Þegar svo slagsmálahundarnir voru komnir í eina kös á gólfinu og sumir orðnir reiðir, kom móðir hans og stíaði þeim í sundur með stórri rjómatertu og gosi.
Á veturna voru það skíðin, farið upp í fjall strax upp úr hádeginu og ekki komið aftur fyrr en fór að dimma. Þreyttir og svangir komu þeir inn í hlýjuna heima og báru með sér lykt af blautum vettlingum og ullarpeysu.
“Ekki inn á skíðaklossunum,” sagði móðir þeirra, “ég er marg búin að segja ykkur það.” Stundum gleymdu þeir sér og báru snjóinn alla leið inn á stofugólf.
“Best ég láti pabba ykkar rassskella ykkur,” sagði móðir þeirra þá. Sígild hótun, yfirvofandi háski, en samt dró aldrei til tíðinda.
“Mér tókst að kenna honum að fara í plóg í dag,” sagði bróðir hans.
“Hengið blautu fötin ykkar niður í þvottahús,” sagði móðir þeirra og á eftir smurði hún handa þeim nokkrar rúgbrauðsneiðar og þeir settust við eldhúsborðið og voru í síðum nærbuxum. Ullin í nærbuxunum var gróf og lærin voru glóðheit eftir núning dagsins. Í eldhúsinu var hlýtt og úti fyrir allt á kafi í snjó og móðir þeirra gaf þeim mjólkurglas og mikið var mjólkin köld og góð. Það var ostur á rúgbrauðinu og hver einasti dagur var besti dagurinn í lífi hans. Á morgun myndu þeir bræðurnir svo fara aftur upp í fjall og hann myndi taka enn fleiri beygjur en í dag. Bráðum myndi hann ekki þurfa að fara í plóg lengur og hann gæti verið með skíðin þétt saman alveg eins og bróðir hans. Næsta vetur fengi hann svo kannski ný skíði með stálköntum og gormabindingum.
Og morguninn eftir var það skólinn. Skólataskan á bakinu, lestrarbókin í töskunni og stílabækurnar. Pennastöngin og blýantarnir í hulstri úr tré og lokinu rennt í fals. Reikningur í fyrsta tíma og kennarinn kom inní bekkinn. Hann var af gamla skólanum og í svörtum fötum og með flösu, sem hann bar eins og snjóskafl á báðum öxlum, rétt eins og hann væri að herma eftir fjallinu, sem blasti við þegar horft var út um gluggann. Hann var virðulegur og mjög vel þokkaður af þeim sem kunnu eitthvað, en það voru fáir.
“Setjist,” sagði hann strangur á svipinn, sléttgreiddur, dálítill Hitler í aðra röndina og kennslustofan var þúsund ára ríkið hans. Hann var merkilega fundvís á þann, sem minnst kunni í það og það skiptið og hann leit haukfránum augum yfir bekkinn. Þetta var eins konar tappatogaraaugnaráð, sem skrúfaði sig inn í hugarfylgsni fórnarlambanna.
“Kannski Þráinn vilji reikna fyrir okkur fyrsta dæmið,” sagði hann og Þráinn lyppaðist upp að töflu með reikningsbókina í hendinni og göngulagið þess háttar eins og hann væri að reyna að blíðka einræðisherrann í kennarpúltinu.
“Hvaða dæmi á ég að reikna?” spurði Þráinn og teygði sig eftir krítarmola.
“Nú, fyrsta dæmið sem þið áttuð að hafa heima.”
“Blaðsíða 13,” var hvíslað fyrir aftan hann.
“Þögn í bekknum,” öskraði kennarinn og sléttgreidda höfuðið teygði sig út úr þessari mynd í svart-hvítu, sem samanstóð af flösu og svörtum fötum og hvítri skyrtu. Fötin voru of stór til þess að geta verið fermingarfötin hans og of snjáð til þess að geta gengið í brúðkaupi. Taflan var svört og auð og reikningsbókin, sem Þráinn hélt á í hendinni varð æ þyngri. Hann byrjaði að krota eitthvað á töfluna og krítarmolinn var harður eins og handleggsvöðvar hans.
“Þetta er tóm vitleysa,” sagði kennarinn. Þráinn varð niðurlútur og hann þagði, taldi það ráðlegast.
“Líklega ekki lesið heima frekar en fyrri daginn?” Þvílík spurning, hugsaði Þráinn, vissi maðurinn ekki að það var snjór í fjallinu og veðrið var gott. Hver fer að byrgja sig inni yfir skólabókum þegar snjór er í fjallinu? En reikningskennarinn skildi þetta ekki og hann stökk úr púltinu eins og kviðdreginn hlébarði, þreif krítina úr hendi Þráins, tók í öxl hans og henti honum eftir endilangri skólastofunni. Lipur maður þessi reikningskennari, hugsaði Þráinn og settist.
Svona voru æskuárin, hver dagur öðrum betri, alltaf gaman, jafnvel þegar reikningskennarinn tók upp á því að líkja eftir einræðisherra. Og núna í dag var Þráinn að reyna að endurheimta þessa gleði, sem hér fyrr meir hafði verið eins og hver annar sjálfsagður hlutur. En hvers vegna þurfti hann að fara alla leið aftur í bernsku sína til þess að vekja hjá sér þessar tilfinningar? Hvar hafði honum fatast? Hvenær hafði hann til dæmis byrjað að fjarlægjast konu sína og hún hann? Fyrst í stað höfðu þau elskað hvort annað, en hvað svo? Hann hafði fengið þá flugu í höfuðið að koma sér vel áfram í lífinu, reisa einbýlishús, eignast sumarbústað og að minnsta kosti tvo bíla. Konan hafði svo sem ekki heimtað neitt, en hún var þessu heldur ekki mótfallin. Og einn góðan veðurdag, vöknuðu þau upp við vondan draum, þau gátu ekki lengur talað saman. Þetta allt saman hafði þá verið of dýru verði keypt. Þau höfðu misst sjónar á því, sem mestu máli skiptir að láta sér þykja vænt hvoru um annað og njóta þess að vera saman. Lengi framan af hafði honum tekist að varðveita myndina af konunni eins og hún hafði komið honum fyrir sjónir fyrst eftir að þau hittust. Seinna komu erfiðleikarnir, þetta að byggja upp fyrirtækið, kaupa húsið, áhyggjur, önuglyndi og einhvers staðar hafði þessi upphaflega mynd færst í kaf. Allt í einu sá hann ekkert annað en hversdagslega, miðaldra konu í allt of stóru húsi. Skilnaður var óumflýjanlegur. Þau höfðu eignast allt, en samt misst af strætisvagninum.
Þráinn fór nú niður á Hótel Akureyri, til þess að reyna að fá herbergi, en þar reyndist allt upppantað líka. Sömuleiðis á Varðborg. Dagurinn mjakaðist áfram og einhvern veginn var veðrið of gott, til þess að láta svona smámuni fara í taugarnar á sér. Auk þess hafði Gunnlaugur boðist til að hýsa hann ef í það færi. Um kvöldið fékk hann sér góða máltíð á Hótel KEA og rauðvín með matnum. Og svo var það Sjallinn. Þangað virtust leiðir allra liggja á þessu föstudagskvöldi.
Þegar hann var kominn inn skoðaði hann sig fyrst um niðri, en fór síðan upp á loft og settist á svalirnar með glas í hendi. Þaðan sá hann út yfir dansandi mannþröngina. Lagið sem hljómsveitin lék var fjörugt, en samt voru hreyfingar fólksins hálf letilegar og það var erfitt að sjá hver var að dansa við hvern. Þetta var fallegt, ungt fólk, en það var einhver deyfð yfir því. Það var engu líkara en því væri haldið í viðjum, sem jafnvel æsandi tónlistin megnaði ekki að losa um. En fötin voru falleg og skálmarnar voru víðar og konurnar voru í litríkum kjólum. Þráinn var hins vegar ekki kominn til Akureyrar til þess að horfa á lognmollulegar hreyfingar ungs fólks og hann langaði mest að fara út aftur og ganga uppá Brekku eða niðrað höfn.
Syrpan var nú búin og fólkið dreifði sér, en skömmu síðar byrjaði aftur sama másandi, seinláta höktið. Í loftinu snérist stór ljósakúpull, sem varpaði frá sér birtu í öllum regnbogans litum. Ljósgeislarnir brotnuðu á svipbrigðalausum andlitum fólksins og stundum var það gult í framan, stundum grænt eða rautt eða blátt.
“Þú ert mættur,” var allt í einu sagt fyrir aftan hann og hann leit við. Þarna var þá Gunnlaugur kominn. “Má ég kynna þig fyrir konunni minni?” sagði hann og Þráinn stóð upp og rýndi í gegnum reykmettað loftið.
“Hva, er þetta ekki hún Magga?” sagði hann undrandi.
“Það er nú líkast til,” sagði Gunnlaugur.
“Og þú þekkir mig aftur?” sagði Magga.
“Vitaskuld.” Þau höfðu öll þrjú verið saman í bekk allan barnaskólann, en svona hafði Þráinn fylgst lítið með, vissi ekki einu sinni að þau væru gift. Þau horfðu hvert á annað og allt í einu byrjuðu þau að hlæja, öll þrjú. Fólk sem hefur ekki sést í langan tíma, hefur tilhneigingu til þess að króa hvert annað af á því þroskastígi, sem það var á síðast þegar það hittist. Og þau hlógu eins og börn, óstýrilátt og án allrar sýndarmennsku, hlógu út af engu.
“Við erum með borð hérna niðri,” sagði Gunnlaugur svo, þegar hláturshviðan var hjá liðin, “viltu ekki koma og setjast hjá okkur?”
Þau fóru ofan stigann og Þráinn varð að halda glasinu hátt á loft, svo að ekki skvettist upp úr því, þröngin var svo mikil. Þegar þau komu að borðinu, var þar fyrir annað fólk og Þráinn var kynntur fyrir því. Þetta voru ung hjón og svo ung kona, stök að því er virtist. Fólkið reyndi að tala saman, en samræðurnar drukknuðu í hávaðanum frá hljómsveitinni. Það gerði hins vegar ekkert til, því það stafaði notalegri hlýju frá þessu fólki og það var alveg nóg. Eftir nokkra stund brugðu bæði hjónin sér frá og þau sátu ein eftir Þráinn og staka konan. Þau fitluðu við glösin sín og virtu hvort annað fyrir sér svona út undan sér. Skyldi hún vera léttúðarfull þessi, hugsaði Þráinn…Líklega ekki eða ef svo var, þá var það vandlega falið. Hún var sviphrein og með dökkbrúnt hár. Einhvern veginn hafði Þráinn það á tilfinningunni, að hún væri einmana eins og hann. Það er svo undarlegt en einmana fólk virðist þekkja hvert annað, hvar sem það kann að hittast. Það er eitthvað sem kemur upp um það. Kannski eru það augun eða smá axlarhreyfing eða hvernig hönd teygir sig eftir eldspýtustokk á borði, einhvers konar sameiningartákn, sem leynir sér ekki. Engin orð en samt skilur þetta fólk hvert annað miklu betur en hinir, sem hafa þegið það að gjöf frá lífinu að mega gleðjast. Það er gott að vera glaður, en enginn þarf að skammast sín fyrir dapurleikann eða hlaupa í felur hans vegna. Gleði og hryggð eru hvort tveggja jafn réttháar tilfinningar. Þeim þarf hins vegar að halda í ákveðnum skorðum. †kjur eru hvimleiðar, hófstilling er fögur. Og það var einmitt þessi hófstilling, þessi mátulegi dapurleiki, sem Þráinn sá í andliti konunnar.
“Er alltaf jafn margt hérna?” spurði hann.
“Ég veit það ekki,” sagði konan, “ég kem hingað mjög sjaldan.” Hún þurfti að beita röddinni, til þess að yfirgnæfa hávaðann og við það lifnaði yfir andlitinu og í ljós komu nýir drættir, leyndur sársauki. Meira töluðust þau ekki við, því nú kom hitt fólkið aftur að borðinu.
Staka konan drakk sama og ekkert og svolítið seinna bauð Þráinn henni upp í dans. Hún var í þunnum sumarkjól og hreyfingar hennar voru mjúkar og þokkafullar og Þráinn hélt laust utan um hana. Svo sleppti hann henni og þau dönsuðu án þess að snerta hvort annað, snéru sér í hringi og Þráinn reyndi að halda í við hljómfallið og taktinn hjá konunni. Innst inni óttaðist hann þessa konu, en um leið hændist hann að henni. Hann óttaðist hana vegna þess að hann vildi ekki ánetjast annarri konu, ekki í bráð.
Þau settust aftur og Þráinn var að reyna að grafa upp hvers vegna hann kannaðist svo vel við andlit þessarar konu og þetta dulúðuga haltu-mér, slepptu- mér í fari hennar. Það var ekki fyrr en dansleiknum var í þann veginn að ljúka, að það rann upp fyrir honum á hvað hún minnti hann. Heima eða öllu heldur í húsinu, sem konan hans fyrrverandi hafði fengið út úr skilnaðinum, hékk mynd uppi á vegg. Það var eftirprentun af málverki eftir Gauguin. Myndin var af stúlku frá Tahítí máluð í sterkum gulum, rauðum og brúnum litum. Andlit þessarar Tahítistúlku var kyrrlátt, en um leið ólgandi af lífi, fulltamdar ástríður í blóðríkum vörum og þandir nasavængir. Já, einmitt þannig var þessi kona, sem sat þarna andspænis honum og nú var dansleikurinn á enda.
“Eigum við ekki að koma heim til mín?” spurði Gunnlaugur, “ég á smá lögg í flösku.” Hin hjónin voru ekki í neinu skapi til þess að halda áfram og þau kvöddu þarna við borðið. Þá voru þau fjögur eftir og þau gengu útí bjarta júlínóttina.
Gunnlaugur og Magga bjuggu í lítilli, þriggja herbergja íbúð og þegar þau voru búin að koma sér fyrir í stofunni, setti Gunnlaugur plötu á fóninn. Magga sótti glös og lögin á plötunni voru sungin á sænsku og Magga var dálítið bústin og þau skáluðu. Ókunna konan brosti til Þráins yfir glasbarminn eins og hún væri að reyna að þræða einhvern leyndan krákustíg að hjarta hans. Hann brosti á móti, en innan í sér spyrnti hann við fæti, leyfði henni ekki að komast alla leið. Hún var stödd á röngu augnabliki í lífi hans. Hann langaði að vísu til þess að snerta þessa konu og láta vel að henni, en hann vildi ekki brenna upp til agna.
Aftur var byrjað að tala um gamla daga, manstu-manstu. Hvað varð af þessum, hvað varð af hinum, búa þau hérna, eru þau farin suður? Svo var farið að tala um Davíð Stefánsson og Kristján frá Djúpalæk og Gunnlaugur setti plötu með Errol Garner á fóninn og svo byrjaði hann að lesa upp úr Svörtum fjöðrum eftir Davíð.
“Eru ekki til saltstengur frammi í eldhúsi?” sagði Magga þá og Gunnlaugur varð að hætta að lesa upp ljóð og fara fram í eldhús að sækja saltstengur.
Þráinn fann nú að partýið var að leysast upp og ókunna konan var orðin óróleg og skömmu seinna lét hún panta fyrir sig bíl. Svo var hún farin og Þráinn fann til léttis. Þessi kona hafði verið of falleg og hún var fráskilin svo mikið hafði hann komist á snoðir um og hann vildi ekki eiga neitt á hættu. Þau höfðu reynt við hvort annað með augunum, en lengra voguðu þau sér ekki.
“Þú gistir auðvitað hjá okkur í nótt,” sagði Gunnlaugur og Þráinn var nú feginn, að hann skyldi ekki hafa fengið inni á hóteli og Magga bjó um hann í barnaherberginu. Börnin þeirra tvö voru í pössun hjá afa og ömmu. Þau voru öll orðin þreytt og Þráinn bauð góða nótt.
Hann klæddi sig úr og þegar hann lagðist uppí, fann hann lykt af nýþvegnum sængurfötum. Aðeins áfengishitinn við gagnaugun og tóbaksbragðið af vörunum, stóð eins og veggur á milli þessa augnabliks og bernskuáranna, þá er hann var lítill drengur í föðurhúsum og mannleg hlýja umvafði hann og skýldi fyrir hinni grimmu veröld úti fyrir. Mikið leið honum vel núna og hann langaði til þess að hnipra sig saman, draga hnén upp að höku eins og börnum er svo tamt, en hann stillti sig um það. Á morgun hæfist nýr dagur og hann yrði að sækja brúnu töskuna, sem hann hafði fengið að geyma á Hótel KEA. Já, brúna stresstaskan, táknið um velgengnina, sem var engin velgengni þegar öllu var á botninn hvolft. Á morgun yrði hann að vakna fullorðinn maður og horfast í augu við hinn stóra heim. Fætur hans stóðu út undan barnssænginni og glugginn var opinn og hann fann svalann leika um naktar tærnar. Skelfing er gott að eiga æskuvini, hugsaði hann og sofnaði.
Næsta morgun vaknaði hann við, að eitthvað kalt var sett á enni hans, kaldur hringur á stærð við flöskubotn. Hann opnaði augun og Gunnlaugur stóð við rúmið.
“Viltu ekki kaldan bjór?” sagði hann og rétti Þráni flöskuna án þess að bíða eftir svari. Svo var hann farinn og Þráinn drakk úr flöskunni á meðan hann var að klæða sig. Úr eldhúsinu barst lykt af saltfiski og þau hjónin voru eitthvað að rabba saman í léttum, glaðhlakkalegum tón. Maturinn var nú tilbúinn og þau settust þrjú að snæðingi og krakkarnir voru enn hjá afa og ömmu.
“Ég þarf víst að athuga með matjurtagarðinn minn á eftir,” sagði Gunnlaugur.
“Ertu nú garðyrkjubóndi líka?”
“Ja,við erum með smá kartöflugarð fyrir utan bæinn,” sagði Magga.
“Vaxa ekki kartöflur af eigin rammleik?”
“Ekki álítur Gunnlaugur það.”
“Ertu ekki með út eftir, við förum á reiðhjólum,” sagði Gunnlaugur, “þú getur fengið lánað hjólið stráksins.”
En Þráinn var búinn að sjá það sem hann ætlaði sér og hann ætlaði suður í dag.
“Nei, ætli ég verði ekki að ná í vélina núna kl. hálf þrjú,” sagði hann. Gunnlaugur leit á hann og það var greinilegt að hann var vonsvikinn. Þau settust nú inn í stofu, til þess að leyfa matnum að sjatna í sér. Á eftir hjálpaði Gunnlaugur svo Möggu að vaska upp.
En von bráðar var komið að kveðjustundinni og Magga pantaði bíl handa honum. Þau voru sjálf tilbúin að fara út í kartöflugarð. Þau kvöddust og Þráinn sótti töskuna sína niðrá hótel og á leiðinni útá flugvöll fór hann að hugsa um, að sennilega myndi þessi bær fylgja honum, hvert sem hann færi. Ekki þó bærinn eins og hann var á þessum milda sumardegi, heldur miklu fremur bærinn, sem varð eftir, þegar túristarnir voru farnir, kauptíðin á enda og búðarfólkið búið að taka ofan viðskiptabros sumarsins. Eða kannski öllu heldur bærinn handan við bensínþefinn, bærinn eins og hann hafði verið, áður en fólkið eignaðist alla þessa bíla. Þá voru heldur ekki komin þessi stóru mótorhjól, sem strákarnir fóru á eftir götunum og hávaðinn svo mikill, að rúðurnar í búðargluggunum nötruðu og búðarfólkið leit felmtri slegið hvert á annað rétt eins og það héldi, að á bak við þennan hávaða leyndist eitthvað ógnvekjandi, uppreisn, yfirvofandi bylting. Þráinn vissi hins vegar að hávaðinn þjónaði eingöngu þeim tilgangi að segja við fullorðna fólkið. “Hér kem ég.” Þegar hann var strákur voru það eingöngu reiðhjól og spil fest með þvottaklemmu á afturöxulinn og spilið látið ganga inn á milli teinanna. Annar tími og ekki eins áhrifamikill hávaði en sami boðskapur. “Hér kem ég.” Já, bærinn handan við bensínþefinn. Drottinn minn dýri, lyktin úr bakaríinu og apótekinu og rakarastofunni. Þetta var áður en poppkorn kom til sögunnar og þá voru ekki þessar frönsku kartöflur og ekki kokteilsósa.
Flugvélin hóf sig nú á loft og græn túnin beggja vegna Eyjafjarðar endurspegluðust í sléttum haffletinum. Hvítfyssandi lækir sindruðu í sólskininu og vegurinn bugðaðist út úr bænum. Einhvers staðar eftir þessum vegi, hjóluðu þau hlið við hlið, Magga og Gunnlaugur á leið út í kartöflugarðinn sinn. Í norðri reis Kaldbakur en í vestri Vindheimajökull og Þráinn var með brúnu töskuna á hnjám sér. Akureyri er fallegur bær, hugsaði hann. Húsin eru vel máluð og garðarnir í góðri umhirðu og fólkið hefur það sjálftsagt gott…sumt. Fallegastur er bærinn þó í endurminningunni. Þar skyggir ekkert á og öllu má hagræða að vild. Aukaatriðin þoka fyrir því sem meira máli skiptir. Ekkert verður eftir nema tilfinningin að hafa alist upp í þessum bæ, heimþrá, söknuður. Þessi tilfinning að eiga sér átthaga forðar sálinni frá kali. Já, Akureyri er fallegur bær og mikið er gott að eiga æskuvini, hugsaði Þráinn um leið og flugvélin sveigði í austur og því næst suður.