VII.
Efri hæðin var ljót. Virkilega ljót. Ekki einusinni Vala Matt hefði getað fundið eitthvað jákvætt við þetta hreysi. En samt var einhver krúttlegur blær yfir öllu; það má segja að barnsleg nærvera Jennu hafi lífgað uppá rifið áklæðið á sófanum, eina húsgagninu sem inni var, og að ánægjuglottið af vörum Jóakims hafi lýst aðeins kalda og dökkgráa steinveggina. ,,Hér búum við,” sagði Jóakim, og var svo sannarlega kóngur í ríki sínu. Og litla prinsessan var líka ógurlega stolt af höllinni. ,,Já, hér býr ég og pabbi!” sönglaði hún (Þvílík málfræði!) og kom sér vel fyrir í sófanum. Jóakim sagði Jöru að skoða sig um. Og vissulega var þörf á. Herbergin voru ótalmörg og engin tvö jafn stór, hver veggur hafði sinn gráma og hvert gólfið var öðru naktara. Hún gekk herbergi úr herbergi, hvorki áhugasöm né spennt, en samt fannst henni hún vera að leita að einhverju. Það var eitthvað í rödd Jóakims sem sagði henni að finna eitthvað. Og í herbergi númer veitekkihvað fann hún það. Í innsta og myrkasta horninu í litlu gluggalausu herbergi var mannvera. Hreyfingarlaus og dáin mannvera. Löngu storknað blóð var á brjóstinu og hjarta sem fyrir löngu var hætt að slá lá á hörðu steingólfinu, sem hafði verið málað svart í þessu eina herbergi. Jara öskraði. Í einhverju bíómyndabrjálæði sá hún fyrir sér hvíta og slímuga orma skríðandi um líkið, örsmáar pöddur sem átu það innanfrá og gætu á hverri stundu brotist út og smakkað á henni sjálfri, agnarlitlar ósýnilegar verur sem mundu svolgra í sig blóð hennar, dropa fyrir dropa. Já, hún öskraði. Gat hreinlega ekki hætt. Ekki þegar Jóakim kom og dró hana inní sófaherbergið, ekki þegar Jenna faðmaði hana og reyndi að hugga. Ekki fyrren raddböndin og heilastarfsemin voru alveg búin, og hún gat farið aðreyna að ímynda sér að þetta hefði verið hugarburður. Hún var næstum farin að trúa því þegar Jóakim fór að reyna að útskýra fyrir henni. ,,Þetta var Jenna eldri, mamma Jennu litlu, sem þú rakst á,” byrjaði hann. ,,Ég er ekkert lítil!” greip Jenna frammí. ,,Ég er stór! Stórstórstór!!!” Jóakim setti sig í kjaftastellingar og hélt áfram. ,,Þegar Jenna fæddist mátti ég ekki sjá hana. Foreldrar Jennu eldri leyfðu mér ekki að koma nálægt neinu uppeldi eða einhverju þvíumlíku, því þeim fannst ekki við hæfi að dóttir eiganda stórrar milljónafabrikku útá landi væri með heimilislausum krakka sem í ofanálag væri á kafi í rugli. Eða það sögðu þau öllum sem heyra vildu að ég væri. Auðvitað var ég ekki í neinu rugli, það voru bara pabbi og mamma. Jenna vildi heldur ekki að ég kæmi nálægt litlu dóttur minni og bannaði mér að hitta þær. Þessvegna fór ég eina nóttina heimtil þeirra, bar þær báðar sofandi hingað og læsti Jennu eldri inní þessu herbergi, herberginu þarsem þú sást hana. Í þrjú ár talaði Jenna litla við hana í gegnum hurðina, og ég gaf henni að borða. Fyrir rúmri viku skar hún svo úr sér hjartað með hníf og gaffli sem hún hafði borðað hamborgarann sinn með. Hún var sko snobbuð, hún Jenna, og borðaði allt með hnífapörum.” Jóakim þagnaði. ,,Ég skæri mér hjartað úr með skeið…” söng Jenna, og undir öðrum kringumstæðum hefði Jara brosað að tilburðunum. En samtengingin var óþægilega vel heppnuð hjá ekki eldra barni, og Jöru leið illa. Afhverju var hann að segja henni þetta? Og afhverju hafði hann boðið henni að skoða sig um? Það var hreinlega einsog hann vildi að líkið finndist. ,,Foreldrar hennar fundu hana aldrei aftur,” lauk Jóakim máli sínu. Guð, hvað hana langaði burt! Aftur heim…

VIII.
Einhverntíman um kvöldið hafði hún loksins sofnað, og þráttfyrir truflanir af völdum martraða og kulda lifði hún nóttina af. Um morguninn leið henni reyndar einsog hú hefði ekki sofið árum saman og hún var svöng. Það voru fleiri. ,,Pabbi, ég er svöng!” galaði mjó og skjálfandi rödd. Jennu var greinilega líka kalt. Jóakim geispaði og teygði úr sér, og ólíkt kvenfólkinu í íbúðinni var hann bara morgunhress og gat ekki stillt sig um að segja brandara í hverri setningu. ,,Jæja, ég fer útí Örlygssjoppu og kaupi gulrætur og gos fyrir júngfrúrnar. Pulsur og snakk.” Og hann hvarf. Um tuttugu mínútum síðar kom hann aftur með stóran plastpoka með gulrótum, nokkrum hálfslíters gosflöskum, þremur pulsum með tómati, steiktum lauk og sinnepi og stórum poka af doritos. Uppúr rassvasa hans gægðust nokkrir þúrundkallar sem Jara kærði sig ekki um að vita hvaðan komu. ,,Vitiði afhverju Örlygur í Örlygssjoppu heitir Örlygur?” spurði Jóakim. ,,Afþvíað hann lýgur svo hratt!” flissaði Jenna og beit í gulrót. Þennan hafði hún sko heyrt áður! Jara gaf henni pulsuna sína og borðaði brauðið, fullvissaði sig um að engin hert dýrafita væri í snakkinu og borðaði svo einsog hún hefði ekki borðað í viku. Jóakim brosti ánægður á meðan hann nagaði gulrætur í rólegheitunum og sötraði spræt. Jara gat ekki komist hjá því að hugsa um líkið í húsinu og kúgaðist nokkrum sinnum á meðan hún hakkaði í sig snakkið. En hún var bara svo rosalega svöng! Þegar hver einasta ætileg ögn var uppurin vildi Jenna fara á skauta, og Jóakim klæddi hana í ljósbláa dúnúlpu og gular pollabuxur. Á tánum var hún með fjólubláu ullarsokkana sem Jara hafði tekið í barnafataversluninni á Laugaveginum, þungu gúmmístígvélin, og ofaná ljósu lokkunum trónaði svo bláa prjónahúfan. Jara þóttist vera hálfslöpp og horfði á eftir þeim hönd í hönd niðrað Tjörn. Þau höfðu ekki tekið neina skauta með sér. Þegar feðginin voru komin úr augsýn klæddi hún sig í skóna og fór líka út. En hún fór í allt aðra átt. Hún fór útá stoppistöð og tók fimmuna uppá Hlemm, leið fimmtán niðrí Grafarvog. Hún var heppin að hafa fundið strætómiða í kápuvasanum. Nú ætlaði hún heim.

IX.
Hún fór úr nokkrum stoppistöðvum of snemma og kom við heimahjá Sædísi. Hún óð snjóinn uppað dyrunum og bankaði. Dyrabjallan hafði verið sett upp fyrir sex árum en aldrei verið sett í samband. Enginn kom til dyra, svo Jara bankaði aftur, fastar. Enn kom enginn. ,,Halló! Er enginn hiema? Þetta er ég, Jara!” kallaði hún. Ekkert svar. Hún gafst upp og öslaði heim í gamla húsið þeirra pabba og mömmu. Það virkaði ógurlega tómt. Þegar hún kom að dyrunum og ætlaði að veiða lykilinn uppúr vinstri skónum var hann ekki þar. Hún gáði í hinum skónum og öllum vösunum, en fann ekki lykilinn. Hún prófaði að hringja bjöllunni, en auðvitað var enginn heima. Hún fór því niðrað kjallaradyrum og kallaði á afa. En ekkert svar barst. Henni fannst hún svo alein í heiminum að hún lagðist í snjóinn og grét. Söltum tárum, reiðitárum. Herti sig þó upp á endanum og reyndi aftur við húsið með rauða þakinu í Fururimanum, heimili Sædísar. Pirraðist útí sjálfa sig og heiminn þegar hún tók eftir plasthúðuðum miða á hurðinni beint fyrir framan nefið á henni með þeim skilaboðum að fjölskyldan hefði skroppið í sólarlandaferð til Kanaríeyja um jólin. ,,Ojæja,” hugsaði Jara, dustaði ímyndað ryk af kápunni og gekk eins tignarlega og snjórinn leyfði aftur niðrá stoppistöð. Hún þurfti ekki að bíða lengi eftir leið fimmtán, og brosti að því tilefni framaní morgunfúlan vanstjóra á besta aldri. Vagninn var troðfullur, sem Jöru fannst hálfskrýtið svona klukkan tíu að morgni á Þorláksmessu, og eina sætið sem laust var var við hliðiná svarthærðum strák í leðurjakka með ótal vösum og hólfum og rennilásum og reimum. Hún horfði með viðbjóði á allt þetta leður og settist niður með ógeðissvip á andlitinu. Einsog strákurinn vissi uppá hár hvað hún væri að hugsa, brosti hann til hennar og hvíslaði að henni: ,,Þetta er gervileður,” horfði svo á hana kolsvörtum augum og blikkaði. Jara varð vandræðaleg og heyrði varla þegar hann sagðist heita Jörvi. Náði samt einhvernveginn að hiksta upp nafninu sínu áðuren Jörvi hoppaði úr vagninum á næstu stöð. Hún fór úr á Hlemmi og skipti um vagn, tók fjarkann aftur “heim”. Heim í húsið sem varð að vera heimili hennar í bili.