Sinlactoso: konungur elektrónunnar.
Til eru fávitar í heiminum. Tugir fávita jafnvel, ef ekki hundruðir þúsunda. Þeir leynast á ótrúlegustu stöðum, í íþróttaheiminum, í sjónvarpi (margir þar), á Alþingi leynast nokkrir og jafnvel í valdastöðum skólakerfisins. En ídíótinn sem þessi stutta saga fjallar um átti sér samastað í gráköldum hversdagsleikanum. Hann ráfaði um milli hversdagslegra staða sem við sem teljum okkur eðlileg hugsum ekki um frekar en hvernig við öndum. En Sinlactoso, konungur electrónunnar, í gegnum þumlungsþykk gleraugu heimsku sinnar sá hann eilíf merkilegheit sem aðrir gátu aðeins dreymt um að geispa yfir.
Svo reis sólin á hans hinsta degi…
Dagurinn þegar Sinlactoso, konungur electrónunnar hitti átómatísku rafmagnshurðina í súpermarkaðnum við San Lucianos Calle, Santiago í Chile.
“!Hahahaha! Þú hlýðir mér rafurmagnsrolla frá helvíti! Ég ákalla elektrónur þínar og stýri þeim mér til hlýðni! Ég beisla kraft þinn og nýti hann mér til framdráttar og upprisu í eigin nafni! Ég ræð þér! Þú hlýðir! Sinlactoso segir: OPNAST ÞÚ AUMA PJÁTURHLIÐ!”. Lágt suð heyrðist, örlítið klikk, og hurðin opnaðist með ofurlitlum stunum. “HAHAHA, viljalausa verkfæri! Án mín værirðu EKKERT!”.
Dagurinn hafði byrjað vel, rétt eins og allir aðrir dagar í El Bolero Bodega við San Lucioanos Calle í Santiago, Chile. Sérhvern morgunn mætir José Eduardo Maria De la Valdimarsson öryggisvörður fyrstur allra til þess að opna fyrir fastagestunum. Eftir stutta stund er komin svolítil mergð karla og kvenna, gamlir menn tottandi pípur, feitar konur kreistandi tómata og lítil börn að bora í nefið og klínandi undir ávextina. Stundum þarf José að henda ræfilslegum unglingum út fyrir að stela, en það gerist ekki oft. Þá tekur José á sig rögg, hysjar upp um sig buxurnar, girðir sveitta hawaiiskyrtuna niður að framan undir belgjandi bumbuna og þeitir ungdómnum út um rafmagnshurðina og jafnvel út í tunnu ef því er að skipta. Hann er kaldur karl hann José og hurðin er góð. Hefur gengið eins og gangráður í 10 ár og ekki slegið feilspor ennþá. Svolítið sein á sér stundum, en það er allt í lagi. Unglingarnir lenda þá bara á glerinu.
En þennan dag var eitthvað að. Það var einhver að hafa hátt í búðinni hans José Eduardo. José reis upp við dogg, hysjaði upp um sig lafandi buxurnar, girti svitalagða hawaiiskyrtuna undir sívaxandi þembuna sem hann kallaði maga og greiddi síðustu eftirlifendur makka síns yfir glansandi ennið. Reif síðan í hurðina og gekk virðuglega en þá ákaflega sveitt í átt að aðalútgang markaðsins.
Sú sjón sem beið hans hefði getað gert út af við José á staðnum, ef ekki hefði verið fyrir tugþúsundir kólesterólagna sem þrengdu æðar hans niður í nálaraugu og ollu blóðstreymi hans til að silast niður gangvegi líkama hans með sama virðugleik og hann sjálfur mjakaði sér með í átt að útidyrahurðinni. Fyrir framan hurðina stóð ungur maður um tvítugt, íklæddur silfursamfesting með skikkju sem á stóð “Konungur Elektrónunnar” innan í neongrænni kórónu. Á höfði sér hafði hann teipað sjónvarpsloftnet (margsinnis greinilega, því hárið var farið að hverfa á stöku stað) og á fótum sér hafði hann skellt skíðaskóm. Sem að sjáfsögðu hann hafði spreyjað neon græna í stíl við kórónuna.
Ungi maðurinn dró djúpt andann, varð sérkennilega rauðfjólublár að lit og beljaði út úr sér svo virtist sem að lungu og lifur myndu fylgja í kjölfarið: “Lactosin skipar þér pjáturmeri, Opnast þú eða búðu þig undir reiði mína!!” Síðan steig hann eitt skref fram, hurðin opnaðist og hann steig eitt skref aftur sigri hrósandi. “Hah! Armi þræll! Þú hlýðir meistara þínum því þú átt ekki annara kosta völ! VALD MITT ER ÓTVÍRÆTT!!” beljaði ungmennið svo gömlu konurnar með tómatana hrukku í kút (sumar sprengdu meira segja nokkra) og nokkur börn tróðu of djúpt og fengu blóðnasir. José vissi ekki hvað hann átti að gera. Hann kláraði sér að aftan og framan og síðan í kolli, óafvitandi þess að vandamálið myndi leysa sig sjálftinnan fárra mínútna.
“Ég reyni á trúnað þinn á ný, þú þefjandi borðtuska rafmagnsþjóðarinnar! Ég stjórna elektrónum þínum til þess að hlýða mér sem fyrr!!”, orðin frussuðust út úr rauðglóandi höfði Lactosins eins og foss fram af bjargi og fram hann sté á ný, fullvissaður um mátt sinn yfir lægra settum rafmagnstækjum. Litla rafurmagnsaugað nam hreyfingu geðsjúklingsins, gaf boð um að nú skildi láta hendur standa fram úr ermum og hliðið þeyttist upp með ógnarhraða. En þetta var allt sem þrúgað pjáturhjartað þoldi, eftir áralanga þjónustu við mannsins tiktúrur brast það þarna á þessum stað í Santíago, Chile, og rafurmagnhurðin gaf upp sína elektrónísku önd. Hliðið þeyttist til baka eins kippt af þúsundum ósýnilegra rafmagnstækja sem upprisu á þessari stundu og í eytt sekúndubrot sögðu ,,Ah! Ekki meir í bili!”. Með þéttum og glymjandi dynk skall hurðin aftur eins og fallöxi utan um silfurklæddan líkama Konungs Electrónunnar. “Uppreisn???!!! Málmhundur frá helvíti þú nærð mér ekki svo glatt!!”, voru síðustu orð Konungsins, því líkami hans gaf fljótt undan styrk þúsunda elektróna sem allar í sameiginlegum krafti veittu rafurmagnshurðinni með pjáturhjartað massa og þunga meðalvörubíls.
Þegar lögreglan hafði þrifið Lactosin úr útgang hurðarinnar settist José Eduardo inn á skrifstofu sína, setti fæturna í fótanuddtæki sitt, en það var ekki laust við að um hann færi hrollur þegar hann hugsaði um þær milljónir elektróna sem flæddu um fætur hans, akkúrat á þessari stundu.
En átómatísku rafurhurðinni með pjáturhjartað var skipt út fyrir þunga og heimskulega snúningshurð sem öllum líkaði illa við.
www.atlividar.com