Tréð
Smásaga eftir Örn H. Bjarnason
Kristján sat við skrifborðið og kom sér ekki að nokkru verki. Ýmist fiktaði hann við bréfaklemmur eða strengdi rauða teygju milli fingra sér. Í hvítmálaðri gluggakistunni var urmull af svörtum flugum. Ein og ein var að reyna að komast út, en flestar voru dauðar eða þær lágu afvelta á bakinu og mjóir fætur þeirra fálmuðu blindandi út í rykmettaða svækjuna. Þessi dagur yrði erfiður, hugsaði Kristján, ekki tilbreytingarlaus eins og hinir dagar ársins, heldur erfiður.
Í gær hafði forstjórinn viljað finna hann, kallað hann inn á teppi eins og starfsfólkið orðaði það. Það var ekki oft sem hann átti erindi við Kristján. Stundum töluðust þeir ekki við mánuðum saman, hittust í mesta lagi á snyrtingunni og kinkuðu kolli hvor til annars í speglinum eða þá í lyftunni og hún var svo hraðgeng, að það tók því ekki að fitja upp á samræðum. En sem sagt í gær hafði hann fengið þessi skilaboð. Kannski er það launahækkun, hugsaði hann, en minntist ekkert á það við konuna, þegar hann kom heim í hádeginu, vildi ekki vekja hjá henni falskar vonir.
Klukkan tvö stóð hann svo við dyrnar á skrifstofu forstjórans, lagaði bindið og gáði að buxnaklaufinni eins og hann var vanur, þegar mikið var í húfi. Því næst bankaði hann tvö létt högg.
“Kom inn,” var kallað og þegar hann opnaði stóð forstjórinn úti við glugga og frádregin, efnismikil gluggatjöldin voru eins og rammi um mildan hnakkasvip hans. Hann snéri sér við. “Ó, ert það þú,” sagði hann vingjarnlega, “fáðu þér sæti.” Kristján gerði það, en forstjórinn byrjaði að ganga um gólf og leðurbrak úr velhirtum, svörtum skóm hans hvarf ofan í þykkt teppið og varð þar að smá tísti. Þumalfingurna hafði hann í vestisvösunum og hann bauð Kristjáni að setjast.
“Eins og þú veist, þá ætlum við að hefja miklar framkvæmdir í sumar,” sagði hann og staðnæmdist fyrir framan Kristján, “bæta stórri álmu við þetta hús hérna.” Kristján sat teinréttur og það var eins og hann væri með sjúkrakraga um hálsinn. Hendurnar hvíldu á hnjánum og hann líkt og hlustaði með öllum líkamanum og fingurgómarnir vissu fram og hann hlustaði með fingurgómunum líka. “Í gær var teikningin samþykkt,” hélt forstjórinn áfram, “og það kemur í ljós, að tréð hérna úti í porti þarf að fjarlægja.” Tréð, hugsaði Kristján, fjarlægja tréð?…Nei það er óhugsandi. Þessi eini ljósi punktur í því umhverfi, sem starsfólkinu hafði verið úthlutað. Hann ætlaði að malda í móinn, en komst ekki að.
“Á morgun koma hingað nokkrir verkamenn og kranabíll,” sagði forstjórinn, “og mig langar að biðja þig að hafa yfirumsjón með verkinu, sjá um að allt fari vel fram.” Ójá…Átti nú að ota honum í skítverkin, hugsaði Kristján. Upphátt sagði hann.
“Á ekki framkvæmdadeildin að annast svona lagað?”
“Jú, strangt til tekið,” sagði forstjórinn, “en þú hefur tiltrú fólksins hér í þessu fyrirtæki og verði einhver óánægja með þessa ráðstöfun, ættir þú að geta mildað hana.” Hann gekk nú yfir að skrifborðinu sínu og studdi þar á hnapp.
“Bíður nokkur?” umlaði hann og óraunveruleikablærinn yfir þessu öllu saman var þess háttar, að Kristjáni fannst rétt sem snöggvast að forstjórinn væri á eintali við bréfahrúguna á borðinu.
“Já, það eru tveir menn hérna,” heyrðist málmkennd kvenmannsrödd segja og forstjórinn sleppti hnappnum.
“Sem sagt, þetta er þá allt saman klappað og klárt,” sagði hann, “bara halda fólkinu góðu.” Kristján ætlaði að mótmæla, en hugsaði svo með sér að betra væri að fara með löndum, sofa á þessu og vita hvort nóttin færði honum ekki einhverja góða lausn.
Og nú sat hann þarna og glennti í sundur bréfaklemmu. Ekki hafði svefninn orðið honum að liði. Öðru nær. Hann var eiginlega enn ráðvilltari núna en í gær og hann misþyrmdi klemmunni og fann hvernig oddurinn stakkst í þumalfingurinn. Blóð spratt fram, fyrst hægt, en svo stækkaði blóðdropinn og hann sleikti blóðið og fann járnbragð uppi í sér. Hvers vegna þurfti þetta leiðindaverk endilega að lenda á honum, hugsaði hann, eins og honum þótti vænt um þetta tré. Hann spyrnti í gólfið og ók sér á stólnum út að glugganum. Já, honum þótti vænt um þetta tré og enn meir núna af því að hann vissi hvað til stóð. Þetta tré hafði gefið almanakinu líkt og aukna dýpt. Það sagði fyrir um komu vorsins og þegar sölnuð laufin feyktust ráðvillt til og frá um portið, þá vissi hann að vetur fór í hönd. Stofninn á trénu var gildur og núna voru blöðin iðgræn. Oft undraðist Kristján hvernig það hafði getað náð slíkum þroska hér í þessu umhverfi. Rætur þess hlutu að teygja sig um allt portið og langt undir þetta stóra hús. Djúpt ofan í moldina sótti það næringu sína, óx og dafnaði, líkt og vildi það storka öllum heiminum. Á hverju vori kom þröstur og bjó sér hreiður í trénu, alltaf í sama krikanum ár eftir ár, og hann söng af jafn miklu skeytingarleysi og tréð óx, söng hátt og dillandi, eins og hann væri að reyna að segja fólkinu í þessu húsi frá einhverjum fögnuði. Þrösturinn söng um víðáttuna, mjúk flögrandi ský, dögg á strá og lyngi. En aðallega söng hann um frelsið og tónarnir ýfðu við einhverju innan í Kristjáni, líkt og kæmu þeir þar við kviku.
Hve margan vetrardag hafði Kristján ekki horft út um þennan glugga, grandskoðað nærliggjandi hús, rannsakað hverja sementsörðu, eða horft á fólkið á gangstéttunum, oft sama fólkið dag eftir dag að velkjast um í einhverju tilbreytingarleysi. Stundum óskaði hann þess að eitthvað gerðist sem myndi umturna þessu einhæfa lífi hans, bara eitthvað, óeirðir, götubardagar, loftárás, sama hvað það var, bara að líf hans færi í gang á ný.
Þannig leið veturinn, fullur af döprum, köldum hugsunum. En svo kom vorið og þrösturinn settist að í trénu. Söngur fyllti loftið, og bjöllukliður frá ritvélum og þessi söngur kölluðust á, og fólkið í húsinu varð glatt í bragði. Þrösturinn söng um lífið eins og Kristján mundi það frá því hann var lítill drengur. Handan við endalausa daga og nætur var smá ljósop, gluggi út í veröldina eins og hún hafði verið áður en fjórir glerveggir skrifstofunnar luktust um hann.
Já, svona hafði þetta verið og nú átti hann að sjá um að eyðileggja þetta tré, deyða það eina sem gerði lífið í þessu húsi einhvers virði.
Innanhússíminn tók að hringja og Kristján hrökk í kút. Kannski var það forstjórinn, hugsaði hann…Hvað myndi gerast ef hann neitaði að svara, ekki aðeins í þetta eina skipti, heldur alltaf, bryti sér leið út úr hringnum, út úr þessar pappírsveröld, þar sem ókennilegar tölur og stafir iðuðu líkt og maurar á þúfu? Ef hann neitaði að svara í símann og ekki eingöngu það, heldur neitaði að fara eftir fyrirmælum forstjórans, neitaði að lúta öðrum kröfum en þeim sem samviskan í eigin brjósti bauð honum?
Í hugskoti sínu sá hann fyrir sér nýjan heim. Þar voru ekki þessi yfirþyrmandi glerbákn, engar götur, engin umferðarljós. Heyra mátti trén vaxa og dýrahjarðir reikuðu um slétturnar og hann sjálfur var partur af náttúrunni, vissulega svangur, en engu að síður frjáls maður. Hann myndi vakna til hungurs að morgni, endalaust hungur, og sofna út frá því á kvöldin. Ekki þó samskonar hungur og þjakaði hann núna. Stundum var engu líkara en hann væri þakinn áli að innan, ekki aðeins maginn, heldur einnig brjóstholið, höfuðið, allt. Þakinn þessum steingráa málmi og verið að skrapa hann allan með skörðóttu dósaloki eða bitlausum hníf.
Já, hvað myndi gerast ef hann neitaði að svara, neitaði að gera það sem honum var sagt? Skyldu þeir ekki rífa hann á hol?…Þeir hverjir?..Þeir, bara þeir…ÞEIR. Fólkið…Þjóðfélagið. Rífa hann á hol, hæðast að honum, þangað til hann kæmi aftur, skríðandi í duftinu, auðmjúkur, þurfandi, og hringurinn myndi lykjast um hann á ný.
Síminn hélt áfram að hringja, burr…urrrr og minnti á villidýrin í skóginum og flugurnar lágu afvelta í hvítlakkaðri gluggakistunni. Hann tók upp tólið skjálfandi hendi og varð að styðja við það með hinni. Það var eins og hann hefði rétt sem snöggvast stigið út úr mannheimi, en væri nú kominn aftur. Allt var svo framandi og röddin í símanum óvinveitt.
“Má ég koma með reikning til uppáskriftar?” sagði röddin og hann muldraði eitthvað, sem heita átti já og lagði síðan tólið á. Svo leit hann út úr glerbúri sínu og sá hvar stúlka kom gangandi í gegnum stóra salinn, framhjá bókhaldsvélum, sendisveini að gantast við vélritunarstúlkur og fulltrúum með lítil, grá nafnskilti á borðum sínum, eins og þessir fulltrúar væru vélar, sem þyrfti að merkja vandlega vegna vörutalningar um áramót. Stúlkan opnaði dyrnar og afhenti honum reikning. Hann hljóðaði upp á tíu þúsund pappírsrúllur og Kristján skrifaði upphafsstafi sína neðst til hægri og rétti síðan stúlkunni reikninginn aftur. Bros lifnaði í munnviki og sem snöggvast gleymdi Kristján trénu og forstjóranum. Honum sýndist brjóst stúlkunnar titra innan í peysunni og augun kalla á sig í gegnum hávaðann, sem barst framan úr sal. Hann langaði að faðma þessa stúlku og gleyma sér andartak. En svo rankaði hann við sér. Dauðans vitleysa. Þessar hugrenningar voru úr lausu lofti gripnar, allt var gagnsætt, veggirnir, húsið og jafnvel fólkið sjálft.
Og stúlkan var farin og Kristján fór aftur að horfa út um gluggann, horfði á tréð í portinu, þar sem það teygði laufgaðar greinar í áttina til hans, einn stór faðmur, titrandi eins og brjóst stúlkunnar.
En svo var bankað á dyrnar, enn eitt kvabbið. Það var Margrét, gjaldkeri hjá fyrirtækinu.
“Viltu vera svo góður að skrifa uppá þessa peningabeiðni?” sagði hún. Aftur setti hann upphafsstafi sína neðst til hægri, vissi naumast uppá hvað hann var að skrifa, vissi bara að þetta var grænn, ílangur miði, þess háttar sem komið var með til hans mörgum sinnum á dag. Upphæðin hefði alveg eins getað verið hundrað milljónir. Það breytti engu, bara skrifa nafnið sitt, segja já, aldrei snúa þversum. Hann fékk Margréti beiðnina aftur.
“Takk fyrir,” sagði hún og brosti. Alltaf þetta sama “takk fyrir,” og svo bros. Þó að hann hefði rekið rýting í bakið á henni, hefði hún ekki látið standa á brosinu og svo “takk fyrir.”
Klukkan var nú að verða tíu og um ellefuleytið var von á kranabílnum. Kristján fór nú í alvöru að hugsa um, hvernig hann gæti snúið sér í þessu.
“Þú lætur ekki traðka á þér,” hafði konan sagt þegar hann fór að heiman í morgun, “bara alls ekki.”
“En atvinnan?” hafði hann sagt.
“Þú getur alltaf fengið þér aðra vinnu,” hafði hún sagt. Það vantaði ekki að hún stæði með honum, það hafði hún ávallt gert. En að skipta um vinnu eftir tuttugu og fimm ára starf hjá sama fyrirtækinu, það er hægara sagt en gert.
Í fyrstu datt honum í hug að fara til forstjórans og segja honum eins og var, að hann treysti sér ekki til þess að taka þetta að sér. En svo sá hann, að það var engin lausn, tréð myndi engu að síður verða fellt. Þá kom honum til hugar að safna undirskriftum. Já, því ekki það, fá fólkið sjálft til að mótmæla. Húsið mætti reisa annars staðar, nóg var landrýmið í þessari borg. Auðvitað myndi það jafngilda trúnaðarbroti. Hann hafði lofað forstjóranum að láta ekkert uppskátt um hvað til stæði. En hvað um það, eitthvað varð til bragðs að taka. Hann sótti stóra pappírsörk ofan í skúffu og rissaði upp smá formála, “Við undirritaðir,” o.s.frv. Fyrir neðan áttu síðan nöfnin að koma og hann setti sitt nafn efst. Svo fór hann fram í salinn og bað fólkið um að hlusta á sig andartak. Hann sagði því hvað til stóð, látlaust, en ekki í neinum ræðustíl, fannst það ástæðulaust, málið lægi ljóst fyrir. Þau myndu öll skrifa undir og það yrði að taka þessa ákvörðun til baka. Fólkið var greinilega mjög slegið, sumir jafnvel reiðir, mjög reiðir. En að skrifa undir, það var önnur saga. Slíkt gat bitnað á því síðar meir. Og hvað um eftirvinnuna? Hún yrði kannski skert. Eða sumarferðalagið, sem var á næsta leiti, með ókeypis rútuferð, smurt brauð og gos eins og hver vildi og svo kvöldverður á einhverju fínu hóteli?
“Já, en tréð?” sagði Kristján, “Það er minnst hundrað ára gamalt.” Ekkert svar.
“Það er enginn gróður hér í mílu fjarlægð,” sagði Kristján og vélritunarstúlkurnar voru farnar að greiða hver annarri og snyrta á sér neglurnar. Kristján hélt áfram að tala, en hópurinn fór að tvístrast og þeir sem reiðastir höfðu verið laumuðust líka í burtu. Stúlkurnar byrjuðu að hamra á ritvélarnar á ný og orð hans drukknuðu í hávaðanum. Enginn hafði fengist til að skrifa undir.
Kristján fór aftur inn til sín og í gegnum rúðuna sá hann samstarfsfólkið. Það var þarna rétt hjá, en samt svo óralangt í burtu. Hver og einn að þvælast um í sinni eigin veröld, enginn snertipunktur, líkt og tvær samsíða línur, sem eiga það aldrei fyrir sér að mætast.
Hann settist niður og byrjaði að spila með fingrunum á borðplötuna, líkti eftir hesti á harðastökki og reyndi að hugsa í takt við það. Svo hringdi síminn. Það var forstjórinn.
“Jæja, þá er kranabíllinn kominn,” sagði hann.
“Mig langar aðeins að fá að ræða við þig,” sagði Kristján flaumósa.
“Þá verðurðu að flýta þér.” Kristján lagði tólið á, reif upp hurðina og hálf hljóp í gegnum aðalsalinn, þaðan fram á gang, síðan upp stiga, pall af palli. Fólk hrökklaðist undan og pappír þyrlaðist úr höndum þess.
“Hvað get ég gert fyrir þig?” sagði forstjórinn, þegar Kristján kom inn til hans.
“Ég vil ekki að þetta tré verði fellt,” ruddi Kristján út úr sér og hann var lafmóður. Um leið og hann sleppti orðunum fann hann, hversu ólíkur hann var sjálfum sér. Það var eins og annar maður stæði við hlið hans og það væri sá sem talaði.
“Bölvað rugl er þetta,” sagði forstjórinn.
“Það er búið að standa þarna svo lengi og okkur hér í húsinu þykir orðið vænt um það.”
“Ég hef nú bara aldrei heyrt annað eins. Við erum að hefja hér framkvæmdir upp á tugi milljóna og svo ert þú að vola út af einni hríslu.”
“Þetta er engin hrísla, heldur stórt tré og þrösturinn er kominn og búinn að byggja hreiðrið sitt.”
“Hvaða þröstur?”
“Þrösturinn.” Forstjórinn var nú farinn að ganga um gólf og hann var ekki með þumalfingurna í vestisvösunum.
“Þú gerir bara eins og þér er sagt,” þrumaði hann.
“Ég get það ekki.” Forstjórinn kleip sig nú í kinnina eins og hann væri að gá að því hvort hann væri lifandi eða heyrnin tekin að svíkja hann og öll stilling var horfin úr augnaráðinu.
“Þá er þér líka óhætt að pakka saman og fara,” sagði hann.
“Hvað áttu við?”
“Annað hvort hypjarðu þig út í port og stjórnar þessu verki eða þér er sagt upp.” Kristján stóð þarna kyrr í sömu sporum, og þykkt teppið líkt og sogaði úr honum allan mátt. Hann hafði gengið gneypur og undirgefinn í gegnum þetta líf og nú var of seint að rísa upp. Að vísu var konan á hans bandi, en hvað stoðaði það úr því að allir aðrir voru á móti honum? Og nú átti að reka hann úr starfi, ef hann makkaði ekki rétt og væri auðsveipur og hlýðinn. Hann kunni ekki á neitt nema þetta pappírsrusl. Skóflu hafði hann varla séð í mörg ár og þótt hann vildi fara í fiskvinnu þá gæti hann það ekki. Fiskur var í hans augum eitthvað, sem lá sundurskorið á fati og maður setti á diskinn sinn og borðaði síðan. Hann átti engan leik.
“Jæja, eins og þú vilt,” sagði hann og mikið óskaplega fyrirleit hann ekki sjálfan sig á þessu augnabliki. Hann fann hvernig hælarnir drógust eftir teppinu og yfir þröskuldinn.
Þegar hann kom út í portið var kranabíllinn að bakka að trénu og fjórir verkamenn að vappa í kring. Svo klifraði einn þeirra upp í tréð og teygði sig í krikann og sótti þrastarhreiðrið. Hann hélt varlega á því eins og hann væri þjónn að bera bakka með ótal kokteilglösum. Þegar hann var kominn niður aftur, fór hann með hreiðrið út undir húsvegg og lagði það á svart malbikið. Í því voru tvö lítil egg.
Verkamennirnir brugðu stálvír utan um tréð og voldugur krókur seig úr hárri bómu. Kristján leit upp í gluggana. Þar var andlit við andlit og sólargeislarnir brotnuðu í rúðunum og afskræmdu þessi andlit. Andlit við andlit, en lamaður vilji.
Krókurinn nam nú við lykkju á vírnum og kranamaðurinn beið eftir því að Kristján gæfi merki. Hversu oft hafði hann ekki gefið fyrirskipanir, sem brutu í bága við eigin sannfæringu? Samt stóð hann nú þarna og tvísté. Hjartað í brjósti hans lamdi ótt og það minnti á lítinn fugl, sem hefur villst inn í hús og ótal hendur að reyna að klófesta hann. Loksins gaf Kristján merki og um leið rifjaðist upp fyrir honum löngu liðinn atburður, er hann hafði verið viðstaddur kistulagningu á litlu barni.
Kraninn tók að erfiða, en tréð neitaði að gefast upp baráttulaust og flugbeittar axir hófust á loft. Það glampaði á þær, er þær klufu þennan yndislega sumardag. Kristján sá hvar ræturnar teygðu sig í angist ofan í moldina, en um síðir hrukku þær í sundur. Sem snöggvast fannst honum öll veröldin æpa, gluggarnir á húsinu, allt fólkið og þetta tré, þar sem það hékk niður úr bómunni og moldin sáldraðist ofan á malbikið.
Nú var ekkert eftir nema djúp hola og holan æpti og tréð var sett á vörubíl og því ekið í burtu. Þrösturinn flögraði yfir portinu og tveir smástrákar voru eitthvað að slóra þarna og annar þeirra pikkaði í hreiðrið með spýtu. En það skipti engu máli, ekkert skipti máli lengur og Kristján fór aftur inn í stóra húsið, til þess eins að bíða, bíða eftir því að klukkan yrði fimm og hann reyndi að gleyma þessari djúpu myrku holu úti í porti. Holan minnti á augntóftina á manni, sem hefur misst auga. Tvö lítil egg hvíldu í litlu hreiðri, en allt var um seinan, hugsaði Kristján og þrösturinn flögraði yfir portinu og allt var um seinan.