Hann stígur upp í strætóinn og býður góðan daginn, strætóbílstjórinn svarar ekki og er greinilega ekki sammála og kannski ekki nema von þegar bílstjórinn er búin að keyra sömu andskotans leiðina á tuttugu mínutna fresti síðan klukkan sjö í morgun. Augun hans blikka þegar klinkið skellur ofan á hitt klinkið í peningadúnknum sem er áfastur við hurðina, hurðin sem skilur bílstjórann frá hinum. Á hurðinni stendur “vinsamlegast talið ekki við bílstjórann er hann ekur” þar stendur hinsvegar ekkert um það hvort bílstjórinn megi ekki tala við hinn ómerkilega almúga.
Hann gengur gengur eftir gólfinu á strætóinum sem glansar eins og sandpappír, ógeðsleg drulla sem er hálfþornuð gefur til kynna að lítið hafi verið að gera í strætóbissnisnum í dag. Kannski bílstjórinn sé fúll af því hann fær prósentur af tekjunum, ólíklegt, en hann hlær með sér af tilhugsuninni. Hann finnur sér sæti aftarlega í vagninum og sest í gluggasæti en hann sér samt ekki út nema hann einbeiti sér við það því stór auglýsing er á hlið vagnsins þar sem hálf nakinn kona með barn í fanginu auglýsir eitthvað sem fæstir vita. Allavega veit hann það ekki því hann er of upptekinn af því að pæla hvernig í ósköpunum konur geta verið með svona þvílíkan vöxt eftir barnsburð, barnið var allavega ekki orðið eins árs.
Strætóinn hristist þægilega. hann finnur hvernig strætóinn kippist til þegar hann er settur í “drive”. Hann finnur fyrir Vissum létti, léttir af tilhugsuninni að hann hreyfist áfram.
Ferðin er hafinn, upphafið af endinum.
Hann hallar sér að glugganum þreyttur og vonlaus og horfir á húsin fara hægt framhjá. Strætóbílstjórinn nálgast gatnamót og er í kapphlaupi við ljósin, nær hann yfir á gulu eða fer hann yfir á rauðu? gula ljósið virðist loga endalaust en rétt áður en bílstjórinn nær yfir dettur ljósið í rautt, bílstjórinn tapaði, ljósið er sigurvegarinn en enginn fagnar sigurvegaranum nema umferðarlögreglan en það er greinilega engin medalía í boði fyrir annað sætið í dag. Hann hugsar með sér hvort hann hafi farið yfir á rauðu með hana, eða var hann á gulu? Hann getur ómögulega giskað á hvort.
Það var eins og höfuð hennar hefði verið sveipað sólu, sólu sem gaf honum kraft til þess að blómstra.Allt eins og blómstrið eina hugsar hann með sér. Fyrsta ljóðlínan í sálminum um dauðan. Var það kannski málið? Var þetta bara enn einn sálmurinn um dauðan? Er ástin eins og maðurinn með ljáinn sem slær allt sem fyrir er hvort sem það eru“Grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt, reyr,
stör sem rósir vænar
reiknar hann jafn fánýtt”.

Maðurinn með ljáinn sér ekki mun á honum né þeim sem stígur upp í vagninn. Það er miðaldra maður sem klæðir sig í of stóran frakka sem hefur kannski verið í tísku hjá rithöfundum á fyrri hluta aldarinnar. Maðurinn er í stígvélum sem fara yfir jogging buxurnar og er það nokkuð augljóst að hann gengur ekki alveg heill til skógar. Hann setur klink í hurðadúnkinn en það tekur hann smá tíma því hann er með litla peninga og þeir eru ekki allir á sama stað en þetta hefst á endanum og lítur út fyrir að bílstjórinn hafi treyst honum því hann var lagður af stað áður en allt klinkið var komið. Hann byrjar að tala eitthvað við bílstjórann og virðist sem svo að bílstjórinn taki því bara ágætlega.
Ekki gat bílstjórinn boðið góðan daginn við hann! Vill fremur tala við einhvern vitleysing. Hann reynir að heyra samræðurnar en gefst fljótt upp, það getur heldur ekki verið að þeir séu að tala um eitthvað merkilegt. Samræðurnar snúast örugglega um það hvað geðlyf hafa hækkað í verði og lágt kaup okkar hæstvirtu atvinnuökumanna og eru eflaust týnd til þau rök að þessir menn séu menntaðir og vinnuálagið sem þeir þurfa að þola sé ótrúlegt.
Ef bílstjórinn klessir á þá myndi hann íhuga alvarlega að drepa þá ef höggið yrði ekki fyrri til. Það væri hægt að fremja hinn fullkomna glæp og segja bara að áreksturinn hafi verið dánarorsökin síðan myndi hann upplýsa þann vítisverða glæp sem greinilega aðeins útvaldir fá að stunda, að tala við stræóbílstjórann. Já hann myndi drepa þá og fengi ekki vott af samviskubiti.
Það er eins og höfuð hennar sé sveipað sólu, sólu sem er móðir alls lífs móðir hans lífs, hans hugar. Dagurinn í dag er dagur án dags, hún hefur ekki viljað tala við hann í hálft ár og er búin að finna annan kærasta. það er eflaust miklu betra, hann gat í raun aldrei bara sætt sig við það að hann var ástfanginn. Alla daga var uppreisin í höfðinu á honum þar voru Castró og Che Guerra sem börðust fyrir hönd reiðinnar afbrýðisseminnar og biturleikann, en hver barðist fyrir hana? Hún varð máttvana og nýr einræðisherra komst til valda.
það var eins og höfuð hennar hefði verið sveipað sólu, en skyndilega kom tunglmyrkvinn, tunglmyrkvinn sem var varanlegur.
Hann rankar við sér upp úr hugsuninni þegar leiðinlegt “ping” heyrist.
Hann var kominn á endastöðina.
Endinn af upphafinu.