Annar hluti; Téið

Þú gætir svo sem orðið smiður og verið ánægður með þitt. Spurningin er bara hvort þú viljir ekki halda áfram og verða enn ánægðari? Aðalspurningin er samt sú hvort þú nennir því.
Því að slíku er ekki að gengið. Það krefst mikils af þér, kannski meira en þú getur séð af. Blóð svita og tár, mikinn pening, mikinn vilja og eitt stykki sál.

Það hafði snjóað uppúr hádegi, sannkölluð hundslappadrífa, snjókornin voru stór og blaut og viðloðandi. Einstaklega heppileg fyrir ungdóm hneigðan snjóboltagerð, tók ég eftir þar sem ég renndi hendinni eftir múrveggnum og safnaði snjónum í höndina og byrjaði að hnoða. Teygði handlegginn og var vís til þess að þrykkja honum í húsvegginn. En slakaði á höndina og lét boltann renna máttleysislega, beint niður í malbikið, þar sem hann molnaði í sundur.
Ég er víst ekkert barn lengur. Og þó… hvenær varð ég fullorðin.
Ekkert hafði breyst. Reyndar; allt hafði breyst en ég var í það minnsta algerlega óbreyttur. Allt af sami óvenjuþroskaði krakkinn. Var eiginlega jákvætt þá, en hvíldi á mér sem baggi nú; að vera í rauninni óvenju lítt þroskaður/barnalegur maður.
Angist hafði gripið mig í fyrstu eftir komunnar til Reykjarvíkur. Ég var vafalaust sami krakkinn og alltaf en nú hafði lífið neytt drenginn sem undi sér best í leikjum barna í rólegu hverfi einhverstaðar suður með sjó til þess að standa á eigin fótum. Og þar sem ég vissi að sjálfur yrði ég aldrei taminn, alinn og brennimerktur fullorðin varð mér ljóst að ég yrði að temja borgina, þjóðlífið yrði að beygja sig að mínum þörfum.
Slíkt kallast sérviska, og í daglegu tali kallast fólk sem svoleiðis stundar sérvitringar. Þeir eru ekkert verri en annað fólk, bara fara öðruvísi leiðir að hlutunum.
Til góðs? Tja… alla vegna met ég hlutina svo að ef ég stjórna ekki lífi mínu þá mun bara einhver annar gera það, menn og búfénaður verður bara að sætta sig við það að alltaf voru troðnar slóðir einhvern tíman ótroðnar. Sagan mun dæma mig vel. Það er óalgengt að fólk leggi rækt við barnið í sjálfu sér. Of margir hafa gleymt því hvernig það er að skynja heiminn í fyrsta sinn og hafa fengið leið á honum.

En einhverra hluta vegna hafði ég nú samt sleppt snjóboltanum. Kannski vantaði mig bara Sævar til þess að kasta í. Maður kastar ekki snjóboltanum bara eitthvert út í loftið, þvílíkt tilgangsleysi, þá gæti maður allt eins verið fullorðinn. Nei, maður kasta í átt að einhverjum sem hefur skilning á þýðingu leiksins og hefur sama gildismat á meiningu gjörningsins.
Úr því verður nú ráðinn bót, með hálf fimm rútunni kæmi samfélagi minn í ríki barnsins í brjósti mínu; Sævar, og þá yrði ég ekki lengur einn. Maður verður nefnilega svo hryllilega einmana hérna. Ekki það að ég eigi ekki glás af vinum og kunningjum, jújú, málið er bara að í rauninni eru þeir ekki vinir mínir. Þeir eru vinir Reykjarvíkursjálfsins og égeralltafhressogkáturmeðsnjallarathugarsemdirogeftirsk ónarverðargáfur-sjálfsins sem ég notaði eins og grímur þegar ég umgengst þá. Þeir þekkja mig ekki. Og til þess að vera vinur manns þarftu að þekkja mann. Ég get sosum skrifað sökina að því algerlega á sjálfan mig, ég vildi ekki hleypa neinum of nálægt.

Nema nú kemur þú með hálf fimm rútunni í þeim tilgangi að deila með mér íbúð og hefja hér nám við virðulegan háskóla. Og mig hlakkar til.
Að vísu hef ég í rauninni ekkert umgengist þig í þau þrjú ár síðan ég flutti, en fyrir þá herrans lukku að þú skulir vera árinu eldri en ég hefur þú nú lokið náminu við framhaldsskólann sem gerir þér kleift að koma til mín aftur.
Það er ef þú villt eitthvað í háskóla. Ef þér langar virkilega til þess að halda áfram í verkfræði nám nú að húsasmíðarnáminu loknu. Ef þú hefur nenning í það.

Að nenna. Það er skal ég þér segja ákaflega furðuleg sögn. Það er vandfundið sambærilegt orð í flestum öðrum tungumálum. “Að nenna” er séríslensk uppfinning. “Að nenna ekki” er það þá líka. Þessar tvær andstæður togast harkalega um sál íslendingsins. Hann nennir ýmsu og verður að nenna öðru, en þegar því sleppir hættir hann að nenna og virðist ekki hafa metnað í að gera eitthvað meira en það sem nægir. Hann er fús til þess að gera það sem gera þarf, en hvort hann vilji gera eitthvað meira?

Þegar ég var kominn niður á Lækjargötu var hætt að snjóa og þess í stað byrjað að ganga á skúrum. Við því mátti svo sem búast, það var frekar heitt úti og skýjabólstranir litu út eins og svampar á himnunum, gjörsamlega gegnsósa af vætu. Við þessa ástandsbreytingu var eins og hið létta sakleysislega andrúmsloft hafi verið rofið og þess í stað hafi heimurinn verið aðsetur draums þunglynds manns. Allt of gráleitt. Andskoti leiðinlegt.
Allt þetta grágrýti, járn, gler og Toppshopuð húshliðin fóru í taugarnar á mér.
Einhvern tíman fyrir langa löngu hafði runnið lækur hér meðfram ofan úr tjörninni. Hreyknir höfðu mennirnir steypað yfir hann stræti og möl, þykkt lag af manngerðu teppi sem lagðist eins og mara yfir nauðbeygða náttúruna, og veitt vatninu þess í stað í pípur og rör lengst út í sjó.
En þolinmóð þraukar náttúran vitandi það að einhvern tíman, löngu eftir að mennirnir hafa flust ofan í hafin munu þessar fornminjar veðrast og “mannteppið” myndi brotna eins og skurn utanum egg og skolast út í sjó þar sem afkomendur okkar, sjávarfólkið, lifir í friði mun grandlaust fá úrganginn okkar í hausinn. Við kúkum á afkomendur okkar.
Hægfara bylting; er aðferð náttúrunnar. En í dag var eins og henni hafi verið nóg boðið og lækurinn ákveðið að þröngvar sér aftur upp á yfirborðið og flæða yfir Lækjargötuna svo hún gæti nú borið nafn sitt með réttu. Og ákveðið að fórna einum eða tveimur manni í leiðinni.
Fyrirætlanir hennar voru augljósar öllum sem vildu sjá, vilji hennar var skrifaður í vatnið. Þar mátti speglast, djúpt ofan úr sál Lækjarins hvernig bíll skammt frá byrjaði að fleytast á vatninu og fara á óhugnarlegum hraða (bersýnilega í óþökk ökumannsins) eitthvert allt annað en vegvísarnir, málaðir á malbikið kröfðust.

Það var kannski ekkert hátt hljóðið, en það fór ekki fram hjá neinum. Eftir lætin ríkti þögnin í miðbæ Reykjarvíkur.

Það endaði alla vegna þannig að mér var ófært að fara Lækjartorg eins og ég ætlaði mér að hitta Sævar. Lögregla Reykjavíkur, í forsvari fyrir yfirvöld sem ríktu hinum megin við götuna, höfðu gert mér það algerlega ókleift að hitta á hann Sævar með því að taka til þess snilldarráðs að loka öllu svæðinu af.
Hvað þá?

Hvað gera menn þá?
Ég verð víst að labba eitthvert til móts við rútunni í von um að hitta á hana, þótt mér væri mein illa við það. Hvað voru yfirvöld að girða þennan eina litla blett af í þann mund sem ég ætlaði að hitta hann Sævar.
Mér verður litið á stjórnarráðið þar sem ég rölti upp Hverfisgötuna. Mig hafði lengi grunað að þeir hefðu horn í síðu mér…


p.s.
Það á að slá út rafmagninu í bæjarfélaginu mínu klukkan tólf svo ég ákvað að enda þennan part hér, núna.
Annar finnst mér svo gaman að skrifa um þennan dreng sem býr í ókunnugri borg og verður að labba sig í gegnum lífið að það getur vel verið að ég skrifi meira um hann seinna.