Asni, Asni, Asni og Asni

eftir Þórarinn Björn Sigurjónsson

Einu sinni í hinni sólríku Mexikó voru fjórir asnar sem hétu Asni, Asni, Asni og Asni. Eigandi
þeirra var lítill, gamall og hrukkóttur karl sem elskaði engan eins og hann elskaði asnana sína.
Asnarnir lifðu góðu lífi enda nutu þeir mikillar virðingar meðal hinna dýranna í þorpinu, vegna
víðfrægrar djúprar visku þeirra og bar Asni þar sérstaklega af. Alltaf þegar hin dýrin í
byggðinni áttu við einhver vandamál að stríða komu þau til Asna eða einhverra hinna
asnanna. Vitringunum kom reyndar ekki alltaf vel saman sem var þó nokkur synd þar sem
þeir voru allir, alltaf bundnir saman. Þeir hnakkrifust oft um heimspeki og/eða pólitík,
trúarbrögð og leyndardóminn mikla: Hvað gerðist hjá slátraranum? Þeir gátu leyst nær öll
vandamál nema sín eigin.

Pedró, eigandi Asna, Asna, Asna og Asna, var talinn hálfgerður furðufugl í þorpinu. Hann
sást oft í hrókasamræðum við asnanna sína fjóra. Enn furðulegra þótti kannski að svo virtist
sem asnarnir tækju fullan þátt í .þeim samræðum. Pedró var á sífelldu iði. Eina skiptið sem
hann sást sitjandi var þegar hann tók síðdegislúrinn sinn, þegar sólin var sem heitust. Jafnvel
þá var önnur stóratáin á karli á stöðugri hreyfingu. Frekar þótti karl hugmyndasnauður og
þóttu nafngiftir asnanna bera því vitni. Þrátt fyrir þetta bar fólk virðingu fyrir Pedró gamla,
enda næstelsti íbúi héraðsins.

Einn dag bar svo til að Asni, Asni, Asni og Asni voru að rífast um hvað héldi skýjunum uppi.
Þeir voru að venju allir bundnir saman. Skammt frá þeim sat Pedró upp við kaktusinn í
bakgarðinum með barðastórann hattinn yfir andlitinu. Þetta var merki um hinn daglega lúr.
Asni sagði: “Asni, óttalegur asni getur þú verið asninn þinn!”, og Asni svaraði um hæl: “Þú
getur sjálfur verið bölvaður asni, Asni.” Þá sagði asni: “Hvað eruð þið að asnast, asnarnir
ykkar, Asni og Asni.” Asna var nú nóg boðið og byrsti sig við Asna, Asna og Asna:
“Voðalegir asnar eru þið allir saman, Asni, Asni og Asni. Að rífast svona um ekki neitt eins og
asnar!”

Svona gekk þetta lengi dags, þar til asnana var tekið að svengja og lengja eftir því að Pedró
færði þeim síðdegissnæðinginn. Veitti Asni hinn vitri því eftirtekt að stóra tá Perdós var
óvenju kyrr að sjá. Reyndar hreyfðist hún ekki neitt. Ekki þurfti mikinn hugarstorm til að sjá
að Pedró gamli var steindauður. Nú var úr vöndu að ráða. Garnirnar gauluðu heila sinfóníu
og Asni, Asni, Asni og Asni hrinu hástöfum bæði af sorg og hungri. Sjálfbjargarviðleitnin tók
þó brátt til starfa og asnarnir fóru hver um sig að skima eftir einhverju ætilegu. Þeim til mikilla
vonbrigða var ekkert að sjá í bakgarði Pedrós nema hrúga af nýtíndum maískólfum í einu
garðhorninu og haugur af kartöflum uppi við húsvegginn. Hvorugt jafnaðist á við hálminn sem
sem Pedró var vanur að gefa þeim en allt er hey í harðindum. Asni og Asni lögðu á stað í átt
maísnum en samtímis örkuðu Asni og Asni að kartöflu-haugnum. Þá versnaði heldur betur í
því þar sem bæði voru utan seilingar. Bandið sem hélt þeim saman var ekki nógu langt. Þeir
streðuðu og þeir toguðu en ekkert gekk. Þá sagði Asni hinn vitri: “Nú er kominn tími á það að
funda, asnar.” Asni, Asni, Asni og Asni hættu að toga og settust á rökstóla. Asni tók til máls:
“Asnar vorir: Asni, Asni og Asni. Vér þurfum tafarlaust að finna lausn á vorum vanda. Hvort
éta asnar maísinn eða kartöflurnar?” Asni gat ekki setið á sér og hrópaði: “Ég, Asni, vill
maísinn!” Asni leit eitruðu augnaráði á Asna og sagði: “Asni, aðeins asnar vita ekki að
kartöflurnar eru miklu hollari og næringarríkari en asnalegur maísinn.” Asni var augljóslega
ekki hrifinn af svari Asna en áður en Asni náði að svara fyrir sig, greip Asni fram í og sagði:
“En asnar vorir, af hverju éta asnar ekki bara bæði asnalegan maísinn og hollar lartöflurnar?”
Eftir þessi spakmæli kom stutt og frekar asnaleg þögn. Síðan mælti Asni hinn vitri: “Tillaga
mín er sú, að við við skiptum fyrst bróðurlega á milli okkar kartöflunum og að þeim loknum
étum vér maískólfana.” Asni varð fyrir svörum: “Nú mælir þú sem sannur asni, Asni. Þetta
skulum við gjöra.” Hinir asnarnir tveir kinkuðu kolli til samþykkis og síðan lögðu þeir af stað
allir sem einn í átt að kartöflunum.

Varð þeim þetta til lífs. Kartöflurnar og maísinn dugðu þeim sem næring þar til nágrannarnir
fóru að undrast um hann Pedró gamla og mættu á vettvang. Þar er svo önnur saga og ekki
jafn skemmtileg, að ekki leið á löngu þar til Asni, Asni, Asni og Asni uppgötvuðu leyndardóma
slátrarans.

Endi