Mjólkin streymdi úr könnunni ofan í bollann, og út í kaffið. Í fyrstu myndaði mjólkin flókin hvít mynstur á svörtum bakgrunni kaffisins, en smátt og smátt varð kaffið ljósara og armar mjólkurinnar urðu ógreinilegri þangað til landslagið í bollanum var orðið ljósbrúnt og sviplaust eins og andlitið sem starði á mig frá hinum enda borðsins.
„Sæll, Magnús,“ sagði andlitið og hló.
„Ég heiti ekki Magnús,“ sagði ég en andlitið hló bara.
„Ég var líka bara að tala við sjálfan mig,“ sagði það. „Ég heiti nefnilega Magnús. Sæll, Magnús.“
Ég gerði mér skyndilega grein fyrir að andlitið var ekki mannsandlit, heldur kattarhaus. Og ég tók líka eftir því að hausnum fylgdi búkur, en ekki af ketti, heldur af súpermódeli í bikiníi.
Kattarkonan Magnús hrifsaði bollann minn til sín og gleypti hann með húð og hári. Síðan tók hún um kverkar sér og orgaði:
„Of sterkt! Þeir hafa aftur hellt vitlaust upp á! Gaaa!“ Hún kúgaðist fram á borðið og lítil mús í röndóttum fötum stökk út úr munninum á henni. Músin rogaðist með járnkúlu í fanginu sem var fest við ökklann á henni með keðju.
„Takk!“ tísti músin. Þyrla í músarstærð sótti hana.
Þegar ég leit upp var Magnús horfin, en í staðinn stóð rómverskur sktlmingaþræll fyrir framan mig í lendaskýlu með keðjusög.
„Viltu fá reikninginn núna?“ urraði hann.
„Fyrir kaffinu?“ Spurði ég.
Risinn varð eldrauður í framan.
„Það er bannað að svara spurningu með spurningu!“ öskraði hann og kippti í spottann á vélsöginni þannig að vinstri brjóstvöðvinn hans tók stökk. Vélsögin var þeim eiginleikum gædd að í staðinn fyrir að drynja eins og aðrar vélsagir fór hún að syngja aríu eftir Wagner með kröftugri mezzósópranröddu.
„Bíddu,“ sagði ég skelkaður. „Ég skal borga reikninginn!“
„Þú getur það ekki! Hann er milljón milljón krónur“ öskraði vöðvatröllið, og vélsögin gerði hlé á söng sínum til þess að hlæja dillandi sópranhlátri.
„Haltu kjafti, Sergeij,“ urraði skylmingaþrællinn og löðrungaði vélsögina, sem sneiddi hendina af honum af.
„Ja weiter meine Stimme dringt…“ byrjaði vélsögin að syngja en hún var orðin furðulega djúprödduð, og hún hætti forviða.
„Hjálp!“ baulaði hún í sjómannsbassa. „Ég er að verða bensínlaus!“
Á því augnabliki brotnaði veggurinn vinstra megin við mig og bensíndæla í í hvíti skikkju með Skeljungsmerkinu ruddist fram á strútsfótum.
„Þið vitið að sjálfsafgreiðslan kostar miklu minna!“ minnti hún okkur á. Hún hljómaði eins og hún væri að skola kverkarnar á sér um leið og hún talaði.
Bensíndælan virti mig fyrir sér. „Ert þú ekki 95 blýlaust?“
„Ha?“ sagði ég. „Nei, bíddu nú hæg…“ en það var of seint. Bensíndælan var komin til mín í tveimur strútaskrefum og tróð nú bensíndælunni upp í nefið á mér.
„Nítíuogníu krónur líterinn!“ þusaði hún á meðan hún dældi og tölurnar á gjaldmælinum breyttust. „Þetta hefurðu fyrir að hundskast ekki sjálfur til að dæla! Tvær krónur af hverjum lítra! Kanntu ekki að reikna?“
Ég fann að ég stækkaði sífellt og belgdist út af bensíni. Mér fannst ég þurfa að ropa en kunni ekki við það. Kameldýr með sólgleraugu bankaði á öxlina á mér og tróð sígarettu upp í hina nösina á mér og dró fram glæsilegan Zippokveikjara. Ég reyndi að öskra en ropinn braust fram í staðinn.
„Slappaðu af,“ sagði kameldýrið. „Ein gerir þér ekki neitt.“
Hann opnaði Zippokveikjarann og gríðarstór logi gleypti hann og kveikti í borðdúknum.
„Engar áhyggjur!“ sagði bensíndælan. „Ég er slökkviliðsbíll!“ Hún rykkti dælunni út úr nefinu mínu og sprautaði bensíni yfir eldinn. Brátt logaði allur salurinn og bensíndælan sprakk.
Allir þögðu þangað til vélsögin drundi varfærnislega:
„Veit einhver hvenær þristurinn kemur?“