Henni leið eins og hún væri að kafna í fanginu á honum. Reyndi að færa höndina hans eins hægt og hún gat í burtu, hún var eins og límd föst við hana. Hún fylltist viðbjóði. Gat hann ekki sofið með opinn gluggann eins og annað fólk? Vá, hvað henni var heitt. Hún smeygði sér varlega úr fanginu á honum… hann umlaði en vaknaði sem betur fer ekki. Hún var sloppin úr klístruðum klónum á honum og stóð nakin á gólfinu. Horfði yfir herbergið. Hvar voru fötin hennar? Þreifaði fyrir sér í rökkrinu en átti erfitt með að sjá hvort þetta væru hennar föt eða hans. Fann að lokum gallabuxurnar sínar á gólfinu og tróð sér í þær en var öll þvöl og gekk því ekkert alltof vel. Var næstum dottinn á hillur fyrir aftan sig. Átti sem betur fer ekki í eins miklum erfiðleikum með bolinn og sokkana en leið einhvernvegin furðulega þegar hún var komin í öll fötin. Leið eins og hann væri að fylgjast með sér. Nei, það gat ekki verið… var hann með opin augun? Hún hallaði sér og pírði augun út í myrkrið. Nei, hann var stein sofandi, með þenna óþolandi sakleysis svip eins og honum þætti gott að vera laus við hana.
Hún virti sjálfa sig fyrir sér í speglinum við hliðina á sér. Sá lítið annað en svartar útlínurnar og óljósar drætti andlitsins. Svört augun. Dularfull. Spegilmyndin horfði í augun á henni, starði í tóma sál hennar og þagði… hún þagði líka, leit undan. En spegilmyndin hélt áfram að stara. Augnaráðið fylgdi henni þar sem hún fikraði sig út úr myrku herberginu.
Hún andvarpaði þegar hún kom fram. Hvað var hún að gera? Hvað hafði hún að fela? Hann þekkti hana ekkert og myndi ekki dæma hana.
Hún hristi hausinn og fór fram á gang. Klæddi sig í skóna og reyndi að leiða hjá sér spegilmyndina við hlið sér sem fylgdist með henni án þess að segja nokkuð. Það var svalt frammi á ganginum og hún stóð kyrr á gólfinu í smá stund og lokaði augunum. En eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hún fann fyrir stingandi augnaráð spegilmyndarinnar á bak við sig… lágt hvíslið…
,,Hvert ætlarðu að fara? …Út í kuldann? …aftur til hans?’’
Hún tók kápuna sína niður af fatahenginu og klæddi sig í hana…
,,Freeeeyja… hver ertu að fara? …ætlarðu að stinga hann af? …eins og alla hina. …þú getur ekki farið aftur til hans, þú munt aldrei breytast …þú getur ekki falið það …Föst!’’
Rennilásinn sat fastur og hún rykkti honum fast til. Gaf spegilmyndinni hornauga. Fann reyðina blossa upp í hausnum á sér. Reyndi að bæla hana niður… þagga niður í henni. Fann tárin byrja að renna niður kinnarnar en lét þau eiga sig. Ætlaði ekki að þurrka þau í þetta skiptið. Leit í spegilinn, beint í augun á henni og leyndi ekki fyrirlitningunni. Spegilmyndin glotti og það gerði hana ennþá reiðari…
Hann vaknaði upp við það að þögnin var rofin. Hvað í fjandanum var að gerast frammi? Hann þreifaði við hlið sér en þar var enginn. Hann stökk á fætur og fannst hann sjá hana standa í einu horninu.
,,Freyja?’’
En það var ekki neinn. Aðeins skuggi.
Hann hljóp hikandi fram á gang, vissi ekki hvort hann ætti að grípa með sér eitthvert vopn. Rykkti upp hurðinni og sá að einhver stóð á miðjum ganginum. Spegillinn lá í molum á gólfinu, ásamt pollum af blóði sem virtust teygja sig í átt til hans. Hann steig hálft skref til baka og horfði agndofa á þessa sjón sem blasti við honum og á veruna sem stóð þarna eins og heimurinn stæði kyrr.
,,Freyja, er allt í lagi?’’
Hún kipptist til og losnaðir eins og úr leiðslu. Leit á hann galtómum, óttaslegnum, tárvotum augum. Eitt augnablik stóð tíminn kyrr og í þögninni mátti heyra blóðdropana skella á flísunum en einungis í örskamma stund. Áður en hann gat áttað sig var hún búin að opna dyrnar og komin út fyrir.
,,Freyja …stoppaðu!’’
En það var of seint, hún var horfin út í myrkrið.
Þú ert ekki orðin drukkin ef þú getur legið á gólfinu án þess að halda þér í ;)