–
Klukkan er orðin tíu, hann lítur aftur á hana til að vera viss. Jónsi vinur hans er á leiðinni svo hann sest aftur í sófann sinn og lítur í kringum sig. Herbergið lítur út eins og ruslahaugur. Skítug, milli skítug og hrein föt liggja í hrúgu hingað og þangað, aðallega þangað, skrifborðið fullt af bókum og tímaritum, mynd af brúðu úr levis auglýsingu á bláum veggnum. Hann lítur niður og ýtir nýlegu Hustler klámblaði með vinstri fætinum undir rúmið. Óþarfi að auglýsa rúnkmateríalið fyrir foreldrinu segir Halldór við sjálfan sig í huganum og fær sér sopa úr dós sem situr óstöðugt á hátalara út í horni.
Út úr hátalaranum dynur þéttur bassi sem frekar súrir tónar leika sér í kring um. Hann ruggar hausnum í takt við tónlistina og teygir sig í hulstrið utan um diskinn. Djöfull góð mússigg hugsar hann með sér, Chemical Brothers rokka.
Hvellt og óreglululegt bank heyrist til viðbótar við taktinn, Halldór lækkar í græjunum. Bankið stoppar og rödd móður hans heyrist fyrir utan dyrnar.
“Halldór? Jón vinur þinn er kominn.”
“Og hvað? Ætlarðu ekki að hleypa honum inn?” Svarar Halldór og sér strax eftir orðunum..
Ekkert svar til baka, hann hækkar í græjunum og takturinn lemur veggina.
Jónsi kemur inn nokkrum sekúndum síðar.
“Blessaður.” Segir Jónsi og lokar hurðinni.
“Gaktíbæinn.” Svarar Halldór voða hátíðlega.
Jónsi er nokkuð hávaxinn miðað við Halldór sjálfan sem er samt rúmlega 180cm og kannski hálfum sentimetra meira. Jónsi kannski tíu sentimetrum hærri. Andlitið orðið voða módellegt, há kinnbein, mjótt nef, brún augu.
Dökkt hárið orðið að svakalegum strípulögðum lubba svo Jónsi minnir Halldór eiginlega heilmikið á Liam Gallagher, hann er þó ekki jafn ljótur og sjúskaður og Oasis rokkari.
Halldór finnur bros læðast að munnvikunum, hann gjóar augunum á sjálfan sig í spegli við hurðina. Eitt sinn ljóst hár hans er í dag orðið skollitað, alveg eins og á mömmu, nema móðir hans litar sitt alltaf. Grannur líkaminn heldur sæmilega uppi ljósbrúnum bolnum og bláum skechers gallabuxum. Blá augu mæta sínum eigin í spegilmyndinni og grandskoða eigandann.
Kónganefið fékk hann í vöggugjöf frá föður sínum, kassalaga hökuna líka. Þessi augu er svo frá mömmu gömlu, hugsar hann með sér og brosir áfram..
Halldór fylgist með Jónsa stika yfir draslið á gólfinu, missa jafnvægið aðeins, áður en hann kemst í hinn enda herbergisins. Fokk, draslið hérna, heyrist lágt í honum. Hann er í hvíta bolnum sem Halldór lánaði honum fyrir mánuði og ætlar alltaf að skila og buxunum sem Jónsi sagðist í heila viku ætla að kaupa . Geðveikt flottar gallabuxur, dökkbláar, frekar loose og með bootcutsniði. Halldór fyllist smá öfund. Hann ætlaði að kaupa sér sjálfur en hætti við.
“Blessaður!” Segir Jónsi aftur og enn hærra
“Djöfuls drasl er hérna mar! Hvernig finnst þér diskurinn?”
“Geðveikur, mér finnst samt diskurinn á undan betri.” Svarar Halldór.
“Jaa, ók, fyrsti diskurinn er bestur.”
“Hvenær byrjar þetta partý?” Spyr Halldór um leið og Jónsi sest í sófann og breiðir úr sér.
“Ég, sko, mér var sagt að hún myndi byrja með þetta bara núna um tíuleytið. Við þurfum samt ekkert að mæta strax, að minnsta kosti nenni ég ekki að fara strax. Verum hérna og drekkum aðeins meira.”
Halldór kinkar kolli og réttir Jónsa dós sem hann opnar og þeir skála.
“Búinn að drekka mikið? Spyr Halldór.”
“Pabbi gaf mér Heineken, Ekkert smá kúl í skapinu núna, hann er á leiðinni á eitthvað sjóv með mömmu og sagði bara, jæja Jón hvað segirðu? viltu bjór með mér?”
Halldór brosir, pabbi hans var aldrei svona, jæja hann fór áður en Halldór fór að þroskast eitthvað. Ætli hann sé svona í dag? Afhverju hefur hann ekkert samband þá?
“Fínn kall hann pabbi sko.” Klárar Jónsi. Halldór samsinnir.
“Eitthvað heyrt í pabba þínum?” Heldur hann áfram.
“Nei, ekkert, skiptir engu hvor sem er.” Svarar Halldór hranalega og Jónsi sér svipinn á honum og virðist fatta strax.
Oh ég vissi þetta! Hugsar Halldór með sér.. Hversvegna þurfti hann að spurja?
“Verða margir þarna niðurfrá?” Spyr hann til að skipta strax um umræðuefni.
“Hellingur bara, held að mestallur bekkurinn kíki, eitthvað meira lið sem Tinna þekkir síðan og stelpur sem æfa með henni í handboltanum.”
“Eitthvað varið í handboltastelpurnar?” Heldur Halldór áfram.
“Veit það ekki, horfi ekki á konubolta, leiðinlegt mar. Hva, ætlarðu að pæla í þeim? Er Tinna ekki aðal?”
“Auðvitað mar, bara forvitinn, má ég það ekki? Tinna er flottust sko.”
Sannfærir Halldór Jónsa, og sjálfan sig. Hún er æðislega flott.
Þessi Tinna, er Tinna vinkona þeirra, eða vinkona bekksins. Hún er eiginlega ekki vinkona þeirra en það er bara meira kúl að hafa svona flotta stelpu sem vinkonu þannig séð. Þó Halldór væri meira til í að vera kærastinn. Hún á víst engan eins og er, og margir búnir að slúðra því að hún sé soldið skotin í honum.
Meira bank heyrist, og aftur á dyrnar.
“Hvað?” Öskrar Halldór í gegnum tónlistina á þann sem er fyrir utan, engin svarar. Hann stendur upp og gengur að hurðinni, opnar varlega. Móðir hans stendur fyrir utan og horfir upp til hans þungbrýn.
Hann óx upp yfir hana fyrir löngu en var samt alltaf jafn lítill innra með sér miðað við hana. Hann grunaði að hún vissi það þótt hann reyndi stundum að fela það með stælum eða kæruleysi. Skammarsvipur á henni, hvílíkur sko, hugsar Halldór með sér, andvarpar og spyr hvað hún vilji. Hreyfing kemst á þreytulegt andlitið og móðir hans krossleggur hendurnar um leið og hún gerir tilraun til að yfirgnæfa hávaðan.
“Nennirðu að lækka aðeins? Þessi tónlist er bara sami takturinn alltaf endalaust, ég fæ bráðum hausverk af þessu.”
“Jájá ok.” Svarar Halldór og bendir Jónsa á að lækka.
“Eruð þið að fara á lífið? Þú manst að passa þig og svoleiðis.”
“Já mamma þetta er bara partý.” Svarar Halldór og reynir að fela pirring í röddinni.
“Jájá, bara partý, ég hef nú heyrt um minna sem hefur endað í algerri vitleysu. Þú passar þig á að drekka ekki of mikið og ekkert fikt, skilurðu mig? Þú ert orðinn átján og nógu gamall til að hafa vit fyrir sjálfum þér.”
“Mamma? Ég er ekki það vitlaus, slappaðu af. Við Jónsi pössum upp á hvorn annan.”
Móður hans virðist ekkert létta við þetta svar.
“Jájá passið upp á hvorn annan, þú átt að passa upp á sjálfan þig líka, ekki bara láta einhvern annan gera það fyrir þig.”
“Mamma ég geri það líka, hva, heldurðu að ég fari að brjóta allt og æla út um allt í hvert skipti sem við förum í partý?” Pirringurinn í rödd hans er orðinn áberandi svo hún virðist taka eftir.
“Halldór Bragason, ekkert svona við mig! Þú veist alveg hvað ég meina. Þú ert alveg nógu þroskaður til þess að hugsa um sjálfan þig og þú veist það!.”
Halldór samþykkir, lofar í bak og fyrir, jájá ók, ég veit, og gerir sig tilbúinn sig tilbúinn til að loka hurðinni.
“Og hefði nú ekki verið sniðugt að laga til í þessu herbergi þínu einhverntíman. Hvað myndirðu gera ef þú kæmir með stelpu heim og hún sæi allt þetta drasl inni hjá þér? Þú gætir lagað til á smátíma ef þú bara nenntir því.”
Halldór andvarpar aftur. Hún er yndislegasta manneskja í heimi alla daga, einstæð móðir og hetja með tvo munna, skuldir og litla íbúð. Hvernig hún heldur þessu saman var alltaf hrein ráðgáta fyrir Halldóri. Hún er alltaf yndisleg, en núna bara pirrandi.
“Mamma? Ég laga til bráðum, slappaðu af.”
Hann lokar hurðinni á móður sína sem segir eitthvað stutt um ekkert fyllerí svo, . og hlammar sér á rúmið.Hún verður alltaf að eiga seinasta orðið. Og ef ekki, þá heldur hún áfram einhverntíman seinna með sama nöldur á fáránlegustu tímum. Mömmur.
Jónsi tekur upp svartan sokk og hendir honum framan í Halldór um leið og hann grettir sig.
“Ojjj, hvenær dó þessi sokkur mar!” Hvellur hlátur.
Halldór rífur sokkinn af sér og hendir til baka.
“Ojj, þanna fífl! Djís ógeðsleg lyktin af þessu! “
“Þínir sokkar mar, þín skítalykt!”
Jónsi hlær meira að Halldóri sem flissar um leið og hann reynir að ná sokknum og henda til baka í Jónsa..
“Mamma þín er ekkert að ljúga sko, kemur með dömu heim og fer fyrst að laga til svo þið komist fyrir á rúminu.”
Halldór fussar
“Ríðið svo á milli bjórdósa og skítafýlusokka.”
“Ég tek hana ekkert hingað heim maður, förum frekar til hennar og gerum það í litla mjúka sæta rúminu hennar.” Segir Halldór og glottir. Damn, þetta var ekki kúl svar.
“Ætlarðu að reyna við Tinnu í kvöld? Friðjón var eitthvað að nuddast við hana seinustu helgi, á busaballinu. Verður að drífa þig sko. Hún finnur bara einhvern annan ef þú hangsar svona.”
“Kommon, ég næ henni. Friðjón er bara hálfviti, hún hlýtur að sjá það. Hann er steindauður í hausnum.”
“Já, manst þegar hann var kosinn gjaldkeri í nemendaráði í fyrra. “ Segir Jónsi.
Halldór hlær.
“Já, vá. Allur salurinn fór eiginlega að hlæja þegar úrslitin komu. Enda ekkert skrítið, eða bara fyndið, að velja svona gaur til að sjá um peninga. Þetta gervitöffaradrasl kemur honum ekkert langt. “
Tíminn líður og þeir spjalla meira saman um partýið, vikuna og helvítis prófin auðvitað sem koma bráðum.
Jónsi klárar úr dósinni, ropar djúpt og teygir sig í aðra dós, réttir Halldóri eina og opnar svo eins varlega og hann getur. Bjórinn freyðir upp og Halldór sýpur snögglega af. Djöfull er þessi bjór rammur. Honum finnst bjór ekkert sérstakur, betri en vodki samt, og fínn til að detta í það. Sterkara vín kæmi svo bara þegar hann yrði léttur.
Tónlistin stöðvast. Jónsi fer að gramsa í stórum diskastandi við skrifborðið og dregur út hulstur úr endurunnum pappír.
“Kúl, áttu hann ennþá? Ég er búinn að týna mínum, ógeðslega fúll með það maður!”
Hann opnar varlega, tekur diskinn úr sjúskuðu hulstrinu og leggur enn varlegar í opin geislaspilarann eins og hann haldi á brothættum vasa. Hljóð eins og utan af umferðargötu heyrast úr græjunum og einhver náungi byrjar að syngja, dumda, dadam duddadda, daraddam með house takti undir.. Agalega flott rödd biður um “music maestro, please”, og takturinn hefst af alvöru.
Klukkan orðin ellefu. Halldór lítur út um gluggann. Neðar í hlíðinni sést stöðugur straumur bíla renna eftir Reykjanesbrautinni og til og frá Breiðholtinu.
Sólargeislar speglast í nokkrum bílrúðum og í húsunum í kring. Allir á leiðinni niðrí bæ, löngu komið grænt á tré og tún, krakkar að leika sér í garðinum fimm hæðum neðar. Sumarið er sko komið hugsar hann með sér, sól og og blankalogn úti. Partýið verður örugglega mest úti í garði hjá Tinnu.
Jónsi virðist kominn á fjórðu dós, Halldór er ekki alveg viss, að minnsta kosti er Jónsi að drekka hraðar en hann sjálfur.
“Eigum við ekki að kíkja á partýið?” Segir Halldór við Jónsa.
“Hvað er klukkan? “
“Rúmlega ellefu, eru ekki flestir mættir þangað núna?”
“Jú, örugglega, leimmér að klára þennan, svo förum við. “
Svarar Jónsi og fær sér sopa. Halldór gerir það sama og klárar flata restina úr dósinni. Oj hvað flatur bjór getur alltaf verið vondur, hugsar hann og grettir sig um leið og hann neyðir sig til að kyngja.
Sólin er loksins farin að gægjast inn í herbergið með eiturhvössum geislum sem skera sér leið í gegnum gluggatjöldin. Einn lítill geisli finnur sér leið að glerstyttu á skrifborðinu og endurkastast í milljón brot á veggnum á móti. Halldór pírir augun.
Hann fékk þessa þríhyrningslaga styttu frá pabba sínum, fyrir fjórum árum í fermingargjöf. Hann og mamma voru nýskilin og þeir feðgarnir enn í góðu sambandi og svoleiðis. Skilnaðurinn hafði verið frekar sár fyrir alla, alla nema mig, hugsar Halldór.
Hann hafði gengið í gegnum allt frekar dofinn tilfinningalega. Allt gerðist svo fljótt, svo stanslaust án þess að hann pældi mikið í hlutunum. Vaknaði, mætti í skólann, kom heim og fékk að borða, horfði á sjónvarpið og kíkti á vinina. Allan tíman eins og ekkert hefði gerst. Tilfinningarnar risu stundum agnarögn upp úr feninu þegar hann kom að móður sinni tárvotri, heyrði lágan ekka í næsta herbergi, eða fékk nærgætnar spurningar frá ættingjum eða kennurum.
Síðan var það miklu seinna sem hann fann hvernig tíminn hafði rífið allt upp í lífi hans án þess að hann hefði tekið eftir því, og dreift rótunum eins og brenndu rusli. Sem hann var enn í dag að safna saman, raða saman aftur.
Síðan voru liðin fjögur ár og hann eiginlega ekkert heyrt í föður sínum í nokkur þeirra, og í raun ekkert viljað sjá hann. Samt virtist alltaf eitthvað í afskiptu horni í hausnum á honum endurtakandi: Halldór hafðu samband við hann, gerðu eitthvað! Kannski vorkenndi hann sjálfum sér svona, og pabba, eða hvað.
Hann var aldrei sáttur við það hvernig faðir hans fór, eða hvernig hann fór með mömmu. Hvernig gat hann gert okkur öllum þetta? Hvernig gat hann gert mér þetta?!?
Halldór lítur upp við það að Jónsi potar í hnéð á honum.
“Ók, komum, ég nenni ekki að hanga hérna.” Segir hann snöggt.
“Loksins maður, og hey, klára úr dósinni.” Segir Halldór og bendir á hendina á beyglda dós.
“Skelltu þessu í þig.” heldur hann áfram.
Jónsi tekur upp dósina, og leggur hana aftur niður.
“Þetta er orðið flatt og ógeðslegt, drekkt þú þetta.”
Halldór tekur dósina, hellir römmum leyfunum með rykk upp í sig og reynir að fela ósjálfráða grettuna.
“Oj þú ert bytta mar!.” Segir Jónsi brosandi og ýtir Halldóri.
“Oh, þegiðu þarna, búinn að drekka miklu meira en ég.” . Svarar Halldór hneykslaður.
Hann gramsar í draslinu á skrifborðinu þar til hann finnur húslykla og lítinn pakka af durex smokkum.
“Djís, ég er asni, fæ ég einn hjá þér?” Segir Jónsi við hann með vonarsvip.
Halldór opnar pakkan og réttir honum smokk.
“Þú þarft ekkert svona, færð ekkert að ríða.”
Jónsi rífur af honum smokkinn og gefur honum fokkmerki
“Meiri séns en þú þarna lúði, ég er flottastur, ekki þú, Brad Pitt er bara ljót mella miðað við mig.”
Þeir hlæja báðir eins og fífl á leið úr herberginu og inn í eldhús. Móðir Halldórs situr við eldhúsborðið eins og hlýlegur engill í hvítri prjónapeysu og íþróttabuxum, og blaðar hægt í gegnum eintak af Mannlífi. Hálffullt bjórglas stendur voða lítið í sér við stóra og volduga leirskál fulla af gerviávöxtum. Tvö lítil borðljós sitthvoru megin í gulmáluðu eldhúsinu rétt lýsa upp umhverfið og rauðbrúnt hárið á móður hans svo það virðist lýsa af sjálfu sér.Út um gluggann Stendur gullslegin Esjan yfir borginni.
Hún passar svo mikið inní þetta andrúmsloft akkúrat núna hugsar Halldór með sér er hann virðir móður sína fyrir sér, rómantískt. Hann rennir þessu orði aftur yfir hugann, kjánalegt orð. En mömmur fíla rómantík, flestar konur örugglega. Fílar Tinna rómó hluti? Hann hristir hausinn.
Í sömur andrá valhoppar Lísa systir hans framhjá eldhúsinu, raulandi eitthvað Britney Spears lag. Hún stoppar augnablik og segir í hæðnislegum uppgerðargellutón við Halldór.
“Úúú ertu að fara í partý hjá Tinnuuu?”
“Bíttu í þig” Svarar hann stuttaralega. Móðir hans lítur upp.
“Halldór ekki segja svona við systur þína.” Segir hún um leið og hann ullar á systur sína.
Nokkrir öfgafullir kossar frá henni út í loftið áður en hún hverfur inn í herbergi og hækkar í rödd Britney syngjandi oops, I did it again. Úff, óþolandi aldur, nsync, kjút bangsar, glimmer og bleikt, og meira bleikt. Næst koma gelgjustælarnir hugsar hann með sér og grettir sig.
“Ég er farinn.”
Móðir hans lítur upp frá lestrinum.
“Jæja, farðu vel með þig, og engin læti.” Svarar hún, brosið og umhyggjan í rödd hennar bræðir strax fýluna sem Halldór hefur út í hana síðan áðan. Hann brosir sínu blíðasta til baka.
“Ég passa mig.” Svarar hann lágt og fer.
“Ég er með lykla.” Klárar hann á leið úr eldhúsinu til að svara ókominni áminningu frá móður hans.
Þeir labba rólega, spjallandi saman niður hlíðina í glampandi kvöldsólinni sem teygir anga sína yfir öll hús og garða eins og appelsínugult risatjald. Himininn orðinn eldrauður og varla ský á himni.
Tinna býr neðar í hverfinu, í risastóru tveggja hæða húsi með enn stærri garði, tveir dýrir bílar fyrir utan, nuddpottur og sólbekkur, flygill… . Pabbi hennar er víst einhverskonar viðskiptaplebbalögfræðingur, voðalegur plast-uppi, það þolir engin svoleiðis fólk, nema þegar það fær einhvern pening eða athygli frá því.
Halldór glottir. Hvernig á hann þá að koma fram við pabba hennar ef hann nær í Tinnu. Ef, shit hvað ég verð að gera allt rétt í kvöld segir hann við sjálfan sig.
“Gera hvað?” spyr Jónsi. Halldór hrekkur við.
“Ekkert, bara tala við sjálfan mig.” Svarar hann vandræðalega.
“Ætlarðu að kaupa þér bíl í sumar?” Spyr Halldór.
“Nei, hef ekkert efni á því. Mig langar samt geðveikt í corolluna sem Gummi er að selja.”
“Þessi rauða?”
“Já, hann er reyndar ekkert búinn að finna verð á hana en hún verður ekkert svo dýr held ég. Fínar græjur í honum, Pioneer, álfelgur og vetrardekk.”
“En er hann ekki soldið mikið keyrður?” Spyr Halldór áfram.
“Júú, soldið, en samt, þetta eru endingargóðir bílar. Frændi minn átti Toyotu í mörg ár. Kittið og spoilerinn á honum er bara svo flott. Oh, mig langar bara að grenja þegar ég sé hann!”
Halldór hlær og ýtur við Jónsa.
“Fáðu þér bimma mar, miklu betri bílar en Toyoturusl!.”
“Kræst, þú og þínir bimmar, bilar meira en wenjulega.” Svarar Jónsi hneykslaður, og þeir rífast meira um bíla og felgur á leiðini niður hlíðina.
Húsið stóra nálgast með hverju skrefi. Það er við endann á löngum botnalanga og lítur út eins og gatan hafi verið gerð bara fyrir húsið, eins og garður fyrir framan höll. Jæja kannski var það ekki svo svakalegt. En nógu fokking stórt samt.
Tvær stelpur með aflitað hár sitja á tröppunum fyrir framan sem Halldór kannast ekkert við, báðar fáránlega foxý og flott klæddar, í beigebrúnum mjaðmabuxum úr soldið gljáandi efni, önnur í hvítum topp, agalega efnislitlum, hin í dökkbrúnni peysu með böndum utan um. örugglega versló. Jónsi hvíslar kommenti um það sama að Halldóri.
Þeir brosa báðir að stelpunum og bjóða kvöldið, stelpurnar líta stutt frá samræðunum, brosa daufu og gervilegu kurteisibrosi til baka, og halda áfram að blaðra.
Þeir skiptast á augnaráði. Það rignir sko vel í nefið á þessum. Halldór hagræðir buxunum án þess að þær sjái til, æðislegur tímapunktur fyrir standpínu hugsar Halldór. Hann lítur á Jónsa sem virðist ekki hafa tekið eftir neinu nema eigin standpínu.
Jónsi gengur út eftir svölunum, gægist inn um stofugluggann og vinkar einhverjum sem er fyrir innan.
“Biggi mættur mar! Djöfull er hann fullur!” Gellur í honum um leið og hann kemur til baka.
Innan frá heyrast þéttar bassadrunur sem magnast upp eftir því sem þeir koma nær og breytast í sykursæta effem house tónlist um leið og Halldór opnar volduga útidyrahurðina og þeir ganga inn í marglita þvögu fólks.
“Hæ”
segir mjúklegt og lág rödd fyrir aftan Halldór, hann snýr sér við. Stuttvaxin og fínleg stelpa með axlarsítt ljóst hár sett með spennum horfir brosandi á hann. Hann heilsar brosandi til baka. Sif, stelpa sem er búin að vera skotin í honum síðan í fyrstu bekkjunum í grunnskóla. Þau voru saman í sjötta sjöunda og áttunda bekk en ekkert meira. Krakkaskot, eða þannig skilgreindi Halldór málið upp frá því, því þau pössuðu varla saman eftir þann tíma, og urðu svo lítið meira en bara fínir vinir (fyrir utan eitt skipti eftir skólaball í tíunda bekk) það sem eftir var af grunnskóla og upp í framhaldsskóla.
Hún getur samt alltaf verið jafnmikið krútt, og akkúrat núna. Himinblá augu, mjótt og svolítið uppbrett nef, lítill munnur sem breytist í þetta æðislega kjút bros, litlir spékoppar til að fylgja með, klædd í bláar galla kvartbuxur, bleikum bol og hvítum strigaskóm. Hann gjórir augunum snögglega á letrið á bolnum, Hvítir stafir með einföldu orði, “Animal” Halldór glottir innra með sér. Ef Sif væri dýr myndi hún örugglega mjálma voða fallega, eða mala.
“Búin að vera hérna lengi?”
Spyr hann, finnur ekkert gáfulegra til að segja, lítur aftur á bolinn án þess að pæla í því hvort hún taki eftir því.
“Smástund, kom með Helgu. Heyrðu, pældu í því, Biggi kom hálfan kassa af bjór í kvöld og er að verða búin með allt. Skil ekki svona gaura að mæta bara til að þamba og drepast svo.” Svarar Sif með augljóslega vel hneyksluð.
Halldór samsinnir, lítur í kringum sig rétt áður en hann horfir aftur í himinbláu augun. Hún gæti alveg verið bakköp, ef Tinna gæfi sig ekki, eða annars, nei, það er ljótt að hugsa svona.
“Sætur bolur” Dettur út úr honum, kannski eins gott, hún gæti farið að halda að hann væri að glápa á brjóstin á henni. Aftur kjút brosið.
“Já finnst þér ekki, var að kaupa ann í Kiss” Svarar hún og brosir áfram sínu sætasta. Hann brosir innilega og ósjálfrátt á móti. Hvert ætli Jónsi hafi farið?
“Hvað er frétta af pabba þínum?” Spyr sæta röddin. Halldór horfir hljóður á hana, heldur brosinu en bölvar orðum hennar til heitasta helvítis innra með sér. Hún og pabbi smullu svo vel saman sem tengdapabbi og dóttir. Voða sæt saman sagði pabbi alltaf, og mamma líka, eða bar allir. Faðir hans sparaði aldrei hrósið í þau fáu skipti sem hann kíkti í heimsókn og spjallaði heilmikið við hana. Ef einhver sá eftir henni þegar þau Halldór hættu saman þá var það faðir hans. Hún bara skildi aldrei erfiðleikana á milli hans og pabba, vildi náttúrulega öllum vel, voða sæt og allt það, en reyndi að setja sykurhúð á allt. Það gekk ekki, bara gekk ekki.
“Hérna ég ætla að skoða inni, sjá hvort það sé varið í þetta partý.” Segir Halldór eins kasúal og gaur sem hefur eitthvað betra að gera og rekur augun í glossaðar varirnar. Fantasía um heitan og ástríðufullan koss flakkar um huga hans. Hún er með flottan líkama, það er ekki vandamálið. Hún er bara svo saklaus eitthvað, næstum barnaleg stundum.
“Ok, sjáumst á eftir” heyrist í mjúkri röddinni að baki honum.
Hann heilsar bekkjarfélaga, svo öðrum og smeygir sér framhjá feitri stelpu inní eldhús.
Dauf hasslykt blönduð vodka og bjór fyllir vit hans. þrjár stelpur úr bekknum og mjóslegin strákur sem Halldór kannast ekkert við; sitja við eldhúsborðið, ein stelpnanna potar konusígarettu ofan í glæran gleröskubakka og hlær, eins og jarmandi rolla, næstum því og Halldór reynir að fela bros sem læðist fram þó hún sé ekkert að horfa á hann.
Önnur borð í eldhúsinu virðast hálfþakin hálftómum glerflöskum, opnum dósum og gosi af öllum tegundum. Hann kíkir inní ískáp, lítur snöggt í kringum sig og tekur óopnaða litla dós af Heineken eins og hann ætti hana, lokar ísskápshurðinni og gengur aftur fram á gang og inn í stofu. Vonandi á Tinna þetta ekki, hugsar hann með sér, og kemur auga hana á leið niður kjallarastigann. Halldór opnar munninn til að kalla en hættir við. Má ekki vera eins og hann sé að leita að henni.
Hann hikar og lítur að sófanum. Biggi, sjúskarinn í bekknum, frekar þéttvaxinn með hörkulegt andlit situr hreyfingalaus í miðjunni á dökkbrúnum leðurhornsófa við stóran stofuglugga. Vel krumpuð bjórdolla er klemmd milli gildra fingranna eins og Biggi hafi reynt að kreista safan úr álinu.
Við annan endann situr smávaxinn gaur með derhúfu og flettir í gegnum geisladiska í litlu ferðageymsluboxi, Gummi á Corollunni. Halldór vinkar honum með bjórnum sínum og kallar svo á Bigga sem er lifandi eftir allt saman því hann lítur hægt upp, brosir skökku brosi og réttir upp kreista dósina til að skála við loftið á milli hans og Halldórs. Hálfopin og glær augu líta stutt til baka áður en þau mæla aftur gólfið. Ótrúlegur, segir Halldór við sjálfan sig og hristir hausinn.
Píanóið er farið, hugsar hann með sér er hann stikar hægt í gegnum risastóra stofuna og að ljósbrúnu sófasetti. Reykjarský virðist loða við ljósakrónuna fyrir ofan sem varpar daufu ljósi á hópinn sem situr í hverri skoru á sófunum. Halldór brosir kurteislega til stelpu sem minnir hvílíkt mikið á systur hans hvað útlit varðar, allt of mikið, fín stelpa, bara samt alveg nóg að hafa orginal pestina heima.
Systir hans virtist ekkert hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá skilnaðinum. Kannski var hún of ung til að fatta svona hluti, bara allt í einu var pabbi farinn og býr núna einhverstaðar annarstaðar. Hún þekkir ekki öðruvísi heim en þennan. Halldór ranghvolfir augunum, ekki tíminn til að hugsa um svona hluti, það er djamm, partý í gangi! Hann andar áfergjulega að sér, djöfull langar hann í hass.
Kjallarinn virðist enn fjölmennari en efri hæðin. Þrjár stelpur sitja á gólfinu, augljóslega í einhverju trúnó dóti því þær horfa illilega á strák sem reynir að bjóða þeim bjór. Frá herbergi innst í ganginum heyrast hávær hlátrasköll sem líða eins og hassreykurinn meðfram ljósgrænmáluðum veggjunum. Halldór heilsar boðflennustráknum með bjórinn og reynir að finna sér leið inn í þetta sama herbergi.
Hann lítur á klukkuna og sér grannan sekúnduvísi haltra í áttina að XII. Hinir vísarnir segja kortér yfir fjögur. Hann nuddar glerið framan á klukkuni með erminni. Djöfull er gott veður úti hugsar hann með sér og lítur til himins. Þau fáu ský fyrir ofan sem virðast dirfast að flækjast um himininn eins og feimnar mannverur á tómu dansgólfi hafa roðnar aðeins. Það er að koma dagur bráðum. Á milli húsa heyrist í bílaflota rúnt-rúnkaranna og mannfjöldans sem er að flæða út af stöðunum.
Halldór sest niður, hlustar með öðru eyranu og horfir tómlega á stórt tré sem gnæfir yfir húsunum í kring.
Hann hafði leitað af Jónsa í smá tíma, góðan tíma. Kvöldið fór hálft í það eftir að þeir komu niðrí bæ. Þessir helvítis dyraverðir á Thomsen vildu ekki leyfa Jónsa inn en Halldór stökk samt aðeins inn í nokkrar mínútur, bara til að kíkja á liðið, heyra hvernig Grétar stóð sig í búrinu. Jónsi ætlaði að bíða, eða kíkja á glaumbar til að sníkja bjór frá bróður sínum sem er barþjónn þar. Svo skildust leiðir og Halldór fór inn.
Hann hafði aðallega harkað sér leið inn á staðinn til að rekast á Tinnu. Hún ætlaði þangað með vinkonum sínum, bara til að prófa. Þær höfðu aldrei kíkt á Thomsen og voru eiginlega ekkert fyrir svona staði, meira svona Gauk á stöng týpur, sveitaböll og svoleiðis, Írasskinn….
Tinna var samt meira opin fyrir danstónlist en hinar og dró þær með sér á ókannaðar slóðir.
Eða þannig var planið.
Eftir endalausa hringi um báðar hæðir staðarins, inn að chill horninu og inn á klósettin var málið ekki svo einfalt. Hann fann þær ekki. Kvöldið var farið að súrna hratt, tónlistin var orðin of há og pirrandi. Hassmettað loftið var orðið ógeðslegt og Halldór hruninn í fúlt skap. Hann leit nokkrum sinnum á klukkuna á meðan leitinni stóð, sá að hann hafði verið þarna inni í tæpan hálftíma en hélt áfram að ráfa um staðinn.
Að lokum nennti hann þessu ekki.
Eitt stutt stopp í kjallaranum til að ná smá fíling frá lagi með Bangalter og út. Afþakkaði kóla frá gaur sem hann þekkti smávegis og labbaði út.
Ferskt loftið sem tók við honum hressti aðeins við skapið en ekki nógu mikið. Hann rölti hægt eftir hafnarstrætinu og inn á Glaumbar. Þar var enginn Jónsi, örugglega farinn á annan stað. Hann og Jónsi eiga alltaf auðvelt með að komast inn á Astró en það er bara svo mistækur staður. Thomsen er það eina sem virkar, dópklúbbur eða ekki, fokk það, tónlistin er best þarna.
Hann fór inn á Astró, og hitti Sif. Týpiskt með stelpur, þær komast inn á hvaða stað sem er með sexý brosi og í æsandi fötum á meðan strákar þurfa að vera nógu fullorðinslegir og drullurólegir
(Vá hvað hann fékk mikið af leiðbeiningum fyrst þegar hann fór inn á svona stað með Steina frænda sínum, ekki sýna að þú sért stressaður, bara vera kúl, þú átt að fara inn, ekkert sjálfsagðara,,, greiddu hárið svona, ekki spurja um neitt, ekki horfa of mikið á dyraverðina. Ef þú ert spurður um skilríki þá sýnirðu þau voða kasúal en hratt. Þetta feik skírteini er ekkert svo vel gert hjá þér sko, áttu engan betri bol? Hérna ég lána þér….) Þeir komust auðvitað inn.
Sif var með handboltavinkonu sem varð víst full af tveimur bjórum, pff þetta íþróttafólk. Hann langaði að hangsa lengur inni með henni en einhvernvegin var það ekki rétt. Ef hann átti að gera hlutina rétt var Tinna sú eina.
“Hæ, varstu að koma inn?” spurði Sif
“Ha nei, búinn að vera hérna smátíma” laug Halldór. Sif hallaði undir flatt.
“Eþþa? Ég hef ekkert tekið eftir þér.”
“Ha, sko ég komst inn í VIP” laug hann aftur. Andlit hennar lifnaði allt við.
“Nei, hvernig komstu þangað? Sástu eitthvað frægt lið?”
spurði hún með rödd sem var þegar sprungin af forvitni, eða orðin ryðguð af kellingabjór og reyk.
Kræst, hún var byrjuð að reykja. Halldór reykti sjálfur svona spari, þegar hann datt í það því það var bara snilld. Að sjúga nokkrar til að láta sér líða vel í fylleríinu, geðveikt. En það var ekki kúl að sjá sætar stelpur reykja, sérstaklega ekki dúllur eins og Sif.
“Fjölnir var að sleikja þarna einhverja stelpu sem var í Playboy blaðinu” Halldór fletti nokkrum síðum af blaðinu í huganum til að sjá eitthvað gott nafn.
“Var það Arna?” Hver var það?
Hann man ekki rassgat hvað þessar stelpur hétu. Ef nöfnin hefðu verið krotuð á brjóstin á þeim með tússpenna þá hefði hann kannski munað eftir nafni.
“Eh já, þau voru næstum því komin á bak við sófa þegar einhver úr staffinu kom. Svo hellti einhver útlendingur kampavíni yfir brjóstin á stelpu úr MH.” Sif komin með slúðrið fyrir vikuna, fokk Séð og Heyrt. Slúður vikunnar, og vinur minn Halldór er með það.
Hann kom sér hjá því að segja hvað MH stelpan hét, sagðist ekki muna það, og kvaddi Sif í smástund til að leita áfram. Eftir drykklanga stundu og einn kaldan úr krana hittust þau Sif út í sófahorni og hún spurði meira út í VIP herbergið. Halldór laug einhverju meiru og kvaddi hana aftur. Greddan lifnaði stutt en öflug við, djöfull langaði hann allt í einu að ríða henni inn á klósetti eða einhverjum dimmum stað.
Jónsi var ekki þarna inni, ekki heldur Tinna, ekki það að hann hafi búist við henni þarna inni en samt, aldrei að segja aldrei. Plötusnúðurinn var einhver hommi frá FM, kallaður eftir viðbjóðslegum ávaxtadrykk í fernum. Spilaðu eitthvað almennilegt fíbblið þitt! Langaði Halldór að öskra ofan í hálsinn á þessum drasl snúð og skíta þangað í leiðinni, en hann fór frekar út, heilsaði einum dyraverðinum sem þekkti Steina nógu vel til að Halldór fengi að komast inn í fyrsta lagi, og gekk út á tómlegt Austurstrætið.
Halldór brosir framan í tréð. Steini er það næsta sem hann hefur sem eldri bróður. Þeir hafa lítið hist undanfarið enda býr Steini núna á Egilsstöðum. Svefnsófi, matur og djamm með uppáhaldsfrændanum býðst samt um leið og Halldór kíkir þangað. Kannski einhverntíman í sumar.
Frekar drukkið par ráfar upp Túngötuna, gaurinn heldur þétt um grannar mjaðmir og rennir blindum fingrum undir brúna blússuna svo sléttur og sólbaðstofubrúnn magi með hring í naflanum kemur í ljós. Gellan stoppar, snýr hausnum undir andlit gaursins svo ljóst slegið hárið sveiflast eins og gluggatjöld sem dragast fyrir brjóstin og drukknasti sleikur sem Halldór hefur séð hefst með bjórblönduðu slefi og slurphljóðum sem heyrast dauft í steríó frá þeim báðum.
Allt í einu virðist bærinn þagna bara í tillitsemi við þetta atriði sem rúllast áfram með rúllandi tungum. Þau standa nógu nálægt Halldóri til að sjá hann sitjandi undir tré í frosinni störu og næstum því með hökuna niður á stétt en Halldór horfir áfram.
Djöfull vildi hann að þetta væri hann og Tinna. Hann lenti einu sinni í sleik við hana en voða stutt. Hann man ennþá hvað hún bragðaðist vel og lyktin maður, ó man!
Bröndóttur köttur strýkur sér við læri Halldórs svo honum krossbregður. Hann lítur snöggt á köttinn, og svo á parið sem virðist ekki hafa tekið eftir honum ennþá. Kötturinn nuddar sér næstum kynferðislega við fætur Halldór og horfir svo í áttina að parina, þefar upp í loftið og læðist hægt nær.
Hvað ætli kisan sé að hugsa? Djís, þetta fólk, í staðinn fyrir að þefa kurteisislega af rassgötum eins og venjuleg dýr þá sleikir það innyflin innan í hvoru öðru.
Halldór lokar munninum og horfir áfram, djöfull er hann þokkaleugr perri mar að glápa svona á þetta fólk. Ef gaurinn sæi Halldór myndi hann örugglega buffa mig í götuna. Eða rífa kjaft og strunsa burt með dömuna. Hún er sexý. Klædd í þröngar hvítar buxur og háhæluð stígvél. Ef þessi fótleggir væru ekki sléttrakaðir þá myndu hárin sjást í gegnum þesssar níðþröngu buxur ásamt fæðingarblettunum, hmm, hún hefur örugglega látið fjarlægja þá líka.
Halldór finnur standpínu vaxa hratt og fylla í allt mögulegt pláss í hann eigin buxum. Æsandi hugsun um hann og Tinnu í þéttum faðmlögum og veltingi um stórt rúm velta sér inní huga hans og hann staldrar augnablik við áður en hann ákveður að hugsunin er of dónaleg. Af hverju veit hann ekki alveg.
Parið leggur af stað, hún hrasar þegar þau fara upp á gangstétt en hetjan hennar nær að halda henni uppi. Halldór horfir á eftir þeim ráfa eins og hægfara kúlur í spilakassa eftir stéttinni, upp brekkuna og úr augsýn.
Hann lítur á klukkuna, horfir á húsin fyrir neðan, geispar stutt og horfir svo aftur á klukkuna til að sjá hvað hún er margt, skammtímaminnið sko, það fer stundum í köku.
Nokkrar sekúndur virðast líða áður en Halldór lítur aftur á klukkuna. Vá djöfull ertu orðinn steiktur maður! Segir hann við sjálfar í huganum.
Hann var ekkert svo langt frá því að koksa þarna í partíinu. Tveggja lítra flaska hálffull af reyk, allt tilbúið en hann þorði ekki að ýta henni nema hálfa leið niður, hálfa leið, en hann tók allan toppinn. Friðjón, helvítis hasshausinn ýtti draslinu alla leið um leið og Halldór tók upp í sig. Heimurinn datt á slow motion takkann og nokkrir heftir hóstar fylltu hausinn á Halldóri sem hlammaði sér í næsta sófa og reif kjaft við loftið með orðum sem voru ætluð Friðjóni.
Fýlan entist ekki nema í nokkrar sekúndur áður en Halldór fann líkamann leggjast ofan í sófasettið í fullkomri afslöppun sem teygði vel á tímanum. Hlátrasköll í kringum hann fengu hann til horfa hægt upp í loft og á plakat af hesti sem virtist lifna við og var á leið út úr pappírnum.
“Váá”
datt letilega úr honum eftir nokkur reykfyllt augnablik. Hann gat svarið fyrir það að truntan leit út eins og Davíð frændi, og þetta var Dabbi sjálfur endurborinn (þó hann sé ennþá lifandi) .
“Heyy Dabbi hehehehehee”
Strákur sem Halldór kannaðist ekkert við var kominn hálfur upp á svart marmaborðið sem stóð í miðju herberginu og horfði stíft á borðplötuna. Eftir langa þögn snéri hann sér að Halldóri.
“Ertu búinn að sjá þetta? Þetta er geðveikt maður, það er drulluflott gella í munstrinu, sérðana?”
Halldór stóð varlega upp og horfði svo í heila eilífð á síðhærða nakta konu flæða á milli fjólublárra og svartra línana í marmaranum. Friðjón bættist í hópinn og sagðist ekki sjá neitt. Hún var næstum því lifandi, hann gat svarið það. Var þetta borð ekki úr plasti? Lifandi plasti þá?
Halldór horfir á milli línana sem hlykkjast á milli gangstéttarhellnanna eftir því sem hann gengur ofar brekkuna. Hann lítur upp og finnst hann hafi kannski ráfað af leið, bæði í huganum og með fótunum.
Það er partý hjá strák sem hann þekkir og býr hérna rétt hjá. Hann man ekki hvernig hann komst að því en Tinna verður víst örugglega þar, kannski er það kjaftæði, hún er örugglega farin heim.
Mynd af henni og Friðjóni birtist í hugskoti hans og hann kreppir hnefana. Ef Friðjón stelur henni þá er ekkert fokking réttlæti til. Hann reynir að tæma þessar hugsanir úr hausnum á sér og hristir hann, eins og til að hjálpa til, vinda skítugu hugsanirnar.
Friðjón er fjórum árum eldri en hún og er næstum því fullkomið tsjokko með bíl í stíl, súkkulaðiskel utan um ekki neitt. En stelpur elska súkkulaði.
“Fokk, hvað á ég að gera, hvernig keppir maður við svona gaura?” segir hann við sjálfan sig og horfir til himins.
Flatur kirkjuturn grípur athygli hans svo hann stoppar út á miðri götu. Þessi kirkja er snilld, alltof furðuleg eiginlega til að passa hérna á Íslandi, of miðaldaleg miðað við artífartí nýtískukirkjur í dag. Það er eins og arkítektar fái ótakmarkar skotleyfi frá guði á hefðbundin form þegar þeir hanna kirkjur.
Halldór rennir augunum niður eftir veggjunum, að dyrunum og staldrar þar við, hálfpartin til að bíða eftir riddara á svörtum hesti, með stórt sverð og skjöld, kannski ekki. Þeir myndu örugglega ekki hleypa hestum inn, þeir myndu kannski skíta í skírnarfontinn. Hann gengur áfram nokkra metra þar til hann stendur mitt á milli Landakotskirkju og Landakotsspítala, á Landakotstúni,
Halldór flissar lágt. Hérr fæðast menn, og deyja svo þarrna drrrottni sínumm. Hann hlær upphátt. Fokk, er ég ennþá skakkur án þessa að fatta það? Vá hvað þú ert klikkaður sannfærir hann sjálfan sig í huganum.
Allt í einu sér hann eitthvað hreyfast útundan sér og kippist við. Í glugga á þriðju hæð á spítalanum hreyfast hvít gluggatjöld og eitthvað sem Halldór getur svarið að sé andlit birtist örstutt áður en það hverfur í mykrið á bak við. Hann pírir augun, næstum því von um sjá í gegnum gluggatjöldin, ekkert. Skyndilega læðist óttatilfinning að honum. Það er einhver að stara á hann til baka þarna á bak við þessi tjöld.
Hann leggur af stað þegar hugsun skýst upp í huga hans, minning. Þessi stofa, hún er við hliðina á þeirri sem hann lá í handleggsbrotinn þegar hann var 11 ára, og með brákað rifbein og heilhristing. Vá, hann hafði ekki hugsað um þetta minningu lengi lengi!
Þetta var seint um sumar. Hann og Guðni, strákur úr næsta húsi og besti vinur Halldórs fram að sjöunda bekk (hann flutti þá til Akureyrar með fjölskyldunni sinni) voru að leika sér að skjóta hvor öðrum úr rólu. Annar sat á dekkinu á meðan hinn stóð og rólaði eins og hann gat þangað til sá sitjandi stökk af á réttum tíma. Geðveikt gaman og maður gat flogið hrikalega langt. Þeir notuðu alltaf rólurnar við leikskóla í hverfinu, stórar með langar keðjur, og mjúkan grasblett fyrir framan.
Hann hafði örugglega aldrei flogið lengra þennan dag, og lent eins illa. Hægri hendin lendi undir líkamanum þegar hann lenti. Hann hafði alltaf ímyndað sér að bein brotnuðu með háu braki en það heyrðist ekkert, bara snöggur kippur einhverstaðar í hendinni og harkalegt högg sem tók allan vind úr honum svo hann svimaði og fékk blóðbragð í munninn.
Heimurinn virtist hringsnúast augnablik áður en skýjaður himininn birtist fyrir ofan hann. Og Guðni sem stóð nú yfir honum
“Vááá, þú flaugst geeðveikt langt mar! Meiddirðu þig ekki?!”
Halldór ætlaði að svara og hreyfa sig þegar hvass stingur læsti sig í síðuna og handlegginn. Veröldin missti skyndilega allan lit og andlit virtist dofna eins og hann sæist í gegnum sjónvarpssnjó. Þungur æðasláttur sló þétt í haus hans með sársaukafullum bítandi bylgjum sem fengu tárin til að flæða, og hann öskraði eins og hátt og hann gat svo bergmálaði í öllum húsum í kring.
Hann man ekki meira fyrr en þegar hann lá í rúmi inna spítalanum. Mamma og pabbi komu inn, pabbi var enn í múraragallanum og hélt á litlum poka.
Halldór fékk koss og varlegt faðmlag frá móður sinni. Pabbi hans hélt þétt í hönd hans og sagði eitthvað sem Halldór gat ómögulega munað.
Svipurinn á honum var þó enn ljóslifandi, og augu sem geisluðu frá sér hlýju sem aðeins ætluð litla pabbastráknum.
“Þú ert nú meiri kjáninn Hallipalli”
Það var það sem pabbi hans sagði. Hann kallaði Halldór alltaf hallapalla þegar hann var lítill, afhverju vissi hann aldrei. Þetta var sniðugt nafn, það var nóg, og bara á milli hans og pabba sem sagði svo eitthvað meira og faðmaði Halldór þétt. Hann man það vel að hann fór að gráta þá. Ekki af sársauka heldur af gleði.
Þau voru þrjú þarna, ein í heiminum og gátu fyllt hann af ást á hvoru öðru, hann, mamma og pabbi. Hann hafði aldrei nokkurn tíman fundið fyrir eins mikilli væntumþykju frá þeim báðu og þennan dag. Allt varð svo gott þetta augnablik. Þessi skilyrðislausa ást sem umvafði lítinn strák með lítið hjarta eins og dúnsæng. Þau yrðu besta mamma og pabbi í heimi, alltaf saman, alltaf.
En hvað fór úrskeiðis? Af hverju hrundi þetta þá svona? Hversvegna þurfti heimurinn að verða svona kaldur og raunverulegur allt í einu? Af hverju hættu þau að elska hvort annað? Og hann mig, eða ég….
Halldór finnur eitthvað heitt snerta kinnina og rennir fingrum eftir henni til að þurrka eina tárið sem hann ætlar að hleypa út. Það er ekki svalt að gráta á almannafæri.
Hann lítur í átt að glugganum, engin hreyfing lengur þar. Litlir skýjahnoðrar speglast í glerinu, sólin er komin upp, amk stendur hún upp á Esjunni. Glænýjir sólargeislar endurkastast af rúðu í húsi rétt hjá og blinda Halldór svo hann lokar þreyttum augunum og nuddar.
Hann hlustar þögull á hljóðin í kringum sig og hreyfir höfuðið í átt að tærum fuglasöng af næsta húsþaki. Nokkrar óreglulegar hugsanir flakka um í huga hans, stutt minningarbrot ryðja sér leið á milli og djúp rödd sem hann kannast við endurómar yfir, pabbi hans. Halldór blokkar andlit hans úr huganum andartak og hættir því snögglega.
Hann vissi ekki lengur afhverju hann talaði ekki lengur við hann og það var að éta burt allt gott af sálinni hans. Kannski var bara liðinn of langur tími til að nokkur gæti ratað til baka. Sporin löngu máð og öll hlýja löngu kólnuð. En þurfti það endilega að vera þannig?
Halldór opnar augun, eða höfðu þau verið opin allan tíman? Hann lítur í kringum sig og fattar ekki alveg strax hvar hann er, amk ekki á leiðinni í partýið, það er í hina áttina, eða svo heldur hann.
Þessi gata, hann hefur virkilega farið í allt aðra átt, eða þá réttu. Seinasta orðið festist í huga hans og honum finnst hann allt í einu vera villtari en nokkru sinni fyrr.
Gatan er þröng og þakin öðru megin af þéttri röð bíla sem sumum er lagt upp á gangstéttina sem Halldór stendur á. Hinum megin við götuna er lítið brúnmálað timburhús með rauðu þaki. Tveir gluggar og dökkrauð hurð snúa að illa hirtum garði með háum runnum sem umlykja húsið og fela það að hluta frá götunni. Hjarta hans slær nokkrur skref hraðar. Á ég?
Hann horfir stíft á útihurðina, vöðvarnir í fótum hans taka við sér en hann hikar.
Hvað er hann að gera? Spyr hann sig aftur og aftur og lítur á klukkuna eins og til að finna afsökun þar. Of snemmt, allir sofandi núna maður, of seint að….
Hugsanir hans þagna og hann starir hugfanginn á litla þríhyrningslaga styttu sem stendur einmanalega í hægri glugganum. Allir regnbogans litir speglast í glerinu eitt andartak, og svo aftur þegar Halldór hreyfir höfuðið örlítið til hliðana.
Hann tekur nokkur skref áfram, inn í garðinn og stígur upp á siginn stigapall. Hann réttir hægt upp hægri höndina og snertir hurðina varlega með hnúunum. Nú eða ekki, eða aldrei. Hann bankar, þrjú högg svo bergmálar óþægilega í morgunnkyrrðinni. Óbærileg þögn tekur við. Kannski hann ætti að fara. Dauf fótatök heyrast innanfrá og magnast í takt við hjartsláttinn í Halldóri.
Hurðin opnast og hjarta Halldórs stoppar, heimurinn stoppar og hann horfir í augu sem eru eins og hans eigin. Óteljandi orð flækjast um í huga hans nokkur endalaus andartök sem líða um svalt loftið, áður enn allt verður allt í einu krystaltært eins og tárin sem renna niður andlit hans.
“Pabbi, ég, ég…”
—–