Bróðirinn sem lifði
Smásaga eftir Örn H. Bjarnason
Ari sat í herbergi sínu og loftið þar inni var þungt, blýþungt eins og hugsanir hans. Vorið, sem var að rjála við gluggann, kom honum ekkert við. Hann sat aðeins og starði fram fyrir sig, starði á tómatlitað spahettí í potti, þurrt og ógeðslegt eins og ánamaðkar, sem hafa gleymst í dollu úti í sólskini, starði á mynd af sjálfum sér í opnu vegabréfi.
“Þetta er alls ekkert líkt þér,” hafði maðurinn á lögreglustö›inni sagt, er Ari lagði fram fimm ára gamla stúdentsmynd af sér.
“Þú verður að koma með aðra.”
Ari hafði látið taka af sér nýja mynd og hann sá að þetta var alveg rétt, hann hafði breytst. Það var kominn einhver annarlegur glampi í augun, og drættirnir í kringum munninn vissu næstum lóðrétt niðrávið. Jafnvel hakan hafði afmyndast. En var það nema furða? Eitthvað varð undan að láta.
Í tvö ár eða lengur hafði hann húkt í þessari leigukytru, nema þá sjaldan hann fór út og fékk sér matarbita. Við og við dratta›ist hann yfir að trönum, sem voru þarna í herberginu og reyndi að mála. Stundum skipti hann um léreft á strammanum, en samt var hann alltaf að mála sömu myndina, raða saman hringjum og þríhyrningum svo að úr varð fáránlegur einkaheimur, tilfinningasljór, blóðlaus. Seint á kvöldin fleygði hann sér svo á dívansræksni og reyndi að sofna út frá þeirri hugsun, að kannski yrði nóttin honum líknsöm og hann myndi aldrei framar vakna. En oft hafði honum ekki komið dúr á auga, er dagur tók að skíma.
Óljóst vissi hann, hvenær þessi vítahringur hafði byrjað að dragast um hann. Það var sunnudagsmorgun fyrir tæpum þremur árum. Hann bjó þá enn heima hjá foreldrum sínum og hann vaknaði við það, að dyrnar á herberginu hans opnuðust. Þegar hann leit upp fyrir sængina, sá hann föður sinn standa við rúmgaflinn. Úr andliti hans skein fyrirboði íllra tíðinda, svipurinn harðneskjulegur og næstum ásakandi. Í fyrstu sagði hann ekki neitt, en svo tóku varir hans að titra eins og jarðskorpa, sem er að springa undan ógnvænlegum þrýstingi.
“Bróðir þinn,” sagði hann, “bróðir þinn dó í nótt.”
Dó í nótt? Dó…hvað þýddi fletta orð?
“Hann fór út með trollinu,” hélt faðir hans áfram. “það var hringt frá togaraútgerðinni núna rétt áðan.”
Út með trollinu? Dó í nótt, nótt, nótt…Hvað var faðir hans eiginlega að segja? Bubbi dáinn. Út með trollinu? Klæðaskápshurð stóð opin, föt hengu á herðatrjám. Veggir hrundu, hlóðust upp á ný og hrundu. Fötin urðu að aftökusveit. “Gráttu,” sagði svipurinn á föður hans. “Gráttu,” sagði aftökusveitin. Út með trollinu?…Grenjandi sjávarlöður, fimm strekktir fingur. Hjálp… HJÁLP; Reyndu að gráta. Sýndu föður þínum, að þú berir ærlegar tilfinningar í brjósti. Gráttu…GRÁTTU; En hann gat ekki grátið og dyrnar á herberginu hans lokuðust og hann var einn eftir. Nákaldur titringur hljóp um hársvörðinn og geirvörtunar urðu sárar. Minningarnar hrönnuðust upp og ruddust inn á hann. þeir bræðurnir höfðu alltaf verið mjög samrýmdir. Kannski fundið góðan drullupoll og sullað í honum dag eftir dag. Eða gómað dúfur niður við tjörn. Elt stelpur á skautum, hrint þeim og dottið ofan á þær…óvart. Eða haustið, sem þeir gerðust pörupiltar, stálu eggjum frá kaupmanninum á horninu, hentu þeim í steinvegg og veggurinn varð eins og heilt sólkerfi. Seinna fengu fleir sér spýtu og settu nagla á endann, teygðu spýtuna inn fyrir búðarborð og hnupluðu vindlapakka. Vindlana reyktu þeir oní skurði, ældu og héldu að guð hefði séð til þeirra. Um tíma voru þeir sannfærðir um, að ef trúin væri nógu sterk, gætu þeir flogið. Þessi kenning var reynd ofan af skúrflaki, með heldur sársaukafullum árangri. Seinna lásu þeir sömu bækur og skeggræddu þær langt fram á nætur. Um skeið töldu þeir sig alvitra, en það bráði af þeim eins og hver annar sótthiti. Já, svona hafði þetta verið, en samt gat hann ekki grátið. Augun voru eins og tvö botnfrosin dý, harðhnjóskuleg og köld.
Ærandi tillitssöm skref og lágværar raddir fylltu þennan sunnudagsmorgun. Andrúmsloftið í þessu gamla timburhúsi hafði gjörbreyst. Samúðarfullar frænkur komu blaðskellandi og þeim fylgdi andstyggileg kaffilykt. Ein þeirra kom inn til hans og strauk honum um hárið og sagði eitthvað hughreystandi. Að halda því fram að þær væru hamingjusamar á þessum degi, var kannski of djúpt í árinni tekið. En sorgin virtist búa yfir einhverjum töframætti, og um stund hófust þær úr hversdagslegu tilbreytingarleysi upp á hátíðlegra plan.
Þrjú ár, brot úr eilífð eða eilífðin sjálf, og nú sat hann þarna, hugsunin kalddeyfð, en fyrir brjóstinu líkt og steinhnullungur, vonleysi, örvilnun. En svo varð honum hugsað til norska olíuskipsins, sem beið hans í höfninni og myndi í morgunsárið flytja hann á brott úr þessari borg, á brott í önnur lönd, og við það lyftist ögn á honum brúnin. Hann hlakkaði til þeirrar stundar, er hafið gleypti síðasta hnjúk þessa útskers, þessarar sögueyju, sem náttúran virtist hafa dritað niður hér úti í miðju Atlantshafi í hálfgerðum prakkaraskap. Það var raunar hans eina von, að minningarnar líktust hverjum öðrum hlut, sem hægt væri að skilja við sig eins og skítuga sokka í plastpoka.
Hann leit nú á málverkið, sem stóð á trönunum og mikið skelfing fór það í taugarnar á honum. Með erfiðismunum reis hann á fætur og gekk yfir að því. Svo setti hann sig í stellingar, lét vinstri fót fram fyrir flann hægri og miðaði vandlega á einn hringinn..Hrrr…tu. Stórkostlegt, hugsaði hann, einstök dirfska. Golgrænn hráki á svörtum grunni. Honum var fróun í þessu fáránlega uppátæki, fannst að um leið og hann skyrpti á myndina, væri hann að skyrpa á sitt eigið afskræmda líf eins og það hafði verið undanfarin þrjú ár. Já, að hugsa sér, þrjú ár, þriggja ára sjálfdæmt fangelsi, múraður inni, hvergi ljósskíma, engin hljóð. Dauður án þess að vera lík. Hugsunin eins og járnbrautarlest á leið í gegnum myrk jarðgöng. Umheimurinn ekki til. Ungir menn langt að heiman suður í Asíu að skjóta og stinga í bláókunnugt fólk. Hvað varðaði hann um það? Kennedy myrtur. Snerti hann ekki. Gömul lasburða kona hrasar á svellbunka rétt við nefið á honum og er flutt á brott í sjúkrabíl. það hefði alveg eins getað gerst á annarri plánetu. Hann hafði dregið sig inn í skel, búið sér til nýja veröld, veröld afskiptaleysisins. Þar voru engin eyktarmörk, hvorki dagur né nótt. Og list hans endurspeglaði þessa veröld. Fólk og hús látin víkja. Engar skoðanir, aðeins litir og form.
“Þetta er krafa tímans,” sagði hann stundum við sjálfan sig. Innst inni vissi hann þó að þa var blekking. En hvers vegna var hann að fárast yfir þessu núna? Hann var hvort eð er að fara í burtu og myndi aldrei snúa heim aftur, aldrei framar mála.
Hann sótti nú sjópoka inn í skáp, ætlaði að vera búinn að láta niður það helsta áður en hann færi heim til móður sinnar að borða. Á meðan hann var að tína saman spjarirnar, hugsaði hann um, hvað það væri einkennilegt, að síðan þetta norska olíuskip kom til skjalanna, var eins og hann liti þennan heim frá ögn breyttu sjónarhorni. Hann hafði svo sem ekki orðið fyrir neinni stökkbreytingu, en samt var eitthvað að brjótast í honum, sem hann átti erfitt með að skýra. Hann sá sjálfan sig standa á þilfarinu á þessu stóra hafskipi og um leið var eins og komin væri dálítil fjarlægð í hans eigið líf. Þetta hugsaði hann og hann lét niður slíðraðan dolk, sem hann hélt að gæti komið sér vel í einhverri erlendri hafnarborginni. Röndóttu náttfötin skildi hann eftir. Þau myndu aðeins vekja spéhlátur um borð. Mynd af foreldrum hans var þarna á einum veggnum. Hún fékk að hanga. Enga bók ætlaði hann að hafa með sér. Jafnvel málinu skyldi gleymt ef unnt væri. Þegar pokinn var orðinn fullur, þræddi hann seglgarni í kósana og herpti saman um opið. Því næst raðaði hann ofan í gráa ferðatösku. Annan farangur ætlaði hann ekki að hafa með sér í þessa löngu ferð. Þegar hann hafði lokað töskunni vandlega og spennt ól utan um hana, klæddi hann sig í jakka og fór út. Varir hans voru þurrar og fæturnir drógust eftir kaldri gangstéttinni, en í hverju skrefi bergmálaði þunglyndið.
Seinna þegar hann var setstur við matborðið heima hjá móður sinni, var andrúmsloftið líkt og svo oft áður. Hún blessunin á vinstri hönd, bústin innan í rósóttum léreftskjól, en við hinn enda borðsins sat faðir hans, þessi framandlegi maður, sem kom heim með brúnt launaumslag á hverjum föstudegi og sagði aldrei orð nema í ávítunartóni. Útífrá var hann glaðhlakkalegur og síbrosandi, en heima ekkert nema ólundin. Ari hafði uppgötvað þetta smátt og smátt, en séð það gleggst ein jólin, er þeir feðgarnir höfðu unnið saman í skemmu við höfnina. Þar brosti karlinn frá því snemma á morgnana, en er líða tók á daginn varð brosið að stirðnaðri grettu. Hann brosti hjárænulega út í saltmettaðan norðangarrann eða framan í verkstjórann eða oní bitaboxið sitt. En um leið og hann var kominn heim til sín, hvarf þetta bros og þrúgandi önuglyndið yfirskyggði allt annað. Þá fengu hinir nánustu að kenna á því, sem umheimurinn hafði veri› að gera honum allan daginn. Hann naggaðist og jamlaði, þangað til seint um síðir að hann drattaðist inn í rúm. Aðeins nóttin miskunnaði sig yfir þennan mann og veitti honum kraft, svo að hann megnaði að brosa framan í tilgangsleysi enn eins dags.
Hvert söturhljóð eða smáræsking frá þessum stríðlynda manni fannst Ara eins og bein ákæra, eilíf útskúfun. Oft reyndi hann að geta sér til um hugsanir föður síns, hvað legið gæti að baki flessari ólund.
“Því gast þú ekki drukknað í staðinn fyrir hann bróðir þinn,” fannst honum hann stundum vera kominn á fremsta hlunn með að segja.
Ari var nú búinn af diskinum og móðir hans bauð honum meira.
“ Góða, vertu ekki að halda mat að þessum amlóða,” hreytti faðir hans út úr sér. Hún ansaði honum ekki, en rétti Ara fat með kjötbollum.
“Hvenær ætlarðu að fá þér almennilega vinnu? spurði faðir hans.
”Æ, láttu hann í friði rétt á meðan við erum að borða,“ sárbændi móðir hans.
”Ekki vantar að þú sért að mæla upp í honum iðjuleysið.“ Það varð stutt flögn og Ari fann ásakandi augnaráð fylgja eftir hverjum munnbita.
”Líttu á Stebba hennar Guðríðar,“ sagði faðir hans, ”jafnaldri þinn og farinn að reka eigið fyrirtæki. Eða Gústi, vinur þinn, gifti sig í vetur og er að byggja, en á meðan hjakkar þú í sama farinu. Það var til einhvers að vera að styðja þig í gegnum menntaskóla og svo gerirðu ekkert annað en að mála.“
”Friðrik minn…,“ sagði móðir hans veikum rómi.
”Þú skilur það vonandi drengur, að við móðir þín erum ekki ung lengur og viljum gjarnan fara að líta fram á náðugri daga.“
Já, um þetta var rætt, en það var annað sem öllum var efst í huga, sonur þeirra, bróðir hans. Hann var undirtónninn í öllum samræðum, aldrei minnst á hann beint, en samt stöðugt nálægur. Það var hann sem brá fyrir í skringilegu augnaráði móður hans, þegar hún stóð frammi í eldhúsi og var að þurrka af sömu skeiðinni lengi, lengi. Og í fjasi kallsins, þar var hann líka kominn. Þessu heimili var í raun stjórnað sunnan úr kirkjugarði.
Eftir matinn fór faðir hans inn í svefnherbergi, en Ari lagðist upp á dívan. Hann kveikti sér í pípu, og í gegnum reykjarmökkinn sá hann gamalkunna hluti, sem hann hefði naumast veitt eftirtekt nema af því, að hann var að kveðja þetta æskuheimili sitt. Þarna var sitthvað, sem hann mundi eftir frá því hann var lítill drengur. Handmálaður blómavasi var þarna og sömuleiðis gráblár postulínshundur með útlensk eyru. Uppi á voldugum, brúnum skáp var tinafsteypa af skakka turninum í Písa og ýmislegt annað tombóludrasl, sem honum hafði eitt sinn þótt mikið til koma. Þessu dóti stillti móðir hans upp eins og reikningsformúlu, hver hlutur á sínum stað, ekkert tilviljunum háð. Hún hafði rótgróna ótrú á nýjungum, og konur, sem voru sífellt að umturna híbýlum sínum, vöktu hjá henni tortryggni. Þessi nosturslega reglusemi gaf heimilinu einhvern svip af eilífðinni, og stundum fannst Ara eins og tíminn stæði þar kyrr.
Móðir hans fór nú að taka fram af borðinu.
”Hann vill þér vel,“ sagði hún án þess að hafa augun af því sem hún var að gera. Ari dáðist oft að æðruleysi þessarar konu, hvernig hún tók lífinu eins og hverju öðru hundsbiti og reyndi að færa allt til betri vega.
”Þú veist það,“ bætti hún við.
”Já, mamma mín.“
”Ósköp myndi það gleðja hann, ef þú fengir þér vinnu.“
”Já, mamma mín.“
”Eins og þú veist þá hefur hann varla verið mönnum sinnandi síðan Bubbi dó.“
Bubbi dó. Hvers vegna flurfti hún endilega að minnast á það núna?
”Honum fannst æskudraumur sinn vera að rætast í stráknum, hann búinn að klára Stýrimannaskólann og á góðri leið með að verða skipstjóri, kornungur maðurinn.“
”Og ég er þá sennilega martröðin,“ sagði Ari.
”Nei, segðu þetta ekki.“
”Þannig er það.“
”Ja, þú manst víst ekki lengur, hvernig hann var við ykkur þegar þið voruð litlir drengir,“ sagði hún og lækkaði róminn til þess að vera viss um, að gamli maðurinn heyrði ekki til hennar.
”En því hef ég ekki gleymt. Sérstaklega man ég eftir einu atviki. Það var liðið að jólum og hann kom þreyttur heim eftir strangan vinnudag.
“Pabbi, búðu til eitthvað fallegt handa okkur,” segir þú. Hann klappaði þér á kollinn og þegar ég hafði gefið honum að borða, settist hann með ykkur bræðurna einmitt á þennan dívan, þar sem þú liggur núna. Úr gömlum skókassa bjó hann til litla kirkju, þakti hana með bómull, en í glugga notaði hann rauðan, gagnsæjan sellófanpappír. Á aðfangadag kom hann svo heim með lítið vasaljós og setti inn í kirkjuna. Kirkjan ljómaði öll og þið ljómuðuð líka. Það var aðeins ég sem vissi, að þarna með ykkur drengina sinn til hvorrar handar við sig var hann að reyna að upplifa gleði þeirrar æsku, sem hann hafði sjálfur farið á mis við. Jú, vinur minn, honum hefur alltaf þótt vænt um þig og það hefur ekkert breytst.”
Ari spratt nú á fætur, hugsaði með sér.
“Hvað ætli maður sé að hlusta á gamlar jólasögur.”
“Bráðum verður hann sextugur,” hélt móðir hans áfram, “taktu þig nú á og láttu það verða afmælisgjöfina hans.”
“Já, en ég er alltaf að mála,” sagði Ari, “kallarðu það ekki vinnu?”
“Ari minn, ég veit að þú ert vansæll og þessi málverk virðast engu þar um breyta…Reyndu að gefa eitthvað af sjálfum þér, fórna einhverju, þá finnurðu kannski hamingju.”
Gefa eitthvað?…Finna hamingju?…Hvernig stóð á því, að þessi hversdagslegu orð snertu hann, komu róti á hugsanirnar? Var doðinn að hverfa, komnar glufur í þennan ósýnlega varnarmúr? Venjulega setti hann svona tal í samband við kassaprédikara á Lækjartorgi eða Rauða krossinn, en nú var eins og það fengi aðra og dýpri merkingu. Það ýtti við honum, setti hugsanir af stað og honum leið ílla. Hann var búinn að hreiðra um sig í þessu sérkennilega hugarástandi, sem hét tómlæti, kunni á það og vildi ekki láta hrófla við neinu. Hann var staðráðinn að fara út í heim, týnast, gleyma.
“Ég sel kannski mynd bráðum,” sagði hann og hélt skrípaleiknum áfram enn um sinn.
“Æ, það er eitthvað svo erfitt að horfa upp á hann svona beygðan,” sagði hún. Ari gekk yfir að svefnherbergisdyrunum og horfði á föður sinn, þar sem hann lá uppi í rúmi með hendurna krosslagða á maganum og augun aftur. Það var uggvænlegt, fannst honum, hvað hann þekkti þennan mann lítið. Hann erfiðaði frá morgni til kvölds, það vissi Ari, og þegar hann kom heim var hann þreyttur og svangur. En þess utan, hvers konar maður var þetta þá? Hvað var hann að hugsa, þegar hann brosti framan í verkstjórann og sagði: “mikið rétt, mikið rétt.” Eða á morgnana þegar hann hneppti að sér samfestingnum og starði annars hugar fram fyrir sig? Hvað var hann að reyna að segja, þegar hann ýtti fitugum diskinum hranalega frá sér og stóð upp frá borðum? Hvaða tilfinningar bærðust í þessu innfallna brjósti? Ari vissi, að héðan af yrðu þetta eintóm spurningarmerki???? Ekkert svar. Hann myndi aldrei ná að kynnast föður sínum.
“Jæja, ég verð víst að flýta mér,” sagði hann. Eins og venjulega lét hann í það skína, að hann væri tímabundinn. Þannig vissi hann að móður hans liði betur.
“Hugsaðu um það, sem ég var að segja,” sagði hún. Hann ansaði henni ekki, en gekk til hennar og kyssti hana á kinnina.
“Vertu sæl, mamma mín, og hafðu það alltaf sem best,” sagði hann í huganum. Því næst leit hann inn til föður síns aftur og kvaddi hann með sama hætti. Um fyrirætlan hans fengju þau ekkert að vita, fyrr en hann væri kominn út á sjó. þá ætlaði hann að hringja til þeirra.
“Heyrðu annars, það er hérna bréf til þín,” kallaði móðir hans, þegar hann var kominn í útidyrnar. Hún færði honum umslag, en fór síðan inn aftur. Þegar hann var kominn út á gangstétt, reif hann upp bréfið. þetta reyndist þá vera boðskort á opnun málverkasýningar. Miðvikudagur, 3. júní kl. 8, stóð á bréfspjaldinu. Nú, það var einmitt í kvöld. Sýningin var að hefjast rétt í þessu. Um lengri tíma höfðu sneplar af þessu tagi farið beint í ruslakörfuna, hann ekki hirt um að sjá neitt eftir aðra málara. En nú langaði hann skyndilega til þess að fara á þessa sýningu og kveðja þannig þetta svonefnda listalíf borgarinnar, þó ekki væri til annars. Það var líka ágætt að þurfa ekki að fara heim í herbergi alveg strax. Hann gekk áleiðis að miðbænum og þegar hann nálgaðist Listamannaskálann, sá hann fólk streyma þar að. Við dyrnar sat lítil kona. Hún var með sjal breitt yfir axlirnar, en við fætur hennar stóð rafmagnsofn, þótt komið væri vor. Þegar hún tók við miðanum skalf hönd hennar lítið eitt.
Töluverður fjöldi fólks var þegar kominn og Ari lét sig hverfa í mannþröngina. Hattakonur voru þarna mest áberandi. Þær kíktu yfir sýningarskrárnar og reyndu að finna snöggan blett á klæðaburði annarra hattakvenna. Þess á milli virtu þær fyrir sér málverkin og þóttust vera listhneigðar. Ein og ein settist niður og lét fyrirberast góða stund fyrir framan sömu myndina eins og til þess að láta áhrifin síast inn í sig á einhvern dularfullan hátt. Þarna var líka sjálfskipuð gáfumannafylking borgarinnar. Hún lét sig aldrei vanta, var eins og hundur í hverri hofferð.
“Hann hefur dágott vald á abstrakt formum,” sagði einhver.
“Sérðu ekki að þetta er moldarbarð?,” sagði annar.
“Nei, fjandakornið.”
“Nú málverkið heitir það,” sagði hinn.
“Hann fer sínar eigin leiðir,” heyrðist úr annarri átt.
“Skemmtilega ósvífinn í litavali,” sagði einhver, “en samt natinn við smáatriðin.”
“Þetta er líklega það sem koma skal,” sagði annar.
Listamaðurinn sjálfur ráfaði þarna um og reyndi að hlera það sem sagt var, pínulítið ringlaður á svipinn mitt í þessum orðaflaumi. Eitthvað var hann að myndast við að taka í höndina á fólki til þess að undirstrika, að það væri hann sem hefði málað allar þessar dásamlegu myndir.
Ung stúlka með allt á réttum stað hafði króað listgagnrýnanda af úti í horni. Kannski var þetta vinkona málarans, sem vildi með snotrum tilburðum laða fram eitthvað jákvætt hjá gagnrýnandnum.
Hefðarhálsar voru þarna líka og hnakkakerrtir kúluvambar, sem reyndu að vera duglegir í listatali.
Ari horfði á myndirnar, en síðan á fólkið aftur, og skyndilega fylltist hann ofboðslegri reiði. Reiði út í þessi málverk, sem sögðu honum ekki nokkurn skapaðan hlut, og reiði út í þetta uppskrúfaða fólk. En aðallega var hann þó reiður sjálfum sér fyrir að gefa sig a›ð þessu botnlausa snobbi. Hann var raunverulega ekkert betri sjálfur. Nú, og það voru einmitt svona myndir, sem hann hafði verið að mála undanfarin ár. Allt í einu þoldi hann ekki við þarna lengur. Honum fannst hann verða að komast út undir bert loft og vita þetta tilgangsleysi að baki sér. Hann olnbogaði sig fram að dyrum og á leiðinni gekk hann beint í flasið á konu. Hún var með einhvers konar svartan túrbanhatt á höfði og umburðarlynt, kímið bros, sem lagðist líkt og dauf slikja yfir allt andlitið.
“Fyrirgefðu,” mumlaði hann og flýtti sér út. Það var gott að anda að sér fersku lofti, fannst honum. Hann gekk götu úr götu og reiðin hélt áfram að magnast. Það var ekki þessi nuddkennda smáreiði, sem liggur í vöðvum og taugum vikum eða jafnvel mánuðum saman, heldur einbeitt, jákvæð reiði, sem vissi hvert hún var að fara og líkt og þurrkaði móðuna af skilningarvitunum.
Ari vissi ekki hversu lengi hann hafði gengið, en þegar hann rankaði við sér, sá hann gamalkunn hús í öllum áttum. Hingað var hann þá kominn eftir allt saman, hingað í götuna þar sem hann var alinn upp. Það var eins og hann hefði gengið í hring, ekki núna í kvöld, heldur allt sitt líf, og væri nú kominn aftur til upphafsins.
Hér hafði hann leikið sér lítill drengur, hlaupið yfir grindverk, klifrað rennur. Og þarna í kjallaranum á gulu timburhúsi hafði afi hans verið skósmi›ur. Ari gekk yfir götuna og staðnæmdist við rykugan glugga.
Liðin tíð kom á móti honum, í fyrstu heldur ógreinileg, en smátt og smátt skýrðust línurnar. Gamli maðurinn stóð við vinnuborðið. Augun undir gráu brúnastæ›inu voru þreytuleg og líkaminn tekinn að hrörna, en hendurnar voru síungar.
“Réttu mér töngina, væni minn,” segir hann og fer höndum um skóna sem hann er að gera við. Hann gerði eins og gamli maðurinn bauð og það var gott að vera til gagns. Þarna hjá afa sínum leið Ara vel. Aldrei neinn asi, ekkert málæði. Heilir dagar snígluðust hjá og kannski ekki sagt annað en:
“O, sei-sei,” eða “Látum okkur nú sjá.” Einhver öryggisværð fylgdi gamla manninum og svo var það leðurlyktin.
Og núna, þar sem Ari stóð og horfði inn í fortíð sína í gegnum þennan rykuga glugga, rann það upp fyrir honum, hvað hann var kominn langt, langt að heiman, hvað hann hafði fjarlægst þetta fólk, fólkið sitt, þessar hæglátu mannverur, sem bjuggu í þessum gömlu, skökku húsum.
Og skyndilega var líkt og eldingu slægi niður og kveikti í tundri í hugskoti hans. Það greip hann óstjórnleg löngun til þess að mála þetta allt saman, mála þennan heim, lífið við þessa götu, hugsunarhátt fólksins, amstur og sorgir og þá ögn af hamingju, sem hverjum og einum er gefin. Hann var að springa undan óviðjafnanlegri sýn, sem honum fannst hann verða að festa á léreft, áður en hún hyrfi honum. Hann tók á rás niður götuna og í áttina heim.
Sýnin blasti enn við honum, þegar hann þaut upp stigann og inn í herbergið sitt. Ofsinn var svo mikill, að hann var nærri dottinn um þröskuldinn. Hann fór úr jakkanum og henti honum út í horn. Svo reif hann hina þaulstæðu mynd af strammanum og setti auðan striga í staðinn. Hann sótti áhöldin og byrjaði að mála. Fyrstu pensilförin voru hikandi, en ákafinn jókst. Langvarandi doðinn vék fyrir sársauka, sem fór í gegnum hann allan.
“Komdu sársauki,” sagði hann upphátt við sjálfan sig, “komdu sársauki.” Svitaperlur þöktu ennið og skyrtuermarnar flögsuðust til og frá og pensillinn þaut um léreftið. Að lokum gleymdi hann sér fullkomlega, skynjaði hvorki stund né stað.
Það var ekki fyrr en löngu seinna, að hann heyrði umgang í húsinu og mannamál. Þá lagði hann frá sér litaspjaldið og gekk nokkur skref aftur á bak. Einkennilegir töfrar mættu honum. Myndflöturinn minnti á sprengingu, ólgandi líf, engin reglustikuform. Efst var sjóndeildarhringur, en neðar sást móta fyrir húsum og fólki. Þarna var komið örlítið brot af þeim veruleika, sem hann hafði rofnað úr tengslum við. Hann kastaði sér örmagna á dívaninn og notaleg þreyta smaug um hann allan. Hugur hans var tær eins og litirnir í málverkinu og hann lokaði augunum. Honum varð hugsað til olíuskipsins, sem hlaut að leggja úr höfn innan skamms, en um leið fann hann að svefninn var að hrífa hann til sín. Hann gleymdi sér andartak, en vissi svo af sér á ný.
“Út með trollinu,” hugsaði hann og gleymdi sér aftur.
“Láttu það verða afmælisgjöfina hans,” kom svo og hann heyrði rödd móður sinnar. Hugsun hans varð eins og mjúk dalalæða, sem þéttist æ meir, og að lokum féll hann í fastasvefn.