Ljúf tónlist rennur gegnum loftið frá útvarpinu og slær á strengi í hjarta mér.
Þetta lag, þetta minnistæða lag fær hjarta mitt til að slá aukaslag. Þeir sem visku bera myndu segja að innra með mér sé ástin að brjótast um, ég segi að hún neiti að deyja.
Meðan ég sit og hlusta á lagið sem heltekur huga minn, sálu mína, þá leitar hjartað til minninga um unga stúlku og við hvert líðandi andartak verður hjartslátturinn þyngri og ég býð þess að hjartað springi.
Það var vorið 2001. Sólin fór hækkandi með hverjum líðandi degi, börn höfðu dregið fram bolta sína, hjól og þutu um fáklædd fram á kvöld.
Á einu þessara kvölda sat ég ásamt félaga mínum á kaffihúsi. Það var þá er hún gekk inn, staðurinn lýstist upp. Augun tær, hárið brúnt og féll niður á axlir og ásýnd þessa engils er ekki hægt að lýsa í orðum. Og um loftið barst þetta ljúfa lag sem í dag hafði náð til hjarta míns.
Hún heilsaði félaga mínum og settist hjá okkur. Við vorum kynnt, nafn hennar var Sóley, nafn sem aldrei víkur úr huga mér.
Eftir stuttan tíma kvaddi félagi minn og eftir sátum við tvö og spjölluðum saman, svo margt sem við áttum sameiginlegt, svo mismunandi sjónarhorn sem við höfðum á lífið.
Hjá okkur stóð tíminn í stað, það var ekki fyrr okkur var bent á að það væri verið að loka, ég var hugfanginn af þessari stúlku, jafnvel ástfanginn, við stóðum upp og gengum út fyrir. Þar skildust leiðir okkar og við gegnum í sitt hvora áttina. ég bölvaði mér fyrir að finna ekki kjark til að segja eitthvað, fá símanúmer, eitthvað.
Svo stoppaði ég skyndilega eftir örfá skref og snéri mér við tilbúinn að kalla á hana, þarna stóð hún og horfði til mín, hún hafði sjálft ætlað að tala við mig.
Ég fylgdi henni heim.
Næstu daga töluðum við reglulega saman, við urðum góðir vinir og svoleiðis leið mánuðurinn, og sá næsti, en við vorum bara vinir.
Það var svo kvöld eitt er við sátum upp í sófa heima hjá henni, hjúfruð undir teppi að eitthvað gerðist.
Myndin var búinn og tónlistar myndböndin byrjuð. Hvorugt okkar nennti að standa upp. Og undir teppinu fundu hendurnar hvor aðra og svo ýtti eitthvað við mér og ég reisti mig við. Strauk fingrunum eftir vanganum, í gegnum hárið. Varir okkar mættust í fullkomnum kossi. Fullkomnu eilífu andartaki.
Ég gekk á ský næstu vikurnar á eftir, ég hélt lífið gæti ekki orðið betra.
Vikur liðu, haustið kom og fór og við tók kaldur vetur. Við áttum yndisleg jól í faðmi hvors annars.
Það var febrúarmánuður að hlutir tóku að breytast.
Hún hafði farið á eitthvað stelpukvöld með vinkonum sínum og ég sat bara heima og horfði á sjónvarpið.
Síminn hringdi. Á hinum endanum var Stebbi besti vinur minn, fullur eins og öll laugardagskvöld. Honum bráðvantaði far í eitthvað partý. Eins og venjulega renndi ég eftir honum og kom honum heilum á áfangastað.
Og eins og venjulega fór að nöldra mér um að koma inn, skemmta mér smá. Eitthvað ýtti við mér í þetta skiptið og ég fór inn.
Á móti okkur tók dúndrandi tónlist og ég gekk rólega inn í stofu, þá var líkt og einhver rekkti stiku í gegnum hjarta mitt. Þarna stóð Sóley með varirnar límdar við einhvern strák. Ég snérist í sporunum og hvarf út um dyrnar.
ég svaraði ekki símhringingum, ég talaði ekki við neinn, sat bara og braut hugann um allt og ekkert.
Svo rakst ég á hana einn daginn, hún baðst fyrirgefningar, sagði að hún hefði átt að segja mér fyrr frá þessu, ekki láta mig komast að þessu svona.
Ég brosti tómi brosi og gekk í burtu.
Nú eru tvö ár liðin síðan ég sá hana fyrst og í hver skiptið sem ég heyri þetta lag þá kenni ég til í hjartanu.
Ég hef aldrei upplifað sömu ást, sömu tilfinningu til neins annars og kannski á ég aldrei eftir að gera það.
En sagt er að tíminn græði hjartasár, með það í huga slekk ég á útvarpinu og horfi til framtíðarinnar með vonarglætu í hjarta. Litla von sem deyfir skugga fortíðar.