Ókynni
Ég á vin sem að passar mig. Hann situr alltaf við gula gluggann sinn beint á móti og horfir og horfir. Hann fylgist með mér við hvert handtak, hvern andardrátt og hverja hugsun. Hann veit að ég horfi líka á hann því að við erum að hjálpa hvorum öðrum. Við hvað, veit ég ekki en ég veit eitt. Ég er ekki búinn að týna vitinu. Það er bara á góðum stað. En ég þarf það í rauninni ekkert. Við deilum því saman og hann hefur ekkert á móti því. Hann veit samt ekkert að mér er illa við hann. Hann er nefnilega aumingi sem hefur ekkert gert við líf sitt nema horfa á mig og hjálpa mér við að gera það sama og hann. En ég horfi samt á hann og hann horfir á mig. Ég þori ekki að hreyfa mig lengur af ótta við að hann verði reiður. Því hann er ekki góður. Einn daginn dey ég og hann deyr með mér.