Gummi var búinn að vera að keyra um Reykjavíkina alla nóttina. Hann hafði misst allt tímaskyn og fannst sem nóttin væri bara fjarlægur draumur, martröð, sem best væri að gleyma. Allt varð óraunverulegt og fjarlægt. Hann var fylltur dofa og þunga sem hann hafði aldrei fyrr kynnst. Nóttin hafði farið í að reyna hugsa ekki um það sem gerst hafði, en sama hvað hann reyndi dugaði ekkert til. Það var eins og þetta hafði gerst rétt áðan. Hann mundi hverja hreyfingu, hvert orð sagt, nákvæmlega allt sem hafði gerst. En hann skildi ekki neitt, skildi ekki hvernig hlutirnir gátu æxlast svona. Þessi ofsi, þessi reiði, þessi yfirgnæfandi ótti.
Hann keyrði sæbrautina með slökkt á útvarpinu og hugsaði. Það var farið að nálgast hádegi og nokkuð var um bíla á ferð, enda sunnudagur og margir í bíltúr. Hann ákvað að stoppa við listaverkið sem stendur við sjóinn og teygja aðeins úr sér og fá sér að reykja. Hann settist niður og horfði á napran sjóinn. Það var kalt og rakt úti, rétt undir frostmarki. Esjan var á sínum stað og um stund virti hann fyrir sér þennan stóra stein sem eitt sinn hafði þótt fagur. Dökkt skýja haf rann þungt og hæglega yfir himininn þennan nóvemberdag.
Fyrir nóttina hafði hann ekki reykt í nokkur ár en öll skynsemi og allur tilgangur hafði yfirgefið hann. Þegar hann fékk sér smók leit hann á trúlofunarhringinn sinn. Dofinn umlék hann og honum varð hugsað til baka. Það voru seinustu áramót sem hann hafði sett þennan hring upp.
Allt kvöldið hafði verið nákvæmlega eins og hann hafði skipulagt það. Matur á rómantískum veitingarstað, horft á flugeldana og rétt eftir miðnætti hafði hann farið niður á hné og beðið hennar, eitthvað sem hafði verið draumur hjá honum í langan tíma, og hún hafði játast honum.
Hann tók af sér hringinn og kastaði honum í sjóinn. Hann fann hvernig ómennskan var búin að ná tökum á sér og hvernig algleymið freystaði hans. Sjórinn freystaði hans líka og um stund dreymdi hann um það að fara og búa meðal fiskanna. En hann fór inn í bíl og keyrði af stað án þess að vita hvert hann var að fara. Skyndilega datt honum eitt í hug og án þess að hugsa frekar um það hélt hann af stað inní bryggjuhverfi.
- Já halló er þetta Lísa?
- Já þetta er hún, er þetta Gummi? Komdu upp elskan.
Dyrnar opnuðust og hann gekk að lyftunni, fjórða hæð. Dyrnar að íbúðinni stóðu opnar og Gummi gekk inn. Á móti honum stóð brosandi stúlka í silkináttfötum. Hún var með dökkt stutt slétt hár og dökk augu sem litu til hans með undarlegri þrá og eftirvæntingu. Hún gekk strax á móti honum og kyssti hann á kinnina.
- Sjaldséðir gestir, hvers ber ég þakka þessa óvæntu en ánægjulegu heimsóknar? Spurði hún brosandi.
-Ég var bara á rúntinum og mér varð hugsað til þín. Þú lítur vel út, varstu í klippingu? Spurði Gummi og virti hárið á henni fyrir sér.
- Já reyndar, sagði hún og virtist ljóma við þessa athugasemd. Í gær, hann Biggi minn klippti mig. En hvað er að frétta af Sunnu, hversvegna ertu ekki hjá henni? Eftirvænting í bland við ótta skein úr augum hennar er hún beið eftir svari.
Dofinn færðist í aukar og gretta fór yfir andlit Gumma. – Hún er heima held ég, en elskan ég vill ekki tala um hana, ég er hjá þér og vil njóta þess að vera hjá þér, þröngvaði hann útúr sér.
Hún brosti, greinilega sátt við þetta svar og þau gengu inn í stofu. Gummi leit í kringum sig, það var langt um liðið síðan hann kom síðast þarna inn en ekki mikið hafði breyst. Lísa var stúlka sem hafði ekki legið auðum höndum. Munir alstaðar af úr heiminum voru vítt og dreift. Sverð frá Asíu, styttur frá Suður – Ameríku og ýmsir aðrir munir frá ólíkum stöðum heimsins. Hún hafði átt ríka foreldra en þeir höfðu látist þegar hún var ung og erfði hún mikið af peningum, og gat því leyft sér margt sem aðrir gátu ekki. Bókahillan var á sínum stað og voru listabækur og heimsbókmenntir þar meðal annars. Hún Lísa var mjög skörp ung kona sem unni listum mest af öllu og var það kannski ein af helstu ástæðunum fyrir því að hún hreifst svona að Gumma.
Hún hafði oft setið fyrir hjá honum hérna fyrr á árum og voru mörg af hans bestu verkum einmitt af þessari stúlku. Oft og títt hafði hún fyllt hann andargift. Góðleg framkoma, guðdómlegur líkaminn og vilt kynlíf.
Þau litust í augu og hún roðnaði. Og þrátt fyrir að hann væri þarna hjá henni var hugur hans alla tíð í íbúðinni hans í Breiðholti. Hann þoldi þetta ekki, hann varð að losna við þetta nagandi mein sem hrjáði hann, þó ekki væri nema í stutta stund.
Gummi stóð upp, settist hjá henni og tók í hönd hennar. Hann leit fast í augu hennar og færði sig nær. Hún horfði á hann, og líktist helst barni sem er að gera eitthvað sem það veit að rangt, en hún færði sig líka nær. Og eftir stutta stund lágu þau í heitum leik á sófanum og Guðmundur fékk sinn stundarfrið.
“Hver ertu ógeðið þitt? Hvað ertu?” Hann var staddur inn í baðherbergi Lísu sem var mjög snyrtilegt og fallegt. Hann furðaði sig á þeim ókunna manni sem leit til hans í speglinum. Maðurinn var hávaxinn, með dökkt liðað hár og dökka skeggbrodda. Brún augu, dökkt hörund, sterkleg kjálkabein og vel á sig kominn líkamlega.
“Hver ertu?” Og þá rann atburðarás næturinnar í gegnum huga hans og æsingurinn og viðbjóðurinn virtist ætla að kæfa hann. “Ég er ekki maður, ég er ómenni. Ég á ekki skilið að lifa.” Hann fylltist hatri, hatri sem beindist að ókunna manninum í speglinum.
- Er ekki í lagi Gummi minn? Kallaði Lísa með sínum ljúfa málsrómi. En Gummi svaraði ekki. Hann leit aftur á ómennskuna sem starði á hann í speglinum og fylltist ofsa.
Hann opnaði hurðina og leit á Lísu sem stóð með rúmteppið vafið yfir sig. Hún brosti fallega til hans en þegar hún sá flatneskjulegt andlitið hætti hún að brosa. Og án þess að segja neitt strunsaði Gummi út. Lísa kallaði á eftir honum og elti hann fram á gang en hann var ekki að hlusta, hann var kominn með áform, og það varð að framkvæma það strax.
Stúlkan með rúmteppið stóð ein eftir og hugsaði með sér hvað hún hafði gert rangt og syrgði það lengi að hafa klúðrað þessu seinasta tækifæri sínu til að endurheimta eina manninn sem hún hafði nokkurn tíman elskað.