Mannshugurinn
Halló, ég heiti Vera en er kölluð Gera. Ég á heima í litlu húsi með móður minni og föður.
Mamma
Mömmu og pabba þykir alveg voðalega vænt um mig. En mamma á við dálítið vandamál að stríða. Það mætti nefnilega halda að henni þætti bara vænt um mig en sé alveg á sama um annað fólk. Hún myndi jafnvel hylma yfir mér þó hún vissi að ég væri alræmdur glæpamaður. Jafnvel þó ég væri fjöldamorðingi! Hún lýgur oft að öðru fólki þegar ég lendi í vandræðum.
Pabbi
Pabbi segir hinsvegar alltaf sannleikann og er alltaf að reyna að kenna mér að segja satt. Hann veit þó að það þýðir ekki að kenna mömmu það. Fyrir pabba skiptir það ekki jafn miklu máli hvort ég lendi í vandræðum. Honum finnst mestu máli skipta að ég sé góð manneskja. Þau vilja mér samt bæði vel. Mamma vill að mér líði vel sama þó það komi niður á öðrum en pabbi vill að mér líði vel og öllum öðrum í kringum hann. Það mætti segja að mamma elski bara mig en pabbi elskar alla jafnt. En þó hann elski alla þá myndi hann samt ekki hika við að refsa einhverjum ef honum fyndist það gera viðkomandi að betri manneskju.
Fjölskyldan
Þó þeim komi oft vel saman þá eru þau samt æði oft ósátt. Þá þarf ég stundum að velja annaðhvort þeirra fram yfir hitt. Þá óhlýðnast ég auðvitað annaðhvoru þeirra. Ef ég óhlýðnast pabba þá verður hann mjög leiður og þá fæ ég samviskubit en ef ég óhlýðnast mömmu þá nöldrar hún svo rosalega að stundum get ég ekki annað en hlýtt henni. En þó þau verði oft ósátt þá vita þau að þau gætu aldrei verið án hvors annars. Ég veit að ég ætti samt að hlýða pabba fremur en mömmu því innst inni þá veit ég að hann hefur rétt fyrir sér. En æði oft freistast ég til að fara eftir ráðleggingum mömmu þar sem hún virðist alltaf hafa einföldustu lausnirnar á vandanum.
Hugur mömmu
Ég á oftast auðveldara með að skilja mömmu en pabba. Mamma er svo mikill einfeldningur og grunnhugsi. Það eina sem hún hugsar um er að ég lifi af í þessum harða heimi sem við lifum í (sama með hvaða ráðum). Mamma getur verið algert óargadýr.
Hugur pabba
Fyrir mér er pabbi ráðgáta. Hann virðist alltaf vita hvað er rétt. Þó svo að hugmyndir hans stangist stundum á við hugmyndir mömmu þá hefur hann ekki áhuga á að skilja við hana. Hann veit líklega að þó hann hafi byggt upp heimilið okkar þá sér mamma því gangandi. Hann getur barist gegn áhrifum mömmu en getur ekki sagt skilið við hana. Pabbi er mun mannlegri en mamma.
Lok
Ég held að lausnin á vandanum sé að hlýða pabba án þess að óhlýðnast mömmu. Sem sagt vera góð án þess að vera vond við sjálfa mig. En í þeim tilvikum þar sem ég verð að velja á milli pabba eða mömmu þá veit ég að það er réttara að velja pabba. Því þó að ég þurfi stundum að vera óeigingjörn þegar ég fer eftir hans ráðleggingum þá gefur hann mér oft einhverskonar gjöf fyrir og þá líður mér vel. Ég fæ líka svo hræðilegt samviskubit þegar ég óhlýðnast honum!