Jæja, hér kemur ein ekkert voðalega löng:
NÖFNIN ÞEIRRA Í SANDINUM (ÁSTARAGA AF LEIKVELLINUM)
Lítil stelpa með ljóst hár bundið í tíkarspena. Hún sleikir ís og rólar sér frm og aftur. Aftur og fram. Við skulum kalla hana Sveinbjörgu. Hún er umþaðbil fimmára. Og kann að reima skóna sína.
Strákur á svipuðum aldri er að sparka bolta í vegginn kringum leikvöllinn. Hann er með rauðskorlitað hár og stór augu. Köllum hann Nikulás Hermund. Nei, það er of mikið nafn fyrir svona lítinn og grannan strák. Köllum hann Oddgrím. Hann er ekki með ís.
Sveinbjörg horfir á hann í smátíma. Hugsar umað bjóða honum smá ís. Hann er svo flinkur í fótbolta. En hún hættir við. Hún sleikir ísinn sinn upptil agna. Bítur svo í vöffluformið. Fegin að eiga ísinn alein. Svo er góðgætið búið. Sveinbjörg rólar sér. Síðan kallar hún: ,,Hvað heitirðu?” til sráksins. Hann hættir að sparka. Svarar stelpunni. Henni finnst nafnið skrýtið. ,,Sko, afi minn hét það,” útskýrir Oddgrímur og Sveinbjörg sættir sig við nafnið. Hann spyr hana að nafni. Hún svarar ekki strax. Kannski er hættulegt að segja svona stóreygum strákum hvað maður heitir. Nei, varla. Hún segir honum það. ,,Sveinbjörg,” segir hún. ,,Einsog amma. Ég er fimm ára.” ,,Ég líka.”
Oddgrímur sest í hina róluna. Hugsar um hvort Sveinbjörg sé sæt. Nei, hún er svo lítil. Þau eru bæði svo lítil. ,,Ég kann að reima skóna mína,” segir hann svo Sveinbjörgu finnist hann ekki alltof lítill. ,,Ég líka,” segir hún. ,,Ég kann líka að reima skóna mína.” Oddgrímur skoðar hana. Kannski er hún ekki svo lítil. Kannski er hún bara sæt. ,,Ég æfi fótbolta,” segir hann. Hann hefur heyrt pabba sinn segja að kvenfólk vilji íþróttagarpa. ,,Ég æfi ballett,” segir Sveinbjörg. Reyndar gerir hún það ekki. Vill bara ekki vera minni manneskja en Oddgrímur. ,,Hvað oft í viku?” spyr hann. ,,Tuttugu,”segir hún. Það er stærsta talan sem hún kann. Hún hugsar að kannski er ekki fallegt að ljúga. Finnst það samt alltílagi. Oddgrímur horfir útundan sér á hana. Kannski er hún ekkert hrifin af íþróttagörpum. Kannski er hún í skóla. Sumir fimmára krakkar eru í skóla. Hann spyr. ,,Nei.” Sveinbjörg borar tánni í mölina uundir rólunni. ,,Ég er í skóla,” staðhæfir Oddgrímur. Skammast sín ekkert fyrir að ljúga svona. Hún hrífst ekki af íþróttagörpum. Þá má kveikja á gáfnaljósinu. ,,Er það? Í hvaða skóla?” Það tekst. Hún er áhugasöm. ,,Í Svartaskóla.” Oddgrímurr hefur heyrt minnst á þann skóla í útvarpsleikriti. ,,Vá. Kanntu þa að telja uppí hundrað?” Þetta finnst Sveinbjörgu merkilegt. ,,Já. Og miklu meira. Og ég kann líka að lesa. Og skrifa.” Þetta seinasta er næstum rétt. Hann kann að lesa. Og skrifa stafina. ,,Viltu þá skrifa nöfnin okkar?” Hún hættir að róla sér. Hann líka. ,,Ég er ekki með blað.” Hún segir honum að skrifa bara í sandinn. Hann fellst á það. Þau krjúpa hliðviðhlið í sandkassanum og axlirnar snertast. Oddgrímur potar fingri í sandinn. Krotar kræklótt S. Er ekki alveg viss um hvað kemur næst. Gerir samt V. Síðan E. Og M. B. J. O. R. Að lokum G. Svembjorg. Svo skrifar hann nafnið sitt. Oddgrímur. Reyndar víxlar hann R-inu og Í-inu. SVEMBJORG ODDGÍRMUR. En það gerir ekkert til. Nöfnin þeirra eru í sandinum. Hliðviðhlið. Þau standa upp.
Sveinbjörg er voðalega hrifin. Hugsar að Oddgrímur með stóru augun er ekkert svo slæmur. Meiraðsehja pínulítið sætur. Þau vita bæði að þau eru bara fimmára. Samt haldast þau í hendur einsog stóru krakkarnir. Labba aftur að rólunum. Þau þurfa að sleppa hvort öðru afþvíað þau setjast. Sveinbjörg í spýturólu. Oddgrímur í dekkjarólu. Þau brosa til hvors annars. Þá kallar einhver kona: ,,Sveinbjörg! Matur!” og Sveinbjörg þarf að fara. Hún segir Oddgrími það. ,,Ókei. Bless.” Hún veit ekki alveg hvað hún á að gera. Hún hugsar um nöfnin þeirra í sandinum. Stendur upp. Kyssir hann svo beint á munninn.
Hann þurrkar ekki varirnar. Lyftir hendinni og kemur við hárið hennar. Hún brosir feimnislega. Hann líka. Hann vill ekki að hún fari strax. Svo hann stendur líka upp. Síðan kyssir hann hana. Beint á munninn. Þá byrjar að rigna. ,,Sveinbjörg!” heyrist kallað aftur. Hún brosir og segir: ,,Bless.” Hann getur ekkert sagt. Stendur bara aleinn eftir með kossinn á vörunum. Rigningin klessir hárið að enninu. Hún er farin inn. Og rigningin máir nöfnin þeirra í sandinum út. Svo tekur Oddgrímur boltann sinn og fer.