Klukkutími í sólarupprás. Ég er enn á röltinu. Verð bráðlega að drífa mig í skjól. Ég er aftur kominn fyrir utan húsið hennar Lilju. Ég get ekki horfst í augu við hana en ég verð að segja henni hvað gerðist, jafnvel þó hún muni ekki trúa mér. Ég svíf aftur að glugganum hennar. Bárður er þarna ennþá en þau eru bæði sofandi. Ég opna gluggann og fer inn. Lilja hefur aldrei verið fallegri en þegar hún sefur. Ég öfunda Bárð. Ég vildi að það væri ég sem lægi við hlið hennar. Ég halla mér að henni. Hálsinn hennar er svo berskjaldaður. Ég gæti fengið hana aftur og við gætum orðið saman að eilífu. Ég gæti fengið það sem ég saknaði mest og ég þyrfti aldrei að vera einn aftur. Hún gæti skilið hvað hefði gerst. Tennurnar snerta hálsinn. En það væri ekki það líf sem hún vildi. Ég hætti við. Ég gæti ekki gert henni þetta, sama hversu mikið ég vildi. Þau sofa ennþá. Ég sest á stólinn sem er í horninu og horfi á þau í nokkrar mínútur. Það er svo margt sem ég vildi að ég gæti sagt henni en hún mun aldrei heyra það. Aðeins hálftími eftir. Ég verð að komast héðan áður en sólin rís. Ég fer út um gluggann, svíf aftur á gangstéttina og held af stað.
Kjallarinn sem ég bý í er langt um verra en nokkur annar staður sem ég hef búið á. Þar niðri er myrkur allan sólarhringinn. Gólfið er skítugt, veggirnið eru gráir með ótal sprungum. Þarna eru gluggar en ég málaði yfir þá fyrir löngu. Á miðju gólfinu stendur gamall og úldinn sófi. Fyrir framan hann er ekkert nema lítið borð og mynd af okkur Lilju fyrir utan skólann. Bara það eitt að horfa á myndina fær mig næstum til að tárast. Fyrir aftan sófann er rúmið sem ég hvílist í. Plássið er ekki mikið en ég geri fátt annað en að sitja og horfa á myndina. Einn daginn mun ég hitta Geira aftur og það mun verða í síðasta skiptið. Ég ætla að sjá til þess.
Afmælisdaginn eyddi ég í að horfa á myndina af okkur Lilju. Það rignir ennþá. Það rigndi allan daginn. Fyrir utan Lilju er bara eitt sem ég get ekki hætt að hugsa um. Röddin í kirkjunni. Ég veit að hún sagði mér að ég ætti eftir að finna það sem ég leitaði að, en hver sagði þetta? Fyrir utan mig vissi ég ekki af neinum þarna inni. Gæti það hafa verið Guð að segja mér að drepa Geira? Líklega voru þetta bara ofheyrnir. Hvort sem Guð ætlar að hjálpa mér eða ekki þá ætla ég að finna Geira og kála honum. Ég held niður í miðbæ. Þar er nóg af fólki sem eru á leið á einhvern bar eða að koma af einum slíkum. Ég mæti einum sem er augljóslega blind fullur. Hann heldur á einni flösku og bíður mér. Ég afþakka og spyr hann hvort hann hafi séð einhverja sem virtust grunsamlegir. “Ertu lögga?” spyr hann. “Nei,” svara ég, “ég er bara að leita að nokkrum kunningjum.” “Fyrst svo er,” segir maðurinn, “þá voru nokkrir menn inni á barnum sem ég var á áðan. Þeir voru dálítið drungalegir.” “Var einn þeirra kallaður Geiri?” spyr ég í flýti. Maðurinn hugsar sig um en svarar síðan, “Já, það gæti verið.” “Hvar er þessi bar?” spyr ég aftur. Gæti verið að ég sé loksins kominn á sporið? Maðurinn hugsar sig aftur um, lengur en áðan. “Ég man það ekki,” segir hann loks. Ég blóta með sjálfum mér, þakka manninum fyrir hjálpina og held svo áfram í gegnum bæinn. Svo nálægt en svo langt frá. Ég fer inn í hvern barinn á fætur öðrum og athuga hvort ég kem auga á þá. Eftir nokkra bari hef ég ekki enn komið auga á neinn sem líkist þeim. Ég gefst upp og sest við einn barinn. Ég bið um bjór og barþjónninn biður mig um skilríki. “Ég er ekki með neitt skilríki,” segi ég, “en þú getur verið fullviss um að ég er tuttugu ára.” “Þú lýtur nú ekki út fyrir að vera tuttugu ára,” segir barþjónninn. Það þýðir ekki að deila við hann þannig að ég fer út. Það er rétt hjá honum, ég lýt ennþá út fyrir að vera sextán ára. Þó fjögur ár séu síðan þá hef ég ekki elst um einn dag. Ég held áfram göngu minni um bæinn þar til ég er aftur kominn að kirkjunni sem ég heyrði röddina í. Þó ég sé viss um að röddin hafi verið hugarburður einn ákveð ég samt að fara inn og biðja. Biðja Guð um að gefa mér styrk, ekki til að takast á við Geira, heldur til að segja Lilju hvað gerðist.