Laugardagur 15. janúar 1974
Kæra dagbók!
Það er langt síðan ég hef talað við þig… Síðan þetta gerðist hefur öll lífslöngun horfið úr mér. Skrítið, ekki satt? Það er ekkert gaman að vera hérna, nákvæmlega ekkert að gera. Eða jú! Anna frænka keypti taflborð fyrir okkur um daginn. Það var ágætt. Ég fékk leið á því eftir einn dag. Mummi litli svindlar svo mikið að enginn vill tefla við hann. En hvað um það… Herbergið hans Jasons stendur ennþá tómt. Ég veit ekki hvort nokkur vilji flytja inn í það. Ég er búin að vera að spurja Önnu fænku um málið en hún vill ekkert segja. Þó heyrði ég hana og Tuma tala um að fá eitthvað annað barn… Það er fáránlegt! Það getur enginn komið í staðinn fyrir Jason. Það á ekkert að fá eitthvað annað barn í stað hans! Og þó…það gæti verið ágætt. Ég hefði kannski einhvern til að tala við. Ég hata alla sem eru hérna núna. Jason var sá eini sem ég gat talað eitthvað við. Við vorum vinir. Mjög góðir vinir. Ég á enga vini í skólanum hér. Stelpurnar í bekknum mínum eru allar mjög leiðinlegar við mig. Bara af því að ég er öðruvísi. Það eru ekki allir eins heppnir og þær. Þær bara fatta það ekki. Ég þoli ekki svona lið. En Jason sagði alltaf að maður myndi læra miklu meira af þessu og á endanum verða miklu betri en þessar stelpur… Ég trúi á orð Jasons. Jason sagði alltaf satt. Hann hafði alltaf rétt fyrir sér. Það er einhver að koma. Ég verð að fara. Ef Anna frænka kemst að því hvað ég er að gera, þá fé ég líklegast engann kvöldmat. Vertu sæl!
Martha
Mánudagur 8. apríl 1976
Kæra dagbók!
Síðustu tveir dagar eru búnir að vera viðburðaríkir… Á góðan eða slæman hátt? Ég veit það ekki… Það er búið að mála herbergið hans Jasons rautt. Anna frænka og Tumi voru í allan morgun að mála. Ég veit ekki af hverju… Þetta er í fyrsta skiptið í mjög langan tíma sem einhver vogar sér að fara þarna inn. Þetta þýðir líklegast að einhver nýr sé að koma. Væntanlega stelpa. Vonandi á svipuðum aldri og ég. Ekki eldri. Og í gær komu svartklædd hjón. Allir urðu voðalega spenntir. Þau gengu um og skoðuðu okkur öll. En að lokum völdu þau bara Mumma litla. Lífið er ósanngjarnt. En það er að vissu leyti ágætt að þau völdu hann. Ég meina, ég bjóst hvort sem er aldrei við því að verða fyrir valinu og því er ágætt að hann sé farinn. Nú er að minnsta kosti hægt að tefla í friði. Enginn vill þó tefla við mig. Ætli ég tefli ekki bara við sjálfa mig. Það er ágætt. Það verður spennandi að sjá hver vinnur. Í kvöld verða kartöflur í matinn. Það er ágætt svosem. Gæti verið betra en kartöflur eru hollar og góðar. Í raun er ekkert að gera hérna nema að tala við þig. Í gær fékk ég nýja bók. Hún er gömul og illa farin en bók engu að síður. Anna frænka gaf mér hana. Hún átti hana þegar hún var lítil, sagði hún. Það verður spennandi að lesa hana. Hún er um Maríu, sem var algjör veimiltíta. Verst er þó að það vantar alveg peru í lampann minn… En það gerir ekkert til, ég les bara uppi í gluggakistu. Ef ég kvarta mikið er minni möguleiki á að ég fái að fara. Enginn vill veimiltítu, er það nokkuð? Í dag fór ég í skólann. Því miður stálu strákarnir í bekknum heimaverkefnunum mínum. Ég fékk skammir. Ég klagaði þá ekki. Þá myndu allir kalla mig veimiltítu. Strákarnir í bekknum eru byrjaðir að breytast. Þeir tala meira við stelpurnar og gera allt fyrir þær. Ég held að þær hafi beðið þá um að gera mér þetta, þær hata mig svo mikið. Sérstaklega Gunnvör. Hún er lítil og ljóshærð. Andstæðan við mig. Ég er náttúrulega stór og sterk, kolsvört. En það er ekki eins og ég geti gert eitthvað í því… Ég verð að vera sterk og trúa á sjálfa mig. Það myndi Jason vilja. Ég veit að hann er hérna fyrir ofan mig… Hann hugsar um mig. Hann er engillinn minn.
Martha
Þriðjudagur 18. ágúst 1990
Kæra dagbók!
Þetta er búinn að vera æðislegur dagur. Ég trúi þessu ekki ennþá! Ég trúi ekki að ég sé orðin 28 ára! Vá! Mér hefur aldrei liðið svona vel áður. Ég er líka mjög ánægð í vinnunni, ég held að ég ætli bara að halda mig við þetta starf. Ég nýt mín svo vel að vera á hlaupum allan daginn og gera fólk ánægt. Kaupið er líka alveg fínt. Já, svo verð ég eiginlega líka að segja þér hvað Pjetur gerði fyrir mig áðan. Hann bauð mér út að borða á einn fallegasta veitingastað sem ég hef augum litið. Og svo borgaði hann fyrir allan matinn. Þetta er það fallegasta sem nokkur hefur gert fyrir mig! Síðan fórum við á ballið með Geirmundi í Hlöðunni, og það var frábært. Þar voru líka fyrir Gunnvör og Alma, og við skemmtum okkur allar frábærlega! Reyndar gerðist það óhappa atvik
að Pjetur bakkaði á ljósastaur þegar við vorum að fara. En hann keyrði bara í burtu eins og bjáni og enginn sagði neitt. En nú er klukkan að ganga fjögur og ég verð að fara að sofa… Ég fer að vinna á morgun og verð að vera útsofin. Góða nótt!
Martha
Fimmtudagur 29. september 2002
Kæra dagbók!
Ég var að fara yfir gamlar dagbækur í gær, og það er alveg ótrúlegt að sjá hvað ég endist þetta lengi. Stundum furða ég mig á því hvernig ég nenni alltaf að skrifa þér…! En svo hugsa ég hve mikla huggun þú veittir mér þegar ég var yngri… En allavega, Pjetur fór í gær til Tælands, að heimsækja mömmu sína. Mér var mest í megn um að koma með, en við bara höfum ekki efni á að taka öll börnin með. Pjetur litli er byrjaður í 1.bekk og finnst mjög gaman. Jason er aftur á móti orðinn tólf ára og er á fullu að æfa glímu. Hann varð innanfélagsmeistari um daginn og fékk þátttökurétt á Íslandsmótinu. Ég er mjög stolt af honum. Parker er aðeins byrjaður líka, en kann ekki mikið. Jason er að reyna að kenna honum. Mér finnst svo æðislegt að sjá hvað öll börnin mín ná vel saman, allir eru vinir í þessari fjölskyldu. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið í gær, um félagsþjónustu, og fékk strax góð viðbrögð. Það er ég mjög ánægð með. Pjetur segir að ég eigi að sækja um vinnu þar en ég er ekki viss. Það gæti vissulega orðið gaman…og spennandi… En ætli ég fengið nokkur viðbrögð? Ætli mér yrði ekki bara sparkað á dyr? Það sakar samt ekkert að prófa. Æ, ég veit ekki. Hluti af mér er enn ekki búinn að ná því að í dag er ég ekki lengur svona útskúfuð. Ég býst allataf við að fá einhver blótsyrði framan í mig, bara þegar ég fer út í búð. Ég er líka hrædd um börnin mín. Oh, þetta eru bara einhverjar óþarfa áhyggjur í mér! Ekki hlusta á mig. Ég er mjög ánægð með lífið núna og nýt mín vel í nýju íbúðinni. Við vorum búin að lofa krökkunum að mála herbergin þegar Pjetur kemur heim. Þau eru öll búin að velja liti. Þetta verður litríkt hús.
Martha