I.
Hún gekk oftast í leirbrúnum flauelsbuxum og vínrauðri, hnésíðri hettukápu; dökkrauða húfan á dökkbrúnu hárinu. Hún æfði körfubolta og henni gekk vel í skóla, hún teiknaði fantasíur og hún var með græn augu og freknur. Hún var öðruvísi en flestar stelpur. Strákar voru hrifnir af henni og hún átti margar vinkonur, samt var hún ekki í “vinsæla” hópnum í skólanum. Hún lifði í tveimur heimum; sínum eigin og annarra. Ég gæti trúað að hún hafi kunnað betur við sig í sínum eigin. Hann var viðráðanlegri, og þar gat hún ráðið og stjórnað að vild. Þar skiptu lög og regla engu máli. Stundum fléttuðust þessir tveir heimar hennar saman, og þá giltu hvorki lög né regla í heimi annarra heldur. Þá gat allt farið í hundinn Bál og köttinn Brand. Þegar ég var að kynna mér sögu hennar varð ég strax hrifinn af því hvað hún var öðruvísi; hún var óhrædd við veruleikann, einfaldlega því hann var ekki hennar eigin. Hún gerði það sem hana langaði til og henni var sama hvað öðrum fannst. Draumar voru raunveruleikinn hennar og raunveruleikinn var fantasía. Hún var súrrealisminn holdi klæddur, trúði á allt. Þegar flestir guggnuðu og þorðu ekki, þá var hún sjálfsörugg og ákveðin. Og kannski var það þess vegna sem hún fór útá glæpabrautina. Hún sagði einu sinni að henni fyndist stundum eins og hún væri að dansa á línu hátt uppi yfir jörðinni, og að hún væri að því komin að missa jafnvægið. Svo brosti hún og sagði að hún ætlaði samt ekki að stökkva sjálfviljug niður; og ef hún dytti, þá ætlaði hún bara að klifra upp aftur. Hún hafði viljann og þorið, gáfurnar og hæfileikana. Þetta var allt saman áunnið, ekkert af þessu var meðfætt. Samt ætla ég að segja sögu hennar eins og svo sé, eins og hún hafi fæðst með gullbikarinn í höndunum og silfurskeiðina í munninum, því ef ég færi að skrásetja allan þann tíma sem fór í lestur bóka og þjálfun hugans hjá henni, þá yrði þessi saga margar bækur. Margar leiðinlegar bækur.

II.
Líf Jórunnar Jarlsdóttur hófst á laugardegi. Jarl, faðir hennar, hafði ætlað að grínast aðeins með það með því að bíta í eyrað á henni nýfæddri (áðuren blóðið og slímið var þurrkað af henni!) og segja: ,,Mm, litla sælgætisstelpan mín,” en það varð til þess að æ síðan var hún með stórt ör á vinstra eyra. Hún var eins og eyrnamerkt kind. Foreldrar hennar voru afskaplega stoltir af frumburðinum, og þótti ekki minna nafn en Jarþrúður Jórunn duga til, en hún var alltaf skrifuð Jórunn. Samt kölluðu allir hana Jöru. Hin eiginlega saga hennar hefst einnig á laugardegi. Þetta var frostkaldur og snjóþungur laugardagur. Fljúgandi hálka var á gangstéttum og götum borgarinnar og allnokkrir ýmist sneru ökkla eða brákuðu tá þennan dag. Jara var þó ekki ein þeirra. Hún hafði teygt löngu fingurna onfan í fatakistu afa síns og tekið þaðan mannbrodda. Sterklegar gúmmíreimar með gulu plasti og flugbeittum göddum á. Og nú rölti hún örugg niður Laugaveginn og hló innan í sér að öllum hálfvitunum og hugsunarleysingjunum sem runnu á rassinn. Þeim hafði ekki dottið í hug að verða sér úti um mannbrodda. Jöru fannst ekkert leiðinlegt að stela frá sjötíu og níu ára gömlum afa sínum sem hafði misst konuna sína og annað lungað. Það snerti hana heldur ekkert að reykingar voru búnar að eyðileggja hitt lungað líka, og óvíst var hvort gamli maðurinn myndi lifa þessi jól. Hún brosti bara að innanverðu og hóf jólagjafaleitina. (Svo bjó gamli maðurinn nú í kjallaranum og það beinlínis bauð upp á smá hnupl annað slagið.) Hún var að leita að jólagjöf handa Sædísi, rauðhærðri og þybbinni stelpu með útstæð eyru, sem var besta vinkona hennar og jafnframt sérlegur trúnaðarmaður og ráðgjafi. Eftir innlit í nokkrar skranverslanir fann hún réttu gjöfina handa Sædísi; náttúrugrænt og vítt síðpils með fjólubláum glerperluútsaumi. Jara tók pilsið og fimm aðrar flíkur og fór inní mátunarklefa með það. Þar tók hún góðan tíma í að klæða sig í pilsið og festa það upp með öryggisnælum svo það sæist ekki undan kápunni. Hún reif miðann og innsiglið af pilsinu og faldi undir bekk. Síðan gekk hún frá hinum flíkunum og yfirgaf verslunina. Á leiðinni út stakk hún stórum, gulbrúnum steini í keðju í annan vasann. Hjarta hennar tók ekki svo mikið sem einn einasta aukakipp þegar hún stikaði sjálfsörugg framhjá nefstórri og hálslangri afgreiðslustúlkunni. Samviska Jöru var ekki einu sinni agnarlítið bitin. Hún hélt áfram ferð sinni niður Laugaveginn með jólabros á vör og hreint hjarta. Hún var í góðu skapi, því hún hlakkaði til jólanna og gat varla beðið eftir viðbrögðum foreldra sinna við gjöfunum sem hún hafði valið þeim. Hún var líka sannfærð um að lungnaveiki afinn yrði ánægður með glaðninginn í rauða umbúðapappírnum með hreindýramyndunum. Hún staðnæmdist fyrir framan glugga skartgripaverslunar. Útsillingin samanstóð aðallega af gull- og silfurhringjum með fallegum steinum, rándýrum hálsfestum og perlueyrnalokkum. Fyrir ofan alltsaman trónuðu svo silfurlitir jólasveinar í hvítum fötum, hangandi á skotthúfunum í bandi. Jara fór innfyrir, aðeins til að blása á jólasveinana svo þeir feyktust fram og aftur og snerust í hringi. Hún hló upphátt, og verslunareigandi á miðjum aldri horfði undrandi á hana. Hún brosti bara glaðlega til hans og óskaði honum gleðilegra jóla. ,,Ha, humm, sömuleiðis,” sagði hann rétt áður en stúlkan með rauðu húfuna og grænu augun lokaði á eftir sér og hélt útí vetrarkuldann, áleiðis að Lækjartorginu þar sem hún tók strætó heim í Grafarvoginn. Á meðan strætisvagninn klauf skaflana og silaðist áfram niðrí Rimahverfi, fjarlægði Jara öryggisnælurnar og losaði um pilsið hennar Sædísar. Það lafði undan kápunni og flæktist þægilega um ökkla hennar og hún þurfti að halda því uppi svo það blotnaði ekki þegar hún óð snjóinn heim að húsinu. Það var enginn heima. Hún kveikti á útvarpinu og stillti á X-ið, klæddi sig úr kápunni og gekk frá pilsinu og hálsfestinni. Á sama tíma og Matthew Bellamy söng Hyper Music á öldum ljósvakans ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Muse, ristaði Jara sér brauðsneið og setti sneið af soja-osti ofan á (hún var grænmetisæta; gat alls ekki hugsað sér að gera nokkurri belju eða hænu nokkuð illt). Síðan hitaði hún sér kakó og settist við eldhúsborðið með DV að vopni. Hún borðaði mest allt af brauðsneiðinni, henti skorpunni og fékk sér meira kakó. Síðan sótti hún pilsið, vafði því utan um gulbrúna steininn í festinni og pakkaði inn. Hún valdi fallegasta umbúðapappírinn sem til var í húsinu og batt slaufu með bláum og gylltum borða. Hún festi merkimiða á pakkann og virti stolt fyrir sér tilbúna jólagjöfina. Sædís hlaut að verða hæstánægð. Jara söng upphátt með útvarpinu, svo glöð var hún að vera loksins búin að útbúa allar gjafirnar. Brosandi fleygði hún sér í leðursófann í stofunni og blaðaði í gegnum DV þangað til mamma hennar kom heim, klyfjuð innkaupapokum úr Nóatúni. ,,Hæ!” hrópaði hún glaðlega og fékk samskonar andsvar. Mæðgurnar hjálpuðust að við að ganga frá matvörunum. ,,Keyptirðu ekki mandarínur?” spurði Jara vonsvikin þegar hún var búin að gægjast ofan í alla pokana. ,,Æ, elskan, ég steingleymdi því!” svaraði Arngerður og lét frá sér pakka af hýðishrísgrjónum í eina skúffuna. ,,Við förum bara aftur eftir kvöldmat, það er opið til níu í Skeifunni í kvöld. Við getum litið á jólaföt í leiðinni.” Jara kyssti mömmu sína á kinnina og hjálpaði henni að skera niður kúrbít og tómata í salat. Á meðan sauð Arngerður tortellini og bjó til tómatsósu með hvítlauk, og þegar Jarl kom heim var búið að leggja á borð og maturinn tilbúinn. ,,Mm, sælgætisstúlkan mín og sætabrauðskonan,” sagði hann brosandi. Jara sagði fátt við matarborðið. Hún var að hugsa um aumingja kálfinn sem fékk bara vatn að drekka meðan foreldrar hennar drukku mjólkina frá honum. Sjálf drakk hún epladjús. Eftir matinn vaskaði Jarl upp og Jara þurrkaði, en Arngerður horfði á fréttirnar og kallaði athyglisverðustu atriðin fram í eldhús til feðginanna.

III.
Síðan steig öll fjölskyldan upp í dökkgrænan Renault, Jara spennti beltið í aftursætinu og Arngerður ók af stað. Bíllinn var enn á sumardekkjunum, en það stöðvaði Arngerði ekki í að aka hratt eftir hálum götunum. Hún hægði ekki einu sinni á sér í beygjunum, en passaði sig að hemla ekki of snöggt. Á bílastæðinu fyrir framan Rúmfatalagerinn var svartur Land Rover jeppi að bakka út úr stæði. Ökumaður jeppans fór sér hægt, því hann var að dunda sér við að borða stærðarinnar langloku með pepperoni, og sá ekki neitt annað. Það kom honum því gjörsamlega á óvart þegar dökkgrænn Renault skall fyrirvaralaust af krafti á hlið Land Roversins. Maðurinn á jeppanum kastaðist lítillega til. Hann taldi í sig kjark til að stíga út úr bílnum og leit hikandi inn um framrúðuna á Renaultinum. Honum varð svo mikið um að hann missti langlokuna sína í gráan snjóinn á bílstæðinu. Við honum blöstu tvær alblóðugar manneskjur, karl og kona. Stúlka í vínrauðri kápu og með dökkrauða húfu skalf af hræðslu í aftursætinu. Maðurinn hjálpaði henni út og stóð síðan vandræðalegur hjá á meðan viðskiptavinur Rúmfatalagersins hringdi í Neyðarlínuna og feit kona í svartri dúnúlpu, sem kynnti sig sem Stefaníu Arnardóttur, hjúkrunarfræðing, athugaði stúlkuna. Það var allt í lagi með Jöru. Hún titraði af ótta og tárin láku niður kinnar hennar í stjórnleysi, en það var allt í lagi með hana. Eins og í draumi nálguðust blá og rauð, blikkandi ljós, og einkennisklædd lögreglukona stýrði henni inn í bíl og ók henni í kjölfar tveggja sjúkrabíla með sírenur á fullu niður á sjúkrahús. Jara horfði á götu- og jólaljósin þjóta hjá í tárvotri móðu. Hún tók af sér vettlingana og stakk þeim í vasann. ,,Eru þau nokkuð dáin?” spurði hún sjálfa sig. Hún furðaði sig á hvað rödd hennar var hás og skjálfandi. ,,Hvað sagðirðu vinan?” spurði lögreglukonan í framsætinu. ,,Ég spurði bara hvort þú værir ekki örugglega á vetrardekkjum,” svaraði Jara og strauk framan úr sér tárin. Tók vettlingana aftur upp úr vasanum og setti þá á sig.