„Sá sem þetta vottar segir: „Já, ég kem skjótt.“
Amen.
Kom þú, Drottinn Jesús!
Náðin Drottins Jesú sé með öllum.“


Við þessi síðustu orð á síðustu blaðsíðu síðustu bókar sem ég mun lesa legg ég frá mér ljósbláa eintakið af Nýja Testamentinu í útgáfu Gídeonsfélagsins sem lyktar enn eins og nýprentað glanstímarit. „Hvar ertu þegar þín er þörf Jesú, guðs sonur?“ muldra ég bitur út í svart tóm herbergissins, sem viðkunnalegur náttborðslampi gerir þó auma tilraun til að lýsa upp en afrekar aðeins daufa skímu. Ekki það ég hafi nokkurtíma verið trúaður að einhverju viti. Varði að vísu tveim sumrum í kristilegum sumarbúðum rétt fyrir utan Akureyri í bernsku fyrir svo löngum tíma að ég er reyndar ekki alveg viss um hvort ég hafi nokkuð verið þar. Ég veit að staðurinn er til en þetta gæti allt eins hafa verið draumur. Æskmuminningar mínar eru allar svo móðukenndar. Hafi ég verið þar, eða trúaður, eða hvort tveggja er það löngu gleymt og fjarska fjarlægt. Ég er eins langt frá grænum dal á Norðurlandi, með þessum litlu íslensku trjám sem ná manni bara upp að hálsi eins og íslenski hesturinn og kyrrlátu vatni sem speglar íslensku sumarsólina að kvöldlagi, og mögulegt er. Umhverfi mitt núna er eins og lýsing ljósbláu bókarinnar á helvíti: blóðrauður himinn og sviðin jörð hvert sem litið er, hitinn óbærilegur og loftið mettað brennisteinsfnyk sem fyllir vitin, svíður augun. Munurinn á helvíti og þessum stað sem ég er á nú er sá að hér er himininn grámóskulegur og jörðin í stíl: dautt grasið sífellt rakt af tárum eða freðið af deyfð. Hér eru það kuldinn, sektarkenndin og einmannaleikinn sem eru óbærileg og nísta inn að beini, svíða sálina. Þetta er forgarður helvítis.


Litlu hvítu kassamynstrin í loftinu taka að dofna og augnlokin þyngjast og síga, hægt og hægt. Hugurinn sljóvgast og það sígur á mig höfgi þar sem ég ligg á bakinu, friðsæll með hendurnar krosslagðar á brjóstinu eins og búið sé að gera mig klárann í gröfina. Það færist yfir varir mínar kalt bros við tilhugsunina og það er mín síðasta meðvitaða vöðvahreyfing áður en ég fer í kaf. Mér finnst það vera augnablik en það gæti allt eins hafa verið eilífð. Ég finn að smám saman er hið friðsæla og þokukennda mók að fjarlægjast mig og við tekur lágt suð umferðagnýsins með einstaka gargi og hryglum þeirra fugla sem ekki hafa enn yfirgefið þetta sker á vit hlýju og lífs. Það er kominn morgunn. Í eitt einasta augnablik áður en ég átta mig á þessu finnst mér eins og allt sé eins og það á að sér, allt sé eins og það var áður en þetta byrjaði allt saman. En svo vakna ég.


Ung lagleg hjúkrunarkona gengur inn í herbergið og býður góðan daginn. Ég svara engu en fylgi henni með augunum að glugganum þar sem hún dregur gluggatjöldin frá og lýsir því yfir að það sé fallegur dagur í dag. Ég leyfi mér nú að efast um það en af kurteisissökum geri ég það í hljóði. Hún heitir Dagbjört, kölluð Birta, og er rétt rúmlega þrítug. Hún er falleg. Ekki sæt eða eins og klippt út úr frönsku tískublaði heldur falleg, á sinn hátt. Skrýtið hvað kynhvötin er lífseig. Þegar hálfur líkaminn er dauður og hugurinn kæfður í tilfinningalegri deyfð er samt rúm fyrir fýsnir holdsins. Ég er hálfnaður við að afklæða Birtu með augunum þegar hún snýr sér við: „Hvernig svafstu, Einar minn?“ spyr hún umhyggjusamri röddu, lausri við alla tilgerð og gengur að rúminu. Ósjálfrátt reikar hugurinn og ég velti því fyrir mér hvernig hún fer að því að vera svona kammó og lífsglöð, dag eftir dag, óháð þungri lund sjúklinga og áhyggjum og amstri hversdagsleikans. Hversdagsleikinn. Það er jú fyrir þetta ómerkilega hugtak sem maðurinn er tilbúinn að úthella blóði sínu og helst annarra í viðbjóðslegum stríðum. Kaldhæðni örlaganna er sú að fyrir aðeins hálfu ári voru skoðanir mínar allt aðrar og vegna þeirra er ég hér.. „Ég svaf“ svara ég henni hásum og þurrum rómi þegar hún er komin að rúminu og byrjuð að bjástra við næringuna, það þarf víst að skipta reglulega um nál til að koma í veg fyrir sýkingu. Ég er svo þurr í munninum að mér finnst eins og ég sé að kafna á tungunni. Ég hósta og ræski mig en allt kemur fyrir ekki og ég held áfram að hósta þurrum og skerandi hósta sem sargar í sundur viðkvæma slímhúð í hálsinum, hljóðin sem koma frá mér eru dauð og ómennsk. Dagbjört stekkur til og fyllir glasið sem er inni á klósetti af íslensku kranavatni og ég teyga, skál í botn, á meðan við reisum mig við í sameiningu. „Það er eðlilegt að þú sért þurr í hálsinum fyrstu tvo dagana eftir aðgerðina,“ segir hún og strýkur mér létt um hárið og jafnar helstu fjallgarða næturinnar meðan ég klára úr glasinu. „Það gerir svæfingin.“ Ég kinka kolli. „Takk fyrir vatnið,“ segi ég nokkuð mildari röddu en áður. Bæti svo við með feimnislegu brosi, í aumri tilraun til þess að drepa þessa vandræðalegu þögn sem myndast eftir að við höfum horfst í augu og ég litið undan, „fólk eins og þú á orðu skilið.“ Eitthvað annað en með mig.


Fyrir rúmu hálfu ári síðan voru mér allir vegir færir. Ég var hermaður í bresku útlendingahersveitinni, hugsjónamaður, fullmótaður á líkama og sál eftir tæplega 15 mánaða stranga þjálfun í búðum á suðausturströnd Bretlands. Ég var tilbúinn að berjast fyrir því sem ég taldi satt og rétt, tilbúinn að verja gildi mín gegn árásum brjálæðinga og taldi jafnvel sjálfum mér trú um að ég væri reiðubúinn að deyja fyrir málstaðinn. Þessa daga var fátt annað um að hugsa en Íraksdeiluna. Allir fjölmiðlar, sjónvarpsfréttir og dagblöð veltu sér dag eftir dag upp úr stöðu mála. Hvergi var spennan eins magnþrungin, rafmögnuð, óttablandin, og í herstöðinni. Skarkalinn, lífsgleðin og félagsskapurinn sem höfðu einkennt dvöl mína fram að þessum tíma var horfinn. Menn gengu þungbúnir og hugsi um, en úr andlitum allra mátti lesa nokkuð sem við skynjuðum allir hver hjá öðrum – ákveðni. Við vorum staðráðnir í því að bregðast ekki sjálfum okkur, hvorum öðrum eða það sem mestu máli skipti – málstaðnum, þegar stund sannleikans rynni upp. Skömmu eftir miðnætti eina hráslagalega nótt í marsmánuði var svo bundinn endi á allar vangaveltur okkar og heimsbyggðarinnar. Ég var á leiðinni í stríð.


„O ég held nú að stríðshetjur eins og þú eigi nú frekar skilið orður heldur en hjúkkur í hlutastarfi eins og ég,“ segir Dagbjört brosandi og dálítið rjóð í kinnum og heldur áfram með það sem hún hafði byrjað á áður en ég fékk hóstakastið. Hefur hún ekki frétt það? Veit hún ekki hvað gerðist? Blóðið streymir upp í höfðið og ég svitna í lófunum. Það getur ekki verið að hún viti hvað gerðist. „Er ég nokkuð að meiða þig“ spyr hún rannsakandi. „Alls ekki,“ hrekkur hastaralega upp úr mér og ég flýti mér að bæta við með þýðari röddu „mér er alltíeinu orðið svo heitt, gætirðu nokkuð opnað gluggann fyrir mig?“ „Jamm, sjálfsagt. Ég er alveg að verða búin hérna.“ Hún hefur ekki hugmynd um hvað gerðist.


Ég hlýt að hafa dottað. Klukkan er orðin tvö. Umferðagnýrinn er enn á sínum stað en öllu nálægari er umgangurinn fyrir utan stofuna sem ég er á. Ég er búinn að gera það upp við sjálfan mig að láta verða af þessu í dag. Ég nudda stýrurnar úr augunum í síðasta skipti og reisi mig upp. Ég er búinn að hafa rúma þrjá mánuði til að velta þessari ákvörðun fyrir mér. Kannski er ég að strjúka úr því fangelsi sem örlögin vörpuðu mér í, líklega á ég skilið að lifa svona það sem eftir er, örkumla á líkama og sál. Líkurnar á því að ég fái nokkurtíma mátt aftur í fæturna minnka með hverjum uppskurði. Líkurnar á því að ég muni nokkurtíma geta gleymt eru engar. Það lina engar verkjatöflur þann sársauka sem ég upplifi innra með mér. Engin bæn eða bók getur kveikt með mér vonarneista, hversu mörg þúsund ára gömul sem hún kann að vera. Ég er lifandi dauðyfli, kvalið af óbærilegum sársauka því ég lifi, týndur að eilífu því ég er dauður. Ég dó í júní. Það eina sem þarf er að ljúka formsatriðunum. Það er einfalt mál. Ég stal tómri verkjalyfssprautu af bakka sem gleymdist hérna við rúmið hjá mér í gær. Minn síðasti smáþjófnaður. Það eina sem ég þarf að gera er að losa leiðsluna sem liggur úr glæra pokanum, sem hangir á stöng við hlið rúmsins, í handabakið á mér. Ég get losað leiðsluna frá nálinni sem er í æðinni í handarbakinu og nýtt hana til verknaðarins, það gæti orðið allt of sóðalegt að gera tilraun til þess að finna æð sjálfur og myndi gera aðkomuna verri en þörf er á. Þegar leiðslan er laus er eftirleikurinn auðveldur. Bara að fylla tómu sprautuna af lofti, stinga henni inn þar sem hin leiðslan var losuð frá og innsigla örlögin með þéttingsföstu átaki. Það tekur loftið enga stund að komast til hjartans og þá er öllu lokið.


Ég ýti á takkan sem hringir á hjúkkuna. Það tekur hana fimm mínútur að drattast á stofuna enda hætti Birta á vakt klukkan tólf, ég vil ekki að hún komi að mér. „Hvað get ég gert fyrir þig“ segir ung hjúkka smattandi á tyggjói í gættinni loks þegar hún kemur. „Ég er að hugsa um að reyna leggja mig svolítið og þessi umgangur truflar, geturðu nokkuð lokað hurðinni fyrir mig?“ Hún ropar út úr sér lágstemmdu jáyrði við þessari seinustu hvítu lygi minni og lokar hurðinni, augljóslega svolítið pirruð yfir því að hafa verið dregin frá Séð og heyrt tímaritinu sem hún var ábyggilega að lesa, einungis til þess verks að loka einni hurð fyrir fatlafól. Allt er tilbúið. Aldrei hefði mig grunað að svona myndi líf mitt enda. Sem krakki var ég viss um að ég ætti eftir að giftast fagurri prinsessu og búa með henni í stórum kastala, hamingjusamur til æviloka. Sem unglingur og ungur maður voru prinsessan og kastalinn orðnin að elskulegri eiginkonu og stóru einbýlishúsi en áfram lifði draumurinn um hamingjusöm endalok. Eftir að pabbi dó og mamma ekki svo löngu síðar fór ég í herinn og nú er ég hér. Skrýtið hvernig lífið læðist aftan að manni og draumar manns breytast á svipstundu, eins og hendi væri veifað, í martröð. Það er byrjað að rigna. Viðeigandi. Ég losa leiðsluna, fylli sprautuna af lofti og tæmi hana í handlegginn á mér gegnum nálina í handarbakinu. Ég bíð. Einn.., tveir.., þrír.., fjórir.., fi.. nístandi verkur breiðist út frá brjóstinu í vinstri öxlina og þaðan út í vinstri handlegginn. Ég tek andköf af sársauka. Ég má ekki öskra eða gefa frá mér nein hljóð, það er nú eða aldrei. Það blæðir úr neðri vörinni sem ég bít í til að öskra ekki og mér sortnar fyrir augum. Það hringsnýst allt og mér finnst ég vera kominn til baka, farinn aftur í tímann. Þetta er eins og skrýtinn draumur en þó ekki, ég veit ég er hér en hvar er ég? Einhver kunnulegur hávaði er að æra mig. Þetta eru skothvellir. Ég finn lyktina af gráa reyknum sem ég sé, ég sé ekkert annað. Hún er ekki nema svona fjögurra, kannski fimm ára. Þessi öskur lama allt. Skerandi sársaukaóp telpunnar bergmála aftur og aftur og aftur í eyrum mér. Blóðið spýtist undan höndum hennar sem hylja andlitið í örvæntingu. Hún hefur orðið fyrir skoti. Ég get ekki litið undan. Ég reyni eins og ég get en ég er frosinn fastur, lamaður. Það eina sem kemst að í höfðinu á mér og ég heyri sjálfan mig segja í fjarska aftur og aftur eins og mantra er: „ég skaut hana, ég skaut hana“. Svo verður allt svart.