Ég skrifaði þetta upphaflega án þess að ákveða hversu langt þetta yrði. Smám saman teygðist úr þessu eftir því sem ég hélt áfram, og mig langar að birta hérna fyrsta kaflann, og brot úr öðrum, og sjá viðbrögð ykkar(ef einhver eru). Hafið það bara í huga að þetta er skrifað sem skáldsaga, ekki smásaga, og þess vegna er söguþráðurinn nokkuð gloppóttur.
—
1. kafli
Ég ligg í rúminu mínu, þunn eins og venjulega á laugardags- og sunnudagsmorgum, og horfi út um gluggann. Sé óhreina bletti á körmunum, þunnt ryklag á kistunni og tek eftir því að ég þarf að mála hann. Glugginn minn er eins og sjónvarpsskjár þar sem ég sit og horfi á lífið. Ég er aðeins hjálparvana neytandi sem geri lítið annað en að sinna sínum eigin skyndiþörfum, allt hitt er tóm blekking. Ég reisi mig upp við dogg. Eini gallinn við þetta annars fullkomna sjónvarp, er að það vantar fjarstýringu. En, ég hefði hvort eð er engin not fyrir hana, enda aðeins ein stöð, ríkisstöð herra Guðs. Hann er bæði framleiðandi, þáttagerðarstjórnandi, eigandi gervallrar sjónvarpsstöðvarinnar sem og smiður leikmyndarinnar og tæknimaður.
Ég sný mér frá sjónvarpinu, staulast á fætur og af einhverri eðlisávísun held ég í átt að ísskápnum. Veiðiferðin ber sinn árangur, skyndibiti sem ég á ávallt til taks verður fyrir valinu.
Ég reyni að rifja upp allt það sem ég myndi ekki vilja muna frá kvöldinu áður. Smám saman dúkka upp á yfirborðið myndskeið úr mínu einkabíói frá skemmtistaðnum sem hverfa jafnóðum svipað og loftbóla þegar hún skýst upp á yfirborðið. Ég hringi í Valla í örvæntingarfullri tilraun til að láta hann hneykslast með mér á byttuskapnum í okkur.
,,Uhm…halló þetta er Valli. Þúst, ég tjékka aldrei á þessu…talhólfi þannig að ekkert vera að tala inn á það. — Lestu inn skilaboðið eftir að hljóðmerkið heyrist.”
Áður en pípið kemur legg ég á. Valli er ein af þeim persónum sem hafa ekki nógu sterkan vilja til þess að laga sig að nútíma lífsþægindum; uppfinningar á borð við farsímann og tannburstann eiga ekki sérlega vel við hans lífsstíl. Ég fer að hugsa um allt fólkið sem býr enn þá út á landi, fólkið sem, öfugt við mig, hefur ekki enn þá fengið nóg af öllum þeim vanköntum sem fylgir því að búa ekki á Suð-Vesturhorni Íslands. Hugsa sér, þarna úti í rassgati nær það að festa rætur með ekkert annað en atvinnuna sína og vídeóleigu til þess að halda andlegri geðheilsu sinni. Þvílík aðlögunarhæfni sem Homo Sapiens hefur!
Valla yrði hvort eð er alveg sama þótt að ég færi að grínast í honum yfir því hversu mikið ég drakk síðasta kvöld.
Þannig heldur líf mitt áfram. Vinnan mín er prýðileg, ég bjóst ekki við því að fá starf sem þýðandi við Andrésblöð. Ætli það hafi ekki komið til vegna þess hversu góð íslenska var töluð á sveitabænum þar sem ég bjó þegar ég var yngri. Það eina sem ég þyrfti að laga hjá mér er stafsetningin og það hvað ég get teygt lopann mikið, á Seljabraut 10 þar sem ég vinn er það kostur að hafa knappan stíl.
Valli bankar á dyrnar. Dyrabjallan mín er enn þá í ólagi, samt er komin heil vika síðan hún datt af í partýinu hjá mér síðustu helgi. En mér er alveg sama. Er nokkur ástæða til þess að pirra sig yfir ómerkilegum smáhlutum? Ef þú miðar það við hversu miklu það á eftir að breyta lífi þínu er í rauninni alger vitleysa að hugsa um dyrabjöllur. Þegar ég ligg á dánarbeðinu og hugsa um allt það sem ég hef áorkað í lífinu á ég ekki eftir að segja ,,Æ, bara ef ég hefði nú eytt meiri tíma á skrifstofunni.”
Vá, þetta var skemmtileg pæling. Ég stoppa aðeins til að velta henni betur fyrir mér. Valli sér mig í gegnum glerið og bankar aftur, aðeins ákveðnara. Ég ranka við mér og geng hægt í átt að dyrunum. Valli þýtur inn í hitann eins og stormsveipur og ég finn hversu ótrúlega kalt það er úti. ,,Shitt hvað það er kalt úti maður!” er það eina sem hann segir. Miðað við klæðaburðinn hans, risastóru úlpuna hans og þykku húfuna dytti mér ekki í hug að nokkrum manni yrði kalt jafnvel úti í svona gaddi.
Ég tjái Valla þessar lífspælingar mínar um nauðsyn þess að sleppa því að laga dyrabjölluna. Það eina sem hann gerir er að hrista höfuðið og svara snubbótt: ,,Þú ert rugluð, ég hef alltaf sagt það.”
Það fer óðum að skyggja úti. Við leggjum af stað niður í bæ. Njótum þeirra forréttinda sem fylgir því að vera í göngufæri við helstu skemmtistaði landsins. Enda er eitthvað við miðbæinn sem sveipar hann einstakri tilfinningu sem ytri bæjarfélögin ná ekki. Gaukur á Stöng er að vísu ekki staður sem við sækjum stíft, en í kvöld langar okkur að prófa eitthvað nýtt.
Okkur er alveg sama þótt fólk haldi að við Valli séum kærustupar, manngerðir okkar beggja eru þeirrar gerðar að vinir okkar verða að sálufélögum. Okkur finnst bara gott að vera svona náin. Að vísu getur það valdið misskilningi þegar ég fer að reyna við einhverja karlmenn á skemmtistöðum, en aldrei hefur það verið neitt stærri vandamál en svo að útkoman verði ekki góð.
Um leið og dyraverðirnir hverfa mér sjónum, fyllast öll skilningarvit mín. Snertiskynið hefur nóg að gera við að rekast á fólk, augun blindast næstum af sterkum ljóskösturum, bragðið af bjórnum sem ég drakk áður en ég fór inn situr enn þá í tungunni, og um leið og nefið fyllist af tóbaksreyk fer tónlistin aftur á fullt. Svipbrigðin sem maður fær við að stíga inn á skemmtistað eru svipuð og skynjanirnar sem fangi verður fyrir þegar honum er hleypt út í frelsið. Ég rekst utan í manneskju sem ég kannast við, það er Unnur. Hún hefur nýlokið háskólanum og er greinilega að fagna próflokunum. Hún hefur fengið sér dálítið mikið og hún ásamt nokkrum vinum sínum byrja að gera grín að vinnunni minni. Ég reyni að halda töffaraveggnum sem ríkir á milli okkar og geri óspart grín að sjálfri mér.
Eftir því sem drykkjunum fjölgar líður mér verr og verr að halda áfram hvítu lygunum.
,,Jæja Halldóra beibí, þú heldur þig enn þá í heimsbókmenntunum!”
,,Jú jú, maður er jú vel lesinn! En hvernig gekk þér í prófunum?”
,,Ha, hvað segiru?”
,,Ég spurði hvernig þér gekk í prófunum!!”
,,Já hahaha það. Afsakaðu ég heyri svo illa!”
,,Ja, það gerir nú aðallega tónlistin hérna inni, þeir mættu lækka hana aðeins! En hvernig urðu einkunnirnar hjá þér?!”
,,Ég féll í læknaáfanganum. Í annað skiptið. Býst bara við því að finna mér einhverja láglaunavinnu, maður nennir þessu ekki lengur!”
Eitt af því sem ég hata við mannleg samskipti, það eru persónur sem maður getur aldrei átt hærri samræður við en svo að það fjalli um einhver innantóm málefni eins og veðrið, klukkuna eða skólann. Ég kysi frekar að tala um heimsbókmenntirnar, siðfræði eða eitthvað annað jafn háfleygt. Þess vegna flý ég að barnum, panta drykk og skelli honum í mig. Ég hef stundum haft áhyggjur af drykkjuhneigð minni en í kvöld hef ég ákveðið að vera svolítið góð við sjálfa mig.
Ég litast um. Reyni að láta líta svo út eins og ég sitji ekki eins míns liðs við barborðið. Brátt kem ég auga á Siggu sem er í hrókasamræðum við einhvern náunga. Ætti ég að rölta til þeirra og taka þátt í samræðunum? Mig dauðlangar en það er eitthvað sem togar í mig að vera kyrr. Sigga hefur átt í erfiðleikum síðan slitnaði upp úr með henni og Valla. Þess vegna mætti segja að Valli hafi flúið yfir til mín, en Sigga átt svolítið bágt á meðan hún átti í sem mestri ástarsorg. Ætli hún sé búin að jafna sig og sé tilbúin til að finna sér annan? Mér finnst þó eins og hennar örlög séu að búa ein, ég hef einhvern veginn alltaf verið á móti því að Sigga finni sér maka. En jæja, látum hana bara hafa það eins og hún vill. Ég panta mér annan stærri drykk, og finn hvernig ég hitna öll að innan.
Nokkrum drykkjum seinna er ég orðin nokkuð glöð, ég mæti ljúfum augnaráðum frá nokkrum drengjum sem sjá mig sitjandi í nokkuð opinni stellingu við borðið. Ég lít yfir til Siggu enn á ný, og sé að þau tvö eru orðin nokkuð náin hvort við annað. ,,Andskotinn, ég má ekki láta þetta gerast!” hrópa ég upp, og stend galsalega á fætur og storma yfir til þeirra. “Sæll vertu vinur, Halldóra heiti ég og er vinkona hennar Siggu. Gleður mig að kynnast þér!”
Ég þríf í hrjúfa hendina á honum og kreisti eins og um líf mitt væri að tefla. Siggu bregður nokkuð við að sjá þessa innrás mína yfir til þeirra, og reynir að draga athyglina frá honum. “Elskan mín stilltu þig, endilega tylltu þér vinan, sjáðu þetta er Gunnar. Hann er lögfræðingur og þýðandi.”
,,Þýðandi?!” hrópa ég samstundis upp yfir mig. Fólk í allt að þriggja metra radíus snýr sér samstudis við, og ég finn þrátt fyrir ástand mitt fyrir að kannski ætti ég að láta fara aðeins minna fyrir mér. ,,Þýðandi segiru? Já, svo skemmtilega vill til að það er ég líka,” segi ég aðeins lægra. ,,Þjónn, tvöfaldan martini dry fyrir mig, og annan eins handa þessum herramanni og þýðanda!” segi ég við barþjóninn. Nú er ég orðin nokkuð drukkin og mér gengur erfiðlega að finna sæti nálægt Gunnari. Eftir að hafa gert sáttasamning við fyllibyttu sem situr við hliðina á Gunnari og gefið honum martininn minn, á ég í hrókasamræðum við Gunnar um breytingarnar í þýðendaheiminum og siðfræði hjá útgefendum. Allt í einu kemur Valli að mér.
,,Halldóra vinan, ættum við ekki að fara að renna heim á leið?” segir hann með áhyggjutóni, og gýtur augunum varfærnislega til Gunnars. Greinilega finnst honum hann aðeins of myndarlegur svo ég geti farið að tala við hann í þessu ástandi. Eftir langar og mis-innihaldsríkar viðræður við mig tekst Valla að koma mér nöldrandi heim.
Á röltinu upp að Óðinsgötu syng ég hástöfum ,,Er það minn eða þinn sjóhattur?”
Áður en mér tekst að klára viðlagið með hinum glæsilega söng mínum dreg ég að mér athygli tveggja lögregluþjóna sem hafa nýlokið við að dreifa partýi á Sjafnargötunni. ,,Jæja ungfrú mín góð, hvað höfum við hér? Er það hefðardaman af leið frá dansleiknum?” Þessi lögregluþjónn hefur greinilega smekk fyrir kaldhæðni og ég ákveð að svara í sömu mynt: ,,Nei! Herra barón, eruð þér komnir aftur? Er það kannski glerskórinn sem ég skildi eftir þegar klukkan sló tólf?!”
Valli reynir að þagga niður í mér en ég er komin í stuð og þarf að hella mér frekar yfir þá “Já já, handtakið mig bara! Að leyfa sér að ráðast svona á minnimáttar úti á götu þegar allt er orðið dimmt, það lýsir best ykkar hugarfari! Svei!” Ég hræki á skó hins lögregluþjónsins; þeir líta forviða á hvorn annan. ,,Heyrðu vinan, hafðu þig hæga,” segir annar þeirra með ströngum tóni,”eða þú-veist-hvað.”
“Nei það veit ég sko ekkert um! Látið mig bara vera!” segi ég og dangla í öxlina á öðrum þeirra. “Jæja góða, þú ættir kannski að kíkja með okkur niður á stöð,” segir sá sem fékk hrákann á skóinn sinn. Þeir blikka til Valla og annar þeirra segir í hálfum hljóðum við hann ,,Okkur þykir leitt þetta með kærustuna, svona gerist. Við skulum bara sleppa þér í skýrslunni.”
2. kafli
Fyrir framan mig: Hvítur veggur með ljósi í miðjunni.
Fyrir ofan mig: Annar hvítur veggur sem nuddast óþægilega við höfuðið á mér.
Fyrir aftan mig: Látlaust rúm með einfaldri dýnu sem mætti vera þykkari.
Fyrir neðan mig: Tærnar, eins og alltaf, auk annars hvíts veggs með ljósrofa á.
Vinstra megin: Veggur, ekkert annað en hvítur nýmálaður veggur.
Hægra megin: Ég sný höfðinu aðeins til hægri, og það sem blasir við mér eru rammlæstar dyr, vaskur, klósett, lítill kollur sem er skrúfaður við gólfið auk skrifborðs, einnig skrúfað fast við gólfið. Það eina sem gleður augað í þessum fangaklefa er marglit motta sem sómir sér skringilega á hvítu gólfinu eins og regnbogi fyrir neðan ský. Ég er stödd í einangrunarklefa Lögreglu Reykjavíkur. Furðulegt, að ég, saklausa sveitastúlkan ætti eftir að eyða nótt hér í þessu ræsi kerfisins. Hvað ætli mamma og pabbi segðu ef þau sæu mig hérna? Mamma byrjaði að kvarta yfir því hversu skítugt teppið er sem liggur ofan á mér, en pabbi færi að spekúlera í innréttingunni og hvernig þetta litla rými er nýtt. Foreldrar mínir eru alltaf eins, svo upptekin af gagnslausum hlutum.
Ég móki áfram með slökkt ljósið og höfuðverk og ranka fyrst við mér þegar hurðin er opnuð og inn stíga tveir lögregluþjónar. Án þess að segja neitt stend ég upp og þeir taka mig út úr klefanum. Síðan er tekin af mér skýrsla og svo er mér hleypt út í dagsljósið. Einfalt, snöggt og kalt.
Kaldari er þó dagurinn sem faðmar mig með sínum grámuggulega blæ. Snjórinn er farinn eftir þíðuna sem gerir veruleikann enn þá hversdagslegri. Núna veit ég loksins fyrir víst hvernig fanga líður þegar honum er hleypt út, og það er tilfinning sem ég vil vonandi ekki fá aftur.
En öfugt við langflesta hina sem ganga niður þessar tröppur eftir að hafa gist í einhverjum af þessum fangaklefum þá hef ég eitthvert heimili til að stefna á. Lykillinn rennur inn í skrána, ég lít enn einu sinni á farið eftir dyrabjölluna þar sem hún stóð. Ég heyri símann hringja um leið og ég opna dyrnar, og hleyp inn í stofu til að svara. Það er Valli.
,,Já, þetta fer á sakaskrá. Að sjálfsögðu. Ég meina, helduru að ég viti það ekki? Já…já…nei var klukkan ekki orðin þrjú? Ha…já…?”
–
“Já ókei ég geri það. Jábless.”
Íbúðin mín er í hræðilegu ástandi. Andskotinn, ég þarf að fá mér uppþvottavél, þetta gengur ekki. Að eyða hálftíma á dag í að vaska upp er bara eintóm vitleysa. Samt…þá er það á hinn bóginn vitleysa að vera að eyða miklum pening í svoleiðis tæki, sérstaklega þegar maður er fátækur djammari sem á erfitt uppdráttar. Ég hringi í vinnuveitandann og bið um frí næsta dag. Það er meira en nóg af áhyggjum sem hvíla á herðum mínum þessa stundina til þess að ég geti farið að draga enn einn djöful í viðbót.
Mig langar að hringja í fjölskylduna. En ég geri það ekki. Eitthvað togar mig frá því. Aftur á móti sest ég með glöðu geði í sófann og hugsa. Hugsa um fjölskyldu mína. Hún hefur ekki verið ofarlega á vinalistanum eftir að ég flutti að heiman án samþykkis þeirra. Reyndar var pabbi mildari við mig þegar ég tók þá ákvörðun heldur en mamma. Mér þykir svo vænt um pabba, ég erfði svo margt frá honum sem ég get ekki þakkað nógsamlega fyrir. Hann var svo frjór og tjáningarglaður í öllu sem hann gerði, hvort sem það var að vökva blómin eða mála mynd. En eftir að hann giftist mömmu breyttust hlutirnir. Hún reyndi alltaf að toga hann niður, lægja öldurnar sem einkenndu persónuleika hans og fá hann bara til að lifa “eðlilegu” lífi á hennar mælikvarða. Raka sig. Á sunnudögum var steik, á mánudögum fiskur. Þegar ég var lítil þótti mér fiskur alltaf vondur, kannski aðallega vegna þess að oftast var það mamma sem stakk upp á að hafa fisk í matinn.
Ég man eftir því þegar ég og litli bróðir minn lékum okkur út um allan bæinn, inn á milli gömlu fallegu húsanna sem höfðu sínar lágreistu hvítu trégirðingar og rauðu tréþökin sem bróður mínum fannst alltaf svo ljót. Ég man eftir fjallinu sem litlu húsin kúrðu upp að eins og hræddar mýs, eftir steinunum sem lágu í brekkunni og upp við veginn líkt og þeir væru að bíða eftir áætlunarbílnum sem aldrei stoppaði fyrir þeim. Ég man eftir stóru fallegu pollunum sem mynduðust á haustin, en aldrei man ég þau skipti sem ég kom rennandi blaut heim eftir að hafa verið allan daginn í bátaleik í þeim. Eftir öllum glæsilegu höllunum sem við byggðum úr þéttvöxnum rifsberjarunnum á sumrin og snjóhúsum á veturna. Minningarnar úr sveitinni skera hjarta mitt eins og hnífur, og í fyrsta skipti óska ég þess að vera komin þangað aftur.
Skyndilega er bankað á dyrnar. Ég stend upp letilega á fætur, og með hálfum huga geng ég að dyrunum. Ég opna þær, og á móti mér standa tveir stæðilegir menn.
,,Já, er þetta Halldóra? Þú ert hér með handtekin í nafni laganna. Allt sem þú segir getur verið notað á móti þér, þú hefur rétt til þess að þegja…”