Sálin er föst í viðjum vanans
Mig langar að vita hvort þið skiljið líkingarnar í þessari sögu. Endilega segið mér hvað þið sjáið úr henni.
—
Andskotinn. Nú hefur ljósperan farið. Merkilegt þó hvað hún hefur dugað í gegnum tíðina. Þessi uppfinning sem þolað hefur tímans tönn stendur sig enn vel.
Árangurslaust reyni ég að píra augun í gegnum hana, sjá litla vírinn sem glóir svo skært og svo fallega þegar ýtt er á rofann. Ég ýti á rofann. Klikk, klikk, segir hann. Klikk, klikk…en ekkert gerist. Peran er aðeins ber og nakin, hún hangir í tveimur vírum sem eru gulur og blár. Vírarnir liggja inn í loftið og hverfa þar inn í þægilega umhverfi tréviðsins sem liggur að þakinu. Viðurinn er svo mjúkur og hlýr, alveg eins og ljósaperan. Ég vildi óska að ég væri orðinn pínulítill og gæti horfið inn í ljósaperuna. Legið þar í kúpunni og látið skína á mig allan daginn. En ég er það ekki. Ég er fastur inn í herberginu mínu sem er kalt og bert og nakið, og hef verið fastur þar alla mína ævi.
Svo ég held áfram að liggja flatur í rúminu mínu. Stari á hlýja viðarloftið sem lítur út eins og parket, sé alls konar myndir í því, flugvélar, hund í bandi, ýsu án sporðs. Ég lít til vinstri og sé herbergið mitt enn einu sinni. Í herberginu mínu, þegar komið er inn dyrnar, er rúmið til hægri. Það nær veggjanna á milli enda er herbergið mitt ekki stórt og þaðan af síður ríkt af skrautmunum eða nokkru sem gleðja hjartað. Til vinstri í horninu nær mér er hvítur skápur þar sem ég geymi allt sem mögulega gæti glatt augun. En ég fel það bak við hvítt, dautt plastandlit skápsins sem stendur þarna og starir á mig þegar ég ligg í rúminu.
Það sem fyllir afganginn af vinstri hlið herbergisins míns er skrifborð. Það er ekkert drasl á borðinu, enda er ekkert sem færi vel þar, frekar loka ég það inn í skáp. Það eina sem liggur á borðinu er tóm stílabók.
Lesandi góður. Ef þú hefur haldið hingað til að herbergið mitt væri gjörsamlega gerilsneytt öllu því sem frjóvgar sálina, fyllir hana náttúru og lætur hana geta af sér afkvæmi sem birtast í formi sköpunar, þá hefuru rangt fyrir þér. Ég á nefnilega eftir að segja þér frá eina hlutnum inn í herberginu mínu sem nokkuð er varið í. Það er glugginn. Þessi gluggi er yndisleg auðlind að öllu því sem kætir mannshjartað. Út um gluggann getur maður séð marga húsagarða, tré, himininn, skýin, að ég tali nú ekki um Esjuna sjálfa sem gnæfir yfir bláa húsið beint á móti mér. Í dag er hún með húfu úr snjó.
Út um gluggann halla ég mér. Ég finn varmann sem liggur í loftinu í dag. Skynja andrúmsloftið og fílinginn, finn skordýrin humma. Efstu toppar trjánna teygja sig á móti mér, svo verða trén þéttari og þéttari eftir því sem neðar dregur. Ég sé varla niður á jörðina, aðeins í móðu en frá þessari jörð stafar svo ótrúleg hlýja og viska að ég drekk hana og svolgra í mig. Miðað við herbergið mitt eru þessir garðar sem liggja að húsahringnum svo yndislegit. Enda eru þeir það.
Skyndilega er bankað á dyrnar bak við mig. Mér verður svo bylt við að ég hrekk inn um gluggann og læsi honum samstundis. Aftur er bankað, en sá sem bankar segir ekki orð.
Ég legg eyrað að hurðinni. Bak við hana er dauðaþögn. Kíki í gegnum skráargatið og spyr: ,,Hvað viltu?”
,,Má ég opna hurðina og gefa þér rúgbrauð með kæfu? Þú hefur ekki borðað svo lengi!”
Ég bý til litla rifu þegar ég opna hurðina örlítið. Þríf rúgbrauðið af þessari manneskju og áður en hún nær að segja nokkuð er ég búinn að skella hurðinni aftur. Síðan hendi ég rúgbrauðinu rakleiðis út um gluggann. Það lendir á einni trjágrein, skoppar á aðra og aðra og að lokum hverfur það í hlýja, græna mistrið lengst niðri.
Þetta mistur verður sífellt óskýrara og óskýrara. Ég er meira að segja hættur að sjá Esjuna! Hvað er á seyði?
Nú já, það er bara sólin sem er að fara. Ég horfi á stóru kúluna síga neðar og neðar…finn lyktina í blómunum sem kreista úr sér frjókorn áður en þau loka sér. Ég heyri í myrkrinu koma, býflugunum skríða aftur inn í búin sín og þröstinn þagna. Brátt húmar að. Ég skríð upp í rúmið mitt í fötunum og sofna.
,,Í nótt dreymdi mig furðulegan draum. Ég lá niðri í garðinum og horfði upp á herbergið mitt. Jörðin var dimm og hlý, sólin var ekki komin upp til fulls og gaf frá sér þægilega birtu. Skyndilega settist lítill fugl við hliðina á mér. Hann nartaði í eyrað á mér og…”
Það er bankað á hurðina! Fjandinn sjálfur, nú fær maður ekki einu sinni tíma og frið til að skrifa í auðu stílabókina sína, hvað þá að hugsa og pæla um það sem maður ætlar að skrifa! Ég stend upp í hasti, og hrópa ,,Kom inn.”
En gesturinn kemur ekki inn. ,,Af hverju kemuru ekki inn eins og ég skipaði þér?”
,,Ég er of feiminn, því miður. Mér var kennt að ráðast ekki á annarra manna yfirráðasvæði, sérstaklega þegar það er svona heilagt eins og herbergi manns.”
,,Nú, gott og vel. Berðu þá upp erindi þitt og farðu síðan.”
Takk. Það er nefnilega mál með vexti að náunginn á neðri hæðinni er með undarlega bón.”
Gat nú skeð. Þessi frumbyggi á neðri hæðinni enn og aftur á ferðinni. Það eina sem þessi drjóli hugsar um eru tveir synir sínir, sem sífellt suða og tuða í pabba sínum að gera hitt og þetta. Frumstæðar hvatir.
,,Hvaða bón hefur herrann?”
,,Hann vill að þú…leitir þér að konu. Eða, eins og hann sagði sjálfur, eitthvað til að skemmta sér með svo maður verði ekki einmana í herberginu sínu.”
Ég verð svo æstur að ég stekk að hurðinni og lem eins fast og ég get í hana. ,,Segðu þessum vanvita að hundskast til að láta mig vera, og hætta að biðja mig um gagnslausa hluti!”
Nú er nóg komið. Ég hef fengið nóg af vistinni í þessu ömurlega herbergi. Núna skal ég strjúka út í skóginn, þar sem ég get að minnsta kosti fengið næði við að gera það sem mig langar til. Ég get vonandi gengið um eins og hver annar þegn skógarins, lifað í sátt við yndislegu óreiðuna sem þar ríkir, tínt ávexti af tránum, beygt mig niður í næsta vatnshana til að fá mér að drekka og lesið Moggann.
Sólin er ekki enn komin upp til fulls, og skartar ljósrauðum geislum, alveg eins og í draumnum. Ætti ég að strjúka? Mig langar rosalega til þess svo ég læt verða að því. Tek sængurfötin mín og bind þau saman, skelli þeim ´t um gluggann og bind annan endann fastan við rúmstokkinn eins og þeir gera í Hollívúdd. Síðan með einstöku hugrekki næ ég að príla út um gluggann og held mér að sjálfsögðu dauðahaldi í reipið mitt. Hægt og hægt síg ég niður, og þegar ég fer fram hjá náunganum á neðri hæðinni get ég ekki stillt mig um að sleppa annarri hendinni til að gretta mig framan í hann og gefa honum langt nef.
Þegar ég á um einn metra eftir missi ég takið og dett aftur fyrir mig. Ég er svo óheppinn að lenda með bakið á lítilli steinvölu sem borar sig inn í bakið á mér. Um stund ligg ég hjálparvana á bakinu og horfi upp í trjákrónurnar, laufblöðin og himinninn en reyni eftir nokkra stund að reisa mig við.
Ég stend upp og horfi upp eftir húsinu sem ég hef svo lengi leigt herbergi í. Nú segi ég endanlegt bless við það og sný mér við og geng hnarrreistur áfram inn í skóginn og náttúruna. Hann andar heitum blæ á móti mér. Við hliðina á mér suða stórar býflugur og stöku sinnum heyri ég fallegan fuglasöng. Skógurinn er hlýlegur þrátt fyrir að vera dimmur. Ég rekst á lítill læk sem smokrar sér gegnum steina og tré. Svo beygi ég mig niður og drekk vatnið í læknum og hendi mér aftur á bakið, læt fara vel um mig í þykkum bunka af mosa og laufblöðum og sofna.