Einu sinni var stúlka. Stúlka þessi bar af öllum öðrum stúlkum á landinu. Síðir, ljósir lokkarnir flæddu niður höfuð hennar, léku við litla hálsinn hennar áður en þeir skoppuðu fram af öxlum hennar líkt og gullfoss. Hvítt hörund hennar var slétt og undurmjúkt og myndaði látlausan en fallegan ramma um andlit hennar. Varir hennar voru eplarauðar og munnsvipurinn var alltaf eins og hún væri alveg að fara að kyssa einhvern góða nótt. Fyrir ofan munninn gægðist fram litla nefið hennar. Stundum roðnaði það aðeins, líkt og sá sem sér eitthvað dónalegt. Stóru, grænu augun hennar voru full af tómu lífi.

Hún var alltaf klædd í síða hvíta kjóla, sem pössuðu vel við hörund hennar. Á fótum sínum hafði hún fíngerða ljós ljós bleika skó, sem voru alveg eins og balletskór. Á þeim tiplaði hún um allt. Litli og granni líkaminn hennar virkaði nánast brothættur, svona eins og postulínsdúkka.

Um hálsinn bar hún litla skjóðu sem hékk í hjartastað. Í skjóðuna safnaði stúlkan tárum. Allan daginn gekk hún um á balletskónum sínum og safnaði tárum annarra í skjóðuna sína. Það skipti engu máli hvort þetta voru sorgar- eða gleðitár, hún safnaði þeim öllum. Þess vegna var hún ávallt kölluð Táradísin. En hún grét aldrei sjálf.

Dag einn, þegar Táradísin var að rölta um, mætti hún manni á hesti. Hesturinn var hvítur og risastór. Maðurinn var einnig hávaxinn og þar sem hann sat á hestinum fyrir framan Táradísina þá bar andlit hans við sólina. Hún gat ómögulega séð framan í hann, sama hversu mikið hún pýrði stóru augun sín. Ekki fyrr en hann steig af hestinum.

Hann kynnti sig og sagðist heita Sál. Hún kynnti sig sem Táradísina. Hann brosti til hennar. Hún brosti ekki. Hann var dökkur yfirlits og hafði mikið og úfið svart hár á höfðinu. Hann var greinilega frá öðru landi. Andlit hans var nokkuð harnað og í skeggbroddunum mátti greina, inn á milli, bæði grá og hvít hár. Það fór honum betur að brosa ekki. Brún, hvöss augun horfðu rannsakandi á allt. Dökkur fatnaður hans var í algjörri andstæðu við hvítan hestinn. Hann leit út eins og maður sem hafði bjargað mörgum um sína daga, sannkallaður bjargvættur. Hann sagðist vera kominn hingað til að hjálpa henni. Hann sagði við hana að hann hafði frétt að hér byggi fegursta stúlka landsins en hún hefði þann vanda að geta ekki fellt tár. Hún sagðist ekki vera hjálpar þurfi en samþykkti þó að fylgja honum.

Þau hófu ferðalag sitt og byrjuðu að ganga um allt landið. Þau gengu um allt í leit að einhverju sem gæti kallað fram tár í augum dísarinnar. Sál benti henni á fegurðina í sólarupprásinni og sólsetrinu, undursamlegt útsýnið úr fjallshlíðunum, stórbrotnasta landslag sem hægt var að sjá og fjölbreytilegasta dýra- og mannlíf. Hann benti henni á hringrás lífsins í náttúrunni. Hann fór með hana og sýndi henni allar hliðar mannlífsins. Hann lét hana upplifa gleðina hjá nýbökuðum foreldrum, innilega ástina í brúðkaupum og nístandi sorgina við jarðarfarir. En ekkert af þessu hafði áhrif á Táradísina. Hún tiplaði bara um með litlu skjóðuna sína og safnaði tárum í hana eins og áður.

Áfram héldu þau þó ferðalagi sínu. Stundum ferðuðust þau langt í einum rykk en stundum stoppuðu þau líka lengi á sama stað áður en þau héldu ferðinni áfram.

Eftir talsvert ferðalag komu þau loks að skógi einum sem var staðsettur á afskekktum stað, milli tveggja hárra fjalla. Tré skógarins voru há og fögur og iðagræn. Á greinunum hoppuðu fuglar um og sungu heimsins fallegustu söngva og íkornar og önnur lítil skógardýr hlupu um og léku sér eða báru hnetur í holurnar sínar. Á jörðinni var einnig líf og fjör. Dýrin stukku um og virtust leika sér, jafnt ungarnir og hinir eldri.

Sál mælti þá að þau skyldu halda inn í skóginn en Táradísin var treg til og streittist á móti. Hún sagðist heldur vilja snúa við og halda aðra leið. Þau gerðu því hlé á ferðalagi sínu og gistu á landsvæðinu, fyrir framan skóginn, í talsverðan tíma. Eftir nokkra daga náði Sál að sannfæra dísina um að halda áfram inn í skóginn og þau lögðu af stað. Í upphafi ferðarinnar var allt með friðsælum blæ í skóginum. Dýrin léku sér í og við fögur trén, og trén sjálf virtust bjóða þau velkomin vinalega með útbreiddan, grænan faðminn. Samt sem áður var Táradísin áfram treg til að halda lengra inn í skóginn og vildi sífellt snúa við. Vegna þessa sóttist ferðin inn í skóginn hægt og þau gerðu iðulega hlé á ferðalagi sínu. Sál náði þó alltaf að sannfæra Táradísina um að það væri mikilvægt fyrir hana að þau héldu för sinni áfram.

Eftir langa ferð, djúpt inn í skóginn, byrjaði skógurinn hins vegar að skipta um lit og yfirbragð. Í stað hins iðagræna litar, sem áður hafði einkennt trén, dökknaði nú allt upp og varð dökkgrænt og jafnvel svart þegar lengra kom. Ekki var þá lengur hægt að heyra yndislegan fuglasöng eða sjá dýrin leika sér. Þess í stað virtust trén og myrkrið fá augu, sem fylgdust með ferðalöngunum. Trén færðust einnig sífellt nær hvoru öðru og skógurinn varð þrengri og myrkari. Jarðvegurinn varð líka sífellt grýttari og erfiðari yfirferðar.

Í samræmi við það varð Táradísin líka alltaf ennþá tregari til að halda lengra áfram og þau gerðu því hlé á för sinni með sífellt styttra millibili.

Eftir því sem skógurinn þéttist þá átti sólin sífellt erfiðara með að senda geisla sína niður milli trjágreinanna, til að lýsa upp leiðina. Þau þurfti því að notast við eldkyndla til að sjá leiðar sinnar.

Þegar þau voru búin að vera á þessu ferðalagi lengi lengi, og skógurinn orðinn svo þéttur að þau gátu varla smokrað sér fram hjá trjánum, komu þau skyndilega að mjög sérstökum stað. Þegar þau höfðu smokrað sér fram hjá svörtum og ófrýnilegum trjám fundu þau allt í einu að þau voru komin í lítið rjóður þarna inni í miðjum skóginum. Sólin náði að skína þar niður og þau sáu lítinn, fallegan kofa standa í miðju rjóðrinu. Á allar hliðar lokuðu svört trén leiðinni og mynduðu ófrýnilegan vegg utan um kofann. Á milli trjánna störðu augun, sem öll virtust vera að fylgjast með litla húsinu.

Táradísin og Sál störðu bæði á húsið. Litli munnurinn á Táradísinni opnaðist en ekkert hljóð barst frá honum. Sál leit á dísina, augun hennar höfðu stækkað. Hann sagði við hana að þau skyldu fara að húsinu og skoða það betur. Hún hristi hausinn án þess að segja orð. Lokaði munninum og herpti hann saman. Sál tók í hönd dísarinnar og leiddi hana áfram í átt að litla húsinu.

Húsið var á einni hæð, nokkurs konar bjálkakofi. Á þakinu var skorsteinn og úr honum liðaðist reykurinn hægt upp í kyrrlátan himininn. Nokkrir gluggar voru á húsinu og fyrir frama útidyrahurðina var lítil, hugguleg verönd. Á veröndinni var meðal annars ruggustóll og lítil hrúga af eldiviði. Allt í kringum húsin voru snyrtileg blómabeð með alls konar marglitum blómum.

Táradísin leyfði Sál að teyma sig að kofanum en með semingi þó. Þau komu að hlið kofans og tóku sér stöðu fyrir framan einn gluggann. Sál sagði þá við Táradísina að þau ættu að líta innfyrir og sjá hvað væri inni í kofanum. Táradísin hikaði en lagði svo litlu hendurnar sínar á kaldan gluggann og leit innfyrir.

Þau sáu inn í lítið eldhús. Við lítið borð, sem varla rúmaði fleiri en fjóra, sat ungur maður og var að lesa blað. Hann var afskaplega fagur, hafði stutt ljóst hár og fagurblá augu. Hann var ekki stór og mikill en augljóslega hraustur og líkamlega vel á sig kominn. Hann var í ljósblárri vinnuskyrtu og svörtum buxum. Við borðið sat líka lítil stúlka og var að lita mynd. Hún var svo lítil að hún þurfti að krjúpa á stólnum til að ná almennilega upp á borðið. Hún var klædd í bláan sumarkjól, með myndum af blómum á. Hún hafði krullað, ljóst hár sem stóð út í loftið. Myndin sem hún var að teikna var af manni í ljósblárri skyrtu, svörtum buxum og með gult hár. Hún snéri sér að manninum og sagði:

“Sjáðu pabbi, sjáðu myndina mína!”

Maðurinn leit upp frá blaðinu og skoðaði myndina brosandi.

“En hvað þetta er falleg mynd hjá þér elskan.”

Litla stúlkan skælbrosti, hæstánægð með hrósið, og hélt svo áfram að lita myndina.

Við hliðina á borðinu var eldavél og vinnuborð. Við það stóð ung kona og var að útbúa matinn. Hún var svolítið bústin, hafði rauðar kinnar og stutt, dökkt hár. Hún var klædd í rósóttan kjól og með svuntu. Hún stóð yfir pottunum og var að sjóða eitthvað. Eftir smá tíma labbaði hún yfir að eldhúsborðinu og að litlu stelpunni.

“Jæja Aldís mín, nú verður þú að hætta að lita, maturinn er tilbúinn.”

Svo tók hún blaðið af borðinu og litina. Litla stúlkan virtist alveg sætta sig við það. Hún prílaði niður af stólnum og gekk að kommóðu sem stóð þarna nálægt. Þar opnaði hún neðstu skúffuna og náði í lítinn smekk sem hún smeygði yfir hausinn sinn. Smekkurinn var hvítur og það var lítill vasi framan á honum. Svo prílaði hún aftur uppá stólinn sinn, settist þar og beið hljóðlega.

Konan tók nú pottana af hellunum og bar þá að borðinu. Hún var búin að leggja á borðið fyrir þau þrjú. Hún hellti úr pottunum yfir á diskina. Það var súpa.

Maðurinn fékk sér eina skeið af súpunni. Jafn óðum og hún var komin innfyrir varir hans spýtti hann henni útúr sér aftur. Hann leit á konuna sína og sagði ákveðið:

“Hvaða ógeð er þetta? Þú veist að ég vil ekki þennan viðbjóð, þú veist það vel!”

Konunni brá greinilega mikið og hræðsla kom fram í augum hennar.

“Ha? Þú hefur aldrei sagt…”

Lengra komst hún ekki því hann greip fram í fyrir henni og var byrjaður að öskra:

“ERTU AÐ KALLA MIG LYGARA?”

Hann stóð upp. Konan varð dauðskelkuð. Litla stelpan varð einnig dauðhrædd og lokaði augunum fast aftur.

“Nei, ég hélt bara…”

Hann sló hana. Hún féll af stól sínum og á gólfið. Hann tók súpupottinn og grýtti honum frá sér í gólfið. Súpan fór út um allt gólf. Litla stelpan var nú búin að setja hendurnar fyrir eyrun en heyrði greinileg ennþá hvað var um að vera. Konan reisti sig upp. Maðurinn öskraði á hana aftur:

“ERTU BYRJUÐ AÐ GRENJA KELLING? ÉG SKAL GEFA ÞÉR EITTHVAÐ TIL AÐ GRENJA YFIR!”

Litla stelpan stökk nú niður af stólnum og skreið undir hann. Munnur hennar herptist saman. Augun hennar voru tárvot og eitt tár gægðist fram og rann niður aðra kinn hennar. Hún bar puttann upp að kinninni og tók tárið burt. Svo leit hún á tárið á puttanum sínum. Svo lokaði hún fast aftur augunum og blikkaði þeim ótt og títt. Tárið á puttanum setti hún í vasann á smekknum sínum. Svo lokaði hún augunum aftur og greip fastar fyrir eyrun.

Fyrir utan fylgdust þau ennþá með. Munnur Táradísarinnar hafði verið opinn alveg frá því hún byrjaði að fylgjast með og fram að þessu. Þegar hún sá litlu stelpuna taka tárið og setja það í vasann beit hún í neðri vörina sína. Augu hennar urðu tárvot og eitt tár læddi sér niður á kinnarnar á henni. Á eftir því fylgdu fleiri og innan skamms var hún byrjuð að tárfella. Hún snéri sér að Sál og horfði tárvotum augum á hann. Svo byrjaði hún að hágráta. Sál faðmaði hana að sér og leyfði henni að hjúfra sig að sér. Eftir svolitla stund sagði hann við hana:

“Þetta er allt í lagi Aldís mín. Við skulum gera hlé núna en í tímanum í næstu viku köfum við betur ofan í þetta.”