Kisi.
Það leyndi sér ekki, það var farið að vora. Veturinn hafði verið með eindæmum harður og snjóalög mikil. Fyrir nokkrum dögum hafði hann loksins snúið sér og andaði nú af suðri.
Þar sem Bjargfastur stóð fyrir framan húsið sitt og horfði niður eftir götunni, sá hann að snjóruðningarnir sigu með hverjum deginum sem leið.
Hann sparn fæti við einhverju sem stóð upp úr snjónum við garðhliðið og tók það upp. Ekki bar á öðru, þetta var gamalt kótelettubein. Vel virtist hafa verið gengið til verks, því ekki var svo mikið sem kjöt eða fituögn eftir utan á því.
Bjargfastur brosti og horfði nokkra stund á beinið og tautaði síðan fyrir munni sér. ,,Ræfils tuskan,,
Það var nokkru fyrir jól að Bjargfastur hafði staðið að kvöldlagi í nánast sömu sporum og horft til norðurs. Veðurspáin var ljót og sagði að gera ætti norðanbál sem stæði næstu daga. Það setti að honum hroll. Líklega væri best að binda ruslatunnuna.
Meðan hann var að bjástra við að binda tunnuna sá hann út undan sér að einhverjum skugga brá fyrir milli trjánna í garðinum.
Bjargfastur leit upp til að athuga þetta nánar en kom ekki auga á neitt. Líklega var þetta tóm ímyndun.
Fyrsta vindkviðan ýfði trjágreinarnar og Bjargfastur hraðaði sér inn.
Hann hafði orð á því við Dýrleifu konu sína að veðurútlitið væri dökkt, sér litist ekki á það.
Dýrleif kinkaði kolli og sagði síðan ,, Ég er búin að smyrja handa þér góði minn,,.
Bjargfastur settist við eldhúsborðið og borðaði hlíðinn brauðið sem kona hans hafði smurt handa honum.
Hann horfði hljóður út í myrkrið gegnum gluggann. Líklega væri ráð að hækka á miðstöðinni.
Veðurspáin gekk eftir. Það gerði kolvitlaust veður um nóttina og snjóaði í marga daga. Allt fylltist af snjó og nú var svo komið að elstu menn mundu ekki annað eins.
Húsið hjá þeim Bjargfasti og Dýrleifu var nánast komið á kaf í fönn.
En það var ekki bara snjórinn sem var að hrella þau hjónin þessa aðventudaga. Undanfarna daga hafði verið átt við ruslapokana sem Dýrleif safnaði í einn stórann fyrir utan bakdyrnar. Ruslatunnan var löngu komin á kaf. Pokarnir höfðu verið rifnir í sundur og innihaldið oftast á víð og dreif.
Bjargfastur hafði ekki hugmynd um hverju þetta sætti en grunaði hund nágrannans. Þó vissi hann ekki til þess að hundurinn ætti þetta til enda alltaf vel alinn hjá nágrannanum.
Nú skyldi hann athuga þetta nánar. Tók hann því allt rusl í burtu og lét kjötbita á disk og setti við bakdyrnar og hugðist þannig komast að því í eitt skipti fyrir öll hver væri sökudólgurinn.
Daginn eftir var kjötbitinn horfinn. En hann hafði komist að nokkru athyglisverðu. Sökudólgurinn var köttur. Hann var alveg viss, því sporin í kringum tómann diskinn voru greinilega kattaspor. Hann fylgdi sporunum eftir og sá að þau lágu að holu í snjónum við húsveggin. Hann hafði ekki tekið eftir henni fyrr.
Bjargfastur var svo sem ekkert ánægður. En ekki bar á öðru, það virtist vera kominn villiköttur sem hafði hreiðrað um sig þarna.
Hann tók skóflu og mokaði nokkrum skóflum af snjó í burtu og skoðaði síðan inn í holuna. Hún lá að húsveggnum og áfram meðfram honum svo langt sem hann sá. Myndast hafði smá bil milli húsveggsins og skaflsins. Líklega vegna velgjunnar frá veggnum. Þarna virtist Kisi hafa hreiðrað um sig.
Bjargfastur mokaði betur frá þannig að hann sá nú alveg meðfram veggnum, en engin hreyfing. Hann vonaði að kattarkvikindið væri á bak og burt.
Annars var honum vel við ketti og hafði einu sinni átt kött og haft af honum ánægju. Hann fann lykt af kattarhlandi og bölvaði með sjálfum sér. Þetta boðaði ekki gott.
Hann tróð snjó í holuna og fór inn og sagði Dýrleifu tíðindin.
Næstu daga sást ekkert til Kisa. Bjargfastur var farinn að halda að hann hefði gefist upp á vistinni og farið eitthvað annað. En ekki var það svo vel, því einn morguninn hafði ruslapokinn verið heimsóttur.
Kisi var kominn á kreik á ný.
Kattarskömmin gerði svo sem ekkert af sér þarna en að vita af honum þarna fyrir utan fór í pirrurnar á Bjargfasti. Honum var ekkert um þetta gefið.
Engin hafði fram til þessa séð Kisa og var ekki vitað hvernig hann leit út.
Meðan þessu fór fram hafði Bjargfastur farið nokkrum sinnum til rjúpna en orðið lítið ágengt. Einn daginn fór hann enn á ný til fjalla, og nú skyldi reynt til þrautar við þá hvítu.
Hann kom heldur hróðugur heim og hafði fengið 6 rjúpur. Þarna var búið að redda jólamatnum. Það var þungu fargi létt af Bjargfasti þegar hann hengdi rjúpurnar upp undir þakskegginu við bakdyrnar.
Kisi var ekki ofarlega í hans huga þá stundina.
Dýrleif horfði ánægð á mann sinn og sagði. ,, Þetta gastu eftir allt saman,,.
Þegar Bjargfastur kom út morguninn eftir, trúði hann ekki sínum eigin augum. Rjúpnafiður út um allt. Ein rjúpa alveg horfin og önnur nánast uppétin.
Bjargfasti féllust hendur. Bölvaður ódámurinn hann Kisi, þetta voru hans verk. Um það var Bjargfastur viss. Að stela frá honum jólamatnum var einum of mikið. Kattarfjandinn.
Upp frá þessum degi snérust viðskipti þeirra Bjargfastar og Kisa upp í heilagt stríð.
En það var sama hvað hann gerði, Kisi hafði alltaf vinninginn, enda afar var um sig. Kisi passaði það vel að fara ekki langt frá holunni sinni og gat alltaf skotist inn í hana ef einhver var á ferðinni.
Bjargfastur hafði svo sem reynt að troða upp í holuna en það var alveg sama, Kisi komst alltaf út.
Það var heldur ekki örgrannt um að Bjargfastur grunaði Dýrleifu konu sína um að hafa skotið einhverjum ruðum í holuna til Kisa um jólin, en hann hafði svo sem ekkert fyrir sér í því.
Bjargfastur var nú oft búinn að sjá Kisa. Þetta var bröndóttur köttur og virtist ungur að árum.
Honum var illa við þennan kött. Af hverju þurfti Kisi endilega að velja hans hús til vetursetu?
Bjargfastur var búinn að reyna að sitja fyrir honum mörgum sinnum, en það var eins og Kisi vissi á hverju hann ætti von, hann lét ekki sjá sig þegar Bjargfastur beið fyrir utan holuna með barefli til að lumbra á honum.
Gekk svona á um hríð.
Þannig háttaði til að hús Bjargfastar og Dýrleifar stóð nokkuð afsíðis og það hafði svo sem hvarflað áður að Bjargfasti að nota byssuna sem hann átti til að ganga frá Kisa en ekkert orðið úr því.
Honum renndi grun í að Dýrleif yrði ekkert lamb að leika sér við ef hún vissi um þá fyrirætlan.
Þá gerðist það fyrir nokkrum dögum að Bjargfastur vaknaði óvanalega snemma og farið ofan að hita sér kaffi.
Hann gáði til veðurs meðan vatnið í kaffið var að hitna og sá sér til mikillar undrunar hvar Kisi stóð langt úti á skafli og var að sleikja sólskinið.
Bjargfastur hikaði ekki eitt augnablik.
Hann læddist hljóðlega fram í geymslu, sótti byssuna og hlóð hana rólega. Hann fór fram í dyr og var tilbúinn.
Hann opnaði snöggt hurðina og miðaði byssunni.
Kisi brá hart við og stökk til og ætlaði að skjótast í holuna sína, en til þess þurfti hann að fara nær Bjargfasti sem stóð tilbúinn að hleypa af. Hann snarstansaði og í augnablik horfðust þeir í augu.
Kisi vissi að leikurinn var tapaður.
Bjargfastur sá hvernig slaknaði á öllum vöðvum Kisa.
Á örskotstundu flugu hugsanir í gegnum huga Bjargfastar. Átti hann að skjóta Kisa? Hvað hafði hann til saka unnið? Jú kattarskömmin hafði hnuplað frá honum rjúpunum, rifið og tætt ruslapokana, mígið og skitið út um allt.
En kattarræfillinn hafði lifað af einn versta vetur í manna minnum og það var afrek út af fyrir sig. Var sanngjant að skjóta Kisa loksins þegar veturinn var á enda og vorið að koma.
Bjargfastur lét byssuna síga og þarna kvöddust þeir í hljóði, Kisi og hann, fullkomlega sáttir.
Kisi skaust inn í holuna og síðan hefur Bjargfastur ekki séð Kisa því morguninn eftir var Kisi fluttur.
Bjargfastur fleygði frá sér kótelettubeininu og tautaði á ný ,,Ræfils tuskan,, um leið og hann gekk inn til Dýrleifar konu sinnar.
Endir:
Kimi.