Ég fer út og læsi dyrunum. Bíllyklarnir klingja vinalega við húslykilinn eins og þeir séu að heilsa gömlum kunningja, og um leið og ég innsigla húsið mitt formlega fæ ég ég undarlega tilfinningu fyrir þessu húsi. Þetta er mitt hús, með mínum eigin húsgögnum, eldhúsinnréttingu, dýrðlegu vatnsrúmi og fleiri nútíma þægindum sem ég hef stritað fyrir með mínu eigin holdi og blóði. Þegar ég sest inn í bílinn minn, minn eigin bíl sem ég keypti án nokurra lána, finn ég fyrir sælutilfinningu sem fyllir tómarúm sálar minnar í botn. Ég bakka honum úr stæðinu, finn fyrir liprum hreyfingum bílsins um leið og ég skipti um gír, og þegar ég ek Miklubrautina finnst mér ég vera konungur heimsins. Hvert andartak sem fætur mínir þrýsta á bensíngjöfina er ómetanleg upplifun, hver hringur sem hjól bílsins míns snýst hefur sína eigin vídd, eiginn kraft, eigið andartak. Ég fyllist metnaði er ég hugsa til alls þess sem ég hef eignast upp á eigin spýtur, þá litlu fjármuni sem ég byrjaði með er ég var nýfluttur af heiman og hvað einn maður getur gert með dirfsku og þolinmæði að vopni.
Ég sé Magnús ganga yfir götuna fyrir framan mig er ég bíð á rauðu ljósi við mót Miklubrautar og Njarðargötu. Hann tekur samstundis eftir mér og heilsar glaðlega, ég læt mér nægja að kinka örlítið kolli og vona að græna ljósið komi fljótt. Um leið og glittir í gult á staurnum, kveð ég Háskólann, tjörnina og Hljómskálagarðinn, og heilsa Valsvellinum, Öskjuhlíðinni og Kjarvalsstöðum. Ferðinni er heitið í Kringluna. Þar hyggst ég eiga frekari samskipti við Mammon í musteri efnishyggjunnar.



Ég geng glaður í spori framhjá Hljómskálanum, og virði fyrir mér þetta fallega hús. Ætli það sé átthyrningur eða sexhyrningur? Hvenær var það byggt?
Ég held áfram göngu minni í gegnum Hljómskálagarðinn. Ég heilsa hverju laufblaði sem ég sé, vitandi af hinni stuttu ævi sem það fær, og minni það á að brátt komi að endalokum þess og þess vegna ber því að njóta lífsins meðan kostur gefst. Ég heyri marra vinalega í mölinni, finn ilminn af birkitrjánum og hinni dásamlegu óreiðu sem grasið býr yfir. Ég sé endurnar kjaga áfram þungum sporum eftir túninu. Hvað ætli þær séu að hugsa um á þessari stundu? Hringrás lífsins, frumafl heimsins, nú eða bara hvar þær geti fundið bestu fæðuna?
Hinar djúpu pælingar mínar um lífið og tilveruna setja hugann á reik. Litla bakhúsið mitt á Laugaveginum bíður eftir því að ég ljúki gönguferð minni í gegnum sælureit Reykjavíkurborgar, vin í annars þurri og skítugri eyðimörk. Ég fékk það hús ótrúlega ódýrt, enda ástand þess ekki sem best. Ég eyddi því löngum stundum í að gera það upp, borgaði efnið sem til þurfti með glöðu geði vitandi það hversu mikill andi bjó yfir því. Og að lokum, þegar húsið var fullgert, sá ég ekki eftir öllum þeim klukkustundum sem ég hafði eytt í það. Fljótlega fann ég mér dásamlega konu, konu sem ég vil eyða lífinu með, konu sem er óendanlega stór happdrættisvinningur. Og ég gerðist þvílíkur lukkunnar pamfíll að eignast hana.

Náttúran rennur sitt skeið er ég geng áfram, og þegar ég rölti mína leið yfir ljósin á mótum Miklubrautar og Njarðargötu, sé ég Björn inni í spánnýja bílnum sínum. Sæluvíman sem ég er í þessa stundina veldur því að ég heilsa honum eins og ég hafi ekki séð hann í mörg ár, en því miður virðist mér sem einhver daufleiki kúrir yfir honum, því hann kinkar kollinum svo óljóslega að maður mætti halda að hann hefði orðið fyrir einhverju áfalli. Stuttu eftir að ég er kominn yfir og lít um öxl, sé ég starandi svip hans einblína á götuna, og ég held göngutúrnum áfram.