Ég var nú aðallega að leika mér og gantast en allir eru skrítnir á sinn einstaka hátt, ekki satt??? Hilja


*Afi minn og dauðinn*

Hann gekk upp og niður stigann, aftur og aftur. Ég vissi ekkert hvað að honum gekk en eins og vanalega þurfti ég að svala forvitni minni. Ég gekk upp að honum og bar upp spurningu mína.
„ O, það er nú ekkert merkilegt. Ég er að bíða, “ svaraði hann og hélt áfram að ganga. Ég stóðst samt ekki mátið og ákvað að halda áfram að spyrja.
„Eftir hverjum ertu að bíða?”
„O, ég er að bíða eftir dauðanum. Hann er víst væntanlegur.” Hann brosti kankanlega til mín og hélt áfram sínum gangi. Ég vissi ekkert hvað hann meinti með þessum orðum og hristi bara hausinn. Mamma hafði nú sagt mér að hann væri orðinn gamall og skrítinn og að ég ætti ekki að taka mark á honum. Það var núna fyrst sem ég trúði henni mömmu því að mér fannst hann vera kolruglaður þegar hann sagðist vera að bíða eftir dauðanum. Ég skokkaði því bara inn í eldhús og settist á einn stólinn við matarborðið. Pabbi sat og las bæjarblaðið en mamma var að steikja egg.
„Ég held að afi sé geðveikur,” hellti ég upp úr mér og pabbi leit á mig hissa.
„Hann er ekki geðveikur. Hann er bara gamall, greyið.” Pabbi klappaði mér á kollinum um leið og mamma smellti eggjunum fyrir framan mig. Ég tók mig alla til og fór að borða þau á meðan mamma flétti hárið mitt. Mamma var ósköp harðhennt og því veinaði ég þegar hún reyndi að greiða mér. Hún hristi bara hausinn og sagði mér að hætta þessu væli.
Um leið og hún hafði lokið sér af ákvað ég að skokka aftur fram og gæta að afa enda fannst mér hann alltaf nokkuð skemmtilegur og fyndinn maður. Hann var ekki lengur í stiganum heldur var hann inni í borðstofu. Þar sat hann og starði út í loftið. Svo hóf hann upp ógurleg öskur, rétt eins og hann væri að rífast við eitthvern. Mér fannst þetta voðalega fyndið og spurði: „Hvað ert þú að rífast, gamli maður?”
„O, ég er að þrætta við dauðann. Hann vill fá mig núna en ég er enn fullur af fjöri og vill ekkert fara.”
„En, afi, hvar er dauðinn?” spurði ég forvitin. Ég hélt að hann væri að leika sér að mér.
Afi benti á stólinn er var á móti honum og sagði: „Þarna situr hann, með hendur saman og fýlusvip. Aldrei vissi ég að dauðinn væri fýlupoki.” Ég hló og hló og ávítaði stólinn – eins og ég væri að skamma dauðann. „O, ekki myndi ég gera þetta, hróið mitt.”
„Afhverju ekki, afi?” Ég horfði á hann skilningssljó.
„O, hann er í vondu skapi,” sagði afi og kinkaði kolli í átt til stólsins á móti honum. Þegar hann hætti að kinka kollinum, datt hann af stólnum og þar með var hann allur.