Maðurinn aðlagar sig náttúrunni. Hver einstaklingur gerir sitt besta til þess að líða eins vel og honum er unnt og samviska hans leyfir.
Í ljósi þess er furðulegt hve íslendingar byggja jafn opið og raun ber vitni. Ef forfeður okkar hefðu verið skynsamari hefðu þeir byggt bara eitt stórt virki og síðan öll önnur hús sem einhverskonar viðbyggingu við það. Huldufólkið sem var hér á undan okkur kunni sko að lifa á þessu landi, hýbýlin eiga að æja ofan í hvert annað, hrúgast upp, byggingarnar eiga hvorum megin við hverja götu að lúta að hvor annarri, þekja alla ranghalanna sem við fetum svo hvergi sjáist í beran himinn, við ættum að lifa í álfahólum.
En kannski eru þær ósköp skiljanlegar ástæður íslendingsins sem byggir ber á víðáttunni svo himinhvelfingin kolsvört og dauðköld því sem næst steypist yfir hann. Því einstaklingurinn vill láta sér líða vel. Og íslendingurinn er tilbúin til þess að fórna öllum skynsamlegum lausnum fyrir dag sem daginn í dag.
Á breiðum gangstéttunum og jafnvel á malbikinu röltir fólk í blíðvirðinu. Fullkomlega yfirvegað andar það að sér fersku lofti. Undir rauðu sólarlaginu í fjarska sem yljar manni í hársvörðinn á fögrum degi um miðjan júlí hverfa áhyggjurnar eins og dögg fyrir sólu, þessir hrúðukarlar á bökum okkar eru ekkert annað en viðkvæmir tilgangslausir daggardropar sem gufa upp við minnsta varma.
Fólk saltar farartæki af öllu tagi og ákveður ósjálfrátt að treysta á tvo jafnfljóta, að rölta úr vinnu og skóla eða einfaldlega til þessa að velta af sér sínu daglegu amstri í samfélagi mannanna.
Því þetta er sá eini dagur, af þeim þrjú hundruð sextíu og fimm, sem réttlætir það að við búum ekki í gríðarlegum neðanjarðarbyrgjum, hann réttlætir meira að segja þá ákvörðun fjarlægra forfeðra að flytjast frá hlýrri löndum hingað í nepjuna. Það var án efa á svona degi sem landnámsmennirnir sigldu fram hjá og sáu í hillingum smjör drjúpa af hverju strái og virtust þeir eyðilegu melar milli fjalls og fjöru skógi vaxnir…
…
Þótt ég hafi fæðst í dæmigerðum sudda í fjögurrökkrinu í janúar, þá var það á svona degi sem ég var getinn.
Það er því minn frumburðarréttur að fá að deyja á svona degi.