Fyrir tæpum 18 árum kom lítil stúlka í heiminn í einmanalegu skógi bak við hæðina. Móðir hennar var vart af barnsaldri komin og leyndi óléttunni til að verða ekki fjölskyldu sinni til skammar. Á þessum tímum voru konur útskúfaðar sem áttu króga utan hjónabands.
Umvafin blíðu og móðurást var stúlkunni sveipað í hlý klæði og lögð á brjóst þar sem hún saug nægju sína. En móðirin unga var með sorg í huga því hún vissi að ekki gat hún haldið barni sínu. Þá yrði hún útskúfuð og bæði fengju ekki lifað.
Þegar barnið var satt og sofnað lagði móðirin það frá sér og útbjó hlýtt bæli með mosa undir rótum mikilfenglegs eikartrés. Þar lagði hún barnið niður í skjóli veðra og vinda og kyssti það síðasta kossinn blandaðan tárum og hljóp svo burt.
Meðan á þessu stóð hafði gamli einbúinn fylgst með athöfnum ungu móðurinnar og sté fram þegar hún var farin. Hann gekk að rótum eikartrésins og fann litla stúlkubarnið sem svaf vært, alls grunlaus um að það hafði verið yfirgefið af móður sinni. Gamli einbúinn horfði með blíðum augum á litla stúlkubarnið, beygði sig varfærnislega niður, hikaði og tók svo ofurvarlega með stórum hrömmum sínum utan um barnið svo hann vekti það ekki. Síðan þrammaði hann þungum skrefum, en hljóðlega eins og einveran hafði kennt honum, lengra inn í skóginn heim í litla hlýja kofann sinn.
Undir rótum eikartrésins voru engin ummerki eftir litla stúlkubarnið nema autt bælið sem móðrin unga hafði búið um. Myrkrið féll á og uglan byrjaði að væla. Þrusk heyrðist og síðan skrjáf. Unga móðirin var komin til að sækja dóttur sína. Sér hún autt bælið og bregður mjög. Hún rótar í bælinu í örvæntingarfulla leit að barninu sínu og rífur upp mosann með krampakenndum tökum og skríður svo á fjórum fótum í angist sinni. Leitar hún um stund en gefst upp og tekur að gráta með djúpum ekkasogum.
Gamli einbúinn, sem var að ná í kúna sína í rjóður þar skammt frá, heyrði ekkasogin i ungu móðurinni og skilur hvað gerst hefur. Hann þrammar, hljóðlega þó, og sér hvar móðirin unga liggur á döggvotu grasinu og grætur. Augu hans verða hrygg er hann gengur til hennar en mildast þegar hún verður hans vör.
Hræðsluglampa bregður fyrir í augum hennar en hann gengur hægt til hennar og segir með róandi, en hrjúfum röddu að barnið væri hjá sér og væri orðið svangt. Hann réttir fram höndina og eftir smáhik tekur unga móðirin í hendi hans og leyfir honum að hjálpa sér á fætur. Hún spyr með áhyggjutón hvort að allt sé í lagi með barnið og hvað hann ætli að gera við þau. Gamli einbúinn verður hugsi, hann hafði verið einn svo lengi og nú eru tvær varnarlausar manneskjur sem þarfnast hans. Hann kveðst munu hjálpa henni því ekki var að ástæðulausu að hún hafði skilið barnið eftir í skóginum. Unga móðirin lítur í góðleg augu hans og finnur að hér færi maður sem myndi ekki gera henni né dóttur hennar mein. Hún þakkar fyrir sig og biður um að fá að sjá barnið.
Brostu framan í heiminn og þá mun heimurinn brosa við þér.