Hann situr þarna á hverjum degi á sínum stað á tröppunum og horfir á fólkið æða fram hjá. Allir í kapphlaupi við tímann. Fólkið horfir beinnt áfram og hröðum taktföstum skrefum þýtur inn í hringinn, bjallan hringir, tilkynnir að þessi lota sé að hefjast. Þau eru aftur komin á sinn stað, við vinnu sína eða vana, hver er munurinn?
Hann tekur upp krónu sem liggur einni tröppu neðar og setur hana í vasann. Hann brosir, þessi króna breytir svo miklu fyrir hann. Hann situr kyrr og heldur áfram að fylgjast með. Þetta fólk sem hann sér á hverjum degi gera alltaf það sama. Hann hugsar með sér að líf þeirra hlýtur að vera leiðinlegt eða frekar tómt.
Hávaxna konan með ljósa síða hárið og skjalatöskuna, sem klæðist bara svörtu. Hann hafði skýrt hana Dögg. Hún minnti hann á döggina sem legst yfir allt að loknu regni, morgun döggina, falleg en svo köld. Svo var það maðurinn með gleraugun sem voru alltof stór miðað við smágerða andlitið og þybbni maðurinn sem var oftast fullur og fer með nýja konu með sér heim úr vinnunni flesta daga. Hann fylgdist með svo mikið af fólki á hverjum degi að hann gaf þeim öllum nafn sem honum fannst eiga við þau.
Þar á meðal var nafnið Einmana, ungur maður svolítið smágerður í vexti, rauðhærður, svolítið bólugrafinn og með freknur. Hann gekk á hverjum morgni til vinnu sinnar. Hann stoppaði alltaf við tröppurnar hjá heimilislausum manni sem vantaði annan fótinn og var með lepp fyrir hægra auganu og gaf honum mat eða aur. Einmana var undir í þjóðfelaginu, verr komin heldur en heimilislausir. Hann fór hægt yfir því hann var alltaf að víkja fyrir öllum. Hann fór inn í stóra, gráa og líflausa byggingu sem var að kæfa hann. Einmana kemur í kaffihléi sínu og situr einn á bekk að lesa bók, ekki langt frá tröppunum. Svo í hádeginu sest hann á tröppurnar og réttir heimilislausa manninum samloku.
Hann kinkar kolli þakklátur fyrir matinn en þeir segja ekkert. Sitja bara hlið við hlið og borða. Báðir skilja að orð eru vanmetin og að þeir þurfa ekki að segja það sem þeim liggur á hjarta. Þeir skynja umhverfið, fólkið og hvorn annan og það er þeim báðum nóg. Svo fer Einmana aftur til vinnu sinnar.
Hann situr enn og fylgist með þessum fáu manneskjum sem eru á vappi. Þær taka eftir honum og sumar fara úr leið til að gefa honum aur. Hann þakkar fyrir og brosir. Honum líður vel hann veit hvar staða hans er, margir sem eiga heimili og fjölskyldur hafa ekki hugmynd um hver staða þeirra er eins og Dögg hún veit það ekki og felur sig bak við kalt yfirborð. Hann veit að hann getur alltaf reddað sér húsaskjóli og mat ef þess þarf, hann hefur ekki áhyggjur af lífinu.
Hann bíður rólegur þangað til bjallan hringir aftur til að tilkynna að þessari lotu sé lokið. Fólkið streymir út úr byggingunum í kring. Hann situr kyrr á tröppunum og fylgist með fólkinu ganga sömu leið til baka og það kom. Þarna birtist Einmana, reynir að brjóta sér leið í gegnum mannþröngina en gengur hægt því hann er alltaf að víkja fyrir hinum. Einmana stoppar ekki langt frá tröppunum og kinkar kolli til heimilislausa mannsins, Einmana hafði gefið honum nafnið Dátinn, þar sem hann var alltaf á sínum stað þar til vakt hans var lokið.
Hann kinkaði kolli til Einmana, sem heldur áfram ferð sinni án þess að brosa, andlit hans frosið. Hann horfir á fólkið ganga utan í hann. Hann hristir höfuðið. Munurinn á þeim tveim var svo mikill en þó voru þeir svo eins. Hann vissi að þeir höfðu báðir svo mikið að gefa en hvorugur þeirra fékk tækifæri til þess. En stærsti munurinn á þeim var sá að fólkið tók eftir honum en Einmana var ósýnilegur fyrir heiminum.
G